Olof Palme (1927-1986)
Í dag eru tveir áratugir liðnir frá því að Olof Palme forsætisráðherra Svíþjóðar og leiðtogi sænska Jafnaðarmannaflokksins, var myrtur í Tunnelgötu í Stokkhólmi. Það var að kvöldi föstudagsins 28. febrúar 1986 sem að Olof Palme forsætisráðherra Svíþjóðar, var skotinn í návígi í magann. Hann var ásamt eiginkonu sinni, Lisbeth, á heimleið frá kvikmyndahúsi í miðborg Stokkhólms þegar að tilræðismaður varð á vegi þeirra. Voru þau bæði skotin af tilræðismanninum. Palme lést á leiðinni á sjúkrahús en Lisbeth slapp lifandi frá árásinni. Þetta var eftirminnileg atburðarás og hafði áhrif á alla sem fylgdust með fréttum og upplifðu þennan tíma. Sérstaklega stóð þetta okkur nærri, enda Svíþjóð nálæg okkur og fram að því hafði það aldrei gerst að norrænn þjóðarleiðtogi hlyti slík örlög. Sænska þjóðin var enda felmtri slegin. Ég gleymi aldrei þessu föstudagskvöldi. Ég var þá eitthvað um tíu ára og hafði fengið að vaka frameftir við að horfa á kvikmynd í sjónvarpinu. Skyndilega var útsending Ríkissjónvarpsins rofin og Ómar Ragnarsson, sem var á fréttavakt, færði þjóðinni þær fregnir að Palme væri látinn og leit stæði yfir að morðingjanum. Tveim áratugum síðar er málið enn óupplýst.
Olof Palme hafði við andlát sitt verið einn af öflugustu stjórnmálamönnum Svíþjóðar í fjöldamörg ár. Hann hafði verið landsfaðirinn til fjölda ára og naut virðingar sem stjórnmálaleiðtogi langt út fyrir raðir flokks síns og nánustu stuðningsmanna. Það sópaði enda að honum, enda ræðuskörungur og friðarflytjandi sem hafði öðlast alþjóðavirðingu fyrir framlag sitt á stjórnmálavettvangi. Olof Palme fæddist í Östermalm í Svíþjóð þann 30. janúar 1927. Hann hóf ungur afskipti að stjórnmálum og hafði gríðarlegan áhuga á pólitík alla ævi og sagði skömmu fyrir lát sitt að hann hefði unun af því að tala og skrifa um stjórnmál. Sérstaklega var sérfræðiþekking hans á alþjóðastjórnmálum rómuð. Hann nam lög við háskólann í Stokkhólmi. Árið 1955 varð hann aðstoðarmaður Tage Erlander forsætisráðherra og leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins. Varð hann pólitískur trúnaðarvinur hans og náinn samstarfsmaður hans á sviði stjórnmála allt frá upphafi er hann tók þátt í ungliðastarfi ungra jafnaðarmanna í Svíþjóð. Erlander kom strax auga á snilli Palme sem stjórnmálamanns og ræktaði hann upp sem slíkan við hlið sína.
Palme var kjörinn á sænska þingið árið 1958 og átti þar sæti allt til dauðadags. Hann varð kornungur þingflokksformaður jafnaðarmanna og naut virðingar og stuðnings innsta kjarna flokksins alla tíð, þótt ungur væri er hann komst á framabraut. Honum voru allt frá upphafi falin mikilvæg verkefni. Hann varð heilbrigðisráðherra árið 1963 og tók við menntamálaráðuneytinu árið 1967. Þegar að Tage Erlander hætti afskiptum af stjórnmálum árið 1969, eftir að hafa setið á forsætisráðherrastóli í 23 ár, tók Palme við forystunni. Erlander hafði að segja má æft hann upp í að taka við forystunni og naut hann mikils stuðnings Erlander til að taka við mörgum lykilembættum og með því byggði Erlander upp öflugan og sterkan leiðtoga. Erlander bar skynbragð á það að ungt fólk í stjórnmálum á að njóta trausts og virðingar fyrir verk sín. Segja má að Palme hafi öðlast sinn sess vegna þess að Erlander tók af skarið með að byggja upp sterkan leiðtoga í honum. Palme leiddi Jafnaðarmannaflokkinn allt til dauðadags og varð sterkur og afgerandi leiðtogi hans þau 17 ár sem hann var þar í forystusveit. Segja má að Palme hafi verið lykilleiðtogi sænskra stjórnmála allan þann tíma.
Palme varð strax forsætisráðherra við brotthvarf Erlander og gegndi embætti til ársins 1976 er hægristjórn komst til valda undir forsæti Thorbjörn Fälldin. Hann varð svo forsætisráðherra að nýju árið 1982 og gegndi embættinu til dauðadags. Olof Palme var kraftmikill leiðtogi á alþjóðlegum vettvangi. Hann naut sérstaklega mikillar virðingar auðvitað á Norðurlöndum. En Palme þorði að vera umdeildur og þorði að hafa umdeildar skoðanir. Hann varð heimsþekktur fyrir andúð sína á Víetnamsstríðinu og öðlaðist virðingu margra fyrir að þora, einn örfárra þjóðarleiðtoga, að gagnrýna hlut Bandaríkjanna í stríðsátökunum. Segja má að Palme hafi oft orðið umdeildur og tekist á um skoðanir hans á alþjóðastjórnmálum, þó að hann hafi almennt notið virðingar sem slíkur. Hann var talsmaður friðar og sáttaumleitana og lét þá skoðun í ljósi oft á alþjóðavettvangi. Hann var talsmaður gegn kjarnorkuvopnaframleiðslu og afgerandi andstæðingur kynþáttamisréttisins í S-Afríku. Hann var líka talsmaður þess að alþjóðasamfélagið viðurkenndi tilvistarrétt Palestínu og studdi við bakið á Afríska þjóðarráðinu og blökkumönnum í forystu þess fyrir mannréttindum í S-Afríku.
Þegar að Palme var myrtur í Stokkhólmi hafði hann verið umdeildur á alþjóðavettvangi fyrir orð sín um Kúbu og Sovétríkin og vinstrilitaðar áherslur í garð Bandaríkjanna. Hann varð sennilega enn vinstrilitaðri með árunum, rétt eins og svo margir kratar á Norðurlöndum virðast vera. Hann var reyndar stjórnmálamaður umhleypinga og að mörgu leyti virtur fyrir að vera hvass og ákveðinn - umfram allt að þora að vera umdeildur. Palme varð mörgum harmdauði. Sænska þjóðin varð orðlaus þegar að fréttist af láti hans. Með dauða hans lauk kröftugu tímabili í sænskum stjórnmálum. Mikið tómarúm varð að honum látnum. Ingvar Carlsson, náinn samstarfsmaður Palmes og lærlingur hans í kratapólitíkinni, varð eftirmaður hans sem forsætisráðherra og flokksleiðtogi. Carlsson varð aðstoðarforsætisráðherra við valdatöku kratanna að nýju árið 1982 og varð sjálfkrafa eftirmaður Palmes er hann hvarf svo snögglega af hinu pólitíska sviði. Carlsson leiddi flokkinn í áratug og var forsætisráðherra 1986-1991 og 1994-1996. Honum auðnaðist þó aldrei að verða afgerandi leiðtogi landsins. Það hefur eftirmanni hans, Göran Persson, þó tekist.
Gátan um hver það var sem myrti Olof Palme á götuhorninu í Stokkhólmi fyrir tveim áratugum er eins og fyrr sagði óleyst. Þó bendir flest til þess að Christer Pettersson hafi myrt Palme. Lisbeth, ekkja Palmes, var eina manneskjan sem sá morðingjann augliti til auglitis. Hún hafði meðvitund allan tímann þrátt fyrir að hún hefði særst í árásinni. Hún bar vitni fyrir dómi um það að Pettersson væri morðinginn. Þrátt fyrir það var hann sýknaður. Reyndar má segja að lögreglan í Stokkhólmi sem stýrði rannsókninni hafi með öllu klúðrað henni á frumstigi og með því gert ókleift að leysa í upphafi hver myrti Palme. Pettersson neitaði til fjölda ára að hafa banað forsætisráðherranum. Á dánarbeði árið 2004 viðurkenndi hann að hafa myrt Palme. Sekt hans hefur þó aldrei formlega verið staðfest svo öruggt sé, þó flest bendi til þess að augljósast sé að hann hafi myrt hann. Nú fyrir skömmu kom fram í nýrri heimildarmynd til að minnast morðsins haft eftir vini Petterssons að hann hefði séð hann skjóta Palme, en það hafi verið fyrir mistök. Ætlun hans hafi verið að ráða eiturlyfjasala af dögum en farið mannavillt.
Nú, tveim áratugum eftir morðið á Palme, nýtur hann enn mikillar virðingar Svía sem og stjórnmálaáhugamanna um allan heim. Sjálfur hef ég alltaf haft gaman af því að kynna mér stjórnmálaferil hans og ævi - enda var Palme risi í skandinavískri pólitík. Við vorum ekki pólitískir skoðanabræður en ég hef alltaf virt mikils öflugt framlag hans til norrænna stjórnmála. Verst er hversu lítið hefur verið ritað um ævi hans, að mínu mati. Eftir stendur aðeins eitt meginrit um ævi hans, útgefið 1989, og það er reyndar ekki mjög ítarleg heildarúttekt á ævi hans og stjórnmálaþátttöku. Það hlýtur bráðlega að gerast að öflug ævisaga þessa litríka leiðtoga líti dagsins ljós. Reyndar var mikill skaði að honum auðnaðist ekki aldur til að rita um stjórnmálaþátttöku sína. Rétt eins og Önnu Lindh, sem hlaut hörmulegan dauðdaga árið 2003, er hans minnst fyrir öflugt framlag sitt. Það var enda sorglegt að ráðist hafi verið að norrænum forystustjórnmálamönnum með svo skelfilegum hætti - sérstaklega má fullyrða að ótímabært fráfall þeirra hafi haft afgerandi áhrif á sænsk stjórnmál.
Palme var einn af lykilleiðtogum norrænna stjórnmála og í forystusess í sænskum stjórnmálum í marga áratugi, allt frá því að hann hóf ungur þátttöku í ungliðastarfi flokks síns til hinna hörmulegu endaloka í miðborg Stokkhólms að kvöldi 28. febrúar 1986. Olof Palme var virtur langt út fyrir Svíþjóð og útlínur stjórnmálalitrófs Svíþjóðar. Framlags hans til stjórnmála er minnst víðsvegar um heim í dag. Hann markaði stór skref í norræn stjórnmál og setti svip á alþjóðastjórnmál til fjölda ára.
stebbifr@simnet.is