Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 nóvember 2002

Sigurstranglegur framboðslisti - öflug forystusveit
Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi er tilbúinn. Hann var lagður fram til samþykkis á kjördæmisþingi flokksins á Fosshótel KEA á Akureyri í dag. Skv. tillögu kjörnefndar voru þingmenn flokksins á þessum slóðum í forystunni;

1. Halldór Blöndal forseti Alþingis
2. Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra
3. Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður
4. Sigríður Ingvarsdóttir alþingismaður

Fram kom breytingartillaga af hálfu nokkurra kjördæmisþingsfulltrúa um að Arnbjörg yrði í öðru sætinu en Tómas í því þriðja. Var því kosið á milli þeirra og fór kosningin á þá leið að ráðherrann vann öruggan sigur og hlaut nærri 2/3 greiddra atkvæða. Niðurstaðan er að mínu mati góð og öflugur listi sem boðinn er fram af hálfu flokksins. Sérstaklega ánægjulegt er að fjöldi ungliða er á listanum, sem er mikilvægt að mínu mati. Næsta markmið er að flokkurinn verði í fararbroddi í kjördæminu. 3 þingmenn ættu að vera öruggir ef miðað er við úrslit seinustu kosninga og lítið sem vantar upp á að fjórði maður vinnist. Það verður markmið okkar í kjördæminu að tryggja að það náist og Sigríður nái glæsilegri kosningu. Baráttan er hafin - stefnan er sett á góðan sigur í kjördæminu og að sjálfsögðu á landsvísu.

Frábær pistill Björns
Í pistli á heimasíðu sinni fer Björn Bjarnason alþingismaður og borgarfulltrúi, yfir það hvernig spekúlantar á vinstrivængnum hafa tjáð sig um úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um síðustu helgi. Ennfremur tjáir hann sig um þann flokk sem eitt sinn átti að vera breiðfylking vinstri manna. Ég er mjög sammála áliti Björns og tek undir með honum þegar hann segir:

"Í Reykjavík blasir við kjósendum Samfylkingar, að þeir, sem áður voru í Alþýðubandalaginu, hafa náð undirtökum á lista fylkingarinnar. Alþýðuflokksmönnum hefur einfaldlega verið úthýst fyrir utan Jóhönnu Sigurðardóttur, sem skilgreindi sjálfa sig vinstra megin við Alþýðuflokkinn og stofnaði Þjóðvaka á sínum tíma til að árétta það. Samfylkingin er enn í tilvistarkreppu. Fyrst var okkur sagt, að hún kæmist úr henni, þegar fylkingu hefði verið breytt í flokk. Síðan var okkur sagt, að fylking orðin að flokki yrði fullburða, þegar hún hefði eignast formann. Nú er okkur sagt, að fylking orðin að flokki með formann nái sér á strik, þegar hún hafi mótað sér stefnu!".

Mannvitsbrekkan á Fréttablaðinu
Alltaf er það jafn "ánægjulegt" að líta á blaðursíðu Þórarins Þórarinssonar "blaðamanns" á Fréttablaðinu þar sem hann blammerar í allar áttir á sama misheppnaða og ómálefnalega háttinn og venjulega. Það virðist vera sem honum sé sérstaklega illa við mig og skrif mín á Netinu, merkilegt nokk. Ég stóð í þeirri trú og geri enn að þau skrif séu ekki skyldulesning, þau séu lesin af fólki sem geri það af fúsum og frjálsum vilja. Þessu virðist ekki vera farið á þann hátt með Þórarin. Það virðist vera sem hann sogist ósjálfrátt á þær síður þar sem pistlar mínir birtast og hann verði að lesa þá. Þetta er afskaplega merkilegt og skemmtileg stúdía fyrir fagmenn að kanna þetta atferli mannsins. Svo virðist vera að þessi maður hugsi eins og 18 ára menntaskólastrákur á fylleríi eða svo virðist, það er svosem allt í lagi, hans problem. Ég minni bara á að skrif mín þarf enginn að lesa tilneyddur, þau eru ætluð þeim sem hafa á þeim áhuga og vilja kynna sér skoðanir mínar eða pælingar. Það er valkostur fyrir alla hvort þeir lesa þessi skrif hér eða pistla mína almennt. En það virðist ekki vera svo auðvelt með mannvitsbrekkuna sem matreiðir fréttir í blaðið sem enginn á. Merkilegt nokk.

29 nóvember 2002

Framboðslistar kynntir - baráttan að hefjast
Á morgun verða framboðslistar Sjálfstæðisflokksins í þrem kjördæmum af sex fyrir komandi þingkosningar, lagðir fram á kjördæmisþingum. Það er í Suðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Með því hefst formlega kosningabarátta flokksins, þar sem markmiðið er að tryggja að flokkurinn verði áfram í forystu í landsmálunum og verði leiðandi pólitískt afl í öllum kjördæmunum sex. Það er mjög mikilvægt að flokkurinn gangi sem allra fyrst frá öllum lausum endum í framboðsmálum og geti einhent sér í mikilvægasta verkefnið, sigur í kosningunum í maímánuði. Eflaust er ekki langt í að báðir listarnir í Reykjavík liggi fyrir og líklegt að listinn í Norðvesturkjördæmi, liggi fyrir fljótlega eftir að miðstjórn hefur farið yfir mál í kjölfar prófkjörsins þar. Þetta ætti því allt að vera komið á fullt eftir hátíðirnar.

Loksins, loksins - mánudagsútgáfa Morgunblaðsins
Á næsta ári verður Morgunblaðið 90 ára gamalt. Það hefur löngum verið íhaldsamt, bæði þegar kemur að útgáfumálum og útliti sem lítið hefur breyst í áranna rás. Fyrir nokkrum vikum varð sú róttæka breyting á blaðinu að forsíða þess varð blönduð af erlendum og innlendum fréttum. Í rúm 30 voru einungis erlendar fréttir á forsíðunni og tímabært að stokka þetta upp og breyta til og lífga upp á forsíðuna. Nú, á afmælisári kemur þörf breyting í útgáfumálum blaðsins, síðasta vígið er fallið. Frá og með 6. janúar 2003 mun blaðið koma út alla daga, mánudagsútgáfa mun þá formlega hefjast. Þetta er stórt og þarft skref sem þarna er stigið. Ég tel það vera mikilvægt að flaggskip íslenskra prentmiðla komi út alla daga vikunnar og fagna því þessu mjög. Morgunblaðið er í mínum huga frábært blað og þarfur vettvangur sem ég vildi ekki vera án. Með þessari ákvörðun mun blaðið styrkjast enn meira en nú er. Ég tel að svo verði.

Skemmtileg helgi framundan
Eins og ég sagði frá á dögunum styttist óðum til jóla og því tími jólahlaðborðanna hafinn. Ég ætla að skella mér í kvöld í góðra vina hópi á jólahlaðborð og njóta góðra veitinga. Á morgun verður kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins á Fosshótel KEA og seinnipartinn á morgun ætla ég að skella mér í bíó og líta á nýjustu Bond-myndina ásamt félögum mínum og annaðkvöld er planið að vinahópurinn hittist. Það ætti því að vera skemmtileg helgi framundan og djammað allhressilega.

27 nóvember 2002

Söguleg úrslit - athyglisverð fréttaskýring
Eins og við var að búast hafa spekingar frá vinstrivæng stjórnmálanna reynt að gera sem allra minnst úr helstu úrslitum prófkjörs Sjálfstæðisflokksins um síðustu helgi. Þar unnu 3 ungliðar glæsta sigri og tryggðu sér örugg þingsæti. Orð vinstrimanna breyta ekki því að um helgina varð kynslóðabylting innan flokksins í kjölfar prófkjörsins. Það hefur aldrei gerst fyrr í prófkjöri að þrír menn sem tilheyra ungliðahreyfingunum nái samtímis öruggu þingsæti, aldrei! Sigurður Kári hefur t.d. gríðarlega mikið fylgi meðal ungs fólks, eins og sannaðist í þessum slag og sama má segja um hina tvo. Ég skil vel að vinstrimenn geri lítið úr því að 29 ára gamall sjálfstæðismaður setjist á þing næsta vor, staðreyndirnar tala þó sínu máli. Þetta eru söguleg úrslit, fólk vildi endurnýjun og hleypir ungu mönnunum að. Þeir eru fulltrúar nýrrar kynslóðar sjálfstæðismanna í forystunni í Reykjavík, á því leikur enginn vafi og þingflokkurinn mun yngjast verulega upp vegna þessara úrslita. Sjálfstæðisflokkurinn berst fyrir því að fá 11-12 menn kjörna í borginni, það er mikilvægt að sterkar og öflugar þingkonur verða í baráttusætunum og markmiðið að koma allavega annarri þeirra að. Í gær birtist í DV athyglisverð fréttaskýring Ólafs Teits Guðnasonar um prófkjörið og úrslit þess, og ætti að vera athyglisverð fyrir alla áhugamenn um stjórnmál.

Ótrúleg veðurblíða - mánuður til jóla
Mikil veðurblíða hefur verið hér fyrir norðan seinustu dagana, vissulega rignt en er alveg snjólaust. Er ótrúlegt að mánuður sé til jóla ef marka má veðurfarið. Ef skammdegið væri ekki skollið á mætti helst álíta að vor væri, svo gott hefur veðrið verið. Um miðjan október snjóaði nokkuð hérna og var jafnvel álitið að veturinn yrði harður, en seinustu vikurnar hefur veðrið verið gott og ekki hægt að ímynda sér hvaða árstími er af veðurfarinu. Eins og fyrr segir er tæpur mánuður til jóla og því fer jólaundirbúningurinn að hefjast á fullu. Pólitíkin hefur verið ansi fyrirferðarmikil í skrifum mínum seinustu vikurnar, enda mikið verið um prófkjör og framboðslistar víðsvegar að komast á hreint. Nú má hinsvegar búast við að jólaannir taki við af pólitíkinni. Er þegar búinn að skrifa öll jólakort og sendi þau eftir ca. tvær vikur, er alltaf snemma í því. Einnig búinn að kaupa allar jólagjafirnar. Hreint óþolandi að gera þetta á síðustu stundu. Ég vona að veðrið verði jafngott áfram, enda ég lítið fyrir snjó. Vil helst hafa rauð jól og snjólaust yfir hátíðirnar. Ég mun skrifa einhverja pistla í desember en það má búast að þeir verði færri en aðra mánuði vegna annarra anna, þó mun ég alltaf koma fram með skoðanir mínar á málefnum dagsins í dag hér.

26 nóvember 2002

Ungliðar í eldlínu stjórnmálanna
Nú styttist óðum í að framboðslistar Sjálfstæðisflokksins liggi fyrir í þrem kjördæmum af sex liggi fyrir, t.d. í Norðausturkjördæmi. Með því hefst formlega kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins. Það sannaðist glögglega í prófkjöri flokksins í Reykjavík að ungu fólki er treyst fyrir áhrifum innan flokksins; meðal tíu efstu eru þrír frambærilegir menn sem hafa tekið virkan þátt í flokksstarfinu í fjölda ára. Það vantaði ungt og frambærilegt fólk í hringiðu stjórnmálanna. Nú hefur flokkurinn fengið í forystusveitina fulltrúa nýrrar kynslóðar; málefnalega menn sem eru trúir sannfæringu sinni. Það hefur verið mitt hjartans mál í aðdraganda þessara kosninga að ungt fólk fái sitt pláss á framboðslistum flokkanna. Einkum er mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn treysti ungu fólki fyrir áhrifum. Ég fjalla um mikilvægi þess að ungliðarnir fái sitt pláss í pistli á heimasíðu flokksins, hér á Akureyri. Hvet alla áhugamenn um pólitík til að lesa hann.

Farsinn vegna Ástþórs
Með ólíkindum hefur verið að fylgjast með farsanum í kjölfar handtöku Ástþórs Magnússonar friðarpostula og fyrrv. forsetaframbjóðanda. Í tölvupósti sem leiddi til handtökunnar sagðist hann hafa rökstuddan grun um að ráðist yrði að flugvélum í millilandaflugi. Vitanlega var maðurinn tekinn til yfirheyrslu og lokaður inni, það er ekki óeðlilegt. Nú hefur honum verið sleppt og sýndarmennskan í manninum grasserar af sama kraftinum og áður. Hann kom í viðtal í Ísland í dag á Stöð 2 í kvöld. Þar tóku Guðrún Gunnarsdóttir og Snorri Már Skúlason hann í yfirheyrslu og ræddu mál hans. Sannaðist þar endanlega hversu veruleikafirrtur maðurinn er og snarbilaður. Hann segist hafa verið pólitískur fangi vegna skoðana sinna, það sjá flestir vonandi að það er fjarstæða. Ef hann hefði verið t.d. í Bandaríkjunum væri maðurinn enn á bak við lás og slá. Skoðanir hans á friðarmálunum byggjast á sýndarmennskunni einni, veit það með vissu eftir að hafa rætt þau persónulega við hann á kosningafundi árið 1996, en þá vann ég fyrir einn forsetaframbjóðandann og ræddi þessi mál við Ástþór. Þegar hann var kominn í þrot í málflutningi sínum öskraði hann á mig með svívirðingum og sagði að ég væri ruglaður og styddi hryðjuverk og mannréttindabrot. Þar sem ég hef alltaf verið mikill mannréttindasinni sleit ég þessu samtali með því að segja að hann væri ekki verður til setu á friðarstóli og hvað þá á forsetastóli. Ég hef því ekki mikla samúð með þessum manni og öfgarugli hans. Það hlaut að koma að því að hann gengi of langt. Hann er snarbilaður þessi maður.

25 nóvember 2002

Leiðtogar í Kastljósinu - glæsileg útkoma
Í gærkvöldi voru Davíð Oddsson og Geir H. Haarde, gestir Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur í Kastljósi RÚV. Þeir hlutu ótvíræða kosningu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins um helgina og munu leiða lista flokksins í borginni. Var gaman að horfa á viðtalið og ljóst að flokkurinn er í góðum höndum með þessa kraftmiklu forystumenn við stjórnvölinn. Í dag birtist pistill minn um prófkjörsúrslitin á heimasíðu Heimdallar. Þar ræði ég einkum um styrka stöðu forystunnar, kraftmikla innkomu ungliðanna og veika stöðu kvenframbjóðendanna. Við sem erum í ungliðahreyfingunni erum enn í sæluvímu yfir úrslitunum og ljóst að ungu fólki er treyst fyrir áhrifum innan flokksins, það er mikilvægasta niðurstaðan að mínu mati. Úrslitin munu hvetja ungt fólk til þátttöku í stjórnmálum, ég tel að á því leiki enginn vafi.

Árni Ragnar og Drífa í forystunni í Suðurkjördæmi
Flest bendir nú til þess að Árni Ragnar Árnason og Drífa Hjartardóttir muni verða í forystu Sjálfstæðisflokksins í hinu nýja Suðurkjördæmi. Í þriðja sætinu yrði Guðjón Hjörleifsson fyrrv. bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. Í næstu sætum yrðu Kjartan Ólafsson alþingismaður, og Böðvar Jónsson bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ. Með því yrði Kristján Pálsson settur út í kuldann og er ekki gert ráð fyrir honum í tillögum kjörnefndar. Listinn verður afgreiddur á kjördæmisþingi um helgina og því ekki ljóst hvort þetta verði endanleg niðurstaða. Árni Ragnar hefur barist hetjulega við veikindi seinustu árin og er kominn aftur til starfa á þingi, hann er mikill heiðursmaður og hefur setið lengst á þingi af þeim sem koma úr kjördæminu. Því kemur þetta svosem ekki á óvart, en ég er þeirrar skoðunar að Drífa hefði átt að leiða listann, enda hún eini sitjandi leiðtoginn í kjördæminu. Þetta ræðst hinsvegar allt um helgina.

24 nóvember 2002

Forystan traust í sessi
Úrslit prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eru um margt athyglisverð. Þau eru mikill sigur fyrir ungliðahreyfingu flokksins, enda blasir nú við að þrír Heimdellingar setjist á þing. Ennfremur má finna í úrslitunum mikla traustsyfirlýsingu við forystu flokksins. Formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins fá afgerandi kosningu í leiðtogasætin í borgarkjördæmunum. Það sem vekur mesta athygli er bæði útkoma ungliðanna og kvenframbjóðendanna í þessu prófkjöri. Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, er sterkur í sessi meðal flokksmanna sinna. Hann fær afgerandi stuðning í efsta sætið, og nýtur trausts flokksmanna sinna til að leiða flokkinn í komandi kosningum. Geir H. Haarde er ennfremur sterkur leiðtogi með afgerandi stuðning. Björn Bjarnason náði settu marki - þriðja sætinu, þriðja sinn í prófkjöri. Er alveg ljóst að hann vinnur þarna glæstan sigur. Að honum var sótt og hann heldur velli. Er mikilvægt að borgarbúar hafi nú traustan málsvara sinn, bæði á þingi og í borgarstjórn. Ljóst er af úrslitunum að flokksmenn treysta Birni til góðra verka. Ég studdi vin minn, Björn, af krafti í þessum slag og er því mjög glaður yfir sigri hans yfir þeim sem að honum sóttu.

Ungu mennirnir eru sigurvegararnir
Sigurvegarar prófkjörsins eru ungu mennirnir sem gáfu kost á sér og lögðu í þennan slag, þrátt fyrir að allir þingmennirnir 9 hafi ákveðið að gefa kost á sér til endurkjörs. Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurður Kári Kristjánsson og Birgir Ármannsson eru allir á leiðinni á þing. Það er mikið ánægjuefni að svo vel hafi gengið hjá þeim. Það hefur aldrei gerst fyrr að þrír ungliðar hafi náð í örugg þingsæti í prófkjöri, flokkurinn hefur oft verið íhaldssamur og litlu verið breytt, en skilaboðin eru skýr nú. Við sem erum í ungliðahreyfingunni gleðjumst mjög yfir þessum úrslitum. Þau eru augljós vitnisburður þess að fólk vildi endurnýjun og treysti ungu mönnunum fyrir því að fara í eldlínu stjórnmálanna.

Ég lagði mitt af mörkum
Ég skrifaði greinar í aðdraganda þessa prófkjörs og hvatti þá alla til að fara í framboð og studdi þá með krafti. Það er því ánægjulegt að sjá þessi úrslit. Þarna eru tveir fyrrum formenn SUS og fyrrum formaður Heimdallar á leiðinni á þing, menn sem njóta trausts flokksmanna á öllum aldri og hafa sannað að þeir eru trúir sinni sannfæringu og málefnalegir í hvívetna. Framtíðarmenn innan flokksins. Með þessum úrslitum verður sú endurnýjun sem nauðsynleg var. Áhyggjuefni er vissulega hversu illa konunum gekk. Þær hafa allar staðið sig gríðarlega vel á þingi og hafa unnið gott verk. Það er hinsvegar augljóslega skilaboð flokksmanna í Reykjavík að stokka upp þingmannahópinn og hleypa inn ferskum vindum, málsvörum ungra sjálfstæðismanna - fulltrúum nýrra tíma í íslenskri pólitík.

Næsta markmið - sigur í kosningunum
Framundan eru hinsvegar mikilvægar kosningar, og nauðsynlegt að allir flokksmenn haldi vöku sinni og kosningabaráttan verði markviss. Í komandi kosningabaráttu mun Sjálfstæðisflokkurinn stefna að því að halda þeirri stöðu sem hann hefur í landsmálunum. Ljóst er að til að ná því lykilmarkmiði að flokkurinn sé í fararbroddi í öllum kjördæmunum hafi hann alla burði. Þó þarf að vinna af krafti til að ná settu marki. Sigur vinnst ekki nema með því að leggja sig allan fram og berjast áfram. Sjálfstæðismenn munu þurfa að hafa fyrir því að halda sinni stöðu og nauðsynlegt að allir hægrimenn og framfarasinnar taki virkan þátt í þeirri baráttu og styðji Sjálfstæðisflokkinn og fulltrúa hans til góðra verka á komandi árum.

23 nóvember 2002

Styttist í úrslitin - unga hugsjónamenn á þing
Í dag er seinni dagur prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Kjörsókn virðist hafa verið mjög góð í gær og höfðu þá rúmlega 2.200 flokksmenn greitt atkvæði. Spennandi verður að fylgjast með því hversu margir kjósa samanlagt báða þessa daga. Von er á fyrstu tölum um sexleytið í kvöld og svo reglulega eftir það og úrslitin eiga að liggja fyrir um miðnættið. Verður athyglisvert að sjá hverjir muni verða í fararbroddi á framboðslistum flokksins í borgarkjördæmunum tveim. Það er mikilvægt að valið verði gott og frambærilegt fólk á listana og með því tryggt að sigur flokksins í borginni í vor verði glæsilegur. Ég skrifa í dag grein í Morgunblaðið til stuðnings félögum mínum úr SUS, þeim Sigurði Kára og Ingva Hrafni. Það er von mín að ungt fólk nái góðum árangri í þessum prófkjörsslag og tel rétt að styðja þá félaga mína sem ég bæði treysti og vil sjá í eldlínu stjórnmálanna á komandi árum.

Frábær grein Halldórs í Mogganum
Í gær skrifaði Halldór Blöndal forseti Alþingis, frábæra grein um dóminn yfir sjávarútvegsráðherranum í Héraðsdómi Reykjaness og pælir í málinu á skemmtilegan hátt. Ég hvet alla áhugamenn um stjórnmál til að lesa þessa grein Halldórs, það verður enginn svikinn af því að lesa hana. Allavega hafði ég mikið gaman af því að lesa hana. Halldór fer þarna á kostum.

22 nóvember 2002

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík
Í dag er fyrri dagur prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Var skynsöm ákvörðun hjá fulltrúaráðinu í borginni að hafa kjördagana tvo og tel ég að um það séu almennt allir sammála. Seinustu vikurnar hafa pólitískir samherjar barist á heiðarlegan og yfirvegaðan hátt um stuðning flokkssystkina sinna í prófkjörsslagnum, og ekki yfirkeyrt baráttuna með auglýsingaflaumi, svipuðum þeim sem sumir frambjóðendur hafa farið flatt á . Að loknu þessu prófkjöri munu Sjálfstæðismenn í borginni sameinast um þá sem valdir verða. Mikilvægt er að flokkurinn sé samhentur í borginni og takmarkið er að flokkurinn eigi að minnsta kosti helming þingmanna borgarkjördæmanna. Það tekst með því að bjóða sterka lista með góðu fólki. Ég efast ekki um að það takist.

Skrifað til stuðnings Birni
Ég hef fylgst með prófkjörsslagnum úr fjarlægð en ekki farið leynt með hverja ég styð í þessum slag. Ég skrifaði grein sem birtist í Morgunblaðinu í morgun. Þar lýsi ég yfir stuðningi mínum við Björn Bjarnason alþingismann og leiðtoga borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, í þriðja sæti listans. Ég veit með vissu af kynnum mínum af honum að hann sé traustsins verður og mikilvægt að hann verði í forystusveit flokksins í borginni við þessar kosningar. Reynsla hans af stjórnmálum er mikilvæg og enginn er fróðari en hann um utanríkis- og menntamál í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Hann er gríðarlega vinnusamur og kynnir sér málin til fulls, hann hefur ótrúlega starfsorku og hefur sannað að hann er kraftmikill forystumaður. Á morgun birtist í Morgunblaðinu grein til stuðnings félögum mínum úr SUS, þeim Sigurði Kára Kristjánssyni og Ingva Hrafni Óskarssyni.

Frábærir þættir Jóns Ólafssonar
Á Edduverðlaunahátíðinni fyrr í þessum mánuði var þáttur Jóns Ólafssonar tónlistarmanns, Af fingrum fram á RÚV valinn besti sjónvarpsþáttur ársins 2002. Var sá heiður verðskuldaður, enda þættirnir mjög áhugaverðir og skemmtilegir. Þar ræðir Jón við þekkta tónlistarmenn um feril þeirra og ævi. Eru þættirnir á ljúfu nótunum og óformlegir. Hef horft á alla þættina og tel þá vera með því besta sem í boði er í Sjónvarpinu. Jón stendur sig vel með þessa þætti og á mikið hrós skilið fyrir þá. Skemmtilegt sjónvarpsefni í skammdeginu.

21 nóvember 2002

Farsinn vegna ráðningu fréttastjóra
Athyglisvert hefur verið að fylgjast með umræðunni um hver verði næsti fréttastjóri Ríkissjónvarpsins. Nokkur tími er nú liðinn síðan staðan var auglýst og tilkynnt var hverjir hefðu sótt um starfið. Það virðist vera sem vissir flokkshestar í útvarpsráði ætli með öllum brögðum að reyna að koma í veg fyrir að hæfasti umsækjandinn fái starfið. Það leikur enginn vafi á því að Elín Hirst er hæfust þeirra sem um starfið sóttu og ætti að öllu eðlilegu að fara eftir því en ekki flokkslitum. En svo einfalt virðist það ekki ætla að verða, enda blasir við að vinstriflokkarnir reyni nú allt til að finna annan kandídat í stöðuna til að koma í veg fyrir að Elín verði ráðin. Þegar ljóst var hvert stefndi hætti Páll Benediktsson við að sækjast eftir starfinu, en hann þótti vinstriflokkunum ákjósanlegur til að koma í veg fyrir að Elín fengi starfið. Er með ólíkindum að fylgjast með þessum vinnubrögðum. Vissir einstaklingar tefja afgreiðslu málsins til að koma í veg fyrir að hæfasti einstaklingurinn verði ráðin. Þetta staðfestir enn einu sinni að tími útvarpsráðs er liðinn og nauðsynlegt að stokka þessa stofnun alla upp. Í svona starf á að ráða útfrá hæfileikum umsækjenda en ekki flokkslitum. Sá hæfasti á að njóta sannmælis. Spurningin er hvort Elín Hirst muni sem hæfasti umsækjandinn fá stöðuna eða hvort þessi farsi verði þess valdandi að hæfileikar og fyrri reynsla í þessum bransa séu látnir lönd og leið við ráðningu í slík embætti sem hér um ræðir. Um málið er fjallað ítarlega á Pressunni.

Bankarnir seldir - meiri einkavæðingu
Á seinustu vikum hafa kjölfestuhlutir í báðum ríkisbönkunum verið seldir. Við sölu ríkisins á ráðandi hlut í Landsbankanum og Búnaðarbankanum verða tímamót í íslensku viðskiptalífi. Í fjölda ára hafa bankarnir verið ráðandi öfl í heimi viðskiptanna. Þeir hafa veitt Íslendingum mikilvæga þjónustu og hafa í gegnum tíðina staðið dyggilega að baki fjölda atvinnufyrirtækja um allt land. Því ber að fagna að eignarhaldsfélagið Samson og svokallaður S-hópur kaupi ríkisbankana og ríkið sé loks að hverfa af þessum vettvangi. Ég vona að salan gefi tóninn fyrir frekari einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Ég fjalla um söluna á bönkunum og einkavæðingu í pistli á heimasíðu Heimdallar í dag.

James Bond væntanlegur í bíó
Í næstu viku verður nýjasta Bond-myndin frumsýnd hér á Íslandi. Er um að ræða tuttugustu myndina í seríunni, Die Another Day. Pierce Brosnan leikur hér njósnarann í fjórða sinnið, en hann hefur verið í hlutverkinu allt frá 1995, er hann lék í GoldenEye. Um þessar mundir eru 40 ár liðin frá því fyrsta Bond-myndin var frumsýnd, hin óviðjafnanlega Dr. No með Sean Connery, sem að mínu mati hefur leikið njósnarann best. Ég hef í gegnum tíðina verið mikill unnandi spennumynda og er því að sjálfsögðu gallharður Bond-aðdáandi. Á allar myndirnar og er þar af leiðandi vinsæll hjá fjölskyldu og vinum sem vilja sjá myndirnar öðruhverju. Ég keypti í dag miða á nýju myndina í forsölu og skelli mér því í bíó í næstu viku til að sjá nýjustu myndina. Ef marka má trailerinn úr myndinni er von á góðu.

20 nóvember 2002

2 dagar í prófkjörið
Eftir tvo daga hefst prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Kosið verður bæði á föstudag og laugardag. Kosningabaráttan hefur verið snörp og einkennst af hófstilltum auglýsingum og heiðarleika. Í þessu prófkjöri keppa 17 hæfileikaríkir sjálfstæðismenn um hylli flokksmanna, þar af 9 þingmenn. Eins og ég hef áður sagt er hér um einvalalið góðs fólks að ræða sem leggur allt sitt af mörkum til að flokkurinn haldi stöðu sinni í komandi kosningum og bæti vonandi við sig. Sóknarfærin eru mikil í borgarkjördæmunum og ekki ólíklegt að 10-11 sjálfstæðismenn nái kjöri á góðum degi í kjördæmunum tveim samanlagt. Flokkurinn hefur nú 9 þingmenn af 18 í borginni og í krafti þess að þingmönnum borgarinnar fjölgar um þrjá, er ekki óeðlilegt að áætla að flokkurinn myndi bæta við sig vegna þess. Að því er stefnt og mikilvægt að vel takist til með framboðslistana. Hef enga trú á öðru en valið verði heilladrjúgt fyrir flokkinn.

Styttist í framboðslista flokksins - stefnan sett á fjóra þingmenn
Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, mun liggja fyrir á kjördæmisþingi flokksins á Akureyri laugardaginn 30. nóvember nk, eða eftir 10 daga. Undanfarnar vikur hefur kjörnefnd unnið að því að raða saman listanum og er nú að vænta þess að þeirri vinnu ljúki með því að listinn verði lagður fram. Í komandi kosningum hefur flokkurinn mörg sóknarfæri í þessu kjördæmi og stefnan er sett á að fjórir nái kjöri, sami fjöldi og flokkurinn hefur samanlagt í gömlu kjördæmunum, ef Sigríður Ingvarsdóttir er talin með, en hún hefur tilkynnt að hún gefi kost á sér í Norðausturkjördæmi við komandi kosningar. Ef mið er tekið af væntanlegum framboðslistum hinna flokkanna í kjördæminu er ljóst að flokkurinn stefnir á að ná fjórða manninum og verður allt kapp lagt á að tryggja það í komandi kosningabaráttu.

Ungt fólk til áhrifa í pólitík
Ég hef verið þeirrar skoðunar í aðdraganda komandi þingkosninga að ungt fólk færi í framboð og tæki virkan þátt í stjórnmálum. Ég tel tíma til kominn að ný kynslóð hasli sér völl í íslenskri pólitík. Ég skrifaði pistil á heimasíðu Stefnis, þar sem ég minni á tími ungs fólks sé kominn og gullið tækifæri að hleypa því í forystusveit íslenskra stjórnmála.

19 nóvember 2002

9 mánuðir frá opnun heimasíðu - 20.000 heimsóknir
Í dag, 19. nóvember 2002, eru 9 mánuðir liðnir frá því að ég opnaði heimasíðu á Netinu. Ég ákvað eftir mikla umhugsun að réttast væri að ég setti pistlana mína saman á einn stað, það væri athyglisvert að geyma þá alla á sama staðnum. Ég hef alla tíð haft mjög mikinn áhuga á stjórnmálum og pólitískri umræðu og fannst þá tilvalið að ég kæmi fram með mínar skoðanir og gerði það á minn hátt. Ég hef frá upphafi engan leynt að ég er flokksbundinn Sjálfstæðismaður og er málsvari hugsjóna þeirra sem flokkurinn hefur kennt sig við og er dyggur stuðningsmaður flokksins og forystumanna hans. Þegar ég tók þá ákvörðun að setja upp mína eigin síðu renndi ég eiginlega blint í sjóinn með það, ég vissi ekki hvaða viðtökur ég myndi fá og hvort fólk myndi yfir höfuð hafa áhuga á síðunni sem slíkri. Fyrst í stað var því ekki hægt að sjá hversu margir litu á hana. Með því að setja upp teljara hef ég fylgst með fjölda gesta hér og 24. ágúst 2002 náði sá fjöldi yfir 10.000 heimsóknir. Í dag, á afmælisdegi síðunnar, náði fjöldi heimsókna í 20.000. Í kjölfar þess að ég opnaði bloggsíðuna fyrir rúmum mánuði, hefur fjöldinn aukist mjög og ljóst að margir hafa áhuga á að lesa þær pælingar mínar og greinar eftir mig. Þeir sem líta á síðurnar mínar eru alls ekki allt einstaklingar sem eru sammála mér í stjórnmálum. Ég er mjög ánægður með að pistlarnir vekja áhuga fólks úr ýmsum flokkum og eru lesnir af fólki með mjög ólíkar stjórnmálaskoðanir. Ég hef fengið marga tölvupósta þar sem fólk tjáir sig um síðuna og um sínar skoðanir, ég er ánægður með þessi viðbrögð, og þakka kærlega fyrir þau.

Nýtt útlit heimasíðu Björns - Björn í þriðja sætið
Fyrir tæpum átta árum varð Björn Bjarnason fyrsti íslenski stjórnmálamaðurinn sem opnaði heimasíðu á Netinu. Í dag eru flestir þeirra sem hasla sér völl í stjórnmálum komnir með slíkar síður og birta þar skoðanir sínar og vangaveltur. Björn var því frumkvöðull á þessu sviði hérlendis. Á heimasíðu sinni hefur hann birt ítarlega pistla vikulega, birtir þar allar greinar og ræður sínar og birtir þar dagbók sína og uppfærir hana reglulega. Í dag breyttist heimasíða Björns og tók á sig nýja og ferskari mynd. Í prófkjörinu um helgina sækist Björn eftir þriðja sætinu. Ég skora alla sjálfstæðismenn í Reykjavík að kjósa hann í það sæti. Það er nauðsynlegt að Björn verði í forystusveit flokksins í borginni og verði fulltrúi borgarbúa bæði á vettvangi borgarstjórnar og Alþingis. Það er mikilvægt að flokkurinn njóti krafta hans og gríðarlegrar reynslu af stjórnmálum í komandi kosningabaráttu.

Heimasíða Gulla Þórs - Solla (geð)stirða á fjölskyldudeginum
Fyrir tæpri viku opnaði Guðlaugur Þór Þórðarson borgarfulltrúi og frambjóðandi í prófkjöri flokksins, heimasíðu sína. Er þar margt athyglisvert efni og t.d. segir þar frá fjölskyldudegi á kosningaskrifstofu hans við Vegmúla og að mikið af fólki hafi mætt með börn sín eða barnabörn og allir hafi skemmt sér konunglega. Segir á heimasíðunni að Solla stirða og töframaðurinn Lalli hafi vakið mikla lukku hjá smáfólkinu og mikið hafi verið skrafað um stjórnmálin. Gísli Marteinn Baldursson leiðtogi fjölskyldudagsins, átti hug og hjarta viðstaddra eins og venjulega. Hann fór fögrum orðum um frambjóðandann Guðlaug Þór og útskýrði fyrir viðstöddum að aðalskemmtiatriðið væri Solla stirða úr Latabæ en ekki Solla geðstirða úr Ráðhúsinu. Vakti sú athugasemd að vonum kátínu en Gísli taldi að helsta ástæðan fyrir geðstirðni Sollu væri öflug stjórnarandstaða Guðlaugs Þórs. Gott komment hjá Gísla. Ég vona að Gulli nái góðum árangri í prófkjörinu um helgina.

18 nóvember 2002

Bloggsíðan mánaðargömul
Í dag er mánuður liðinn frá því að ég fór að opinbera skoðanir mínar og hugsanir hér á þessum vettvangi. Hef ég fengið mjög ánægjuleg og jákvæð viðbrögð við þessari síðu. Hef fengið marga tölvupósta þar sem fólk lýsir yfir ánægju með þessi skrif og hvetur mig til að halda þessu áfram. Ég þakka öllum þeim sem líta á síðuna og fylgjast með skrifum mínum, bæði hér og á öðrum vefsíðum. Ljóst er af teljaranum á heimasíðum mínum að fólk hefur á þessu áhuga og það gleður mig mjög. Ég þakka kærlega fyrir og mun halda áfram af sama krafti og áður. Ég hef verið áhugamaður um stjórnmál í fjölda ára og fagna því að fólk hafi á þessum pælingum mínum sama áhugann og ég hef.

Davíð kominn í kosningaham
Í kvöld var Davíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, gestur Kristjáns Kristjánssonar og Evu Maríu Jónsdóttur í Kastljósi RÚV. Í þættinum báru þau upp spurningar sem almenningur hafði sent stjórnendunum og því var umræðan galopin og á valdi fólks að spyrja forsætisráðherrann um það sem hæst bar. Mikið bar á umræðum um skattamál, einkavæðingu og framboðsmálin í Norðvesturkjördæmi. Davíð svaraði spurningunum fimlega og ekkert fum var á honum, hann kom fram af öryggi og festu eins og ávallt áður. Ljóst er að hann er kominn í kosningaham og er farinn að undirbúa komandi átök á vettvangi íslenskra stjórnmála.

Umræða um kosti og galla ESB-aðildar
Eins og ég hef vikið að áður á þessari síðu fór ég á föstudag á málstofu um Evrópumál í Háskólanum hér á Akureyri. Ég hef lengi verið mikill áhugamaður um stjórnmál og tel mig vera mikinn Evrópusinna. Það er mikill munur á því og að vera Evrópusambandssinni. Ég er alfarið á móti aðild Íslands að Evrópusambandinu, eins og allir ættu að vita sem þekkja mig og skoðanir mínar. Ég fjalla um Evrópumálin í pistli mínum á heimasíðu flokksins hér á Akureyri í dag. Hvet alla lesendur síðunnar til að kíkja á þann pistil.

17 nóvember 2002

Páll hættir - sviptingar hjá Framsóknarflokknum
Í gær héldu Framsóknarmenn í Norðvesturkjördæmi, kjördæmisþing sitt og völdu sex efstu menn á framboðslista flokksins fyrir komandi kosningar. Er alveg óhætt að fullyrða að þingið hafi verið sviptingasamt. Páll Pétursson félagsmálaráðherra, sóttist eftir því ásamt fjórum öðrum að leiða listann. Eftir fyrri umferð kosningar um fyrsta sætið var ljóst að Páll hefði ekki náð settu marki og ákvað hann í kjölfar þess að stefna ekki á neitt annað sæti á listanum. Hann ákvað í gær að hætta þingmennsku og mun því ekki verða í kjöri í komandi kosningum. Kosið var á milli Magnúsar Stefánssonar og Kristins H. Gunnarssonar um hvor þeirra ætti að leiða listann og fór svo að Magnús náði kjöri. Er því ljóst að hann er orðinn einn af forystumönnum flokksins á landsvísu, enda kjördæmið gríðarstórt. Nær frá Hvalfirði norður í Fljót. Með þessari niðurstöðu lýkur stjórnmálaferli baráttumannsins frá Höllustöðum sem setið hefur á þingi frá 1974. Hann var þingflokksformaður Framsóknar 1980-1994 og hefur verið félagsmálaráðherra frá 23. apríl 1995, lengur en nokkur annar. Ennfremur er hann starfsaldursforseti þingsins. Þrátt fyrir þennan ósigur eru sigrar Páls í pólitíkinni margir og engum blandast hugur um að hann hefur verið einn af helstu forystumönnum flokksins seinustu þrjá áratugi.

Bush saumar að Saddam - vettvangsgrein Björns
Í Vettvangsgrein sinni í Morgunblaðinu í gær fjallar Björn Bjarnason alþingismaður, um utanríkismál. Hann opinberar skoðanir sínar á stöðu Bush forseta, í kjölfar sögulegs kosningasigurs Repúblikanaflokksins í byrjun mánaðarins og hvernig hann fór með sigur af hólmi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna nýlega. Segir Björn að bandarískir fjölmiðlar hallist helst að því nú að millinafn forsetans W. tákni Winner en ekki Walker, svo sterk er staða hans orðin í bandarískri pólitík. Það er hárrétt sem Björn segir að taka verði á Saddam Hussein með þeim hætti sem Bandaríkjastjórn hefur lagt til. Í rúman áratug hefur hann svikið öll þau loforð sem hann hefur sett fram og jafnan logið sig áfram til að halda uppteknum hætti. Það er ekki hægt að una því lengur og verður að ráðast að ógnarstjórn hans ef ekki fylgja efndir fögrum fyrirheitum hans. Ég hvet alla áhugamenn um stjórnmál til að lesa þessa grein Björns.

Ungir frambjóðendur standa sig vel í Silfrinu
Í dag voru frambjóðendur á SUS-aldri, gestir Egils Helgasonar í spjallþætti hans. Komu þau mjög vel fyrir og óskandi að ungliðahreyfing flokksins fái fulltrúa á þing í kjölfar prófkjörsins. Það er nauðsynlegt að yngja þingmannahópinn að einhverju leyti og í framboði er hæfileikaríkt og gott ungt fólk. Ég vona að flokksfélagar mínir í borginni tryggi einhverju þeirra öruggt þingsæti. Það er nauðsynlegt að fulltrúar nýrrar kynslóðar sjálfstæðismanna taki sæti á þingi.

16 nóvember 2002

Vel heppnuð málstofa um Evrópumál
Fór í gær á málstofu um Evrópumál í Háskólanum á Akureyri. Þar var fjölmenni og hressilegar umræður. Framsögur fluttu Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur og Birgir Tjörvi Pétursson framkvæmdastjóri Heimssýnar. Að þeim loknum voru pallborðsumræður þar sem auk þeirra tóku þátt alþingismennirnir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Bryndís Hlöðversdóttir. Komu margar athyglisverðar spurningar úr sal og fróðlegar umræður voru um þessi mál. Meðal áheyrenda í salnum var Valgerður Sverrisdóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Að loknum skemmtilegum umræðum og spjalli var boðið upp á veitingar. Var gaman að ræða málin við fólkið og hafði ég sérstaklega gaman af því að ræða Evrópumálin og framboðsmál almennt við Þorgerði Katrínu og Sigrúnu Björk Jakobsdóttur, bæjarfulltrúa okkar hér í bænum. Þetta var virkilega skemmtilegt síðdegi og gaman að spjalla og fræðast um Evrópumálin.

Áhugavert og fræðandi stjórnmálanámskeið
Ég fór í dag í Kaupang og tók þátt í stjórnmálanámskeiði sem flokksfélögin hér í bænum hafa undirbúið seinustu vikurnar. Í dag var fyrri dagur námskeiðsins, en sá seinni verður næstkomandi laugardag. Var virkilega gaman af þessu. Skemmtileg erindi um starf flokksins og stjórnkerfið almennt var á dagskránni í dag. Illugi Gunnarsson aðstoðarmaður forsætisráðherra, fjallaði um íslenska stjórnkerfið, Halldór Blöndal forseti Alþingis, fjallaði um stefnu flokksins, Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi, ræddi um skipulag flokksins og Gréta Ingþórsdóttir framkvæmdastjóri þingflokksins fjallaði um fjölmiðla og greinaskrif. Voru hressilegar umræður um þessi mál og skemmtilegt andrúmsloft. Framundan er skemmtilegur kosningavetur og gaman að taka virkan þátt í flokksstarfinu með þessum hætti. Hjá okkur í stjórn Varðar er t.d. virkt starf og reglulegir fundir og stefnan sett á að fjölga virkum félagsmönnum og opna starfið með því að fá inn nýtt fólk sem hefur áhuga á pólitík og eins að virkja þá sem fyrir eru í félaginu til að taka virkan þátt í því skemmtilega starfi sem unnið er innan flokksins. Ég hvet alla til að taka þátt í því með okkur í stjórninni. Við fögnum liðsinni þeirra sem vilja leggja sitt af mörkum.

15 nóvember 2002

Stjórnmálanámskeið Sjálfstæðisflokksins á Akureyri
Næstu tvo laugardaga mun Sjálfstæðisflokkurinn hér á Akureyri, halda stjórnmálanámskeið í höfuðstöðvum flokksins, Kaupangi við Mýrarveg. Markmiðið með námskeiðinu er hiklaust að auka áhuga fólks á stjórnmálum. Dagskrá námskeiðsins er athyglisverð og lofar góðu. Ég hvet alla flokksfélaga mína hér í bænum til að taka þátt í þessu námskeiði og vera virkir þátttakendur í flokksstarfinu á kosningavetri. Með þátttöku hefur þú áhrif á flokksstarfið.

Athyglisverð ráðstefna um Evrópumál
Í dag munu Auðlindadeild og Rekstrar- og viðskiptadeild Háskólans á Akureyri standa fyrir málstofu í stofu L201 á Sólborg. Yfirskrift málstofunnar er ESB - Ungt fólk og framtíðin. Stjórnandi hennar verður Þorsteinn J. Vilhjálmsson, þáttastjórnandi á Stöð 2. Erindi munu flytja Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálfræðingur og Birgir Tjörvi Pétursson framkvæmdastjóri Heimssýnar. Á eftir því munu alþingismennirnir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Bryndís Hlöðversdóttir sitja fyrir svörum í pallborðsumræðum. Í tilefni af 100 ára afmælisári Landsbankans á Akureyri standa Landsbanki Íslands hf. og nemendafélög auðlindadeildar og rekstrar- og viðskiptadeildar Háskólans á Akureyri fyrir röð málstofa og er þetta sú þriðja. Ég ætla að skella mér og segi nánar frá þessu á morgun.

Styttist í prófkjörið - spennan magnast
Nú er vika í prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Ljóst er að slagurinn er að ná hámarki og spennan magnast. Frambjóðendur keppast við að kynna sig, málefni sín og skoðanir. Mikilvægt er að sjálfstæðismenn í borginni velji til forystu gott og frambærilegt fólk, ekki þarf að efast um að svo verður, enda 17 hæfileikaríkir einstaklingar í kjöri, þar af 9 þingmenn og tveir varaþingmenn. Flestir frambjóðendur hafa opnað heimasíðu og vil ég gjarnan benda á nokkrar þeirra. Lára Margrét Ragnarsdóttir alþingismaður og Birgir Ármannsson hafa opnað glæsilega vefi, sem vert er að kynna sér nánar. Ennfremur eru vefsíður Guðrúnar Ingu Ingólfsdóttur og Soffíu Kristínar Þórðardóttur mjög vandaðar. Á dögunum var heimasíða Sigurðar Kára Kristjánssonar valin besta heimasíðan í prófkjörsbaráttu innan Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar af sérfræðingum í netheimum. Kemur það ekki á óvart, enda síða hans mjög aðgengileg, vel uppsett og skemmtileg. Næstu vikuna munu samherjar berjast um stuðning flokkssystkina sinna í prófkjörsslagnum. Að því loknu munu Sjálfstæðismenn í borginni sameinast um þá sem valdir verða. Mikilvægt er að flokkurinn sé samhentur í borginni og takmarkið er að flokkurinn eigi að minnsta kosti helming þingmanna borgarkjördæmanna. Það tekst með því að bjóða sterka lista með góðu fólki. Ég efast ekki um að það takist.

13 nóvember 2002

Sögulegt prófkjör - atkvæði endurtalin
Enn er sögulegt prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, aðalfréttaefnið. Í dag ákvað stjórn kjördæmisráðs flokksins að endurtelja atkvæðin í prófkjörinu. Ég tel að það muni engin vandamál leysa, eftir stendur að óánægja er með framkvæmd sjálfrar kosningarinnar og ljóst er að utankjörfundaratkvæðagreiðslan á Akranesi og Grundarfirði er langt í frá í lagi. Ég sé ekkert annað í stöðunni sem leyst gæti þessi mál en nýtt prófkjör og önnur kosning. Vafaatriðin og óánægjan með prófkjörið um síðustu helgi er orðin svo mikil að aldrei verður full sátt innan alls kjördæmisins með úrslit þess. Athyglisvert verður að sjá hvort endurtalning breyti einhverju um úrslitin. Eftir mun þó standa að framkvæmd kosningarinnar var meingölluð á nokkrum stöðum og það mun valda togstreitu um niðurstöðuna, óháð því hvað kemur út úr endurtalningunni. Það er a.m.k. mitt mat.

Hver á að vera í öðru sætinu - sniðug könnun
Í dag rakst ég á Netinu á athyglisverða könnun. Þar er kannað hvort eigi að skipa annað sætið á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi; Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, eða Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður. Hvet alla gesti þessarar síðu til að taka þátt í þessari könnun.

Athyglisverð prófkjör - þingmenn fá annan séns
Eins og flestir muna voru prófkjör Samfylkingarinnar um síðustu helgi og var niðurstaðan á þá leið að þingmenn flokksins fengu annan séns til að sanna getu sína og leiðtoginn fékk gula spjaldið framan í sig. Í vikulegum pistli mínum á heimasíðu Stefnis fer ég ítarlega yfir úrslitin í prófkjörum flokksins í kjördæmunum fimm.

Styttist í prófkjörið í borginni
Nú er ein og hálf vika í að Sjálfstæðismenn í Reykjavík kjósi frambjóðendur á framboðslista sína í borgarkjördæmunum í prófkjöri. Framundan er spennandi prófkjör og athyglisverður lokasprettur. Nú þegar hafa margir frambjóðendur opnað heimasíðu. Meðal þeirra er dr. Stefanía Óskarsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson. Vefur þeirra eru glæsilegir og skemmtilega upp settir. Bæði eru traustsins verð í þessu prófkjöri. Stefanía hefur verið varaþingmaður á þessu kjörtímabili og Guðlaugur Þór varaþingmaður 1995-1999 og borgarfulltrúi frá 1998. Það er enginn vafi í mínum huga að Gulli eigi erindi inn á þing, hann er trúr sannfæringu sinni og er ötull baráttumaður, sem mun standa vörð um grundvallargildi Sjálfstæðisstefnunnar. Í þessu prófkjöri eru 8 nýliðar að sækja að þeim 9 þingmönnum sem allir sækjast eftir endurkjöri, ég tel nauðsynlegt að einhver endurnýjun verði í þingliðinu og vona því að ungliðarnir fái sína fulltrúa í baráttusætin og tryggt verði að SUS eigi sína fulltrúa á þingi. Ég treysti bæði núverandi formanni og þeim fyrrum formönnum sem gefa kost á sér öllum til að sitja á þingi og vona að þeim gangi öllum vel í þessum slag.

12 nóvember 2002

Eftirmálar prófkjörs í Norðvestrinu
Óhætt er að fullyrða að prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi um síðustu helgi, verði sögulegt. Á því leikur enginn vafi að utankjörfundaratkvæðagreiðslan á Akranesi hafi verið skrautleg og ekki farið eftir settum reglum eða verið staðið að henni með eðlilegum hætti. Auðvitað eru þessi vinnubrögð manna á Skaganum fyrir neðan allar hellur. Ef allt reynist satt sem sagt er, er ljóst að menn hafa þverbrotið reglur prófkjörsins. Það tel ég mjög alvarlegt mál. Eftir stendur að Sturla hangir á bláþræði á leiðtogastólnum með 41 atkvæði umfram Villa Egils. Formaður flokksins hefur sagt að þessi vinnubrögð séu óásættanleg, og tek ég hiklaust undir þá skoðun hans. Hvað svo sem fólki finnst um Vilhjálm Egilsson er ljóst að þetta eru ekki heiðarleg vinnubrögð og því ekki skrýtið að Vilhjálmur og stuðningsmenn hans séu sárir. Það munar einungis rúmum 40 atkvæðum að hann hefði leitt listann og Sturla með því fallið í fjórða sæti listans. Það blasir einnig við að allir hinir þingmennirnir hafi unnið hart gegn Vilhjálmi, enda fær hann nær eingöngu atkvæði bara í fyrsta og fimmta sætið. Það verður að taka á þessum málum svo slíkt gerist ekki aftur. Athyglisverðast við úrslitin fyrir utan stöðu Vilhjálms, fannst mér að Jóhanna Pálmadóttir skyldi verða í sjötta sætinu og færast nú upp í það fimmta. Hún er fulltrúi þriðju kynslóðarinnar frá Akri sem fer í pólitík. Faðir hennar, Pálmi Jónsson, og afi, Jón Pálmason, voru forystumenn flokksins í Húnavatnssýslu og Norðurlandskjördæmi vestra í áratugi. Athyglisvert verður að fylgjast með hvernig mál þróast hjá flokknum í kjördæminu á næstu dögum.

Ráðherra opnar upplýsingavef
Í gær opnaði Sólveig Pétursdóttir dómsmálaráðherra, upplýsingavef vegna alþingiskosninganna sem fram eiga að fara eftir hálft ár, laugardaginn 10. maí 2003. Þetta er í fyrsta sinn sem upplýsingar af hálfu hins opinbera vegna alþingiskosninga eru settar fram með þessum hætti. Eins og ráðherra sagði í gær er með þessu stigið enn eitt skrefið í áttina að því að gera upplýsingar stjórnvalda aðgengilegri öllum almenningi. Á vefnum, er að finna fræðandi og hagnýtar upplýsingar um atriði sem lúta að næstu alþingiskosningum. Upplýsingarnar eiga að nýtast almennum kjósendum, stjórnmálasamtökum og þeim sem vinna að kosningunum, t.d. varðandi kjörskrá, utankjörfundaratkvæðagreiðslu og atkvæðagreiðslu á kjördegi. Fjallað er um lög og reglugerðir, kjósendur, framboð, framkvæmd kosninga og tölulegar upplýsingar. Kostur gefst á því að skoða breytta kjördæmaskipan í myndrænni framsetningu með skýringum. Þegar nær dregur kosningum verður hægt að fá upplýsingar um framboðslista og kjörstaði. Þetta er þarft framtak og gaman að þessum vef sem er mjög mikilvægur á kosningavetri

Með allt á hreinu - í 20 ár
Um þessar mundir eru 20 ár liðin frá því að úrvalsmyndin Með allt á hreinu var frumsýnd. Í henni fara Stuðmenn og Grýlurnar á kostum og beita öllum brögðum á sveitaballamarkaðnum í harðri samkeppni. Ég horfði á þessa mögnuðu klassamynd í enn eitt skiptið í gær. Ég sá Með allt á hreinu fyrst í bíói á Akureyri fyrir tveim áratugum, þá bara fimm ára gamall og hef horft á hana mjög oft og er nú svo komið að spólan mín með myndinni er að verða léleg og því góð ráð dýr. Nú er væntanleg útgáfa myndarinnar á DVD í tilefni afmælisins, og mun ég að sjálfsögðu fá mér slíkan disk þegar hann verður gefinn út. Það verður gaman að geta horft á þessa mögnuðu klassík aftur og aftur með góðum myndgæðum og sjá þau brot sem ekki voru notuð í myndina en verða á diskinum. Það verður því væntanlega enn skemmtilegra en áður að horfa á mögnuð lög hljómsveitanna og kostuleg brögð sveitanna í þessari ógleymanlegu úrvalsmynd.

11 nóvember 2002

Prófkjörsúrslitin í Norðvestrinu
Úrslit í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í hinu nýja Norðvesturkjördæmi, lágu fyrir um tvöleytið í nótt. Úrslitin eru á þá leið að Sturla Böðvarsson vann sigur og mun leiða lista flokksins í kjördæminu. Í næstu sætum koma Einar Kristinn Guðfinnsson, Einar Oddur Kristjánsson, Guðjón Guðmundsson, Vilhjálmur Egilsson, Jóhanna Pálmadóttir og Birna Lárusdóttir. Í þessu prófkjöri kepptu fimm þingmenn um færri örugg þingsæti, því var ljóst fyrirfram að einhver þeirra þyrfti að bíta í það súra epli að ná ekki í efstu sætin. Það virðist vera hlutskipti Vilhjálms og liggur fyrir að hann muni ekki taka fimmta sætið og færist þá Jóhanna væntanlega upp um sæti. Eftir stendur að Sturla vann þetta prófkjör og hvað sem mönnum finnst um ráðherrastörf hans, vilja kjósendur flokksins í þessu kjördæmi hafa hann í forystusveitinni og hann stendur sterkt í kjördæminu, það virðist liggja alveg ljóst fyrir og þýðir ekki að ætla að breyta þeim úrslitum. Frægt varð þegar að flokksforystu Samfylkingarinnar í Norðurlandskjördæmi eystra líkaði ekki prófkjörsúrslitin 1999 og steyptu sigurvegaranum af stóli til að koma öðrum frambjóðanda að. Sjálfstæðisflokkurinn á ekki að feta sömu óheillaslóð. Þetta er sá listi og það fólk sem flokksmenn völdu til forystu og ekkert meira um það að segja. Í komandi kosningum á flokkurinn að stefna að fjórum þingsætum í þessu kjördæmi af alls 10 sem kosnir verða 10. maí nk. Það er alveg ljóst og markið ekki sett á annað.

Glæsileg Edduverðlaunahátíð
Óhætt er að segja að Edduverðlaunahátíðin 2002 hafi verið mjög glæsileg og gaman að fylgjast með henni. Sigurvegari kvöldsins með átta verðlaun er án nokkurs vafa Hafið, kvikmynd Baltasar Kormáks. Hlaut myndin t.d. verðlaun sem besta mynd ársins, fyrir leikstjórn, leik í öllum flokkum og fagverðlaun. Það kom alls ekki á óvart, enda sú mynd hiklaust langbesta mynd ársins og ber af öllu því sem gert hefur verið á sviði kvikmyndanna seinustu árin hérlendis. Gunnar Eyjólfsson og Elva Ósk Ólafsdóttir hlutu aðalleikaraverðlaunin fyrir magnaðan leik sinn, en óumdeilt er að Gunnar var hjartað í Hafinu og stendur upp úr því glæsilega liði leikara sem þar fór á kostum. Frænka mín, Herdís Þorvaldsdóttir, hlaut verðlaunin sem leikkona ársins í aukahlutverki, fyrir magnaða túlkun sína á Kötu gömlu og var það fyllilega verðskuldað, enda fór hún á kostum í frábærri rullu. Hápunktur kvöldsins var hiklaust þegar Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra, afhenti Magnúsi Magnússyni heiðursverðlaun akademíunnar fyrir ævistarf sitt. Ræða Tómasar áður en hann afhenti verðlaunin var gríðarlega góð og skemmtilegt að heyra hana. Það er alveg ljóst að Magnús verðskuldaði þennan heiður. Í heildina var þetta skemmtilegt kvöld og gaman að fylgjast með afhendingu Eddunnar. Þetta er bæði hátíðleg stund og nauðsynlegt að slík fagverðlaun séu veitt fyrir það sem vel er gert á sviði kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðar.

10 nóvember 2002

Prófkjörsúrslit hjá Samfylkingunni
Nú liggja fyrir úrslit og það hverjir muni skipa efstu sæti á framboðslistum Samfylkingarinnar í fimm kjördæmum af sex; Reykjavíkurkjördæmunum, Suðvesturkjördæmi, Suðurkjördæmi og Norðausturkjördæmi. Í Reykjavík verða fimm þingmenn flokksins í forystu, en athygli vekur að Jóhanna Sigurðardóttir tryggði sér kjör í annað leiðtogasætið í borginni, þrátt fyrir að hart hafi verið að henni sótt. Á eftir þingmönnunum fimm koma þrír nýir inn; Mörður Árnason, Helgi Hjörvar og Ágúst Ólafur Ágústsson. Í Suðvesturkjördæmi sigraði Guðmundur Árni Stefánsson og mun leiða flokkinn í komandi kosningum ásamt tveim öðrum þingmönnum, ný inn eru Katrín Júlíusdóttir og Ásgeir Friðgeirsson. Í Norðausturkjördæmi sigraði Kristján L. Möller með yfirburðum og mun leiða flokkinn þar eins og flestir höfðu búist við frá því að Svanfríður Jónasdóttir tilkynnti að hún færi ekki fram. Í Suðurkjördæmi sigraði Margrét Frímannsdóttir naumlega og mun því leiða lista flokksins þar í komandi kosningum. Í næstu sætum verða Lúðvík Bergvinsson, Björgvin G. Sigurðsson og Jón Gunnarsson. Hinsvegar féll Sigríður Jóhannesdóttir úr öruggu þingsæti og ljóst að hún mun ekki ná kjöri í komandi kosningum. Í kvöld ráðast úrslitin hjá Sjálfstæðismönnum í Norðvesturkjördæmi; æsispennandi slagur sem getur valdið pólitískum sviptingum með úrslitunum. Ég fylgist spenntur með.

Flottur þáttur Gísla Marteins
Það var virkilega gaman af spjallþætti Gísla Marteins í gærkvöldi, mikið fjör og gaman. Stefán Karl Stefánsson leikari, fór algerlega á kostum eins og við var að búast og hver brandarinn af öðrum kom frá honum. Guðrún Gunnarsdóttir var létt og hress eins og venjulega og söng eitt lag eins og henni einni er lagið. Svo klikkuðu Paparnir ekki frekar en fyrri daginn. Sérstakur heiðursgestur Gísla Marteins í gær var sjónvarpsmaðurinn Magnús Magnússon sem mun í dag hljóta heiðursverðlaunin á Edduverðlaunahátíðinni. Er ótrúlegt hversu góða íslensku hann talar eftir að hafa búið nær alla ævi í Bretlandi. Gísli Marteinn er kominn í góðan gír með þáttinn sinn. Hann er ómissandi á skemmtilegu laugardagskvöldi og lífgar upp á þau heldur betur. Áfram Gísli Marteinn - koma soh!!

Athyglisverð skrif - bréfaskrif
Á föstudaginn var ég Netinu og rakst inn á heimasíðu Þórarins Þórarinssonar, sem ég þekki ekki á nokkurn hátt. Það væri svosem ekki í frásögur farandi, nema að því leyti að á einum stað rakst ég á ummæli (neðst á síðunni) um mig og persónu mína, sem varla eru svaraverð og lýsa innræti þeirrar manneskju sem um ræðir. Ég sendi þessum manni tölvupóst og benti honum vinsamlega á að ég hefði sama rétt á að tjá skoðanir mínar og aðrir sem tjá sig á Innherjavef visir.is, og því algjör óþarfi að ráðast að persónu minni. Skrif mín voru á vinsamlegum nótum og ekkert við það að athuga að slíkum óhróðri sé svarað. Í gær fékk ég svo svar frá fyrrnefndum Þórarni þar sem hann ræðst að mér með svipuðum hætti og áður og fellir dóma yfir mér og persónu minni og þvíumlíku. Mér finnst athyglisvert að fólk geti látið skapið hlaupa með sig svo í gönur að það þurfi að ráðast að fólki með þessum hætti. Ég tel það algjöran óþarfa, enda var bréf mitt til hans ekki árás á hann eða neitt slíkt, heldur einfaldlega svar við fullyrðingum hans. Ég tel að það sé erfitt fyrir hann að fella dóma um persónu, enda hefur þessi maður aldrei talað við mig eða ég sennilega aldrei hitt hann. Mér skilst að þessi einstaklingur sé fréttamaður á Fréttablaðinu. Ég hugsa að ég taki minna mark á því blaði héðan í frá.

09 nóvember 2002

Spennandi prófkjör - vettvangur pólitískra sviptinga
Í dag verða fimm æsispennandi prófkjör hjá tveim stjórnmálaflokkum. Sjálfstæðisflokkurinn er með prófkjör í Norðvesturkjördæmi og Samfylkingin í Reykjavík, Suðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Ennfremur ráðast í dag úrslitin hjá Samfylkingunni í Norðausturkjördæmi, en kosningu lauk á miðvikudaginn en talið verður í dag. Ég hef fylgst með þessum prófkjörum úr fjarlægð og haft gaman af að fylgjast með slagnum, auglýsingunum og skrifum frambjóðenda og stuðningsmanna þeirra í blöð og vefrit. Enginn vafi er á því að prófkjörin munu verða spennandi og gætu orðið vettvangur pólitískra sviptinga. Ég mun því fylgjast spenntur með úrslitunum í kvöld hjá Samfylkingunni og á morgun þegar úrslitin verða ljós hjá flokksfélögum mínum í Norðvestrinu.

Góðar ræður Björns - vettvangsgrein vikunnar
Á fundi borgarstjórnar sl. fimmtudag flutti Björn Bjarnason leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins tvær kraftmiklar ræður. Þar fjallar hann um réttarstöðu Orkuveitu Reykjavíkur og ábyrgð vegna Kárahnjúkavirkjunar. Í þessum ræðum skýtur Björn föstum skotum að hinum ólýðræðislega meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur. Þarft verk að ráðast að þessum valdhöfum og Björn stendur sig vel í hlutverki leiðtoga flokksins í borginni. Í dag birtist í Mogganum vikuleg vettvangsgrein hans. Þar fjallar Björn um sjálfstæðismál Færeyja og Grænlands, athyglisverð grein sem allir áhugamenn um stjórnmál ættu að hafa gaman af. Hef persónulega áhuga á að fræðast meira um þessi mál, en ég verð fúslega að viðurkenna að ég þekki lítið til þeirra. Þetta kemur allt með árunum vonandi.

Gott framtak Heimdallar
Stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, afhenti fjármálaráðherra hugmyndabanka með sparnaðartillögum, sem ungir sjálfstæðismenn hafa unnið vegna frumvarps til fjárlaga, í gær, við styttu Ingólfs Arnarssonar við Arnarhól. Þar eru settar fram hugmyndir um hvernig megi draga úr útgjöldum ríkissjóðs um tæpan fjórðung þannig að hægt verði að afnema eignarskatt, erfðafjárskatt, stimpilgjöld, tolla og vörugjöld og lækka skatta á einstaklinga án þess að draga úr útgjöldum til heilbrigðis- og menntamála. Heimdallur, hefur um árabil hvatt þingmenn til þess að gæta hófs í útgjaldagleði við afgreiðslu frumvarps til fjárlaga. Hefur það jafnan verið gert með táknrænum hætti. Fyrir nokkrum árum fengu þingmenn send strokleður þar sem þeir voru hvattir til að stroka út fjárlagahallann. Vegna ábyrgrar efnahagsstjórnar ríkisstjórnarinnar undir forystu Sjálfstæðisflokksins gerist þess nú ekki lengur þörf. Í stað viðvarandi fjárlagahalla er nú afgangur. Stjórn Heimdallar hvetur þingmenn eindregið til að varðveita fjárlagaafganginn þannig að greiða megi erlendar skuldir og gera þannig framtíð Íslands bjartari fyrir komandi kynslóðir. Gaman að þessu hjá félögum mínum í borginni. Vonandi gengur þeim vel í starfinu í vetur. Þar er gott fólk í stjórn og formaðurinn er traustur og pottþéttur í alla staði.

08 nóvember 2002

Glæsileg heimasíða Sigurðar Kára
Í dag opnaði Sigurður Kári Kristjánsson lögfræðingur og fyrrv. formaður SUS, heimasíðu sína. Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eftir hálfan mánuð gefst flokksmönnum hið gullna tækifæri að tryggja ungu fólki öruggt sæti á þingi. Í framboði er Sigurður Kári. Það er afdráttarlaus skoðun mín að hann sé traustsins verður. Í honum sameinast allir höfuðkostir sem manni getur hlotnast. Hann er allt í senn trúr sannfæringu sinni, fágaður, hress og heiðarlegur. Ég treysti honum til góðra verka og vona að flokksfélagar mínir í borginni tryggi kjör hans. Hann er hiklaust rétti maðurinn. Vona að honum gangi vel í þessum slag. Þetta er engin spurning - Sigga Kára í sjöunda sætið!

Gagnleg ráðstefna um sjávarútvegsmál
Ég fór í dag á ráðstefnuna Ný mið, þar sem fjallað var um sóknarfæri sjávarútvegsins. Að ráðstefnunni stóðu Stafnbúi, félag auðlindadeildarnema við Háskólann á Akureyri og Hinu Íslenska Sjávarútvegsfræðafélagi. Með ráðstefnunni var ætlað að varpa ljósi á ný tækifæri sjávarútvegsins til sóknar, ný mið sjávarútvegsins í framtíðinni. Óhætt er að segja að um gagnlega ráðstefnu hafi verið að ræða. Þar voru fluttar athyglisverðar ræður um framtíð íslensks sjávarútvegs frá mörgum sjónarhornum. Meðal þeirra sem fluttu ræður á ráðstefnunni voru Árni M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra, og Tómas Ingi Olrich menntamálaráðherra. Ég persónulega fræddist mjög um framtíð þessa mikilvæga málaflokks og hafði gagn og gaman af þessari ráðstefnu og færi þeim sem að henni stóðu bestu þakkir fyrir gott framtak.

Björn opnar kosningaskrifstofu
Á morgun opnar Björn Bjarnason alþingismaður og leiðtogi borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, kosningaskrifstofu sína og hefur kosningabaráttu sína fyrir prófkjörið síðar í mánuðinum. Í komandi prófkjörsslag stefnir Björn á þriðja sætið, rétt eins og hann hefur gert í tveim fyrri prófkjörum 1990 og 1994. Ég þekki Björn vel og veit að hann er vinnusamur, heiðarlegur og traustur maður í hvívetna. Á þeim sjö árum sem hann sat á stóli menntamálaráðherra varð ljóst að hann vann hörðum höndum fyrir því að bæta mennta- og menningarkerfið. Það er nóg að líta á heimasíðu Björns til að sjá styrk hans sem stjórnmálamanns. Þar fer maður sem hefur mikinn áhuga á málefnum samtímans, tjáir sig opinskátt og er trúr sannfæringu sinni. Þannig þurfa stjórnmálamenn að vera. Björn er svo sannarlega réttur maður í þriðja sætið. Hann hefur stuðning minn til góðra verka.

07 nóvember 2002

Sögulegur kosningasigur Repúblikana
Kosningasigur Repúblikanaflokksins var vissulega sögulegur, enda í fyrsta skipti frá 1934 sem flokkur sitjandi forseta, bætir við sig fylgi og þingmönnum í báðum þingdeildunum. Staða forsetans er sterkari en nokkru sinni fyrr og hefur hann hlotið ótvírætt umboð þjóðarinnar til að koma stefnu sinni í framkvæmd. Eftir standa demókratar valdalausir og lamaðir forystulega séð. Demókratar hafa í raun engan afgerandi leiðtoga og við blasir að stokkað verði upp í forystusveit flokksins. Þegar hefur Dick Gephardt sem leitt hefur flokkinn í fulltrúadeildinni tilkynnt að hann muni ekki sækjast eftir áframhaldandi setu á þeim stól og mikið er rætt um stöðu Tom Daschle sem hefur leitt flokkinn í öldungadeildinni seinustu árin. Ég fjalla um úrslit bandarísku þingkosninganna í ítarlegum pistli mínum á heimasíðu Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri. Þar fer ég yfir úrslitin, áhrif þeirra og spái í spilin varðandi forsetakosningarnar 2004.

Ný mið - ráðstefna um sóknarfæri sjávarútvegsins
Ráðstefnan Ný mið, um sóknarfæri sjávarútvegsins verður haldin í stofu L201 á Sólborg, Háskólanum á Akureyri, af Stafnbúa, félagi auðlindadeildarnema við Háskólann á Akureyri og Hinu Íslenska Sjávarútvegsfræðafélagi á morgun. Með ráðstefnunni er ætlað að varpa ljósi á ný tækifæri sjávarútvegsins til sóknar, ný mið sjávarútvegsins í framtíðinni. Stafnbúi hefur staðið fyrir ráðstefnum um sjávarútvegsmál að jafnaði annað hvert ár frá því að félagið var stofnað 1990. Hið Íslenska Sjávarútvegsfræðafélag var stofnað sl. vor og þótti forsvarsmönnum beggja félaga tilvalið að efna til ráðstefnu nú þegar stýrihópur sjávarútvegsráðherra um aukið virði sjávarafurða hefur skilað skýrslu sinni. Þetta er athyglisverð ráðstefna og hef ég í hyggju að mæta og hlusta á ítarlegar ræður og kynna mér þessi málefni vel. Hvet áhugasama til að líta á dagskrá ráðstefnunnar.

Björgvin og Arabíu Lawrence klikka aldrei
Sennilega rekur einhverja í rogastans þegar þeir sjá þessa fyrirsögn hér að ofan og spyrja sig hvað eiga þessir tveir heiðursmenn sameiginlegt. Jú, ég fór í búð í dag og keypti nýja diskinn hans Björgvins og klassíkina Lawrence of Arabia frá árinu 1962. Á diskinum hans Björgvins er að finna úrval bestu ballaðanna hans í gegnum tíðina og tvö glæný lög. Björgvin klikkar aldrei, hann hefur sannað getu sína sem úrvals söngvara á okkar litla poppskala og þótt víðar væri leitað. Hann á að baki 400-500 lög á ferlinum og er hiklaust í forystusveit íslenskra tónlistarmanna nútímans. Ég er haldinn ólæknandi áhuga á kvikmyndum, eins og allir þeir sem mig þekkja ættu að vita manna best. Á fjölda góðra kvikmynda (nokkur hundruð stykki reyndar) og bætti í dag klassíkinni um þjóðsagnapersónuna T.E. Lawrence í safnið. Hef lengi viljað eignast þessa mynd, hef náttúrulega margoft séð hana og horfði á hana í kvöld í enn eitt skiptið, batnar við hvert áhorf. Ómissandi fyrir alla sanna áhugamenn um kvikmyndir, á nú allar óskarsverðlaunamyndir gerðar eftir 1956. Ber sennilega gott vitni um kvikmyndafíkn mína. Svosem ekkert meira um þann ólæknandi sjúkdóm að segja!

06 nóvember 2002

Kosningasigur repúblikana - demókratar valdalausir
Úrslitin liggja fyrir í bandarísku þingkosningunum. Fyrir liggur að Repúblikanaflokkurinn hefur unnið verulegan kosningasigur og tryggt sér völdin í bæði fulltrúadeild og öldungadeild Bandaríkjaþings. Þessi úrslit er mikill persónulegur sigur fyrir George W. Bush forseta Bandaríkjanna, sem lagði allt í sölurnar fyrir kosningasigur og heimsótti á fimm dögum 15 fylki landsins og 17 borgir. Hann uppskar árangur erfiðisins svo um munaði. Nú hefur Bush forseti hlotið skýrt umboð til að koma sínum málum í framkvæmd og hefur til þess þingmeirihluta í báðum deildum að framfylgja stefnu sinni. Sigur Jeb Bush, bróður forsetans, í Flórída var einnig mikill persónulegur sigur fyrir hann en sigur forsetans í Flórída í kosningunum 2000 var umdeildur. Nú hefur forsetinn styrkt stöðu sína verulega og hefur undirbúning að kosningabaráttunni 2004 þar sem hann hyggst tryggja endurkjör sitt. Eftir stendur Demókrataflokkurinn lamaður og valdalaus gegn öflugum forseta með meirihluta beggja þingdeilda að baki sér. Framundan eru spennandi 24 mánuðir í bandarískri pólitík. En eftir stendur Bush með pálmann í höndunum. Ítarleg umfjöllun um úrslitin er á fréttavef CNN

Stjórnmálanámskeið
Sjálfstæðisfélögin á Akureyri hafa ákveðið að efna til stjórnmálanámskeiðs laugardagana 16. og 23. nóvember nk. í Kaupangi, höfuðstöðvum flokksins við Mýrarveg. Þetta er þarft verk hjá sjálfstæðisfélögunum í bænum og mikilvægt að fólk fjölmenni og taki þátt í skemmtilegu flokksstarfi. Allavega er alveg ljóst að ég mun taka þátt og hafa af því gagn og gaman. Birti hér dagskrá námskeiðsins:

16. nóvember:

Íslenska stjórnkerfið
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor

Stefna Sjálfstæðisflokksins
Halldór Blöndal, forseti Alþingis

Skipulag og starf Sjálfstæðisflokksins
Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarfulltrúi

Fjölmiðlar
Gréta Ingþórsdóttir, frkvstj. þingflokks Sjálfstæðisflokksins

23. nóvember:

Ísland og umheimurinn
Tómas Ingi Olrich, menntamálaráðherra

Bæjarmálastarfið
Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri

Flutningur talaðs máls
Sunna Borg, leikkona

Fundarstjórn og fundarsköp
Anna Þóra Baldursdóttir

05 nóvember 2002

Spennandi kosninganótt í Bandaríkjunum
Framundan er spennandi kosninganótt í Bandaríkjunum og æsispennandi uppgjör milli Repúblikana og Demókrata um það hvor flokkurinn muni ná völdum í fulltrúadeild og öldungadeild Bandaríkjaþings. Má búast við að talningin verði athyglisverð og að litlu gæti munað á fylkingunum. Á fréttavef CNN er að finna nýjustu fréttir af stöðu mála. Þar er ítarleg umfjöllun um kosningaúrslitin og spáð í spilin eftir því sem líður á talninguna. Hvet alla áhugamenn um stjórnmál til að fylgjast með kosningaúrslitunum og umfjöllun um þau.

Framboðshiti hjá Samfylkingunni
Eins og ég hef margoft sagt eru framundan spennandi prófkjör um helgina, fjögur hjá Samfylkingunni og eitt hjá Sjálfstæðisflokknum. Mikill hiti virðist vera í prófkjörsmálum Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmunum og í Suðurkjördæmi. Í síðarnefnda kjördæminu berjast Margrét Frímannsdóttir og Lúðvík Bergvinsson um forystuna. Nú hefur Margrét lýst því yfir að hún sækist einungis eftir forystusætinu og muni ekki vera á listanum ef hún tapar fyrir Lúðvík. Verður athyglisvert að fylgjast með prófkjörinu þar. Í borginni er hinsvegar mikið rætt innan flokksins um smölun fólks í flokkinn á óheiðarlegum forsendum og hefur Jakob Frímann Magnússon verið mikið nefndur í því samhengi. Hörð barátta er í borginni um forystusætin. Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Bryndís Hlöðversdóttir stefna þar öll á forystusætin og ljóst eitt þeirra mun lúta í gras. Búast má við ennfremur að prófkjör flokksins í Suðvesturkjördæmi og prófkjör sjálfstæðismanna í Norðvesturkjördæminu muni setja sterkan svip á fréttir helgarinnar. Vænta má pólitískra stórtíðinda, enda enginn öruggur í þessum æsispennandi prófkjörum.

Edduverðlaunin 2002 - takið þátt í kjörinu
Edduverðlaunin, íslensku kvikmynda- og sjónvarpsverðlaunin verða afhent á sunnudag. Á heimasíðu Morgunblaðins er hægt að kjósa og líta yfir lista yfir þá sem tilnefndir eru til verðlaunanna. Ég hvet alla til að taka þátt í þessu kjöri og fylgjast með verðlaununum um helgina.

Húmorsleysi í Þjóðmenningarhúsinu
Undanfarna daga hefur mikið verið rætt um að aðstandendum Áramótaskaupsins hafi verið bannað að kvikmynda í Þjóðmenningarhúsinu atriði sem tengjast hneykslismálum fyrrverandi forstöðumanns hússins sem komust í hámæli í byrjun ársins. Mér finnast þessi viðbrögð stjórnenda hússins undarleg og tel furðulegt að ekki megi mynda þar þessi sárasaklausu atriði fyrir Skaupið. Oftast nær hefur verið leyft að kvikmynda á vettvangi vissra atburða og gott dæmi er að myndað var við heimili Árna Johnsen í Vestmannaeyjum í seinasta skaupi og oft hefur verið myndað við alþingishúsið. Fleiri dæmi mætti nefna. Áramótaskaupið er vettvangur spéspegils líðandi árs og óskiljanlegt að ekki megi mynda nokkur sárasaklaus atriði á þeim stöðum sem um er beðið. Áramótaskaupið er ekki ætlað sem árás á einn né neinn, heldur er þar farið yfir atburði liðins árs. Óskandi er að stjórnendur Þjóðmenningarhússins endurskoði þessa ákvörðun sína og leyfi myndatökur á þessu saklausa efni sem um ræðir.

04 nóvember 2002

Spennandi kosningabaráttu lýkur
Brátt opna kjörstaðir í Bandaríkjunum og tvísýnni kosningabaráttu lýkur þarmeð formlega. Að baki er harðvítug barátta milli Repúblikana og Demókrata þar sem barist er um meirihlutann í fulltrúadeild og öldungadeild Bandaríkjaþings. Mikið er í húfi fyrir ríkisstjórn forsetans, enda velta öll lykilmál Bush-stjórnarinnar á meirihlutavaldi þingsins. Bush Bandaríkjaforseti, hefur á fimm dögum heimsótt 15 fylki landsins og leggur allt í sölurnar til að tryggja sigur Repúblikanaflokksins og hefur notið liðsinnis eiginkonu sinnar og varaforsetans. Það virðist vera að bera árangur, enda sýna seinustu skoðanakannanir í Bandaríkjunum að flokkurinn hefur bætt við sig fylgi og gæti náð þeim sögulega áfanga að vinna meirihluta í báðum deildum. Nú við lok baráttunnar fjalla BBC og CNN ítarlega um slaginn í vandaðri umfjöllun. Á morgun ræðst hvort forsetinn mun fagna sigri eða hvort hann verði í klóm Demókrata seinni tvö ár kjörtímabilsins og hvort lykilmál stjórnar hans velti á samningum við Demókrata á þingi. Ljóst er að víða eru svo jafnt á metunum að þetta getur oltið á hvorn veginn sem er. Framundan eru spennandi kosningar sem munu hafa mikil áhrif á stöðu ríkisstjórnar Bandaríkjanna og forsetans sjálfs, sem mun eftir tvö ár berjast fyrir endurkjöri. Ljóst er að staða hans mun styrkjast til mikilla muna ef flokkur hans vinnur kosningasigur á morgun. Ef kosningarnar tapast er líklegt að staða hans veikist og enn líklegra að framundan verði erfiður slagur fyrir hann 2004. Ég fylgist spenntur með úrslitum kosninganna og mun að sjálfsögðu fjalla um þau hér á næstu dögum.

Gulli Þór opnar heimasíðu - spennan vex
Eins og ég sagði frá á laugardaginn hefur Ingvi Hrafn Óskarsson formaður SUS og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins opnað glæsilega heimasíðu. Heimasíða Sigga Kára er væntanleg. Nú hefur félagi minn og fyrrum formaður Varðar og SUS, Guðlaugur Þór Þórðarson opnað heimasíðu og kosningaskrifstofu. Allt stefnir í spennandi prófkjör hjá flokknum í borginni og gaman að sjá hvernig ungliðunum muni ganga í slagnum við þingmennina 9 sem allir gefa kost á sér til endurkjörs. Það styttist í spennandi helgi með fimm prófkjörum, t.d. athyglisverðu prófkjöri hjá flokknum í Norðvestrinu, þar sem berjast 10 frambjóðendur, þ.á.m. 5 þingmenn.

03 nóvember 2002

Spennandi lokasprettur í Bandaríkjunum
Eins og ég sagði í síðustu viku verður kosið á þriðjudaginn í Bandaríkjunum, svokallaðar MidTerm-Elections, en nú eru tvö ár liðin frá forsetakosningunum 2000, og því kjörtímabil forsetans hálfnað. Á þriðjudag verður kosin ný fulltrúadeild og kosinn um þriðjungur af öldungardeildinni. Einnig verður kosið um 36 ríkisstjóraembætti að ótöldum mörgum öðrum embættum innan fylkjanna. Er mikið í húfi fyrir forsetann að ná meirihluta í báðum þingdeildum, svo mál hans nái brautargengi með meirihlutafylgi á bak við sig. Augljóst er að Hvíta húsið berst með krafti fyrir frambjóðendum Repúblikanaflokksins. George W. Bush forseti Bandaríkjanna, Laura Welch Bush forsetafrú, og Dick Cheney varaforseti, hafa seinustu dagana ferðast um gervöll Bandaríkin til að leggja sín lóð á vogarskálarnar fyrir þá frambjóðendur flokksins sem mesta sigurmöguleika hafa. Einnig hefur forsetinn reynt eftir fremsta megni að styðja bróður sinn, Jeb Bush, ríkisstjóra Flórída, sem er í tvísýnni kosningabaráttu við Bill McBride, og beitt sér í Minnesota þar sem er spennandi slagur milli Norm Coleman og Walter Mondale um öldungardeildarsæti Paul Wellstone sem lést fyrir tæpum tveim vikum. Á sama tíma og forsetinn og hans fólk er á kosningaferðlagi eru Bill Clinton fyrrv. forseti Bandaríkjanna og Al Gore fyrrv. varaforseti Bandaríkjanna, sem tapaði forsetaslagnum 2000 naumlega fyrir Bush, á ferð og flugi til að styðja flokksbræður sína á sama hátt. Gore hefur einkum beitt sér í Flórída, til þess að fella bróður forsetans af stóli ríkisstjóra og hefna með því ósigursins 2000. Á kosningafundi í Orlando sagði Gore að hvert atkvæði skipti máli "If anybody ever tells you that one vote doesn't make a difference, ask them to come talk to me". Framundan er spennandi lokabarátta og ljóst að allt er lagt í sölurnar, enda að miklu að keppa, meirihluta á bandaríska þinginu. Slagur um völd og áhrif á komandi árum milli Repúblikana og Demókrata.

Pottþétt sófakvöld hjá RÚV
Í vikunni sagði Kolbrún Bergþórsdóttir í DV að laugardagskvöldin hjá RÚV væru að verða tilvalin sófakvöld þar sem notið er góðrar sjónvarpsdagskrár. Er alveg sammála Kolbrúnu. Gísli Marteinn er kominn í góðan gír með þáttinn sinn og fer hann hreinlega á kostum í þættinum. Í gærkvöldi var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri, gestur Gísla ásamt þeim Vigdísi Grímsdóttur og Stuðmönnum. Þarna sannaðist í eitt skipti fyrir öll að fólk er ekki valið í þáttinn eftir flokkslitum. Hef heyrt ansi oft þá klisju að þetta verði "laugardagskvöld að hætti Sjálfstæðisflokksins" og slíkar glósur, en þarna sannast að það er kolrangt. Þó að ég sé ekki pólitískur stuðningsmaður borgarstjórans, finnst mér gaman að því að Gísli skyldi ræða við hana. Hann velur ekki í þáttinn eftir flokkslitum, enda ekki pólitískur þáttur, heldur létt spjall á ljúfum nótum, að hætti Gísla Marteins. Allavega var spjall Gísla og borgarstjórans skemmtilegt og ekki hægt að heyra að þarna væru pólitískir andstæðingar að spjalla saman. Það mætti segja mér að fáir muni tala um "laugardagskvöld í boði flokksins" eftir þennan þátt. Framundan eru allavega góð laugardagskvöld hjá Gísla Marteini. Í kvöld verður enn ein perlan úr kvikmyndasögunni á dagskrá Ríkissjónvarpsins. Klassamyndin The Big Sleep er pottþétt spennumynd frá árinu 1946 og skartar sjálfum Bogart í aðalhlutverki. Hvet alla kvikmyndafíklana til að horfa á sannkallaða klassík. Það er allavega alveg víst að ég mun ekki missa af þessari úrvalsmynd.

02 nóvember 2002

Umtalsverðar breytingar á Morgunblaðinu - Norðurlandaráð
Í dag fagnar Morgunblaðið 89 ára afmælisdegi sínum, með því að gjörbreyta útliti forsíðu blaðsins og efnistökum að hluta. Í stað þess að forsíðan sé eingöngu með erlendar fréttir eins og verið hefur frá því í kringum 1970, er nú að finna þar blandað efni og úrval þess besta sem er að gerast. Mér líka þessar breytingar, enda tímanna tákn að á forsíðunni sé að finna blandað efni þess sem hæst ber. Mogginn hefur í gegnum tíðina verið tákn stöðugleika og litlar breytingar orðið á blaðinu, en ég get ekki annað sagt en að þessar breytingar séu vel gerðar og Morgunblaðið eldist vel, nú þegar styttist í níræðisafmæli blaðsins. Á miðopnu er sem fyrr Vettvangsgrein Björns Bjarnasonar alþingismanns og leiðtoga borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins. Þar fjallar hann um Norðurlandaráð og hálfrar aldar afmæli þess, en í Helsinki var í vikunni haldið upp á það með pompi og prakt á Norðurlandaráðsþingi. Góð grein hjá Birni og ítarleg. Félagi minn á frelsi.is, Snorri Stefánsson skrifaði í gær grein um Norðurlandaráðsþingið. Þar segir hann að fjórðungur þingmanna hafi farið til Finnlands. Með í för hafi verið nauðsynlegustu embættismenn og aðrir sem ekki mátti missa í ferðum sem þessum. Forsetinn og Dorrit hafi fengið að fljóta með, góð grein hjá Snorra. Hvet alla til að lesa skrif Björns og Snorra um Norðurlandaráð og afmæli þess, frá misjöfnum sjónarhornum þó.

Athyglisverð skoðanakönnun Gallup
Í dag birtist ný skoðanakönnun Gallups á fylgi stjórnmálaflokkanna. Þar kemur fram einu sinni enn að fylgi stjórnarflokkanna er mjög sterkt og er það sama og kjörfylgið 1999, nú þegar hálft ár er til þingkosninga. Sjálfstæðisflokkur, Samfylking og Framsóknarflokkur eru þannig með nánast sama fylgi og í síðustu Alþingiskosningum í könnuninni, og nánast engin breyting hefur átt sér stað frá seinustu mánaðarkönnun Gallups. Sjálfstæðisflokkurinn fengi rúmlega 40% ef kosið væri nú, sem er 2 prósentum meira en í síðustu könnun. Samfylkingin tæplega 27%, 2 prósentustigum minna en síðast. Framsóknarflokkurinn rúmlega 18%, 1 prósentustigi meira en síðast. Vinstri hreyfingin - grænt framboð er með rúmlega 13%, 1 prósentustigi minna en síðast. Frjálslyndi flokkurinn virðist vera að hverfa með rúmlega eitt prósent, eins og í síðustu könnun. Samkvæmt þessari könnun styðja 62% ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, sem er 4 prósentustigum fleiri en í könnun Gallups fyrir mánuði. Tæplega 19% vissu ekki hvað þau myndu kjósa nú eða neituðu að svara því- og rúmlega 5% sögðust skila auðu eða ekki kjósa ef kosið væri nú. Úrtakið í könnuninni var 2.200 manns, á aldrinum 18 - 75 ára. Svarhlutfall var tæplega 70%. Þetta er góð niðurstaða og lofar góðu fyrir Sjálfstæðisflokkinn á kosningavetri.

Glæsilegar heimasíður
Prófkjörsslagur Sjálfstæðisflokksins í borginni er að hefjast fyrir alvöru og frambjóðendur að kynna sig og persónu sína, nú þegar þrjár vikur er í sjálft prófkjörið. Þeir frambjóðendur sem ekki voru með heimasíðu eru óðum að opna vefsíður sínar núna. Félagar mínir, Ingvi Hrafn Óskarsson og Sigurður Kári Kristjánsson hafa opnað glæsilegar vefsíður, sem ég hvet alla áhugamenn um stjórnmál til að líta á. Einnig hafa alþingismennirnir Guðmundur Hallvarðsson og Ásta Möller opnað veglegar heimasíður. Björn Bjarnason hefur í tæp 8 ár haldið úti vefsíðu og telst hiklaust frumkvöðull í pólitískum skrifum á netinu í hópi íslenskra stjórnmálamanna, og heimasíða hans er nauðsynleg öllum þeim sem áhuga hafa á pólitík, enda Björn með frábæra vikulega pistla. Á næstu dögum opna frambjóðendur í borginni kosningaskrifstofur sínar og kynna skoðanir sínar á vefsíðum sínum. Fleiri frambjóðendur hafa í hyggju að opna vefsíður. Framundan er spennandi slagur hjá sjálfstæðismönnum í borginni, þar sem flokksmenn velja fulltrúa sína á Alþingi næstu árin í athyglisverðu prófkjöri.

01 nóvember 2002

Nýr mánuður - spennan vex í pólitíkinni
Þá er októbermánuði lokið og nóvember hafinn. Framundan eru skemmtilegar vikur fyrir áhugamenn um stjórnmál, enda munu framboðsmál stærstu stjórnmálaflokkanna skýrast verulega á næstu vikum og dögum. Eftir viku verða mörg spennandi prófkjör innan flokkanna, þá verða fimm prófkjör þar sem hart er barist um efstu sæti framboðlistans. Sjálfstæðisflokkurinn mun fyrir lok þessa mánaðar klára að velja framboðslista sína í þrem kjördæmum og má búast við að þeir verði samþykktir á kjördæmisþingum laugardaginn 30. nóvember. Þetta eru Suðvesturkjördæmi, Norðausturkjördæmi og Suðurkjördæmi. Prófkjör verða svo 9. nóvember í Norðvesturkjördæmi og 22. og 23. nóvember í Reykjavíkurkjördæmunum. Það er því ljóst að framundan er áhugaverður mánuður fyrir pólitíska áhugamenn. Línur munu brátt skýrast verulega.

Góð grein Tomma um bæjarmálin í Hafnarfirði
Félagi minn, Tómas F. Aðalsteinsson, fer yfir fyrstu mánuði valdatíðar Samfylkingarinnar í meirihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, í góðri grein á heimasíðu Stefnis. Tommi bendir á að margt hafi gerst í málefnum bæjarins á þessu hálfa ári og rekur málefnin sem einkennt hafa sex mánaða valdaferil vinstri manna í bænum. Niðurstaðan er á þá leið að staða bæjarins sé mun verri í dag en hún var þegar vinstrimenn náðu völdum. Er það mat hans að þeir hafi ekki styrkt stöðu bæjarins heldur að mestu leiti stigið skref aftur á bak. Ég hvet alla áhugamenn um stjórnmál til að lesa þessa ítarlegu og fróðlegu grein Tomma.