Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 júní 2005

Punktar dagsins
Kristín Ingólfsdóttir

Kristín Ingólfsdóttir prófessor í lyfjafræði við Háskóla Íslands, tók í dag við embætti rektors Háskóla Íslands. Hún er fyrsta konan til að gegna embætti rektors skólans í 94 ára sögu hans. Hún sigraði Ágúst Einarsson prófessor við viðskipta- og hagfræðideild skólans, í rektorskjöri í skólanum í mars. Tekur Kristín við rektorsembættinu af forvera sínum í embætti, Páli Skúlasyni. Sigur Kristínar í mars var mjög sögulegur, úrslitin mörkuðu þáttaskil í sögu skólans. Það var óneitanlega sögulegt að kona hafi verið kjörin til forystu í skólanum og taki nú við forystu hans. Tekur Kristín við embættinu af Páli Skúlasyni á vissum kaflaskiptum í sögu hans. Nýtt og merkilegt umhverfi blasir við skólanum núna og það verður verkefni hennar að vinna að þeim þáttaskilum sem framundan eru að vissu leyti. Í kosningabaráttu sinni bauð hún sig fram sem fagmann á sínu sviði í starfi innan skólans og öflugan þátttakanda í innri uppbyggingu náms þar. Kristín bauð sig ekki fram á forsendum kyns, þrátt fyrir að vera fyrsta konan sem býður sig fram í forystu hans með þessum hætti. Öll hennar kosningabarátta var á forsendum þess að hún væri hæf til þess að leiða skólann og hefði reynslu fram að færa. Verður mjög fróðlegt að fylgjast með verkum hennar og forystu á vettvangi skólans á komandi árum.

Annie Hall

Horfði í gærkvöldi á úrvalsmyndina Annie Hall, hina stórfenglegu kvikmynd meistara Woody Allen. Er þetta frábær mynd, hiklaust ein af mínum uppáhaldsmyndum. Í henni eru góðir kómískir þættir en einnig má finna fyrir alvarlegum undirtón og skemmtilegri sýn á nútímaástarsamband þess tíma. Er í raun sjálfsævisöguleg úttekt á sambandi Allens og Diane Keaton en þau eru bæði tvö hreint ómótstæðileg í myndinni. Hér er nóg af hinum venjulegu en alltaf óvæntu Allenbröndurum og pælingum um ástina en líka dýpri og innilegri íhuganir, enda er Annie Hall persónulegasta mynd Allens fyrr og síðar, gerð af einstakri hlýju og miklum skilningi og ógleymanlegum húmor. Fjallar um stormasamt ástarsamband grínista og söngkonu sem á sér háleit markmið í lífinu og mikla drauma. Inn á milli fljóta hressilegir brandarar og snjallar athugasemdir um lífið og tilveruna að hætti Woody Allen. Diane Keaton hlaut óskarinn fyrir leik sinn og myndin var valin besta kvikmynd ársins og Allen hlaut leikstjóraóskarinn. Klassísk kvikmynd sem verður sífellt meira meistaraverk með hverju áhorfi. Frábær mynd sem ég horfi reglulega á. Ávallt viðeigandi - alltaf ljúf.

Cheers (Staupasteinn)

Skjár 1 hefur undanfarnar vikur rifjað upp fyrir okkur kynnin af hinum stórkostlegu gamanþáttum Cheers sem eru með skemmtilegustu gamanþáttum í bandarísku sjónvarpi seinustu áratugina. Þættirnir gengu undir nafninu Staupasteinn, í þýðingu Guðna Kolbeinssonar, þegar þeir voru sýndir á miðvikudagskvöldum hjá Ríkissjónvarpinu hér í denn, sællar minningar. Cheers voru með langlífustu gamanþáttum í bandarísku sjónvarpi, en þeir gengu sleitulaust í heil 11 ár, eða frá 1982-1993. Leikhópurinn samanstóð af t.d. Ted Danson, Shelley Long, Kirstie Alley (sem kom inn í þættina við brotthvarf Long 1987), Nicholas Colasanto (er fór á kostum sem Coach fyrstu þrjú árin, en hann lést snögglega 1985), Rhea Perlman, John Ratzenberger, Woody Harrelson, George Wendt og Kelsey Grammer. Grammer fór á kostum í hlutverki sálfræðingsins Frasier Crane frá 1984, en fór svo í eigin þátt 1993 og var með þá allt til 2004, eða í heil 11 ár. Grammer lék því Frasier samfleytt í tvo áratugi. Voru Cheers þættir sem ég hafði gaman af til fjölda ára og horfði á, enda alveg magnaður húmor í þeim. Það er sönn ánægja að horfa á þættina, nú frá byrjun og horfa á þátt eftir þátt í seríu eftir seríu, öll 11 árin. Skjár 1 á þakkir skildar fyrir þetta framtak.

Grafarþögn

Seinustu vikurnar hef ég verið að rifja upp kynni mín af spennusögum Arnaldar Indriðasonar. Undanfarið hef ég lesið aftur Bettý og Mýrina. Seinustu dagana hef ég verið að lesa að nýju Grafarþögn, sem að mínu mati er ein af allra bestu bókum Arnaldar. Í sögunni er sögð sagan af því er mannabein finnast í grunni nýbyggingar í útjaðri Reykjavíkur og líkur benda til að glæpur hafi verið framinn. Beinin virðast vera nokkurra áratuga gömul og sérfræðingar eru fengnir til að grafa þau upp en samtímis hefur lögreglan leit að fólki sem gæti vitað eitthvað um málið. Beinafundurinn leiðir þau Erlend, Sigurð Óla og Elínborgu, nokkra áratugi aftur í tímann til sögu af konu einni og fjölskyldu hennar. Hér kemur við sögu fjölskylduharmleikur á fyrri hluta 20. aldar og leyndardómar fortíðarinnar verða grafnir upp með beinafundinum. Lengst af er beinafundurinn erfitt púsluspil en að lokum skýrist myndin og verður heildstæð frásögn af liðnum tíma og gömlu máli sem er enn í nútímanum skuggamynd í huga þeirra sem vita sannleikann. Hvet ég alla til að lesa bókina, sem það hafa ekki gert nú þegar. Svo má enginn gleyma að lesa hinar bækur Arnaldar.

Fjarar undan leiðtogum :)

Tekið er að fjara mjög undan bresku leiðtogunum Blair og Howard. Ljóst er auðvitað að báðir eru á útleið í breskum stjórnmálum á kjörtímabilinu og leiða ekki flokka sína í næstu kosningum. Bresku grínteiknararnir hjá Guardian voru fljótir að teikna pólitíska stöðu þeirra með hnyttnum hætti. :)

Saga dagsins
1936 Gone with the Wind eftir Margaret Mitchell, gefin út - varð ein vinsælasta skáldsaga aldarinnar og varð uppistaðan í einni bestu kvikmynd aldarinnar, sem bar sama nafn og gerð var á árinu 1939.
1968 Dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörður, kjörinn forseti Íslands, með 67,3% greiddra atkvæða - hann sigraði mótframbjóðanda sinn, dr. Gunnar Thoroddsen sendiherra, með miklum yfirburðum.
1984 Skáldkonan Lillian Hellman, deyr, 79 ára að aldri - Lillian var án vafa ein fremsta skáldkona Bandaríkjanna á 20. öld. Meðal bestu ritverka hennar eru ritin Little Foxes og Watch on the Rhine.
1992 Margaret Thatcher fyrrum forsætisráðherra Bretlands, tekur sæti í bresku lávarðadeildinni.
2002 Brasilía vinnur heimsmeistaratitilinn í knattspyrnu, eftir afgerandi sigur á Þjóðverjum í S-Kóreu.

Snjallyrðið
Sólin brennir nóttina, og nóttin slökkvir dag;
þú ert athvarf mitt fyrir og eftir sólarlag.
Þú ert yndi mitt áður og eftir að dagur rís,
svölun í sumarsins eldi og sólbráð á vetrarins ís.

Svali á sumardögum og sólskin um vetrarnótt,
þögn í seiðandi solli og syngur, ef allt er hljótt.
Söngur í þöglum skógum og þögn í borganna dyn,
þú gafst mér jörðina og grasið og guð á himnum að vin.

Þú gafst mér skýin og fjöllin og guð til að styrkja mig.
Ég fann ei, hvað lífið var fagurt, fyrr en ég elskaði þig.
Ég fæddist til ljóssins og lífsins, er lærði ég að unna þér,
og ást mín fær ekki fölnað fyrr en með sjálfum mér.
Sigurður Nordal prófessor (1886-1974) (Ást)

29 júní 2005

Punktar dagsins
George W. Bush

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ávarpaði bandarísku þjóðina í gær vegna Íraksmálsins og fór yfir stöðu mála. Skv. skoðanakönnunum hefur málið aldrei verið óvinsælla en nú og forsetinn er að mælast með minnsta persónufylgi sitt í skoðanakönnunum í langan tíma. Í ræðu sinni sagði forsetinn að þær fórnir sem færðar hefðu verið í stríðinu gegn hryðjuverkaöflum í heiminum væru þess virði. Kom fram að ekki stæði til að mati hans og stjórnar sinnar að Bandaríkin breyttu um stefnu í málinu. Eins og vel kom fram í nýjustu könnun CBS-sjónvarpsstöðvarinnar fara efasemdir bandarísks almennings um réttmæti stríðsins mjög vaxandi. Bush sagði að það væri skiljanlegt að málið reyndi á þolrif Bandaríkjamanna en það sem til þyrfti væri tími, en ekki breytingar á stefnu málsins. Tek ég undir mat forsetans. Bandaríkjamenn verða að leiða ferlið allt til enda, en ekki bara að hluta. Eins og fram hefur komið er að nást árangur í landinu í kjölfar kosninganna í janúar en þetta tekur allt sinn tíma. Eins og kom fram hjá Bush stendur bandaríski herinn frammi fyrir óvini sem hefði gert Írak að þungamiðju hryðjuverkastríðsins sem háð hefur verið. Demókratar voru lítt hrifnir með ræðuna og kom fram í máli helstu leiðtoga þeirra í þinginu að forsetinn vissi ekkert hvert hann væri að fara. Repúblikanar í þinginu tóku hinsvegar undir ræðu forsetans og sögðu stefnu stjórnarinnar hina einu réttu.

Ronald Reagan

Ronald Reagan fyrrum forseti Bandaríkjanna, er merkilegasti Bandaríkjamaður sögunnar ef marka má niðurstöðu nýrrar skoðanakönnunar í Bandaríkjanna. Tæplega tvær og hálf milljón Bandaríkjamanna mun hafa tekið þátt í könnuninni sem America Online og Discovery Channel stóðu fyrir. Sex forsetar Bandaríkjanna voru á meðal tíu efstu í kjörinu. Þeirra á meðal var George W. Bush forseti Bandaríkjanna, sem varð í sjötta sæti. Kannanir af svipuðum toga hafa verið haldnar í öðrum löndum. T.d. var Charles De Gaulle var valinn í Frakklandi, Konrad Adenauer í Þýskalandi og Sir Winston Churchill í Bretlandi. Ronald Reagan fæddist 6. febrúar 1911. Hann ávann sér frægð fyrst í stað sem leikari og var um tíma forseti SAG-leikarasamtakanna. Hann hætti leik í byrjun sjöunda áratugarins og hóf þátttöku í stjórnmálum. Hann gaf kost á sér til ríkisstjórakjörs í Kaliforníu árið 1966 fyrir Repúblikanaflokkinn og náði kjöri. Sat hann á stóli ríkisstjóra í 8 ár, til ársins 1975. Reagan var kjörinn forseti Bandaríkjanna árið 1980. Sat hann í embætti í tvö kjörtímabil, átta ár. Ronald Reagan var fyrsti forseti Bandaríkjanna sem beitti sér ákveðið gagn auknum ríkisútgjöldum og afskiptasemi ríkisins. Reagan tilkynnti í yfirlýsingu í nóvember 1994, að hann þjáðist af hrörnunarsjúkdómnum Alzheimer. Hann lést 5. júní 2004.

A Streetcar Named Desire

Horfði í gærkvöldi á úrvalsmyndina A Streetcar Named Desire sem er byggð á samnefndri sögu eftir Tennessee Williams, sem var ein þekktasta skáldsaga 20. aldarinnar. Árið 1947 færði kvikmyndaleikstjórinn Elia Kazan söguna á svið á Broadway og hlaut mikið lof fyrir. Fjórum árum síðar gerði hann myndina. Útkoman var ein eftirminnilegasta kvikmynd 20. aldarinnar. Mögnuð saga sem segir frá fegurðardísinni Blanche sem kemur í heimsókn til systur sinnar Stellu og mannsins hennar, Stanley. Smám saman komast þau að raun um að Blanche segir ekki alltaf satt. Hver er munurinn á sjálfsblekkingu og draumaveröld? Lánleysið blasir allsstaðar við og það eina sem hægt er að binda vonir við, eru þráin, girndin og ástin. Í aðalhlutverkum voru Vivien Leigh, Kim Hunter, Karl Malden og nýstirnið Marlon Brando, sem hafði slegið í gegn, 23 ára gamall, í hlutverki Stanley á Broadway í sýningunni 1947. Brando átti leiksigur í hlutverki Stanley Kowalski og varð stórstjarna í kvikmyndaheiminum á einni nóttu og einn frægasti leikari 20. aldarinnar. Vivien Leigh, Kim Hunter og Karl Malden fengu öll óskarinn fyrir leik sinn og Kazan var tilnefndur fyrir leikstjórn og Brando fyrir magnaðan leik sinn. Ég hvet alla kvikmyndaunnendur til að sjá þetta magnaða meistaraverk ef þeir eiga tök á því, betri mynd er vart hægt að sjá.

Bill Clinton og Hillary Rodham Clinton

Í ferð minni til Bandaríkjanna í október 2004 keypti ég bókina American Evita: Hillary Clinton's Path to Power. Þar er fjallað um feril Hillary Rodham Clinton öldungadeildarþingmanns í New York og fyrrum forsetafrúar Bandaríkjanna, bæði sem stjórnmálamanns og eiginkonu stjórnmálamanns. Ekki er síður beint sjónum að persónulegu hliðinni á manneskjunni. Þetta er mjög athyglisverð og vönduð bók. Reyndar er jafnvel erfitt fyrir áhugamenn um bandarísk stjórnmál að kortleggja Clinton-hjónin og persónur þeirra til fulls. Er í bókinni að finna mjög merkilegar lýsingar á þeirri krísu sem hjónaband þeirra gekk í gegnum vegna Lewinsky-málsins á tímabilinu 1998-1999, þegar almenn umræða um það var sem mest. Er mjög merkilegt reyndar að bera saman þessa bók og sjálfsævisögu Hillary, Living History. Báðar eru áhugaverðar en óneitanlega er meira krassandi í fyrrnefndu bókinni og fara þar yfir ýmsa hluti sem Hillary skautar allhressilega yfir, eins og t.d. framhjáhald hennar og eiginmannsins og stöðu tilvistar hjónabands þeirra í kjölfarið. Er merkilegt einnig að kynnast miklum skapköstum Hillary, sem eru allverulega til staðar. Semsagt; spennandi og áhugaverð bók um ævi tveggja stjórnmálamanna sem ætti að henta vel öllum alvöru stjórnmálaáhugamönnum.

Friður eða hvað? :)

Bresku grínteiknararnir hjá Guardian eru alveg magnaðir að sjá pólitísku stöðuna með hnitmiðuðum hætti. Hér lýsa þeir ástandinu við Persaflóann nokkuð vel. :)

Saga dagsins
1952 Ásgeir Ásgeirsson bankastjóri og fyrrv. forsætisráðherra, kjörinn forseti Íslands. Ásgeir hlaut 48% greiddra atkvæða í kosningunum og sigraði þar naumlega sr. Bjarna Jónsson dómkirkjuprest.
1974 Isabel Peron tekur við embætti forseta Argentínu, af eiginmanni sínum, Juan Peron, vegna veikinda hans. Hún tók formlega við embættinu við lát hans 1. júlí. Henni var komið frá völdum í valdaráni árið 1976 og var ríkisstjórn hennar sökuð þá um mikla óstjórn og glundroða í Argentínu.
1980 Vigdís Finnbogadóttir kjörin forseti Íslands - hún hlaut tæp 34% greiddra atkvæða og sigraði Guðlaug Þorvaldsson sáttasemjara, naumlega. Vigdís Finnbogadóttir varð fyrsta konan í heiminum sem kjörin var þjóðhöfðingi í lýðræðislegum forsetakosningum. Sögulegur áfangi í jafnréttisbaráttu.
1996 Ólafur Ragnar Grímsson alþingismaður, kjörinn forseti Íslands, með 41% greiddra atkvæða.
2003 Óskarsverðlaunaleikkonan Katharine Hepburn deyr, í Old Saybrook í Connecticut, 96 ára að aldri. Á 60 ára leikferli sínum hlaut hún fjórum sinnum óskarsverðlaun og var ennfremur tilnefnd til verðlaunanna 12 sinnum. Hefur enginn hlotið fleiri óskarsverðlaun fyrir leik. Árið 2001 var Katharine Hepburn kjörin besta leikkona tuttugustu aldarinnar af hinu virta bandaríska kvikmyndariti Empire.

Snjallyrðið
Nú finn ég angan löngu bleikra blóma,
borgina hrundu sé við himin ljóma,
og heyri aftur fagra, forna hljóma,
finn um mig yl úr brjósti þínu streyma.

Ég man þig enn og mun þér aldrei gleyma.
Minning þín opnar gamla töfraheima.
Blessað sé nafn þitt bæði á himni og á jörðu.

Brosin þín mig að betri manni gjörðu
Brjóst þitt mér ennþá hvíld og gleði veldur.
Þú varst mitt blóm, mín borg, mín harpa og eldur.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Nú finn ég angan)

28 júní 2005

Samband ungra sjálfstæðismanna
75 ára


Samband ungra sjálfstæðismanna

Í gær voru 75 ár liðin frá stofnun Sambands ungra sjálfstæðismanna, ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins. Rúmu ári áður, eða hinn 25. maí 1929 var Sjálfstæðisflokkurinn stofnaður með samruna Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins. Nokkur félög ungliða í flokknum eru eldri en bæði Sjálfstæðisflokkurinn og SUS. Heimdallur var t.d. stofnaður 16. febrúar 1928. Það er fyrsta stjórnmálafélag ungliða hérlendis. Vörður, félag ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, var stofnað 10. febrúar 1929, nokkrum mánuðum fyrir stofnun flokksins. Fleiri félög voru komin til sögunnar áður en SUS var formlega stofnað á Þingvöllum 27. júní 1930. Fyrsti formaður SUS var Torfi Hjartarson, síðar tollstjóri og ríkissáttasemjari, og gegndi hann formennsku í fjögur ár. Með honum í fyrstu stjórn SUS voru Sigríður Auðuns, Ísafirði, Kristján Steingrímsson, Akureyri, Árni Mathiesen, Hafnarfirði og Guðni Jónsson, Reykjavík. Í varastjórn voru Gunnar Thoroddsen, Jóhann Möller, Sigurður Jóhannsson, Guðmundur Benediktsson og Thor Thors.

Í sögu Sambands ungra sjálfstæðismanna hafa 23 einstaklingar gegnt formennsku. Lengst á formannsstóli í sögu SUS hafa setið Jóhann Hafstein og Magnús Jónsson frá Mel. Báðir voru þeir formenn í sex ár samfleytt. Jóhann varð formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra við fráfall dr. Bjarna Benediktssonar sumarið 1970. Áður hafði hann verið lengi borgarfulltrúi, ráðherra og þingmaður flokksins. Hann var um tíma ennfremur formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Magnús frá Mel var lengi alþingismaður og ráðherra og var forystumaður Sjálfstæðisflokksins í Eyjafjarðarsýslu og Norðurlandskjördæmi eystra til fjölda ára. Undir lok stjórnmálaferils síns var hann varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Alls hafa verið haldin 37 sambandsþing frá stofnun Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þau eru jafnaði haldin á tveggja ára fresti. Næsta sambandsþing SUS verður haldið í septembermánuði. Í stjórn SUS sitja 27 einstaklingar og 14 eru til vara.

Geir H. Haarde varaformaður Sjálfstæðisflokksins

Fór ég suður um helgina til að fagna afmæli SUS með góðum félögum. Afmælinu var fagnað með ýmsum hætti. Á sunnudag var afmæliskaffi í Valhöll þar sem haldið var formlega upp á þennan merka áfanga í sögu Sambands ungra sjálfstæðismanna. Flutti Hafsteinn Þór Hauksson formaður, þar stutta ræðu. Heiðursgestur við þetta tilefni, Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður og fyrrum formaður SUS, flutti þar hátíðarávarp. Fór hann yfir punkta í sögu SUS og minnti á grunnstefnu flokksins og SUS í gegnum tíðina: baráttuna fyrir frelsi og sjálfstæði einstaklingsins. Í gær, á afmælisdeginum, héldum við í stjórn SUS svo til Þingvalla og héldum hátíðarstjórnarfund í Hvannagjá, þar sem SUS var formlega stofnað 75 árum áður. Heiðursgestur á fundinum var Geir H. Haarde fjármálaráðherra, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrum formaður SUS, og flutti hann ávarp. Á þessum hátíðarstjórnarfundi voru samþykktar tvær ályktanir.

Sú fyrri hljómar svo: "Í dag, hinn 27. júní 2005, eru 75 ár liðin síðan Samband ungra sjálfstæðismanna var stofnað í Hvannagjá á Þingvöllum af ungum sjálfstæðismönnum hvaðanæva að af landinu. Samband ungra sjálfstæðismanna hefur ávallt staðið vörð um hugsjónina um sjálfstæði þjóðarinnar og frelsi einstaklinga og atvinnulífs. Sú hugsjón hefur ætíð reynst vel. Sjálfstæðismenn skoða því sögu sína stoltir og þurfa ekki að fela hana eða flýja, líkt og önnur stjórnmálaöfl hafa þurft að gera. Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna óskar sjálfstæðismönnum um land allt til hamingju með daginn og færir öllum þeim er lagt hafa hönd á plóg í starfi ungra sjálfstæðismanna í gegnum tíðina innilegar þakkir fyrir óeigingjarnt starf. Baráttunni fyrir frelsi lýkur hins vegar aldrei þótt árangurinn hafi verið góður hingað til. Í framsæknu þjóðfélagi spretta sífellt upp ný viðfangsefni er kalla á lausnir í anda sjálfstæðisstefnunnar. Ungir sjálfstæðismenn strengja þess heit að taka áfram þátt í þeirri baráttu og víkja hvergi frá hugsjónum um sjálfstæði þjóðarinnar og frelsi til orðs og athafna."

Sú seinni hljómar svo: "Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna telur að á 75 ára afmæli sambandsins og í tilefni þeirra tímamóta að 90 ár eru liðin frá því að konur á Íslandi hlutu kosningarétt sé viðeigandi að minnast þeirrar konu sem fyrst kvenna varð borgarstjóri í Reykjavík og settist fyrst kvenna í ríkisstjórn á Íslandi. Auður Auðuns var atkvæðamikil stjórnmálakona sem hafði raunveruleg áhrif á íslenskt samfélag. Hún ruddi braut jafnréttis með framgöngu sinni og verður ævinlega minnst fyrir glæsilega og skörulega framkomu. Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna vill kanna möguleika á því að ráðist verði í uppbyggingu minnisvarða um Auði Auðuns í þakklæti fyrir þau störf sem hún vann, þjóð sinni og Sjálfstæðisflokknum til heilla." Tvær glæsilegar ályktanir og vel við hæfi á þessum tímamótum að hvatt sé til þess að stytta sé reist af frú Auði, til að heiðra hennar merka framlag í stjórnmálabaráttu og minna á sögulegan sess hennar í íslenskum stjórnmálum.

Blómsveigur lagður að minnisvarðanum um dr. Bjarna Benediktsson forsætisráðherra og formann flokksins

Að fundinum loknum héldu stjórnarmenn í SUS að minnisvarðanum um dr. Bjarna Benediktsson forsætisráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, Sigríði Björnsdóttur eiginkonu hans, og dótturson þeirra, Benedikt Vilmundarson. Þau létust hinn 10. júlí 1970 er forsætisráðherrabústaðurinn að Þingvöllum brann. Lögðu Hafsteinn Þór og Þorbjörg Helga blómsveig að minnisvarðanum við þetta tilefni. 35 ár eru í sumar frá þessum skelfilega atburði er dr. Bjarni, Sigríður og Benedikt létust. Þótti okkur við hæfi að minnast forystu dr. Bjarna í íslenskum stjórnmálum og starfa hans í þágu Sjálfstæðisflokksins og Sambands ungra sjálfstæðismanna á afmælisdegi SUS. dr. Bjarni er sá stjórnmálamaður 20. aldarinnar sem er í mestum metum hjá mér. Hef ég aldrei farið leynt með aðdáun mína á stjórnmálamanninum Bjarna og stjórnmálastefnu hans sem varð meginstef Sjálfstæðisflokksins þann langa tíma sem hann starfaði í forystusveit hans. Hef ég lesið margoft greinasafn hans, Land og lýðveldi, og jafnan þótt mikið til þess koma.

Dr. Bjarni Benediktsson var arkitekt utanríkisstefnu Íslendinga og markaði söguleg áhrif í senn bæði á íslenskt samfélag og íslensk stjórnmál. Forysta hans var Sjálfstæðisflokknum mikilvæg. Það mun vonandi aldrei gleymast hversu mikilvægur forystumaður dr. Bjarni var okkur sjálfstæðismönnum. Hann markaði stór skref í stjórnmálasögu landsins að mínu mati. Allir þeir sem kynna sér stjórnmálaferil dr. Bjarna komast fljótt að því hversu öflugur hann var, hann var sá forystumaður íslenskra stjórnmála á 20. öld sem hafði mest áhrif á að móta lýðveldinu Íslandi framtíðarstefnuna, færa Ísland fyrstu skrefin í átt að forystu í eigin málum og móta utanríkisstefnu landsins, sem hefur haldist að mestu óbreytt síðan. Íslenskt stjórnmálalitróf varð litlausara við snögglegt og ótímabært fráfall hans fyrir 35 árum. Brátt kemur út ævisaga hans sem mun rekja æviferil dr. Bjarna í ítarlegu máli. Verður ánægjulegt að lesa þá bók. Við minnisvarðann flutti Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, stutt ávarp og minntist dr. Bjarna.

Samband ungra sjálfstæðismanna

Afmælisins verður minnst næstu vikuna með sérstökum hátíðarpistlum á vef SUS þar sem nokkrir fyrrum formenn SUS rita hugleiðingar sínar í tilefni afmælisins. Þegar hafa birst góðar greinar eftir Ásgeir Pétursson fyrrum bæjarfógeta og sýslumann, og Árna Grétar Finnsson hæstaréttarlögmann. Hvet ég alla til að lesa þau skrif og þá pistla sem framundan eru á vefnum. Í sunnudagspistli um helgina fjallaði ég ítarlega um afmæli SUS og fór þar yfir það sem ég tel mestu skipta þegar saga SUS er skoðuð og þegar litið er inn í framtíðina.

Saga dagsins
1914 Franz Ferdinand hertogi, myrtur ásamt eiginkonu sinni, Sophie, af Gavrilo Princip, í Sarajevo. Morðið á þeim leiddi til upphafs deilna og að lokum varð upphafspunktur fyrri heimsstyrjaldarinnar.
1919 Versalasáttmálinn formlega undirritaður - með því lauk fyrri heimsstyrjöldinni sem stóð í 5 ár.
1991 Margaret Thatcher tilkynnir að hún gefi ekki kost á sér í bresku þingkosningunum 1992 eftir
33 ára þingferil - Thatcher lét af embætti sem forsætisráðherra Bretlands í nóvembermánuði 1990.
1997 Mike Tyson dæmdur úr leik í hnefaleikabardaga við Evander Holyfield, í kjölfar þess að hann bítur bita úr eyra hans. Tyson og Holyfield voru að keppa um heimsmeistaratitil í boxi í þungavigt.
2001 Slobodan Milosevic fv. forseti Júgóslavíu, framseldur til stríðsglæpadómstóls í Haag í Hollandi.

Snjallyrðið
Moon river, wider than a mile,
I'm crossing you in style someday,
Oh, dream maker, you heartbreaker,
Wherever you're goin',
I'm goin' your way.

Two drifters, off to see the world,
There's such a lot of world to see,
We're after the same rainbow's end
Waitin' round the bend
My Huckleberry friend,
Moon river and me.
Johnny Mercer tónskáld (1909-1976) (Moon River)

26 júní 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um 75 ára afmæli Sambands ungra sjálfstæðismanna. Fer ég yfir sögu SUS og Sjálfstæðisflokksins sem fagnaði 75 ára afmæli sínu á síðasta ári. Jafnframt minni ég á mikilvægi þess að við ungliðarnir í flokknum vinnum vel saman að þeim verkefnum sem blasa við á komandi árum í aðdraganda tveggja kosninga sem að mínu mati þurfa að vinnast samhent og sameinað í okkar röðum. Hefur það alltaf verið grunnur míns starfs í flokknum að sjálfstæðismenn horfi fram á veginn en ekki til baka. Markmið okkar á að vera nú sem ávallt að vinna að heill Sjálfstæðisflokksins og gera allt það sem mögulega getur styrkt hann til framtíðar og eflt hann sem stærsta flokk landsins og tryggir forystu hans í landsmálum og á vettvangi sveitarstjórna um allt land. Með öflugri og virkri ungliðahreyfingu er unnið stórt skref í þá átt að heilla sífellt fleiri til fylgilags við sjálfstæðisstefnuna, sem er nú sem ávallt fyrr hin eina rétta stefna í íslenskum stjórnmálum.

- í öðru lagi fjalla ég um pólitísku krísuna í ESB. Segja má að þetta sé einhver mesta og flóknasta pólitíska kreppa sem orðið hefur innan Evrópusambandsins frá stofnun þess. Erjur hafa verið innan sambandsins síðan að Frakkar og Hollendingar felldu stjórnarskrá ESB í þjóðaratkvæðagreiðslum fyrir nokkrum vikum. Sú krísa margfaldaðist á leiðtogafundinum er ekki samdist um næstu skref í málinu. Fram kom er slitnaði uppúr milli landanna djúpstæður ágreiningur um næstu skref og markmið Evrópusambandsins. Náðist ekki samkomulag um samræmingu vegna stjórnarskrárferlisins og það sem verra var fyrir grunn ESB að ekki náðist samstaða um samkomulag um fjárlög sambandsins. Það er reyndar svo merkilegt að enn er til fólk hér á landi sem er hlynnt því að verða hluti af þessu bandalagi kaos og reglugerða. Reyndar ber lítið á þeim þessar vikurnar þegar mestu lætin ganga þarna yfir. Er það svosem skiljanlegt, enda varla við því að búast að nokkur tali fyrir því að verða hluti af þessu meðan vandræðin eru svo yfirgnæfandi og áberandi sem raun ber vitni þessar vikurnar.

- í þriðja lagi fjalla ég um skrautlegar fréttir af þotulífinu sem einkennir nú forsetaembættið og PR-mennsku forsetans í þágu vissra einstaklinga. Og ekki minnkuðu spurningarnar þegar að forsetinn var eins og PR-fulltrúi í breskum sjónvarpsþætti um Baug nýlega. Sýnd voru brot úr þessum þætti á Stöð 2 í vikunni og var merkilegt að fylgjast með því. Þar birtist maður sem kallaður er gamall nágranni, sjálfur forsetinn sem bjó eins og Bónusfeðgar á Seltjarnarnesi. Ég get ekki sagt annað en að kómískt hafi verið að sjá þetta brot úr þættinum. Segja má að mér hafi verið hugsað til þess að forsetinn væri einn PR-fulltrúi þessa fyrirtækis seinustu ár, sem hæst bar með sögulegum blaðamannafundi á Bessastöðum fyrir ári síðan. Fyrir hverja annars breytti Ólafur Ragnar annars eðli þessa forsetaembættis á undarlegum forsendum?


Pólitíska ræman
The War Room

Heimildarmyndin The War Room er ein besta pólitíska mynd seinni tíma. Hún fjallar mjög nákvæmlega um kosningabaráttu Bill Clinton þáv. ríkisstjóra í Arkansas, gegn George H. W. Bush þáverandi forseta Bandaríkjanna, árið 1992. Myndin var tilnefnd til óskarsverðlauna í flokki heimildarmynda árið 1993. Er myndin mjög fróðleg og veitir skemmtilega innsýn í forsetakosningarnar 1992 þar sem Clinton vann sigur á Bush í spennandi kosningabaráttu. Voru þá kosningar háðar á nýstárlegan máta og eru áhorfendur í návígi við helstu atburðarás í innsta hring Clintons í kosningabaráttunni. Kynnist áhorfandinn vel með þessu vinnubrögðum og strategíu kosningaspekúlanta í bandarískum forsetakosningum, þar sem valdamesti maður heims er kjörinn beinni kosningu. Margt hefur breyst á þeim 13 árum sem liðin eru frá hinum eftirminnilega kosningaslag Bush og Clinton 1992. Þá var Netið ekki orðinn sá mikli þáttur í kosningabaráttu sem nú er. Nú hafa forsetaframbjóðendur allir vefsíður og eru með þær sem aðalmiðstöð baráttu sinnar og til að koma upplýsingum til almennings um kosningabaráttuna og birta þar skrif eftir sig.

Netvæðingin hefur verið hröð seinasta áratuginn og engin kosningabarátta háð á okkar tímum án notkunar Internetsins sem umfangsmikils fjölmiðils. Árið 1992 var ekkert slíkt til staðar, helst var komið upplýsingum út með viðtölum og fjöldafundum. Það er enn til staðar og hitt því hrein viðbót við umfangsmikla kosningabaráttu vestan hafs. Leiðir þetta til þess að frambjóðendurnir eru í enn meiri nálægð við almenning, kjósendur sína. Fréttamennska er ennfremur orðin harðari en var á þessum tíma og gengið mun nær frambjóðendum. Árið 1992 var staða Bush tekin að daprast eftir að hann náði sögulegu hámarki í skoðanakönnunum eftir Persaflóastríðið. Kosningabaráttan snerist að mestu leyti um efnahagsmál er á hólminn kom en ekki utanríkismál þar sem forsetinn var sterkastur fyrir. Ekki bætti úr skák að hann hafði gengið á bak orða sinna í mikilvægasta kosningaloforði sínu 1988, að hækka ekki skatta. Þekkt var frægt slagorð hans þá: Read my lips - no new taxes! Var þetta óspart spilað í kosningabaráttunni 1992 og frægt varð þegar gert var rapplag með þessum orðum og þau spiluð aftur og aftur. Þetta varð loforðið sem varð Bush að miklu leyti að falli. Kosningabaráttan varð í heildina mjög hörð og óvægin.

Myndin er góð heimild um þessa kosningabaráttu og kemst áhorfandinn í innsta kjarna kosningabaráttu Clintons og fylgist með mikilvægum augnablikum í kosningaslagnum. Þessi mynd er því í senn nauðsynlegur hluti stjórnmálasögunnar fyrir áhugamenn um pólitík og áhugaverð lýsing á pólitískum kosningaslag þar sem tekist var á um allt eða ekkert með ósvífnum hætti. Hvet ég alla þá sem unna bandarískri pólitík og lykilpunktum þessarar sögulegu kosningabaráttu árið 1992 að horfa á þessa mynd.

Saga gærdagsins
1244 Flóabardagi, eina sjóorrusta Íslendinga var háð á Húnaflóa. Bardaginn var háður á milli tveggja voldugra ætta, Sturlunga (undir forystu Þórðar kakala) og Ásbirninga (undir forystu Kolbeins unga).
1809 Danski ævintýramaðurinn Jörgen Jörgensen tók sér öll völd á Íslandi og lét fangelsa Trampe stiftamtmann og fleiri. Hann lýsti sig verndara landsins og hæstráðanda til sjós og lands. Hann sat á valdastóli í tæpa tvo mánuði. Enskur skipstjóri batt loks enda á valdaferil Jörundar þann 22. ágúst.
1985 Reynir Pétur Ingvarsson vistmaður á Sólheimum í Grímsnesi, lauk styrktargöngu sinni hringinn í kringum landið til styrktar starfinu á Sólheimum - gangan var 1.411 km. og tók hún rúmlega mánuð.
1988 Vigdís Finnbogadóttir endurkjörin forseti Íslands - hún sigraði Sigrúnu Þorsteinsdóttur með yfirburðum í kosningu og hlaut tæplega 93% greiddra atkvæða. Var það í fyrsta skipti sem sitjandi forseti Íslands fékk mótframboð og varð að heyja kosningabaráttu. Vigdís Finnbogadóttir var fyrst kjörin forseti Íslands í júní 1980 og sat Vigdís í embætti samfleytt í 16 ár, eða allt til 1. ágúst 1996.
1990 Elísabet II Englandsdrottning og Filippus hertogi af Edinborg, komu í heimsókn til Íslands.

Saga dagsins
1855 Gufuskip kom til Reykjavíkur í fyrsta skipti, það var danska gufuskipið Thor. Rúmlega tveim árum síðar kom fyrsta gufuskipið til Akureyrar. Það var þrímastrað dampskip að nafni H.M.S. Snake.
1885 Öxar við ána, ljóð Steingríms Thorsteinssonar við lag Helga Helgasonar, var flutt í fyrsta skipti við upphaf Þingvallafundar. Öxar við ána er án nokkurs vafa eitt fremsta ættjarðarljóð Íslendinga.
1963 John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna, flytur eftirminnilega ræðu við Berlínarmúrinn og lætur hin fleygu orð, Ich bin ein Berliner, falla. Kennedy forseti féll fyrir morðingjahendi síðar á sama ári.
1990 Popptónlistarmaðurinn Bob Dylan hélt ógleymanlega rokktónleika í Laugardalshöll í Reykjavík.
2003 Strom Thurmond fyrrum öldungadeildarþingmaður, deyr, 100 ára að aldri. Thurmond sat í öldungadeild Bandaríkjaþings lengur en nokkur þingmaður, í rúma hálfa öld eða nær til dauðadags.

Snjallyrðið
Að sigla inn Eyjafjörðinn,
það er yndislegt um vor,
í björtu veðri er býr sig fugl
við bjarg og klettaskor

Er sólin heit í heiði
baðar haf og dali og fjöll.
Í háum hamraborgum
heilsa okkur þjóðfræg tröll

Um háreist hamraskörðin
hoppa lömb í frið og spekt.
Að sigla inn Eyjafjörðinn,
það er óviðjafnanlegt.
Ómar Ragnarsson sjónvarpsmaður (1940) (Að sigla inn Eyjafjörðinn)

24 júní 2005

Punktar dagsins
Vegurinn um Lágheiði milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar

Í dag birtist ítarlegur pistill minn um umferðarmál á íhald.is. Í vikunni hófst þjóðarátak Vátryggingafélags Íslands gegn umferðarslysum. Er þetta fimmta sumarið í röð sem VÍS stendur fyrir því. Ekki veitir af því að minna á mikilvægi þess að fara varlega í umferðinni. Í átaki VÍS að þessu sinni er athyglinni að mestu beint að þeirri nöpru staðreynd að beint samhengi sé á milli of mikils hraða og alvarlegra afleiðinga umferðarslysa. Það er margsannað að meirihluti banaslysa í umferðinni verður á þjóðvegum landsins og slys utan borgar- og bæjarmarka eru jafnan mun alvarlegri en innan þéttbýlismarka. VÍS mun samhliða þessu þjóðarátaki standa fyrir auglýsingaherferð þar sem ökumenn eru hvattir til að draga úr hraðanum. Samhliða því verður vakin athygli á nýjum leiðbeinandi umferðarmerkjum sem Vegagerðin mun setja upp í sumar á hættulegum vegaköflum á landinu. Verða þau sett upp á svokölluðum svartblettum þar sem slysahætta er jafnan mjög mikil.

Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með fréttum seinustu vikna af alvarlegum slysum í umferðinni og dapurlegum örlögum fjölda fólks sem látið hefur lífið í þessum slysum. Nú þegar hafa 13 einstaklingar látið lífið á árinu í umferðarslysum. Sérstaklega hefur verið dapurlegt að heyra fréttir af skelfilegum umferðarslysum hér í nágrenni heimabæjar míns, Akureyri, en fjórir hafa látist í tveim hörmulegum slysum í Öxnadal seinustu vikur. Á árinu 2004 létu 23 einstaklingar lífið í 20 umferðarslysum. Ef marka má tölur sem kynntar voru við upphaf þjóðarátaksins hafa níu af 13 banaslysum á þessu ári orðið í dreifbýli, eða tæplega 70%. Árið 2004 urðu 65% banaslysa í dreifbýli. 70% banaslysa það sem af er þessu ári hafa orðið í dreifbýli. Þetta eru dapurlegar tölur sem þarna sjást. Á bakvið þessar nöpru tölur eru fjölskyldur í sárum - einstaklingar í sorg vegna sorglegs fráfalls náinna ættingja. Fer ég annars ítarlega yfir þessi mál í pistlinum og hvet fólk til að lesa hann.

Cinema Paradiso

Kvikmyndin verður eilíf, ég tel það allavega. Þetta er það listform sem hefur sameinað kynslóðirnar í rúma öld og heillað þær, sagt sögur og mótað fólk verulega. Áhrifamáttur kvikmyndanna er gríðarlegur. Varla er hægt að vera annarrar skoðunar eftir að hafa séð ítölsku kvikmyndina Cinema Paradiso. Þetta heillandi meistaraverk hlaut óskarinn sem besta erlenda kvikmyndin árið 1989 og fær alla sem hana sjá til að njóta kvikmyndagerðalistarinnar og gerir okkur öll að ég tel betri og mannlegri - við gleymum okkur í hugarheimi kvikmyndanna meðan myndin stendur. Slíkur er kraftur hennar. Þessi mynd hefur alltaf heillað mig og tónlist meistara Ennio Morricone í myndinni er sérstaklega eftirminnileg, eins og öll hans verk. Uppúr stendur Love Theme sem er að mínu mati fallegasta kvikmyndastef 20. aldarinnar, hvorki meira né minna. Segir frá frægum kvikmyndagerðarmanni sem snýr aftur til æskuslóða sinna á Sikiley eftir 30 ára fjarveru. Þar rifjast upp fyrir honum æskuárin og hvernig hann kynntist töfraheimi kvikmyndanna.

Hann vingaðist í æsku við sýningarstjórann í bíóinu, Alfredo, og stelst í bíóið til að gleyma innri veikleikum og raunveruleika hins ytri heims. Hann tekur síðar við starfi þessa læriföður síns og fetar slóðina í átt að frægð með því að gerast kvikmyndagerðarmaður. Líf hans snýst því allt frá æskuárum um kvikmyndina, listformið og það að finna hinn rétta tón í að njóta kvikmyndarinnar, en það er viss list útaf fyrir sig. Giuseppe Tornatore skapar hér sannkallaðan gullmola, spinnur heillandi andrúmsloft og sprelllifandi persónur. Fylgst er með reisn og hnignun kvikmyndanna á hálfrar aldar tímabili, en það var svo sjónvarpið sem drap kvikmyndahúsið sem Salvatore naut í æsku. Mikil kaldhæðni. Þetta er mynd sem er unnin af næmleika og óblandinni lotningu fyrir listgreininni - hér er lífið svo sannarlega kvikmynd. Þú munt sjá lífið í öðru ljósi þegar myndinni lýkur. Ef þú ert ekki kvikmyndaunnandi fyrir verðurðu það að lokinni myndinni. Töfrar í sinni bestu mynd. Þessa verða allir sannir kvikmyndaunnendur að sjá! Ólýsanlega góð kvikmynd.

Hrísey

Sumarferð okkar sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi verður farin um næstu helgi, laugardaginn 2. júlí. Að þessu sinni munum við halda út í Hrísey og skemmta okkur vel saman. Þar verður borðað saman, farið í skoðunarferð um eynna, sungið saman og haft það notalegt í góðra vina hópi. Hvet ég alla sjálfstæðismenn í kjördæminu til að skrá sig í ferðina og skella sér með okkur í þessa ferð. Það er alltaf gaman að hitta flokksfélaga sína og eiga skemmtilega stund. Alltaf er gaman að fara til Hríseyjar. Nú er reyndar eyjan orðin hluti af Akureyrarbæ, en ár er nú um helgina frá því að sameining Akureyrar og Hríseyjar var samþykkt með afgerandi hætti. Það verður því notalegt og gott fyrir okkur akureyska sjálfstæðismenn að taka á móti flokksfélögum okkar í kjördæminu út í eyju, í sveitarfélaginu okkar eftir viku. Ég hlakka til að sjá mæta félaga þar á góðri stund.

ESB-krísunni vel lýst :)

Vandræðin og pólitíska krísan í ESB þessar vikurnar blasir við öllum. Bresku grínteiknararnir hjá Guardian hafa verið iðnir við að tjá stöðuna þar með skondnum grínteikningum. Þessi mynd hér er engin undantekning frá því og hún segir sína sögu sjálf. :)

Saga dagsins
1000 Kristin trú var lögtekin á Alþingi á Þingvöllum - átök höfðu verið milli kristinna og heiðingja um þessar breytingar en Þorgeir Þorkelsson Ljósvetningagoði, úrskurðaði þá að allir menn skyldu verða kristnir og friður yrði að ríkja milli þessara tveggja hreyfinga. Sátt náðist loks um þá niðurstöðu.
1865 Keisaraskurði var beitt í fyrsta skipti af Jóni Hjaltalín - barnið lifði aðgerðina en móðirin ekki.
1886 Góðtemplarar stofnuðu Stórstúku Íslands til að berjast einkum fyrir bindindi á áfenga drykki.
1934 Gunnar Thoroddsen var kjörinn til þingsetu - Gunnar var þá 23 ára gamall og er hann yngstur þeirra sem hafa hlotið kjör til þings - Gunnar varð einn af virtustu stjórnmálamönnum 20. aldarinnar. Hann varð á löngum ferli borgarstjóri, fjármálaráðherra, félagsmálaráðherra, iðnaðarráðherra og loks varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hann var forsætisráðherra 1980-1983. Gunnar lést haustið 1983.
1994 Jóhanna Sigurðardóttir sagði af sér embætti félagsmálaráðherra, vegna pólitísks ágreinings við Jón Baldvin Hannibalsson en hún hafði tapað formannskjöri innan Alþýðuflokksins við Jón skömmu áður. Afsögn Jóhönnu leiddi til klofnings flokksins, myndunar nýs flokks Jóhönnu, Þjóðvaka, og að lokum endaloka stjórnarsetu Alþýðuflokksins í apríl 1995. Klofningurinn skaðaði Jón og Jóhönnu.

Snjallyrðið
Hér sit ég einn og sakna þín.
Með sorg í hjarta drekk ég vín.
Og mánaljósið líkfölt skín
á legubekkinn minn.
Og aleinn sit ég þar í þetta sinn.

Hve ást þín mig á örmum bar.
Hve innileg vor gleði var,
er saman tvö við sátum þar,
svo saklaus, góð og hrein,
sem fuglar tveir, er syngja á sömu grein.

Og alltaf skal ég að því dást,
að enn skuli mitt hjarta þjást
af sömu þrá og sömu ást,
þótt sértu farin burt,
þótt sértu farin fyrir löngu burt.

Hún þykir fágæt þessi dyggð.
Ég þekki enga slíka tryggð.
En tíminn læknar hugans gryggð
og hylur gömul sár,
en sumum nægir ekki minna en ár.
Tómas Guðmundsson skáld (1901-1983) (Tryggð)

23 júní 2005

Punktar dagsins
Baldurshagi

Þessa dagana er hafin af fullum krafti jarðvegsvinna á Baldurshagareitnum svokallaða hér á Akureyri. Þar munu brátt rísa tvær sjö hæða blokkir. Vinna við að taka grunn annarrar blokkarinnar er komin langt á veg. Það var í lok síðasta árs sem bæjarstjórn Akureyrar ákvað að hafna upphaflegri tillögu sem gerði ráð fyrir 12 hæða húsi á Baldurshagareitnum. Seinasta árið hefur málefni Baldurshagareitsins verið eitt helsta umræðuefnið í bæjarmálum hér. Á fundi bæjarstjórnar, 10. ágúst sl. samþykkti meirihluti bæjarfulltrúa að heimila verktaka að láta gera deiluskipulag á lóðinni, á fundi þann 5. október sl. samþykkti svo bæjarstjórn tillögu umhverfisráðs um breytingu á aðalskipulagi svæðisins umhverfis Baldurshaga sem gerði ráð fyrir að breyta óbyggðu svæði og almennu útivistarsvæði í íbúðarsvæði. Fór tillagan þá á borð Skipulagsstofnunar til athugunar. Í desember samþykkti svo bæjarstjórn eins og fyrr segir að hætta við byggingu 12 hæða húss og þess í stað kæmi á teikniborðið tvær sjö hæða blokkir. Niðurstaða málsins liggur nú fyrir og erum við hér í hverfinu því farin að horfa á byrjun framkvæmda á reitnum.

Hart hefur verið tekist á um málið. Í margra augum var um mikið tilfinningamál að ræða, hvort reisa ætti fjölbýlishús þar sem nú stendur lítið, gamalt íbúðarhús með nafninu Baldurshagi. Það er og hefur alla tíð verið grunnatriði að minni hálfu í málinu að byggt skuli á þessum reit. Deila mátti hinsvegar um lögun þess húss sem á teikniborðinu var og hvort það hentaði inn í byggðamyndina í nánasta nágrenni, en óneitanlega stakk hugmyndin í stúf við annað í hverfinu og var þónokkuð áberandi. Hef ég búið nokkurn tíma nú í Þórunnarstrætinu og tel rétt að byggja á þessum reit. Eins og fram hefur komið er mikill áhugi fyrir því að búa á þessum stað. Ekki þarf að undrast það, stutt er í verslanir og miðbæinn. Um er að ræða hjarta bæjarins. Allir þeir sem koma á þetta svæði skilja vel af hverju fólk vill búa svo nálægt miðbænum og þjónustukjarnanum á Glerártorgi. Sjálfur bý ég á þessu svæði og tel þetta besta staðinn í bænum. Miðbærinn er í göngufjarlægð, stutt er í verslanir og alla þjónustu. Þannig að ekki undrast ég af hverju byggt er á þessu svæði og ekki er ég heldur hissa á því að íbúðirnar í þessum fjölbýlishúsum seljist svo vel sem raun ber vitni.

En þessu máli virðist nú lokið. Vinnuvélar eru komnar hér á reitinn rétt fyrir neðan þar sem ég bý og væntanlega er stutt í að þetta gamla hús hverfi. Vissulega er eftirsjá af svo gömlu húsi sem sett hefur svip á sögu bæjarins og hér á Brekkunni. En í stað þess að horfa upp á húsið drabbast niður og reitinn ekki síður mun nú þar rísa öflug byggð, tvö glæsileg fjölbýlishús sem munu ekki síður setja svip sinn á svæðið hér. Ég fagna því að þessi hús munu brátt rísa.

Sjálfstæðisflokkurinn

Stjórn Varðar kom saman til fundar á þriðjudagskvöld, til þess að ræða málefni Sambands ungra sjálfstæðismanna, en sambandsþing SUS verður haldið í septembermánuði. Á fundinum samþykkti stjórnin eftirfarandi yfirlýsingu:

"Stjórn Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, lýsir yfir stuðningi við framboð Borgars Þórs Einarssonar til formennsku í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Vörður hvetur unga sjálfstæðismenn um land allt til að vinna sameinuð af krafti að undirbúningi komandi sveitarstjórnar- og alþingiskosninga sem framundan eru á næsta starfstímabili SUS. Með samstöðu að leiðarljósi og því að vinna sameinuð að þeim verkefnum sem framundan eru munum við ná að uppskera vel fyrir flokk okkar. Ungliðar í Norðausturkjördæmi stefna að því að vinna sameinuð á næstu tveim árum að undirbúningi þessara kosninga með stofnun kjördæmasambands ungliða í flokknum á kjördæmisþingi flokksins í september."

Framundan er eins og fyrr segir í þessari yfirlýsingu stjórnar félagsins stofnun kjördæmasambands ungliða í Norðausturkjördæmi. Það mun að mati okkar í stjórninni skapa mikilvægan samstarfsvettvang fyrir öll ungliðafélögin í kjördæminu til þess að vinna að sameiginlegum verkefnum af krafti en umfram allt í sameiningu. Þar þarf að vinna sameinuð að undirbúningi tveggja gríðarlega mikilvægra kosninga sem þurfa að vinnast bæði sameinað og samhent. Hér þarf að taka til hendi og efla starfið og það verður að vinnast með samhentum hætti. Það er von mín að ungliðahreyfingu Sjálfstæðisflokksins beri gæfa til að vinna sameiginlega að þeim verkefnum sem mestu skipta. Ég hef alla tíð unnið í Sjálfstæðisflokknum af heilindum og með það að leiðarljósi að vinna flokknum gagn, skrifað þar greinar og unnið af krafti að þeim verkefnum sem skipt hafa flokkinn miklu máli.

The China Syndrome

Ég horfði í gærkvöldi á kvikmyndina The China Syndrome. Vel gerð kvikmynd sem vann hug og hjörtu kvikmyndaaðdáenda árið 1979, og var ennfremur tilnefnd til sex óskarsverðlauna. Í henni er sagt frá tilraun yfirmanna kjarnorkuvers í Kaliforníu til að hylma yfir bilun í verinu en sjónvarpsfréttamenn komast brátt á snoðir um að eitthvað mikið sé að. Sérlega spennandi og vönduð dramatísk mynd í bland með stórkostlegum leik allra aðalleikaranna sem hittir beint og ákveðið í mark. Sérlega áhrifarík stórmynd sem er ekki einungis fagur velluboðskapur heldur raunsæ og ákveðin í allri túlkun og setur fram blákaldar staðreyndir um hörmungar sem myndu hljótast af (mögulega eða jafnvel) væntanlegu kjarnorkuslysi og af eyðileggingarmætti kjarnorkunnar og af vita vonlausu samsæri yfirmanna kjarnorkuversins til þess að reyna að þegja málið í hel. Myndin verður enn áhrifameiri vegna þess hversu látlaus hún er í uppbyggingu og framsetningu. Til dæmis er engin kvikmyndatónlist í myndinni. Lokahluti myndarinnar er mjög áhrifaríkur og í heildina má segja að myndin sé þrælpólitísk og einlæg allt í gegn.

Hér fara þau öll á kostum óskarsverðlaunaleikarnir: Jack Lemmon, Jane Fonda og Michael Douglas. Lemmon er stórfenglegur í hlutverki hins samviskusama og úrræðagóða yfirmanns í kjarnorkuverinu. Stjörnuleikur hjá einum af bestu leikurum seinustu aldar. Glansar í erfiðu hlutverki. Ekki er Fonda síðri í hlutverki hinnar gallhörðu og úrræðagóðu sjónvarpsfréttakonu, og vinnur hún sífellt betur á með hverri þraut. Eitt af bestu hlutverkum hennar. Douglas er sterkur í hlutverki hins traustlynda og vinnufúsa sjónvarpsupptökumanns. Það er semsagt úrvalsleikur sem ekki síst einkennir og mótar þessa úrvalsmynd. Þau eru öll mjög sannfærandi og gera það að verkum að myndin er sífellt spennandi og vel úr garði gerð. Lokamínúturnar eru mjög spennandi og eru með áhrifaríkustu lokamínútum í kvikmynd. Myndin fékk aukið vægi þegar alvöru kjarnorkuslys átti sér stað tæpri viku eftir frumsýningu myndarinnar, á Þriggja mílna eyju, og orsakaði að myndin setti sýningarmet yfir frumsýningavikuna, sem hélst allt þar til stjörnustríðsmyndin The Empire Strikes Back var frumsýnd, árið eftir. Sterk og öflug mynd - fyrir sanna kvikmyndaunnendur.

Bob Woodward - Plan of Attack

Undanfarna daga hef ég verið að lesa athyglisverða bók, Plan of Attack eftir Bob Woodward. Bókin fjallar um aðdraganda innrásar Bandamanna í Írak og eftirmála falls stjórnar Saddams Husseins í apríl 2003. Bókin er virkilega vönduð og skemmtileg til lestrar og fræðandi. Fer Woodward yfir marga þætti tengda málinu og veltir upp atriðum og staðreyndum sem ekki lágu fyrir áður. Fjallar hann um málið frá hlið bæði þeirra sem voru hlynntir og andvígir innrásinni í Írak og kemur með athyglisverðan vinkil á málið. Woodward er einn þekktasti blaðamaður og fréttaskýrandi Bandaríkjanna. Woodward er kunnastur fyrir að hafa ásamt félaga sínum á The Washington Post, Carl Bernstein, náð að vekja athygli á þætti nánustu aðstoðarmanna Nixons Bandaríkjaforseta, í innbrotinu í Watergate-bygginguna í júní 1972, sem lauk með því að Richard Nixon sagði af sér embætti forseta Bandaríkjanna, fyrstur manna, í ágúst 1974. Sú saga var sögð í verðlaunamyndinni All the President?s Men, árið 1976. Ég hvet alla til að kynna sér feril Woodwards með því að horfa á myndina og ekki síður lesa bókina, sem er mögnuð heimild um eitt mesta hitamál seinustu ára á vettvangi alheimsstjórnmála.

Pólitísk krísa í ESB :)

Vandræðin og pólitíska krísan í ESB þessar vikurnar blasir við öllum. Bresku grínteiknararnir hjá Guardian eru oft fljótir að sjá meginpunkta stjórnmálanna með gamansömum hætti. Það tókst þeim svo sannarlega í þessari kostulegu mynd. :)

Saga gærdagsins
1906 Óskarsverðlaunaleikstjórinn Billy Wilder fæðist í Póllandi - Wilder lést í marsmánuði 2002.
1939 Mesti hiti sem þá hafði mælst á Íslandi, 30,5°C, mælist í Berufirði - metið stóð allt til 1976.
1941 Nasistar ráðast inn í Sovétríkin - þeir náðu fyrst miklum árangri þar en hörfuðu síðan frá.
1963 Páll VI kjörinn páfi í kosningu kardinála í Róm - hann sat á páfastóli til dauðadags árið 1978.
1987 Óskarsverðlaunaleikarinn og dansarinn Fred Astaire deyr í Los Angeles, 88 ára að aldri.

Saga dagsins
1926 Jón Magnússon forsætisráðherra, deyr sviplega á Norðfirði, 67 ára að aldri. Hann hafði fylgt Kristjáni 10. Danakonungi í ferð um Norður- og Austurland. Jón varð fyrst forsætisráðherra 1917 og sat til 1922 og frá 1924 til dánardags. Eftirmaður Jóns á forsætisráðherrastóli varð Jón Þorláksson.
1974 Mesti hiti sem mælst hefur á Akureyri, 29,4°C - þetta met í hita hér á Akureyri stendur enn.
1977 Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal opnaður - var reistur í tilefni 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar.
1985 Boeing 747 flugvél springur í loft upp yfir Írlandi - 329 manns létu lífið í þessu mikla flugslysi.
1995 Björgunarþyrlan TF-Líf kom til landsins - koma hennar markaði þáttaskil í björgunarmálum hér.

Snjallyrðið
Og andinn mig hreif upp á háfjallatind
og ég horfði sem örn yfir fold
og mín sál var lík í tærri, svalandi lind,
og ég sá ekki duft eða mold.

Mér þótti sem hefði ég gengið upp gil
fullt með grjótflug og hræfugla-ljóð,
fullt með þokur og töfrandi tröllheima-spil,
unz á tindinum hæsta ég stóð.

Mér þótti sem hefði ég þolað allt stríð,
allt, sem þola má skjálfandi reyr,
og mér fannst sem ég þekkti ekki háska né hríð,
og að hjarta mitt bifðist ei meir.
Matthías Jochumsson prestur og skáld á Akureyri (1835-1920) (Leiðsla)

21 júní 2005

Punktar dagsins
Jacques Chirac og Tony Blair

Eins og allir vita sem fylgjast með stjórnmálum ríkir kreppa innan Evrópusambandsins í kjölfar þess að engin samstaða náðist milli helstu forysturíkja sambandsins á leiðtogafundi ESB í Brussel í síðustu viku. Erjur hafa verið innan sambandsins síðan að Frakkar og Hollendingar felldu stjórnarskrá ESB í þjóðaratkvæðagreiðslum fyrir nokkrum vikum. Fram kom er slitnaði uppúr milli landanna djúpstæður ágreiningur um næstu skref og markmið Evrópusambandsins. Náðist ekki samkomulag um samræmingu vegna stjórnarskrárferlisins og það sem verra var fyrir grunn ESB að ekki náðist samstaða um samkomulag um fjárlög sambandsins. Í viðtölum að loknum fundinum kenndi Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, þeim Jacques Chirac forseta Frakklands, og Gerhard Schröder kanslara Þýskalands, um að vera fasta í fortíðinni við að ræða vandamál ESB. Á móti kenndu þeir Blair um að hafa verið ófáanlegur til samstarfs um þeirra mikilvægustu verkefni. Djúpstæður ágreiningur er því milli leiðtoganna þriggja um næstu skref innan Evrópusambandsins. Algjör pólitísk krísa er því í stöðunni.

Segja má að ágreiningur milli leiðtoganna þriggja sé ekki nýr af nálinni. Þeir tókust harkalega á í Íraksstríðinu fyrir tveim árum þegar að breska ríkisstjórnin fylgdi þeirri bandarísku að málum. Þá ríkti kalt stríð milli Blair og leiðtoganna tveggja sem stóðu sameinaðir gegn stríðinu og ákvörðunum Blair og Bush. Seinustu mánuði hafði aftur byggst brú milli landanna þriggja og samstarfið skánað til muna. Svo virðist vera sem að synjun Frakka hafi leitt til versnandi samskipta og kuldalegri að nýju. Segja má að átökin hafi kristallast í ágreiningi leiðtoganna þriggja fyrir opnum tjöldum á fundinum og á blaðamannafundum eftir að ljóst varð að ekkert samkomulag hafði náðst. Jack Straw utanríkisráðherra Bretlands, sagði reyndar eftir fundinn að í Evrópu væru tvær fylkingar. Nefndi hann þær með þeim hætti að þeir skiptust eftir því hvort menn vildu Evrópusamband sem gæti tekist á við framtíðina, eða hvort menn vildu Evrópusamband sem væri fast í fortíðinni. Ágreiningurinn er því mjög djúpstæður og sést best af því hvernig menn túlkuðu fundinn með gjörólíkum hætti og voru ósammála algjörlega um megingrundvöll þess sem framundan væri.

Staðan er einfaldlega þannig að enginn veit með vissu hvað tekur við. Evrópusambandið er að upplifa sína mestu krísutíma í háa herrans tíð. Samstaða er ekki um framtíðina og tekist á um megingrundvöll Evrópusamstarfsins fræga. Við fylgjumst öll spennt á næstunni með þeirri jarðskjálftavirkni sem nú vofir yfir heimasvæði ESB-tröllsins, reglugerðarsambands allra tíma.

Akureyri

Notaleg dagskrá var í bænum á þjóðhátíðardeginum 17. júní. Var mjög þægilegt að labba um bæinn og líta á dagskrána. Fékk ég heimsókn frá vini mínum um helgina og áttum við mjög gott spjall og þægilega stund hérna og litum á stemmninguna í bænum. Að kvöldi 17. júní fórum við á kvöldvöku sem haldin var til heiðurs skáldum bæjarins í brekkunni við Sigurhæðir, hús sr. Matthíasar Jochumssonar prests og skálds. Örn Ingi Gíslason stjórnaði athöfninni. Þar var ávarp um skáld bæjarins flutt af Erlingi Sigurðarsyni forstöðumanni Sigurhæða, flutt voru falleg ljóð skálda bæjarins, falleg tónlist og hagyrðingar komu með skondnar vísur. Hápunkturinn var þegar Óskar Pétursson söngvari, flutti lag Jóhanns Ó. Haraldssonar við ljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi: Sigling inn Eyjafjörð. Söng hann það án undirleiks. Óskar er einn af bestu söngvurum okkar Akureyringa í dag og sannaði hann það með kraftmiklum flutningi sínum án undirleiks á þessu fallega lagi við glæsilegt ljóð Davíðs. Þetta var annars hin notalegasta helgi hér fyrir norðan.

Á morgun hefst Listasumar 2005 með setningarathöfn í miðbænum. Kl. 13:00 hefst alþjóðlega leiklistarhátíðin "Leikum núna" með opnunarsýningu. Á Ráðhústorginu kl. 14.30 verður formleg opnun á leiklistarhátíðinni þar sem verndari hátíðarinnar, Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, flytur opnunarræðu. Formleg setning Listasumars 2005 verður í Ketilhúsinu kl. 16 í boði breska sendiráðsins á Íslandi. Ávörp munu þar flytja þau Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi og formaður menningarmálanefndar Akureyrarbæjar, og Alp Mehmet sendiherra Bretlands á Íslandi. Á dagskránni verða einnig tónlistaratriði þar sem fram koma: Sigríður Aðalsteinsdóttir mezzósópran og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari, flytja létta klassíska tónlist, María Gunnarsdóttir söngkona, og Eiríkur Stephensen gítarleikari, flytja leikhústónlist frá ýmsum þjóðlöndum. Kaldo Kiis tónlistarmaður og Margot Kiis söngkona, flytja létt djass og dægursveiflu. Það verður notaleg athöfn semsagt í miðbænum og skemmtilegt að fylgjast með upphafi Listasumars að þessu sinni, sem ávallt fyrr.

The Remains of the Day

Horfði í gærkvöldi á bresku úrvalsmyndina The Remains of the Day. Myndin er byggð á samnefndri bók Kazuo Ishiguro. Um framleiðslu og leikstjórn sá tvíeykið Merchant (sem er nýlega látinn) og Ivory, mennirnir sem stóðu að meistaraverkunum Howards End og A Room with a View en Ruth Prawer Jhabvala skrifaði handritið að þeim myndum, rétt eins og þessari. Hér segir frá hinum trúfasta og húsbóndaholla bryta, James Stevens sem þjónar í sögubyrjun Bandaríkjamanninum Lewis á breska hefðarsetrinu Darlington Hall. Stevens varði mestum hluta ævi sinnar í þjónustu Darlington lávarðar, en hann hélt á heimili sínu marga alþjóðlega fundi árin 1936-1939 þar sem hann reyndi að hafa milligöngu um sættir þeirra þjóða sem deildu að lokum hart í seinni heimstyrjöldinni á árunum 1939-1945. Í byrjun myndarinnar er Darlington fallinn frá og Stevens eins og fyrr segir kominn undir stjórn nýs húsbónda. Honum er jafnframt orðið ljóst að trúmennska hans og hollusta ásamt blindri skyldurækni sinni, hefur kostað hann lífshamingjuna og hrakið á brott einu konuna sem bæði vildi eiga hann og þótti í raun vænt um hann.

Hann tekur sér ferð á hendur norður í land, þar sem hann hefur í hyggju að hitta þessa konu, en á meðan er rifjuð upp saga hans og starfsfólksins á Darlington Hall, en konan sem hann hyggst hitta er fröken Sally Kenton, en hún starfaði sem ráðskona á hefðarsetrinu undir stjórn hans á þeim tíma sem áður er lýst, þ.e.a.s. árunum fyrir seinni heimsstyrjöldina. Stevens varð þá ástfanginn af henni, en þorði ekki að segja henni hug sinn, en hún giftist öðrum manni. Hún hefur nú skilið við eiginmann sinn og hyggst Stevens reyna í seinasta sinn að vinna hug hennar. Hann vill ekki að það verði um seinan. En tekst honum að vinna ástir hennar... Frábær mynd. Handrit, tónlist, sviðsetningin og leikstjórnin er frábær, en aðall hennar er leikur aðalleikaranna. Sir Anthony Hopkins er frábær í hlutverki hins skyldurækna yfirþjóns á hefðarsetrinu og hefur hann sjaldan leikið betur. Emma Thompson er einnig stórkostleg í hlutverki ráðskonunnar fröken Kenton. Bæði voru tilnefnd til óskarsverðlaunanna. Semsagt; einstök kvikmynd sem ég mæli eindregið með að þeir kynni sér sem ekki hafa séð hana. Hún er meistaravel gerð og stórfenglega leikin af tveimur einstökum leiksnillingum.

Fall Berlínarmúrsins 1989

Í gærkvöldi horfði ég á einn þátt úr þáttaröð CNN: The Cold War. Þar var um að ræða þátt um fall Berlínarmúrsins. Má fullyrða að fall múrsins þann 9. nóvember 1989 hafi verið eitt skýrasta tákn þess að kalda stríðið væri á enda og kommúnisminn í Evrópu væri að geispa golunni. Með falli múrsins birtust fyrstu skýru merki endaloka kommúnistastjórna um mið-Evrópu. Nokkrum dögum eftir fall múrsins féll A-þýska kommúnistastjórnin og hinar fylgdu síðar ein af annarri. Endalok kommúnistastjórnanna urðu misjafnlega friðsamlegar í þessum löndum. Í A-Þýskalandi féll stjórnin með mjúkum hætti, en t.d. í Rúmeníu kom til valdaskipta með harkalegum hætti og aftöku á forsetahjónum landsins t.d. Múrinn var reistur árið 1961 til að koma í veg fyrir fólksflótta frá A-Þýskalandi til V-Berlínar og varð hann á þeim 28 árum sem hann stóð ein af allra helstu táknmyndum kalda stríðsins. Á þessum 28 árum og í kalda stríðinu voru rúmlega 1.000 A-Þjóðverjar drepnir á flótta til vesturs.

9. nóvember verður í sögubókunum ávallt dagur sem markar bæði sigur frelsis og lýðræðis í heiminum. Endalok Berlínarmúrsins markaði alheimsþáttaskil, fáum hefði órað fyrir að fall hans yrði með jafnrólegum hætti og raun bar vitni. Fólkið vann sigur gegn einræðisherrum og einræði með eftirminnilegum hætti þennan dag. Ég gleymi aldrei þessum degi og þáttaskilunum. Ég var 12 ára þegar þessi þáttaskil urðu. Svipmyndirnar af almenningi hamrandi með sleggjum og hömrum á múrnum gleymast aldrei. Eftirminnilegust er þó myndin af vinnuvélunum fella bita úr múrnum og þegar fólkið gekk yfir. Frelsið hafði náð til hinna þjáðu kommúnistaríkja. Þetta voru að mínu mati hin stærstu þáttaskil endaloka kommúnismans. Einræðið var drepið þetta októberkvöld í Berlín. Slíkt augnablik gleymist að sjálfsögðu aldrei. Allavega man ég eftir þessum degi eins og hann hefði verið í gær. Sagan var þarna að gerast - atburður sem hóf dómínófall kommúnismans. Það er enn í dag gleðiefni að horfa á þessi miklu umskipti. Hvet alla til að sjá þessa þætti.

Tony Blair í aðalhlutverki í ESB :)

Um mánaðarmótin tekur Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, við forsæti í ESB. Eins og flestir vita var mjög deilt á leiðtogafundi ESB í síðustu viku. Bresku grínteiknararnir hjá Guardian voru ekki lengi að sjá spaugilegu hliðina á vegtyllu Blair innan ESB og stefnu hans er fram kom á leiðtogafundinum. :)

Saga dagsins
1959 Sigurbjörn Einarsson vígður biskup. Hann sat á biskupsstóli allt til 1981, lengst allra á öldinni.
1973 Þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum, var stofnaður - hann nær allt frá Dettifossi niður að Ásbyrgi.
1991 Perlan í Öskjuhlíð, útsýnis- og veitingahús Hitaveitu Reykjavíkur, var formlega tekið í notkun.
1999 Keizo Obuchi forsætisráðherra Japans, kom í opinbera heimsókn til Íslands, fyrstur af öllum forsætisráðherrum landsins - Keizo Obuchi lést af völdum heilablóðfalls ári síðar, þá 62 ára að aldri.
2000 Síðari Suðurlandsskjálftinn ríður yfir - hann mældist 6,6 stig á Richter. Fyrri jarðskjálftinn var 17. júní 2000. Mikið tjón varð víða á Suðurlandi vegna þessara hamfara og skemmdust hús á Hellu.

Snjallyrðið
Loks eftir langan dag
lít ég þig, helga jörð.
Seiddur um sólarlag
sigli ég inn Eyjafjörð.
Ennþá á óskastund
opnaðist faðmur hans.
Berast um sólgyllt sund
söngvar og geisladans.

Ástum og eldi skírð
óskalönd birtast mér.
Hvílíka drottins dýrð
dauðlegur maður sér!
Allt ber hér hinn sama svip;
söm er hin gamla jörð.
Hægara skaltu skip,
skríða inn Eyjafjörð.

Allt það, sem augað sér,
æskunnar hörpu knýr,
syngur og segir mér
sögur og ævintýr.
Mild ertu, móðir jörð.
Margt hefur guð þér veitt.
Aldrei ég Eyjafjörð
elskaði nógu heitt.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Sigling inn Eyjafjörð)

19 júní 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um umræðu seinustu daga um það hvort að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, hafi verið vanhæfur í einkavæðingarferli ríkisbankanna vegna tengsla sinna við fyrirtækið Skinney-Þinganes á Hornafirði. Það fyrirtæki er eitt þeirra sem eiga fyrirtækið Hesteyri sem er stærsti hluthafinn í Keri sem var hluti af S-hópnum sem keypti Búnaðarbankann á sínum tíma. Stjórnarandstaðan réðist að Halldóri vegna málsins og Ríkisendurskoðun sá ástæðu til að kanna málið. Niðurstaða Ríkisendurskoðunar var kynnt í byrjun vikunnar. Er það mat Ríkisendurskoðunar að Halldór hafi ekki verið vanhæfur. Fjalla ég ítarlega um umræðuna um málið, niðurstöðu minnisblaðs Ríkisendurskoðunar um það og stöðu þess nú. Ekki má leika neinn vafi á því hvort forsætisráðherra hafi verið hæfur í málinu. Því er ekki óeðlilegt að lögfræðileg athugun fari fram. Mér þykir sem ekki hafi öllum spurningum í málinu verið svarað. Það er best fyrir Halldór sjálfan að málið sé klárað með ákveðnum hætti og ætti varla að vera erfitt að kanna lögfræðilega túlkun málsins.

- í öðru lagi fjalla ég um mótmæli virkjunarandstæðinga sem réðust að ráðstefnugestum í Reykjavík með grænlituðu skyri og mótmæltu almennt stóriðju. Það er mjög alvarlegt mál að fólk geti ekki haldið ráðstefnur eða aðrar opnar samkomur án þess að það eigi á hættu að vera truflað með þessum hætti. Merkilegt var að sjá Elísabetu Jökulsdóttur og Geir Jón Þórisson í Kastljósviðtali í vikunni. Þar talaði Elísabet með þeim hætti að eðlilegt væri að grípa til svona aðgerða til að tjá skoðanir sínar og sá ekkert athugavert við vinnubrögðin. Mátti helst skilja á henni að brjóta mætti lög og gera hvað sem væri til að mótmæla í þessu máli. Engin mörk væru á því. Þessar skoðanir Elísabetar eru með ólíkindum. Ég hef jafnan haft lítið álit á málflutningi andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar og álveri við Reyðarfjörð. Geir Jón kom með rétta punktinn er hann spurði Elísabetu beint út hvort það væri þá innan markanna sem hún setti sér jafnvel að valda öðru fólki tjóni beint með því að tala gegn Kárahnjúkavirkjun og álveri við Reyðarfjörð. Fer ég yfir málið og skoðanir mínar á stóriðjuandstæðingunum almennt.

- í þriðja lagi fjalla ég á kvenréttindadeginum um 90 ára afmæli kosningaréttar kvenna. Í dag eru liðnir níu áratugir frá því að Kristján 10. konungur Danmerkur og Íslands, undirritaði lög sem veittu konum á Íslandi, eldri en 40 ára, rétt til að kjósa og bjóða sig fram til Alþingis. Þetta er því merkilegur dagur í sögu landsins og ekki síður merkilegur dagur í sögu jafnréttisbaráttu íslenskra kvenna. Þá öðluðust íslenskar konur mikilvægt skref til jafnréttis. Ég vil í tilefni dagsins óska konum til hamingju á kvenréttindadeginum með 90 ára afmæli kosningaréttar þeirra. Það er við hæfi að minnast tímamótanna.


Pólitíska ræman
All the King's Men

Í All the King's Men er sögð saga stjórnmálamannsins Willie Stark sem rís upp úr litlum efnum, nemur lögfræði og gefur kost á sér til stjórnmálastarfa. Hann er kosinn sem leiðtogi í stéttarfélagi og nær þannig að vekja á sér athygli með því að komast í sveitarstjórn svæðisins. Hann reynir því næst að komast í ríkisstjórastólinn og tekst það í annarri tilraun, en í þeirri fyrri höfðu valdamiklir menn barist gegn honum, en í seinna skiptið samdi hann við andstæð öfl til að hljóta stuðning. Með þessu opnar hinn heiðarlegi Willie veginn fyrir því að kaupa sér stuðning og kemst í óvandaðan félagsskap. Brátt kemur að því að samstarfsfólk ríkisstjórans heiðarlega fer að taka eftir því að hann er bæði orðinn óheiðarlegur og siðspilltur og hefur umturnast í argaþrasi stjórnmálanna. Einstaklega góð mynd sem hlaut óskarinn sem besta kvikmyndin árið 1949. Ætti að henta öllu stjórnmálaáhugafólki.

Skólabókardæmi um það hvernig stjórnmálamaður getur fallið í freistni, farið af leið og endað sem andstæða þess sem stefnt var að: óheiðarlegur og spilltur. Broderick Crawford fer á kostum í hlutverki Willies, sem var hlutverk ferils hans, en hann hlaut óskarsverðlaunin fyrir heilsteyptan leik, ennfremur Mercedes McCambridge sem stelur senunni í hlutverki hjákonu Willies. John Ireland er svo eftirminnilegur ennfremur í lágstemmdu hlutverki sögumannsins Jack Burden, sem rekur upphaf, hátind og að lokum fall stjórnmálamannsins Willie Stark, sem að lokum verður andstæða alls þess í stjórnmálum sem hann stefndi að í upphafi. Óviðjafnanleg mynd sem allir stjórnmálaáhugamenn verða að sjá, þó ekki væri nema einu sinni. Hún er lífslexía fyrir alla stjórnmálamenn. Ég mæli með því að allir sem hafi áhuga á stjórnmálum horfi á þessa úrvalsmynd.

Saga dagsins
1915 Kvenréttindadagurinn - Kristján 10. Danakonungur, staðfesti breytingar á stjórnarskránni sem gerði ráð fyrir að konur fengju kosningarétt og kjörgengi sem fyrst miðaðist við 40 ára og eldri.
1960 Keflavíkurgangan - hernámsandstæðingar efndu til fyrstu mótmælagöngunnar frá herstöðinni í Keflavík til Reykjavíkur. Keflavíkurgöngurnar, er voru aðhlátursefni NATO-sinna, voru mjög umdeildar.
1987 Útvarpshúsið við Efstaleiti í Reykjavík var tekið í notkun við hátíðlega athöfn. Útvarpshúsið hafði verið 9 ár í byggingu og var ekki endanlega tilbúið fyrr en árið 2000 er Sjónvarpið flutti þangað.
1996 Fyrsta einkanúmerið, Ísland, var sett á bifreið Árna Johnsen þáv. alþingismanns. Hann hafði verið helsti baráttumaður þess að fólk gæti keypt sér númer á bifreið sína með áletrun að eigin vali.
1999 16 manna hópur fór á 2 gúmmíbátum og 3 kajökum niður Jökulsá á Brú, eftir Dimmugljúfrum.

Snjallyrðið
Þar sem háir hólar
hálfan dalinn fylla
lék í ljósi sólar,
lærði hörpu að stilla
hann sem kveða kunni
kvæðin ljúfu, þýðu,
skáld í muna og munni,
mögur sveitablíðu.

Brosir laut og leiti,
ljómar fjall og hjalli.
Lækur vætu veitir,
vökvast bakka halli.
Geislar sumarsólar
silungsána gylla
þar sem háir hólar
hálfan dalinn fylla.
Hannes Hafstein skáld og ráðherra (1861-1922) (Hraun í Öxnadal)

17 júní 2005

Gleðilega þjóðhátíð

Íslenski fáninn

Hver á sér fegra föðurland,
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?
Með friðsæl býli, ljós og ljóð,
svo langt frá heimsins vígaslóð.
Geym, drottinn, okkar dýra land
er duna jarðarstríð.

Hver á sér meðal þjóða þjóð,
er þekkir hvorki sverð né blóð
en lifir sæl við ást og óð
og auð, sem friðsæld gaf?
Við heita brunna, hreinan blæ
og hátign jökla, bláan sæ,
hún uni grandvör, farsæl, fróð
og frjáls - við ysta haf.

Ó, Ísland, fagra ættarbyggð,
um eilífð sé þín gæfa tryggð,
öll grimmd frá þinni ströndu styggð
og stöðugt allt þitt ráð.
Hver dagur liti dáð á ný,
hver draumur rætist verkum í
svo verði Íslands ástkær byggð
ei öðrum þjóðum háð
Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.

Unnur Benediktsdóttir Bjarklind (Hulda) skáldkona (1881-1946)


Davíðshús

Í dag verður Davíðshús opnað að nýju eftir gagngerar endurbætur. Það var á lýðveldisárinu 1944 sem Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi, fluttist í þetta hús sem hann hafði reist sér að Bjarkarstíg 6 á Akureyri. Þar bjó hann allt til æviloka. Eftir daga hans var húsið ánafnað Akureyrarbæ og þar er safn til minningar um hann. Húsið er varðveitt eins og það var er hann yfirgaf það síðasta sinni og er engu líkara en þegar gesturinn sem kemur til að líta þar inn og skoða heimili skáldsins en að viðkomandi sé gestur Davíðs en hann hafi í raun brugðið sér frá örskotsstund. Andi skáldsins er ljóslifandi í húsinu þó fjórir áratugir séu liðnir síðan hann yfirgaf það hinsta sinni. Þeir sem eiga leið um Akureyri eru eindregið hvattir til að líta í Bjarkarstíg 6 og kynna sér þetta merka hús, heimili sannkallaðs heimsmanns sem þrátt fyrir að vera sveitastrákur að uppruna varð sannkallaður veraldarmaður að lokum. Bý ég skammt frá Bjarkarstíg og fer ég oft á sumrin í safnið og á veturna er einnig oft gengið þar framhjá. Húsið er lítið en fullt af merkilegum sjarma sem er erfitt að lýsa í orðum. Sjón er svo sannarlega sögu ríkari.

Ætla ég að taka þátt í hátíðarhöldunum hér á Akureyri í dag og lít í Davíðshús og skoða það eftir þessar miklu breytingar. Til fjölda ára hef ég verið mikill unnandi kveðskapar Davíðs frá Fagraskógi. Davíð var skáld tilfinninga, hann orti frá hjartanu og talaði beint til hjarta þess sem las. Þess vegna mun minning hans verða okkur kær og kveðskapur hans festast í sessi um ókomin ár. Hann var sannur í yrkisefnum og sannur í tjáningu um sannar tilfinningar. Eitt fallegasta ljóð Davíðs frá Fagraskógi er Kveðja:

Eitt orð, eitt ljóð, eitt kvein frá kvaldri sál
er kveðja mín. Ég veit þú fyrirgefur.
En seinna gef ég minningunum mál,
á meðan allt á himni og jörðu sefur.
Þá flýg ég yfir djúpin draumablá,
í dimmum skógum sál mín spor þín rekur,
Þú gafst mér alla gleði sem ég á.
Þú gafst mér sorg, sem enginn frá mér tekur.

Svo kveð ég þig. En er þú minnist mín,
þá mundu, að ég þakka liðna daga.
Við framtíð mína fléttast örlög þín.
Að fótum þínum krýpur öll mín saga.
Og leggðu svo á höfin blá og breið.
Þó blási kalt og dagar verði að árum,
þá veit ég að þú villist rétta leið
og verður mín - í bæn, í söng og tárum.

Saga dagsins
1811 Jón Sigurðsson forseti, fæddist við Hrafnseyri við Arnarfjörð - Jón forseti varð sjálfstæðishetja Íslendinga og leiddi þjóðina fyrstu skrefin í átt að fullu sjálfstæði sínu. Hann lést 7. desember 1879.
1911 Háskóli Íslands stofnaður á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar forseta og helgaður minningu hans.
1941 Alþingi Íslendinga kaus Svein Björnsson fv. sendiherra, sem fyrsta og eina ríkisstjóra Íslands.
1944 Lýðveldi stofnað á Lögbergi á Þingvöllum - Sveinn Björnsson var kjörinn fyrsti forseti Íslands. Stjórnarskrá lýðveldisins var ennfremur samþykkt. Ísland hafði með því tekið forystu í eigin málum.
1994 50 ára afmælis hins íslenska lýðveldis var minnst með glæsilegri lýðveldishátíð á Þingvöllum.

Snjallyrðið
Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
Íslands þúsund ár,
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
Matthías Jochumsson skáld og prestur (1835-1920) (Lofsöngur)

15 júní 2005

Punktar dagsins
Reykjavíkurflugvöllur

Í gær sendi stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar út frá sér ályktun þar sem skorað er á samgönguráðherra að taka upp viðræður við Reykjavíkurborg um sölu á landi ríkisins sem Reykjavíkurflugvöllur stendur á. Einnig skorar félagið á ráðherra að vinna að því að finna heppilega staðsetningu fyrir nýjan innanlandsflugvöll í næsta nágrenni höfuðborgarinnar. Fáist ásættanlegt verð fyrir það landsvæði sem núverandi flugvöllur stendur á telur stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar einboðið að nýta þá fjármuni sem þannig fást til þess að reisa nýjan flugvöll og bæta samgöngur höfuðborgarinnar við aðra landshluta s.s. eins og með lagningu hálendisvegar yfir Kjöl. Það er ánægjulegt að stjórn Sjálfstæðisfélagsins hafi skoðanir og tjái þær með þessum hætti í þessari ályktun. Það er ekkert nema hið besta mál að það sé öflugt í að tjá sig um hitamálin. Þessi ályktun er innlegg okkar sjálfstæðismanna fyrir norðan í beitta umræðu um þessi mál. Hið eina rétta vissulega er að taka frumkvæðið í þeirri umræðu og benda á þennan kost í stöðunni.

Það er enginn vafi á því að mínu mati að okkar rétti punktur er að koma með útspil af þessu tagi. Ef Reykjavíkurborg er tilbúin til að borga fyrir landið sem völlurinn er á, segjum rúma 20 milljarða er það hluti sem er fjarri því hægt að líta framhjá. Með því er hægt að vinna að nýjum flugvelli. Það sem við erum með þessari ályktun að gera er að opna nýja umræðu. Vilji Reykjavík losna við völlinn geta þeir keypt landið þar sem völlurinn er og vinna með landið eins og það vill. Þá er hægt að nota þá peninga til uppbyggingar samgangna úti á landi og stokka upp hlutina með því. Ef Reykvíkingar hafa ekki áhuga á að sinna sínu hlutverki er sjálfsagt að velta þessu fyrir sér. Þetta er í raun það sem ég hef sagt allan tímann; Vatnsmýrin er ekki grunnpunktur málsins, sjálfur hef ég talað um höfuðborgarsvæðið allan tímann. Það er bara þannig. En það er auðvitað þannig að það er ekkert mál að færa stjórnsýsluna annað hafi menn ekki áhuga á að halda vörð um hlutverk Reykjavíkur til fjölda ára. Við hér fyrir norðan getum alveg tekið við nýjum verkefnum samhliða breyttri stöðu.

Í dag svaraði svo samgönguráðherra þessari ályktun okkar hér fyrir norðan. Segist hann ekki ætla að selja land ríkisins þar sem völlurinn er. Er hann nú sem fyrr á móti hálendisvegi. Það er merkilegt að heyra yfirlýsingar hans um hálendisveginn, en við sáum vel á fundi okkar með honum í mars að hann er mjög andsnúinn honum, a.m.k. á þessum tímapunkti. Telur hann okkur vera komna langt fram úr okkur. Það tel ég ekki vera, þetta er aðeins liður í umræðu sem þarna kemur fram. Annars verður merkilegast að sjá hvað gerist í málefnum vallarins í kosningabaráttunni sem framundan er í borginni. Völlurinn hlýtur þar að vera kosningamál, eitt helsta mál kosningabaráttunnar á næsta ári. Það er við hæfi að við hér úti á landi minnum á skoðanir okkar og það sem við erum að pæla í málunum. Það er því ekkert nema gott mál að stjórn félagsins hafi tjáð sig af krafti með þessum hætti.

Forsetahjónin auglýsa Skyr Smoothie

Í dag berast af því fréttir í Séð og heyrt og á Stöð 2 að Dorrit Moussaieff forsetafrú, hafi þegið boð um að ferðast með einkaþotu Baugs til að vera við tískusýningu Mosaic Fashion Group í London. Séð og heyrt birtir ekki aðeins frásögn af þessu heldur birtir að auki myndir af einkaflugvélinni á Reykjavíkurflugvelli. Á einni af myndunum má sjá Toyota Landcruiser jeppa sem mun vera í eigu forsetaembættisins, sem sótti forsetafrúna á völlinn. Með henni í för voru Jón Ásgeir Jóhannesson forstjóri Baugs, og unnusta hans Ingibjörg Pálmadóttir. Þessi frétt er mjög merkileg. Að mínu mati ber það vott um dómgreindarleysi af hálfu forsetafrúarinnar að þiggja flugferð í boði Baugs, segja má að það sé eiginlega siðleysi á háu stigi. Fyrir rúmu ári voru miklir átakatímar hérlendis og þá var minnt á tengsl forseta Íslands við Baug. Eins og sést á þessum kærleikum milli forsetaembættisins og Baugs var það á rökum reist. Það blasir við.

Ég tel Dorrit vera fulltrúa forsetaembættisins. Hún er maki forseta Íslands, hún er hluti af þessu embætti. Það er bara þannig, það breytir því ekkert. Ég hefði talið að svona gæti vart gerst en það hefur nú gerst og er staðfest með myndum í Séð og heyrt og umfjöllun blaðsins sem staðfestir fréttina auðvitað. Það er ekki hægt annað en að gagnrýna þetta mjög harkalega. Þetta er á verulega gráu svæði. Mér finnst að forseti eða maki hans eigi ekki að þiggja neitt úr hendi fyrirtækja eða einstaklinga með þessum hætti, t.d. far með flugvél eða neitt slíkt. Forseti er vel launaður og ég get ekki skilið af hverju eiginkona hans eigi að vera að ferðast með auðjöfrum eða einstaklingum sem eiga einkaflugvélar. Þetta er því bara eins og hver önnur sporsla. Annars er þetta bara leitt mál og ég skil ekki að fólk í svona stöðu þiggi svona ferð með þessum hætti. Þetta opnar margar spurningar um tengsl Baugs við íslenska forsetaembættið, við sitjandi forseta seinustu árin.

Nordica-hotel

Í gær handtók lögreglan í Reykjavík þrjá einstaklinga sem höfðu ruðst inn á alþjóðlegu álráðstefnuna á Nordica hotel. Þar slettu þeir grænum vökva á ráðstefnugesti og urðu valdir að milljónatjóni í ráðstefnusalnum. Hefur nú komið í ljós að þar var um að ræða súrmjólk með grænu litarefni. Eins og ég sagði frá í gær var svokölluð Náttúruvakt með mótmæli þarna á mánudag þar sem þjóðfánar við hótelið voru dregnir í hálfa stöng og fundargestum afhent kynningarefni þar sem mótmælt er friðsamlega álveri við Reyðarfjörð og virkjun við Kárahnjúka. Náttúruvaktin stóð þó ekki að þessum mótmælum heldur voru þarna á ferð þrír umhverfisverndarsinnar, tveir útlendir og einn íslenskur. Það er alveg með ólíkindum að fylgjast með þessum mótmælum og hversu fólk er tilbúið til að ganga langt fyrir málstað sinn. Gengur þetta auðvitað algjörlega út í öfgar. Það er eiginlega spurning um hvernig fólk er á geði sem gengur svona langt. Það er mjög alvarlegt mál að fólk geti ekki haldið ráðstefnur eða aðrar opnar samkomur án þess að það eigi á hættu að vera truflað með þessum hætti. Er að mínu mati kominn tími til að þetta umhverfisverndarlið hugsi hlutina til enda, því veitti ekki af því.

Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti

Eins og öllum er kunnugt sem kynnt hefur sér stöðuna á verslunarmannahelgum seinustu ára hér hefur lífernið á tjaldsvæðinu hér við Þórunnarstræti verið allsvakalegt þá. Í ágúst í fyrra var íbúum hér við götuna algjörlega nóg boðið. Villimennskan og sukkið fór yfir öll mörk. Draslið og sóðaskapurinn var af því kalíberi að það tók þrifsveit nokkra daga að koma hlutunum í samt lag og áður. Við hér við Þórunnarstrætið og bæjarbúar almennt vorum búin að fá alveg nóg. Nú hefur verið tilkynnt að tjaldstæðið verði eingöngu opið fjölskyldufólki með fellihýsi, hjólhýsi og tjaldvagna um verslunarmannahelgina. Samhliða þessu verður gæsla efld og aðgengi breytt. Jafnframt mun eftirlitið aukast með tilkomu girðingu í kringum svæðið. Ég tel tjaldsvæði á þessum stað barn síns tíma. Það hlýtur að koma að því fyrr en seinna að það leggist af, enda ekki fólki bjóðandi í miðri íbúðabyggð. Útihátíð hér um verslunarmannahelgi er hið besta mál. Það er hinsvegar ólíðandi að meginfrétt helgarinnar æ ofan í æ sé óregla á tjaldsvæðinu við Þórunnarstræti og ómenningin sem þar hefur verið. Með þessu hefur verið tekið fyrir það, en betur má ef duga skal.

The Pirates of the Caribbean

Í gærkvöldi horfði ég á hina frábæru ævintýramynd The Pirates of the Caribbean. Er litríkt ævintýri sem gerist á 17. öld þegar sjóræningjarnir skunduðu um Karíbahafið. Hér segir frá sjóræningjanum Jack Sparrow sem tekur höndum saman við Will Turner til að bjarga unnustu Wills, Elizabeth Swann, dóttur ríkisstjórans Weatherby Swann og fjársjóði. Ætlun þeirra er að stöðva illar áætlanir óvinveittra sjóræningja undir forystu Barbossa. Mun þeim takast ætlunarverk sitt? Johnny Depp hefur sjaldan verið betri en í þessu hlutverki hins drykkfellda sjóræningja og á stórleik, smellpassar í þennan karakter. Sama má segja um óskarsverðlaunaleikarann Geoffrey Rush sem er eftirminnilegur í hlutverki Barbossa (skemmtilega illkvittnislegur) og fer sem ávallt fyrr á kostum, frábær leikari. Orlando Bloom, Keira Knightley og Jonathan Pryce fara einnig vel með sitt. En Depp á einfaldlega þessa mynd og leiðir leikarahópinn af krafti í gegnum ævintýrin sem fyrir augu ber. Myndin er virkilega skemmtileg, handritið kemur áhorfandanum oft mjög á óvart með því að fara í óvæntar áttir. Góður hasar og magnaðar tæknibrellur eru einnig aðall myndarinnar. Einstök skemmtun - sannkallað augnakonfekt fyrir alla sanna kvikmyndaunnendur.

Saddam í yfirheyrslunni :)

Saddam var í yfirheyrslu nýlega. Bresku grínteiknararnir hjá Guardian voru ekki lengi að sjá spaugilegu hliðina á því. :)

Saga dagsins
1864 Arlington-þjóðargrafreiturinn í Washington var vígður - herkirkjugarður þar sem stríðshetjur og leiðtogar eru grafnir. Þar var t.d. John Fitzgerald Kennedy 35. forseti Bandaríkjanna, jarðsettur.
1926 Kristján 10. konungur Danmerkur, kom í fyrsta skipti í opinbera heimsókn hingað til Íslands.
1954 UEFA knattspyrnusamtökin voru stofnuð í Basle í Sviss - þau eru forystusamtök í knattspyrnu.
1996 Bandaríska jazzsöngkonan Ella Fitzgerald deyr í Los Angeles - Ella, sem var 79 ára að aldri er hún lést, var talin ein besta söngkona 20. aldarinnar og var rómuð fyrir fagra og þýða jazzrödd sína.
2001 Um 6000 manns komu saman á rokktónleikum þýska rokkbandsins Rammstein í Laugardalshöll.

Saga morgundagsins
1877 Blaðið Ísafold var prentað í fyrsta skipti - Ísafoldarprentsmiðja var með því formlega stofnuð.
1909 Vatnsveita Reykjavíkur tekur til starfa - vatni úr Elliðaám var þá hleypt á dreifikerfi borgarbúa.
1944 Alþingi Íslendinga samþykkir formlega lýðveldisstofnun á Þingvöllum sem fram fór daginn eftir.
1992 Umdeild bók um Díönu prinsessu af Wales gefin út í Bretlandi - Díana og Karl prins skildu síðar sama ár, en lögskilnaður þeirra varð formlega að veruleika 1996. Díana lést í bílslysi 31. ágúst 1997.
1999 Ný kjördæmaskipan samþykkt á Alþingi. Breytt kjördæmaskipan gerði ráð fyrir 6 kjördæmum í stað 8 áður en sama fjölda þingmanna - lögin urðu að veruleika með þingkosningum 10. maí 2003.

Snjallyrðið
Hví ég græt og burt er æskan bjarta
bernsku minnar dáin sérhver rós.
Það er sárt í sínu unga hjarta
að sjá hve slokkna öll þín skærstu ljós.
Ó hve feginn vildi ég verða aftur
vorsins barn og hérna leika mér.
Nú er lamað þrek mitt, þrotinn kraftur
þunga sorg á herðum mér ég ber.

Hvað þá gráta gamla æskudrauma,
gamla drauma bara ór og tár.
Láttu þrekið þrífa stýristauma.
Það er hægt að kljúfa lífsins ár.
Kemur ekki vor að liðnum vetri?
Vakni ei nýjar rósir sumar hvert?
Voru hinar fyrri fegri betri?
Felldu ei tár en glöð og hugrökk vert.

Þú átt gott þú þekkir ekki sárin,
þekkir ei né skilur hjartans mál.
Þrek er gull en gull eru líka tárin,
guðleg svölun hverri þreyttri sál.
Stundum þeim er þrekið brýnt og kraftur
þögul höfuð féllu tár um kinn.
En sama rósin sprettur aldrei aftur,
þótt önnur fegri skreyti veginn þinn.
Guðmundur Guðmundsson skáld (Þrek og tár)