Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

31 mars 2006

Tony Blair veikist sífellt í valdasessi

Tony Blair

Það sígur sífellt meir á ógæfuhliðina hjá Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og leiðtoga Verkamannaflokksins. Það er alveg ljóst að tal hans fyrir þingkosningarnar í fyrra um að hætta á kjörtímabilinu hefur leitt til þess að ekki er talað um neitt annað nú en það hvenær hann einmitt muni hætta. Þó að Blair fari út fyrir landsteinana í opinbera heimsókn til Ástralíu losnar hann ekki við vangavelturnar. Enda viðurkenndi hann nýlega í viðtali að það hefðu verið mistök hjá sér að segjast ætla að hætta á kjörtímabilinu og fara ekki í næstu þingkosningar. Það tal hefur leitt af sér að menn velta vöngum yfir tímasetningu. Eins og ég sagði um daginn hafa vinsældir forsætisráðherrans dvínað verulega frá þingkosningum og hefur náð sögulegu lágmarki. Það verður æ greinilegra að það styttist í endalok valdaferil Blairs sem leitt hefur Verkamannaflokkinn í tólf ár og verið forsætisráðherra í níu ár.

Vinsældir Blairs halda áfram að minnka í kjölfar lánahneykslisins margfræga sem gekk yfir í mánuðinum. Innan flokksins heyrast nú æ háværari raddir um að Blair eigi að fara sem fyrst og hleypa fjármálaráðherranum Gordon Brown að völdum. Ekkert nema það geti bjargað flokknum úr öldudalnum. Í tjáði dyggur flokksmaður sig með þeim hætti að mæti Blair flokk sinn og arfleifð einhvers ætti hann að fara að huga að brottför eða allavega slá á umtalið með því að nefna tímasetningu brottfarar úr embættinu. Þangað til að hann gerði það myndi ekki verða um annað talað en hvenær hann færi og flokkurinn gæti ekki þolað meiri fjölmiðlapressu vegna forsætisráðherrans. Það er greinilegt að Blair á verulega í vök að verjast og þó að hann haldi út fyrir landsteinana eltir þetta mál hann á röndum og vont virðist aðeins verða verra fyrir hann. Enginn telur að Blair fari fyrir sveitarstjórnarkosningar í Bretlandi í maíbyrjun en menn telja við flestu að búast eftir þær.

Mitt í kosningaslagnum er ekki talað um neitt nema forsætisráðherrann og hvenær valdaskiptin verði í Verkamannaflokknum. Það er ljóst að kosningarnar verða prófsteinn á Blair og forystu hans eftir mikið umbrotatímabil á ferli hans seinustu vikur og mánuði. Í dag tjáði einn af hinum frægu baksveitarþingmönnum sem þrengt hafa að forsætisráðherranum eftir þingkosningarnar þá skoðun sína að biðin sé orðin óþolandi og skemmandi fyrir flokkskjarnann. Greinilegt er að mikill öldugangur er innan flokksins sem virðist aðeins versna. Tony Blair hefur ríkt lengi sem sterkur og afgerandi leiðtogi í breskum stjórnmálum. Það er alveg ljóst að þeir dagar eru liðnir og meira að segja flokksfélagar hans ýta á eftir tímasetningu brotthvarfs hans úr stjórnmálum - hvenær hann fari og Brown fái að taka við.

Já, það er svo sannarlega af sem áður var hjá Tony Blair og spunameisturum hans. Þeir geta með engu móti stjórnað umræðunni núna, ólíkt því sem lengst af var. Líkurnar á að Blair fari úr Downingstræti 10 fyrir árslok verða sífellt meira afgerandi.

Litli frændi

Litli frændi

Jæja, ég varð ömmubróðir í vikunni, eins fyndið og það hljómar. Ég er eiginlega enn að venjast titlinum. Enn fyndnara finnst mér að Hanna systir sé orðin amma. Þetta er mjög merkilegt. En ég set hér mynd af litla sólargeislanum þeirra Völu frænku og Þóris. Þetta er stór og flottur strákur, glæsileg viðbót í fjölskylduna okkar. Þessi litli strákur verður mikill sólargeisli í hópinn okkar.

Saga dagsins
1863 Vilhelmína Lever kaus í bæjarstjórnarkosningum á Akureyri og varð með því fyrsta konan sem kaus til sveitarstjórnar á Íslandi - konur hlutu almennan kjörrétt með formlegum hætti loks árið 1915.
1909 Björn Jónsson tók við embætti ráðherra af Hannesi Hafstein - Björn sat á ráðherrastóli í tvö ár.
1967 Snjódýpt á Raufarhöfn mældist um 205 sentimetrar, sem er með eindæmum í þéttbýli hérlendis.
1979 Steingrímur Hermannsson kjörinn formaður Framsóknarflokksins á miðstjórnarfundi flokksins - hann tók við formennsku af Ólafi Jóhannessyni. Steingrímur var dómsmála- og landbúnaðarráðherra 1978-1979, sjávarútvegs- og samgönguráðherra 1980-1983, var forsætisráðherra 1983-1987 og svo aftur 1988-1991 og utanríkisráðherra 1987-1988. Steingrímur lét af formennsku flokksins árið 1994 og varð seðlabankastjóri og gegndi þeim störfum allt til 1998. Ævisaga hans kom út í þrem bindum 1998-2000.
1981 Leikarinn Robert De Niro hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun á Jake La Motta í Raging Bull - De Niro hlaut óskarinn sex árum áður fyrir glæsilega túlkun sína á Don Vito Corleone í The Godfather, Part II. De Niro er einn besti leikari sinnar kynslóðar og hefur hann átt mjög litríkan og glæsilegan feril og túlkað allmikinn fjölda svipmikilla karaktera af stakri snilld og hlotið hrós kvikmyndaunnenda.

Snjallyrðið
Humor is mankind's greatest blessing.
Mark Twain rithöfundur (1835-1910)

30 mars 2006

MA í úrslit í Gettu betur

Gettu betur

Í kvöld komst Menntaskólinn á Akureyri í úrslit spurningakeppninnar Gettu betur er spurningalið skólans bar sigurorð af Menntaskólanum í Hamrahlíð. Lauk keppninni með því að MA hlaut 26 stig en MH hlaut 23 stig. MH sigraði fyrir hálfum mánuði góðvin minn Þorkel Gunnar Sigurbjörnsson og félaga hans í Menntaskólanum í Sund. Það var súrt, enda var Kelso búinn að leggja svo mikið í þetta. Fannst mér leitt að Kelso og félagar fóru ekki gegn MA, enda hefði það verið mjög skemmtileg viðureign. Allavega var skaði að MS-ingar náðu ekki lengra.

En já, þetta var skemmtileg og æsispennandi viðureign í kvöld og gaman að fylgjast með. Þetta var stórglæsilegt hjá Ásgeiri, Tryggva Páli og Magna. Munu strákarnir mæta Verzlunarskóla Íslands í hreinni úrslitaviðureign í næstu viku. Góð úrslit semsagt í kvöld og fínt að MA komist í úrslit keppninnar í annað skiptið frá 1992, en í fyrra tapaði MA fyrir Borgó í úrslitum. MA vann keppnina 1991 og 1992. Vonandi vinna strákarnir keppnina að viku liðinni!

Áfram MA!

Snilld leikstjórans Woody Allen

Woody Allen

Í fjóra áratugi hefur verið deilt um það í heimi kvikmyndanna hvort að Allan Konigsberg, betur þekktur undir listamannsnafninu Woody Allen, sé góður kvikmyndagerðarmaður og leikari. Fáir deila þó um áhrif hans í kvikmyndamenningu 20. aldarinnar. Fáum tókst betur á öldinni að vekja athygli, jafnt vegna verka sína í geiranum og einkalífs síns. Þegar að ég tala við félaga mína á fræðilegum og mátulega háalvarlegum nótum um kvikmyndir kemur ansi fljótt að spurningunni: fílarðu Woody Allen? Þetta er klassaspurning, enda eru sérfræðingar og að ég tala ekki um sófaspekúlantar um kvikmyndir mjög á öndverðri skoðun um hversu góður Allen hefur verið á litríkum og stormasömum ferli sínum. Ég svara alltaf með þeim hætti að ég telji Allen með bestu kvikmyndagerðarmönnum seinustu áratuga. Hann hefur markað mikil áhrif og hefur allavega heillað mig með stíl sínum.

Woody Allen er að segja má náttúrutalent í kvikmyndagerð. Það er aðeins til eitt eintak af honum og hann er ekki að þykjast vera neitt nema hann sjálfur og hefur búið til ógleymanlegt íkon í kvikmyndasöguna. Allen hóf ungur að selja brandara sína í slúðurmáladálkana. Eftir að hafa í mörg ár samið brandara fyrir aðra uppistandara ákvað hann árið 1961 að hefja sinn eigin feril sem uppistandari í New York. Hann notaði feimni sína til að auka á húmorinn og markaði sinn eigin stíl. Hann kom fram með einnar línu brandara sína sem hittu beint í mark og hefur jafnan síðan orðið þekktur fyrir hnyttna brandara og skemmtileg tilsvör sín. Skópu þeir höfuðþættir þá frægð sem honum hlotnaðist í kjölfarið. Hann skrifaði sitt fyrsta kvikmyndahandrit árið 1965, What´s New Pussycat og lék sjálfur í myndinni. Það hlutverk gerði hann að stjörnu á einni nóttu. Eftirleikinn þekkja allir spekúlantar um kvikmyndir.

Allen hefur verið jafnvígur á gamanleik og tilfinningu í kvikmyndum. Þó að hann sé leiftrandi af húmor og léttleika (skemmtilega pirrandi léttleika) hefur hann snert í streng kvikmyndaunnenda. Til dæmis er ein af uppáhaldsmyndunum mínum ein af hans eðalmyndum. Kvikmyndin Annie Hall er ein af þeim allra bestu. Í henni eru góðir kómískir þættir en einnig má finna fyrir alvarlegum undirtón og skemmtilegri sýn á nútímaástarsamband þess tíma. Er í raun sjálfsævisöguleg úttekt á sambandi Allens og Diane Keaton en þau eru bæði tvö hreint ómótstæðileg í myndinni. Bæði hlutu þau óskarinn fyrir hana, Allen fyrir leikstjórn sína og Keaton fyrir að leika hina svipmiklu Annie Hall. Myndin var forsmekkur þess sem hefur verið meginpunktur höfundaeinkenna Allens í kvikmyndum: full af hinum venjulegu en alltaf óvæntu Allenbröndurum og pælingum um ástina en líka dýpri og innilegri íhuganir.

Aðrar flottar myndir hans eru Manhattan (eftirminnileg súrsæt rómantísk kómedía sem sýnir New York í svarthvítum tón og undir hljómar tónlist Gershwin bræðra), Zelig (þessi mynd er gott dæmi um snilli Allens sem leikara en túlkun hans á Leonard Zelig varð hans besta á ferlinum), Broadway Danny Rose, The Purple Rose of Cairo (báðar myndir þar sem Mia Farrow sýnir einn besta leik ferils síns), Hannah and Her Sisters (þroskuð og notalega góð sem besta rauðvín), Crimes and Misdemeanors (flott blanda af glæpasögu og kómíker sem fléttast óaðfinnanlega og óvænt í blálokin), Husbands and Wives (gerð rétt fyrir fræg sambandsslit hans og Miu Farrow og sýnir í raun söguna af endalokum sambands þeirra með þeim sjálfum í aðalhlutverkunum - ógleymanlegt meistaraverk), Manhattan Murder Mystery (undurlétt glæpakómedía þar sem Allen og Keaton léku saman loksins aftur) og Bullets Over Broadway (undurljúf og heillandi - skemmtilega gamaldags).

Ég get talið upp endalaust þær myndir sem hafa heillað mig og Allen á heiðurinn af. Toppnum að mörgu leyti fannst mér hann ná árið 1996 þegar að hann setti upp söngleik í formi myndarinnar Everyone Says I Love You og fékk meira að segja leikara á borð við Alan Alda, Edward Norton og Goldie Hawn til að syngja og það bara ansi flott. Hápunkturinn var þegar að meira að segja leikstjórinn sjálfur tók lagið með snilldarbrag við undrun allra kvikmyndaunnenda en fram að því höfðu enda flestir talið hann með öllu laglausan. Allen er kómískur en undir yfirborðinu er hann talinn mjög fjarlægur og sjálfsgagnrýninn. Að margra mati er hann einmitt að leika sjálfan sig að svo mörgu leyti oft. Oft setur hann sig og aðstæður sínar í meginpuntk kvikmyndar. Bestu dæmin um þetta eru Annie Hall og Husbands and Wives. Hann hefur oftar en ekki sótt einmitt efni mynda sinna í eigið einkalíf og prívatkrísur tilverunnar sinnar, oftast nær með snilldarhætti.

Skilnaður Allens við leikkonuna Miu Farrow í upphafi tíunda áratugarins varð stormasamur. Þau voru eitt af lykilpörum kvikmyndaheimsins á níunda áratugnum og léku saman í um tíu kvikmyndum. Sambandinu lauk með hvelli árið 1992, skömmu áður en Husbands and Wives, sem með kostulegum hætti lýsti aðstæðum þeirra með þeim í aðalhlutverkum, var frumsýnd. Fjallaði hann ítarlega um sambandsslitin við Miu Farrow í sjálfsævisögu sinni The Unruly Life of Woody Allen sem er snilldarvel skrifuð og segir þar á athyglisverðan hátt frá þessu máli. Er þessi bók alveg mögnuð og gaman að lesa að hana, þar segir hann frá málaferlunum, skilnaðinum, fjölmiðlafárinu, persónu sinni og skoðunum á lífinu og tilverunni almennt.

Woody Allen er hiklaust einn af þekktustu kvikmyndaleikstjórum Bandaríkjanna. Hann hefur gert heimaborg sína, New York, að umgjörð bestu kvikmynda sinna og sýnir henni mikla tryggð - svo fallega og undurljúft að athygli hefur vakið. Allen stendur framarlega í flokki helstu snillinga kvikmyndaheimsins á seinustu áratugum. Engum hefur sennilega tekist öðrum fremur að fanga athygli kvikmyndaunnenda, annaðhvort með því að heilla þá eða valda hneykslan þeirra og ná ennfremur fram því allra besta frá leikurum sínum, oftar en ekki hafa leikarar í myndum hans hlotið óskarsverðlaunatilnefningar. Hann er sannkallaður meistari kvikmyndaheimsins í byrjun nýrrar aldar.

Umfjöllun SFS um feril Woody Allen (2003)

Saga dagsins
1949 Aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu var samþykkt á Alþingi - mikil mótmæli urðu vegna þess við Alþingishúsið við Austurvöll og í fyrsta skipti í sögu landsins var táragasi beitt á mannfjölda á útifundi.
1955 Leikkonan Grace Kelly hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Georgie Elgin í The Country Girl - hún var ein frægasta leikkonan í Hollywood á sjötta áratug aldarinnar og lék í nokkrum heimsfrægum kvikmyndum. Hætti kvikmyndaleik og vék af braut lífsins í Hollywood, er hún kvæntist Rainier III fursta af Mónakó, 1956. Eftirsjá þótti af henni af hvíta tjaldinu. Grace fórst í bílslysi í Mónakó í september 1982, 53 ára að aldri.
1981 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, særðist lífshættulega í skotárás fyrir utan Hilton hótelið í Washington. Geðbilaður maður, John Hinckley, skaut sex skotum að forsetanum og lífvörðum hans er forsetinn var að yfirgefa hótelið eftir að hafa flutt ræðu. Skaut hann blaðafulltrúa forsetans, James Brady, í höfuðið og slapp hann naumlega lifandi frá skotárásinni. Fyrst var talið að Reagan hefði sloppið ómeiddur úr skotárásinni en hann var fluttur á George Washington-spítala til öryggis. Kom í ljós við komuna á spítalann að ein byssukúla hafði lent nærri hjarta forsetans og þurfti hann að fara fljótt í aðgerð, til að bjarga mætti lífi hans. Meðan hann lá á skurðarborðinu í skurðaðgerð upp á líf og dauða, var landið í kreppu. Enginn sýnilegur leiðtogi var við stjórnvöl. Bush varaforseti, var staddur í Texas. Tók Alexander Haig utanríkisráðherra, sér umdeilt vald til forystu landsins þar til Bush kom til Washington. Tókst læknum að bjarga lífi Reagans - sat á forsetastóli til 1989 og lést 2004.
1992 Leikararnir Sir Anthony Hopkins og Jodie Foster hlutu óskarinn fyrir túlkun sína á mannætunni Hannibal Lecter og alríkislögreglukonunni Clarice Starling í myndinni The Silence of the Lambs. Hopkins er einn af bestu leikurum Breta og hefur átt stórleik í fjölda kvikmynda á löngum ferli og verið öflugur sviðsleikari ennfremur. Foster er ein af bestu leikkonum sinnar kynslóðar og átt margar glæsilegar leikframmistöður og hlaut óskarinn þrem árum áður fyrir leik sinn í The Accused.
2002 Elísabet drottningarmóðir, ekkja George VI Englandskonungs og móðir Elísabetar II drottningar, lést í Royal Lodge í Windsor, 101 árs að aldri. Eiginmaður hennar, George VI, var konungur Englands í 16 ár, frá 1936 til dauðadags 1952. Frá þeim tíma var drottningin titluð drottningamóðir af hálfu krúnunnar. Á þeim fimm áratugum sem hún lifði eiginmann sinn var Elísabet einn öflugasti fulltrúi krúnunnar og var vinsælust af meðlimum konungsfjölskyldunnar. Hún sinnti mörgum verkefnum þá rúmu átta áratugi sem hún var fulltrúi fjölskyldunnar.

Snjallyrðið
Money is better than poverty, if only for financial reasons.
Woody Allen leikari og leikstjóri (1935)

29 mars 2006

Vængbrotinn kosningasigur Kadima í Ísrael

Ehud Olmert

Það fór eins og flesta grunaði. Kadima, hinn nýstofnaði flokkur Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, vann sigur í þingkosningunum í Ísrael í gær. Kadima er nú stærsti flokkurinn á Knesset, ísraelska þinginu, og hefur 28 þingsæti. Kadima var stofnaður í nóvember 2005 utan um áherslur og vinsældir Sharons eftir að hann gekk úr Likud-bandalaginu, sem hann hafði verið í allt frá stofnun árið 1973 og hafði leitt allt frá 1999. Það var síðasta verk Sharons í ísraelskum stjórnmálum að kljúfa Likud. Nokkrum vikum síðar var hann úr leik - hafði fengið alvarlegt heilablóðfall og fallið í dá. Þrem mánuðum síðar er Sharon enn í dái á sjöundu hæð Hadassah-sjúkrahússins en er væntanlega að liggja banaleguna. Enginn trúir því að Sharon nái heilsu að nýju, altént er stjórnmálaferli hans lokið. Í skugga fagnaðarláta stuðningsmanna Kadima hlýtur þeim að verða hugsað til Ariels Sharons - mannsins sem tók áhættuna og stofnaði flokkinn alls óafvitandi hvort áhættan um að sópa upp miðjunni og hógværari armi Likud og steypa í eitt stórt afl myndi heppnast.

Sigur Kadima er staðreynd en engu að síður er þessi sigur súrsætur fyrir forystumenn þessa nýstofnaða flokks. Kadima vann engan veginn eins sannfærandi og sterkan sigur og honum var spáð fyrir í upphafi, áður en Sharon veiktist. Lengst af kosningabaráttunnar hafði Kadima afgerandi stöðu og flestir töldu að hann hlyti rúmlega 40 þingsæti. Seinustu vikuna tók fylgið að dala og undir lokin þótti ljóst að Kadima gæti fallið undir 30 þingmanna múrinn. Niðurstaðan er 28 þingsæti - góður sigur en vissulega ekki sá stórsigur sem menn vonuðust eftir og þurftu eiginlega til að drottna yfir ísraelskum stjórnmálum. Stuðningsmenn Kadima óttuðust á kjördag í raun orðið hið versta. Doði og lífleysi hafði einkennt kosningabaráttu Kadima seinustu dagana. Eins og allir vita er það ekki besta veganestið í kosningabaráttu. Doðinn var vegna þess að fólkið innan Kadima taldi sigurinn svo öruggan að ekki þyrfti fyrir honum að hafa. Undir lokin var brugðið á það ráð að senda út fleiri hundruð þúsunda SMS-skeyta til að fá fólk á kjörstað.

Kjörsókn í ísraelsku þingkosningunum að þessu sinni var sú dræmasta sem sögur fara af. Aðeins rétt rúmlega 60% kjósenda komu á kjörstað og greiddu atkvæði. Það er til marks um áhugaleysi og eiginlega umfram allt vegna þess að fólk taldi sigur Kadima öruggan. En sigur flokksins varð ekki eins sterkur og við blasti lengi. Verkamannaflokkurinn hlaut miklu meira fylgi en búist hafði verið við og var eiginlega hinn óvænti sigurvegari og hlaut 20 þingsæti og er kominn vel á veg við að endurheimta virðingu sína í ísraelskum stjórnmálum en flokkurinn galt afhroð bæði í kosningunum 2001 og enn frekar 2003 þegar að sögulegu lágmarki var náð undir forystu Amram Mitzhna. Shas-flokkurinn, flokkur strangtrúaðra gyðinga af austrænum uppruna, náði 13 mönnum, Israel Beiteinu, flokkur öfga-hægrisinnaðra rússneskra innflytjenda, hlaut 12 og Likud bandalagið 11. Sögulegt áfall Likud vekur athygli en hann (sem verið hefur í fararbroddi í ísraelskum stjórnmálum) varð fyrir þungu áfalli og missti 27 þingsæti.

Enginn vafi er á því að niðurstaða þingkosninganna er þungt högg og verulegt pólitískt áfall fyrir Benjamin Netanyahu leiðtoga Likud og fyrrum forsætisráðherra Ísraels. Það er alveg óhætt að fullyrða það að Likud og Netanyahu eru í rusli eftir þessar kosningar og við Likud blasir ekkert annað en allsherjar uppstokkun og uppbygging. Hvort sú uppbygging verður undir forystu Netanyahus skal ósagt látið en flestir ísraelskir spekúlantar telja feril hans á enda, við blasir enda að hann skiptir nú í raun engu máli í stjórnmálum landsins. Hætt er við að lykilmenn sem tókust á við hann um leiðtogastöðuna eftir brotthvarf Sharons, t.d. Silvan Shalom og David Levy muni sækja að honum. Ef einhver tíðindi eru öðrum fremri en sigur Kadima og Verkamannaflokksins er það án nokkurs vafa að framboð ísraelskra eftirlaunaþega náði 7 mönnum inn á Knesset - aðeins fjórum færri en sjálft Likud-bandalagið. Það er víst óhætt að fullyrða það að fáir nema gamlingjarnir bjuggust við þessum stórsigri.

En nú er Ehud Olmert starfandi forsætisráðherra og leiðtogi flokksins, með öll tromp á hendi og fær væntanlega stjórnarmyndunarumboð fyrstur allra frá Moshe Katsav forseta Ísraels, enda leiðtogi stærsta flokksins. Olmert fagnaði sigri með glæsilegri ræðu í höfuðstöðvum flokksins í Tel Aviv í gærkvöldi. Hann talaði til fólksins af sama eldmóði og einkenndi Ariel Sharon og í bakgrunninum var mynd af hinum fjarverandi leiðtoga sem háir nú væntanlega síðustu baráttu lífsins. Greinilegt er að Olmert setur á oddinn mikilvægi þess að ganga frá endanlegum landamærum Ísraels og Palestínu á kjörtímabilinu og opnar á mögulegar friðarviðræður við Palestínumenn. En það blasir við öllum að Hamas er þar þrándur í götu og eru litlar líkur á því að viðræður við þá muni bera árangur nú er þeir hafa í raun tekið við völdum í Palestínu. Athygli vakti í ræðu Olmerts að hann vill innlima nokkrar stórar landtökubyggðir á Vesturbakkanum í Ísrael.

Stjórnarmyndunarviðræður taka nú við í Ísrael. Ljóst er að umboð Kadima er veikbyggt og enginn afgerandi meirihluti við tillögur Ehud Olmert. Hann þarf því að leita samninga við flokka með aðrar lykilskoðanir en hann sjálfur og Kadima. Fréttaskýrendur í Ísrael spá stjórn Kadima og Verkamannaflokksins með minni flokkum en að hún verði væntanlega skammlíf rétt eins og stjórnir Ariels Sharons á síðasta kjörtímabili. Staða mála var mjög stormasöm á því tímabili og gekk oft erfiðlega að ná saman starfhæfri stjórn. Verður fróðlegt að sjá hvernig gengur næstu vikurnar við að koma saman stjórn og hvernig samstarf t.d. Olmerts og Amir Peretz muni ganga ef semst þeirra á milli.

En nú verður það hlutskipti Ehud Olmerts að halda á lofti pólitískri minningu Ariels Sharons og stefnumálum hans eftir þennan súrsæta kosningasigur. Sigurinn er nógu öruggur til að Olmert leiðir ísraelsk stjórnmál næstu árin en umboðið getur veikst komi vandamál upp milli ráðandi flokka. Það verður fróðlegt að fylgjast með ísraelskum stjórnmálum næstu mánuðina.

Andrew Card hættir í Hvíta húsinu

Andrew Card

Andrew Card starfsmannastjóri Hvíta hússins, baðst í gær lausnar frá störfum í Hvíta húsinu eftir að hafa gegnt embættinu í fimm og hálft ár. Hann lætur af embætti á föstudaginn langa, þann 14. apríl nk. Hann ákveður að víkja úr innsta kjarnanum í kjölfar sífellt minnkandi vinsælda forsetans í skoðanakönnunum og umræðu um upplausn í hópi repúblikana í þinginu. Ljóst er að vandræðagangur einkennir repúblikana nú er styttist í þingkosningar og ljóst að æðstu menn í Washington hafa metið það sem svo að stokka hefði þurft upp forystusveitina í starfsmannahaldinu í Hvíta húsinu. Það hefur enda lengi verið í umræðunni að Card og Karl Rove þyrftu að víkja til að reyna að bæta stöðu forsetans. Það hefur blasað við öllum seinustu mánuði að staða forsetans hefur veikst verulega og eiginlega má segja að árið 2005 hafi verið það versta á forsetaferli hans og seinna kjörtímabilið stefni í að verða stormasamt.

Andrew Card hefur allt frá upphafi forsetaferils George W. Bush forseta Bandaríkjanna, verið einn af helstu lykilmönnum í innsta kjarna hans og hefur verið náinn vinur hans í tvo áratugi. Hann var ennfremur áberandi í forsetatíð bæði Ronald Reagan, 1981-1989, og George H. W. Bush, föður forsetans, sem sat á valdastóli 1989-1993. Card var aðstoðarmaður Reagans og aðstoðarstarfsmannastjóri Hvíta hússins lengst af forsetatíðar Bush eldri. Seinasta ár forsetaferils hans var Card samgönguráðherra Bandaríkjanna. Hann var virkur í viðskiptalífi árin eftir það og þangað til að George W. Bush fór í forsetaframboðið árið 1999 og ráðlagði hann Bush mjög í þeim slag og var honum innan handar í fjölda verkefna. Card var allt frá upphafi forsetaferils George W. Bush forseta Bandaríkjanna, verið einn af helstu lykilmönnum í innsta kjarna hans og var skipaður til starfans strax í miðjum klíðum átakanna um úrslitin í forsetakosningunum árið 2000 í Flórída-fylki.

Er Andrew Card hlaut þann sess voru deilur fyrir dómstólum í Flórída og hæstarétti í fullum gangi. Svo fór að sigur Bush var staðfestur í desemberbyrjun 2000 eftir langt japl, jaml og fuður og Card tók til við að skipuleggja valdaskiptin af krafti. Hann tók við embætti starfsmannastjórans samhliða valdatöku forsetans og hefur því allan forsetaferilinn verið lykilmaður hans í innri skipulagningu. Hann var allt í öllu á fyrra kjörtímabili forsetans sem var mjög sögulegt. Andrew Card var maðurinn sem gekk til George W. Bush í kennslustofunni í Sarasota í Florída að morgni 11. september og lét hann vita af því að flugvél hefði flogið á annan turn World Trade Center, sem var fyrsta skrefið í einu sorglegasta hryðjuverki seinni tíma. Hann var lykilmaður í liði Bush forseta í því sem tók við eftir þann sögulega dag. Hvort sem það var stríðið í Afganistan og Írak eða kosningabaráttan árið 2004 var hann sannkallaður lykilmaður Bush.

Það er enginn vafi á því að brotthvarf Andrew Card er erfitt fyrir George W. Bush og í raun má segja að þetta sé eitt sterkasta táknið um það að tekið sé að halla undan fæti hjá forsetanum. Það styttist í þingkosningar í Bandaríkjunum og margir repúblikanar á þingi líta á hann sem akkilesarhæl mun frekar en styrkleikatákn. Segja má með vissu að gullaldardagar forsetans séu að baki og erfiðleikatímabil sé framundan. Reyndar eru þingkosningar seinasta kosningabaráttan sem Bush verður eitthvað virkur í. Eins og flestir vita getur hann ekki boðið sig fram að nýju í næstu forsetakosningum sem fram munu fara í nóvember 2008 og því má segja að forsetinn sé sæll með að þurfa ekki að fara sjálfur í aðrar kosningar. Þó er alveg ljóst að Repúblikanaflokkurinn eigi undir högg að sækja og skiptir nú máli fyrir flokkinn að halda völdum í þinginu. Tapist þær kosningar stefnir í enn verra tímabil fyrir forsetann seinustu tvö ár valdaferilsins.

Eftirmaður Andrew Card sem starfsmannastjóri Hvíta hússins verður Joshua Bolten, sem er einn af lykilstarfsmönnum Hvíta hússins. Það verða því litlar sýnilegar breytingar með brotthvarfi Card en þó stokkað verulega upp í starfsmannahaldinu. Og nú er stóra spurningin: mun Karl Rove líka hverfa úr lykilsveit forsetans á næstu mánuðum eða mun hann verða hægri hönd forsetans innan Hvíta hússins til loka kjörtímabilsins í janúar 2009? Þetta er stór spurning og eflaust er hún sú sem flestir áhugamenn um stjórnmál spyrja sig að í Washington DC nú eftir afsögn Andrew Card.

Bubbi vinnur sögulegan sigur í héraðsdómi

Bubbi Morthens

Það er óhætt að segja að sögulegur dómur hafi fallið í gær í héraðsrétti Reykjavíkur. Þá var dæmt í frægu máli Bubba Morthens gegn tímaritinu Hér og nú. Eins og flestir vita birti tímaritið forsíðumynd í blaði sínu í júní sl. með flennifyrirsögninni Bubbi fallinn! Á myndinni sást Bubbi með sígarettu í munnvikinu sitjandi í bíl sínum talandi í farsíma. Bubbi krafðist þess að ummælin yrðu dæmd dauð og ómerk og að honum yrðu dæmdar 20 miljónir króna í miskabætur. Svo fór að ummælin voru dæmd dauð og ómerk og var ritstjóri blaðsins á þeim tíma dæmdur til að greiða Bubba 700.000 krónur í miskabætur. Ennfremur er tekið sérstaklega fram í dómnum að myndataka af manni í bifreið sinni sé með öllu óheimil á sama hátt og um væri að ræða myndatöku að heimili hans.

Um er að ræða mikinn tímamótadóm og mjög merkilegt hversu dómurinn er afgerandi í málinu og talar sérstaklega um myndbirtingu gegn vilja viðkomandi. Þetta er enda í senn bæði rothögg og vandræðalegt fyrir bæði Hér og nú og DV og þá stefnu sem þessi rit fara eftir í fjölmiðlun sinni. Í niðurstöðu dómsins segir með afgerandi hætti að Bubbi sé landsþekktur maður og hafi verið í fjölda ára og fólki sé kunnugt um fíkniefnavandamál hans. Fyrirsögnin sé mjög óvarleg í því samhengi og beri varla að skilja hana öðruvísi en að hann sé farinn að neyta fíkniefna að nýju. Tek ég undir þetta mat. Man ég vel þegar að ég sá þetta tiltekna blað í fyrrasumar. Fyrsta hugsun mín og fleiri væri að nú væri Bubbi aftur kominn í dópið. Allavega er ljóst að fyrirsögnin býður heim misskilningi og dómurinn skiljanlegur.

Það er gott að það liggi fyrir dómur sem tekur í vonandi eitt skipti fyrir öll á sorpblaðamennsku blaða á borð við DV og Hér og nú. Bubba Morthens vil ég óska til hamingju með sigur sinn í málinu. Sá sigur er í senn bæði afgerandi og sögulegur.

Fjölgun í fjölskyldunni

Strákur

Þetta er svo sannarlega gleðilegur dagur í fjölskyldunni. Í morgun fæddi systurdóttir mín, Valgerður Sif Hauksdóttir, myndarlegan og stóran strák. Hann var ansi brattur og hress og með mikið dökkt hár. Þetta er í fyrsta skipti í 15 ár sem fæðing á sér stað í nánustu fjölskyldu minni, eða síðan að Lína systir eignaðist Samma í desember 1991. Það er því kominn tími til að fjölskyldan okkar stækki.

En já, þetta eru aldeilis gleðileg tímamót. Hanna mín orðin amma, rétt um fertugt, og svo eru auðvitað með þessu pabbi og mamma orðin langafi og langamma. Hanna Stefánsdóttir amma mín, er með þessu orðin langalangamma 85 ára gömul og eru því ættliðirnir hjá okkur orðnir heilir fimm. Tíminn líður svo sannarlega hratt - gleðin hjá okkur er mjög mikil svo sannarlega. Þetta er mjög góður og gleðilegur dagur fyrir Hönnu mína og þau Völu og Þóri.

Saga dagsins
1947 Heklugos hófst - þá voru 102 ár liðin frá því að gosið hafði í Heklu. Gosið var mjög kraftmikið og náði gosmökkurinn upp í 30 þúsund metra hæð og aska barst allt til Bretlands. Gosið stóð í rúmlega ár.
1961 Lög um launajöfnuð kvenna og karla samþykkt á þingi - lögin mörkuðu mikil tímamót í jafnréttisbaráttu hérlendis.
1982 Leikararnir Henry Fonda og Katharine Hepburn hlutu óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á hjónunum Norman og Ethel Thayer í myndinni On Golden Pond. Þetta var síðasta hlutverk Fonda í kvikmynd á löngum og glæsilegum leikferli og hans einu óskarsverðlaun. Hann lést í ágúst 1982. Hepburn var svipmesta og glæsilegasta kvikmyndaleikkona 20. aldarinnar og lék í miklum fjölda úrvalsmynda á ferli sem spannaði sex áratugi. Hún hlaut fjórum sinnum óskarsverðlaun, oftar en nokkur annar til þessa og var tilnefnd alls 12 sinnum til verðlaunanna. Hepburn vann áður óskarinn 1933 fyrir Morning Glory, 1967 fyrir Guess Who's Coming to Dinner og 1968 fyrir The Lion in Winter. Hún hlaut heiðursóskar fyrir æviframlag sitt til kvikmynda árið 1987. Kate Hepburn lést í júní 2003.
1988 Leikarinn Dustin Hoffman hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun sína á Raymond Babbitt, einhverfum manni, í kvikmyndinni Rain Man - Hoffman hlaut óskarinn níu árum áður fyrir leik sinn í Kramer vs. Kramer. Hoffman er einn besti leikari sinnar kynslóðar og hefur hann átt mjög litríkan og glæsilegan feril og túlkað fjölda svipmikilla karaktera af stakri snilld og hlotið lof kvikmyndaunnenda.
1993 Heimir Steinsson útvarpsstjóri, segir Hrafni Gunnlaugssyni dagskrárstjóra innlends efnis hjá Ríkissjónvarpinu upp störfum - nokkrum dögum síðar var Hrafn ráðinn framkvæmdastjóri Sjónvarps af Ólafi G. Einarssyni menntamálaráðherra. Leiddi til átaka innan Ríkisútvarpsins í garð stjórnvalda. Hrafn leysti af Pétur Guðfinnsson framkvæmdastjóra, í ársleyfi hans og lét svo af störfum hjá RÚV.

Snjallyrðið
A dream we dream alone is only a dream. But a dream we dream together is reality.
Yoko Ono tónlistarmaður (1933)

28 mars 2006

50 ára leikafmæli Þráins Karlssonar

Þráinn Karlsson

Þann 28. mars 1956 sté Þráinn Karlsson í fyrsta skipti á leiksviðið í Samkomuhúsinu á Akureyri og lék smátt hlutverk í rómantíska alþýðuleikritinu Úlfhildi. Síðan er liðin hálf öld og í kvöld var leikafmæli Þráins fagnað með hátíðarsýningu í Samkomuhúsinu okkar gamla og góða. Þar var sýnd nýjasta afurðin á leiksviðinu í okkar sögufræga leikhúsi, Litla hryllingsbúðin í leikstjórn Magnúsar Geirs Þórðarsonar. Það er að ég tel á engan hallað þegar að fullyrt er að Þráinn Karlsson sé ein mesta skrautfjöðurin í fjölskrúðugum leikhópi í sögu Leikfélags Akureyrar. Það er enda alveg ljóst að Þráinn er bæði einn eftirminnilegasti og besti leikarinn sem hefur verið á leiksviðinu í leikhúsinu okkar. Hann hefur verið lykilmaður hjá Leikfélaginu síðan að elstu menn muna og hefur verið virtur og dáður fyrir verk sín. Akureyringar eru orðnir vanir því að Þráinn sé í Leikhúsinu og hefur eignast sess í huga og hjarta menningarsinnaðra bæjarbúa.

Í frétt á akureyska fréttavefritinu segir Helgi Már Barðason svo um feril Þráins Karlssonar: "Þráinn Karlsson hefur starfað hjá LA í fimm áratugi og var meðal þeirra leikara sem fyrst fengu fastráðningu þegar LA varð atvinnuleikhús árið 1973. Síðan þá hefur hann farið með mörg hlutverk fyrir félagið, stór og smá. Þar má meðal annarra nefna Sganarelle í Don Juan, Skrifta-Hans í Ævintýri á gönguför, Þórð í Stalín er ekki hér, Bjart í Sjálfstæðu fólki, Matta í Púntilla og Matta, Anton Antonovitsj í Eftirlitsmanninum, Roulin bréfbera í Bréfberanum frá Arles, hlutverk í My Fair Lady og í Edith Piaf, Ezra Pound í Skjaldbakan kemst þangað líka, Jón Hreggviðsson í Íslandsklukkunni, Eddie Carbone í Horft af brúnni, karlhlutverkin í BarPari, Fangavörðinn í Leðurblökunni, Charlie Baker í Útlendingnum, Angel í Undir berum himni, Jeeter Lester í Tobacco Road, Póloníus í Hamlet og Ananías í Gullbrúðkaupi, og er þá fátt eitt talið.

Hann hefur einnig leikstýrt nokkrum vinsælustu sýningum félagsins, svo sem Ættarmótinu, Fátæku fólki og nú síðast Blessuðu barnaláni. Þá hefur Þráinn hannað og smíðað leikmyndir. Árið 1974 stofnaði hann Alþýðuleikhúsið ásamt með öðrum og vann með því að nokkrum sýningum svo sem Krummagulli og Skollaleik. Hann starfaði um tíma í Þjóðleikhúsinu og hefur leikið í kvikmyndum, sjónvarpi og útvarpi. Þráinn vinnur einnig að myndlist og helgaði sig slíkum störfum veturinn 1995-1996 en þá var hann bæjarlistamaður Akureyrarbæjar. Í vetur hefur hann leikið í öllum uppsetningum LA, Fullkomnu brúðkaupi, Maríubjöllunni og Litlu hryllingsbúðinni. Fyrir hlutverk sín í vetur hefur Þráinn hlotið frábærar viðtökur." Helgi Már orðar þetta svo vel að engu er hægt við það að bæta og mun betra að vitna í ítarleg og vönduð skrif hans um feril Þráins en skrifa eitthvað sjálfur.

Þráinn Karlsson er að mínu mati hjarta og sál Leikfélags Akureyrar. Það hefur allt frá því að ég var kornungur verið sannkölluð upplifun að fara í Samkomuhúsið og fylgjast með þessum snilldarleikara okkar, meistaranum í leikhúsinu, vinna hvern leiksigurinn og toppað sig með hverju árinu. Við hér fyrir norðan getum verið stolt af verkum hans og við hyllum hann öll sem eitt á þessum merku tímamótum. Þráinn Karlsson er einn af bestu leikurum í sögu Leikfélags Akureyrar og fyrir löngu öðlast þann sess í huga okkar allra sem förum þangað á hverju ári til að njóta góðra sýninga og vandaðra menningarviðburða sem eru á heimsmælikvarða. Innilega til hamingju Þráinn með þinn merka áfanga og hafðu mikla þökk fyrir allar þær góðu stundir sem við höfum átt með þér í Samkomuhúsinu.

Viðtal Margrétar Blöndal við Þráinn Karlsson

Caspar Weinberger látinn

Caspar Weinberger

Caspar Weinberger fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, lést í dag, 88 ára að aldri. Weinberger var einn af lykilmönnum utanríkisstefnu Bandaríkjanna í forsetatíð Ronald Reagan á níunda áratugnum og öflugur í starfi Repúblikanaflokksins til fjölda ára. Hann fæddist í San Francisco í Kaliforníu þann 18. ágúst 1917. Hann nam lög við Harvard og gegndi herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni við Kyrrahafið. Að því loknu hóf hann störf sem lögfræðingur í Kaliforníu og tók þátt í stjórnmálum fyrir flokk sinn til fjölda ára í sínu heimafylki og var t.d. fylkisþingmaður 1952-1958. Hann var einn af nánustu pólitísku ráðgjöfum Ronald Reagan í ríkisstjóratíð hans í Kaliforníu 1967-1975 og gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir flokkinn í ríkisstjóratíð Reagans. Hann fluttist til Washington árið 1970 og gegndi fjölda starfa í viðskiptaheiminum til fjölda ára og þótti mjög farsæll og áberandi á því sviði.

Ronald Reagan var kjörinn forseti Bandaríkjanna í nóvember 1980. Weinberger hafði stutt sinn gamla félaga með öflugum hætti og lagt honum mikið lið. Í desember 1980 skipaði Reagan, Casper Weinberger sem varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Skipunarferli hans tók skamman tíma og öldungadeildin staðfesti skipan hans með afgerandi hætti. Weinberger hafði fram að því ekki verið þekktur sem mikill spekúlant í alþjóðastjórnmálum en þótti farsæll og öflugur stjórnandi. Hann var náinn bandamaður forsetans í lykilmálum og þeir deildu þeirri skoðun að Sovétríkin væri ógn í alþjóðamálum og í raun afl hins illa, eins og Reagan orðaði það í frægri ræðu. Weinberger var mikill talsmaður hersins og þótti afgerandi í afstöðu sinni í því að leita eftir því að hann héldi styrk sínum sem víðast. Hann varð síðar lykilmaður í samningaviðræðum stórveldanna og kom sem slíkur auðvitað með Reagan forseta til Reykjavíkur á leiðtogafund hans og Gorbatsjovs.

Caspar Weinberger varð einn litríkasti varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Ferli hans lauk þó snögglega en Íran-Kontra málið veikti mjög stöðu hans og ekki síður forsetans. Weinberger ákvað að segja af sér ráðherraembættinu og boðaði afsögn sína þann 23. nóvember 1987. Weinberger nefndi veikindi eiginkonu sinnar sem ástæðu afsagnarinnar og hann vildi setjast í helgan stein. Það sem eftir lifði seinna kjörtímabils Reagans gegndi Frank C. Carlucci embætti varnarmálaráðherra. Í kjölfar þess að Íran-Kontra málið komst í hámæli blasti við að Weinberger myndi þurfa að svara til saka fyrir að hafa borið ljúgvitni vegna málsins. Til þess kom ekki en George H. W. Bush eftirmaður Reagans á forsetastóli og varaforseti hans, náðaði Weinberger í desember 1992.

Aðeins Robert McNamara hafði gegnt lengur embætti varnarmálaráðherra en Weinberger er hann lét af embætti. Reyndar styttist óðum í að Donald H. Rumsfeld jafni tímalengd hans í embættinu. Seinustu ár ævi sinnar var Caspar Weinberger lítið sýnilegur í umræðunni og hann eyddi efri árunum á heimili sínu í Mount Desert í Maine-fylki.

Illa ígrunduð ályktun

Héðinsfjarðargöng

Á stjórnarfundi hjá Sambandi ungra sjálfstæðismanna í síðustu viku var samþykkt ályktun þar sem talað er fyrir aðhaldi í rekstri ríkisins. Þar er t.d. lagt til að hætt verði við stórt verkefni á borð við borun Héðinsfjarðarganga á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Þykir mér þessi ályktun mjög illa ígrunduð og létum ég og Sigurgeir Valsson, sem með mér situr í stjórn SUS af hálfu Varðar, bóka andstöðu okkar við að göngin um Héðinsfjörð skyldu nefnd í þessu samhengi. Þykir mér satt best að segja algjörlega nóg komið af öllu hjali innan Sjálfstæðisflokksins um að skera þá framkvæmd niður. Hef ég stutt þessa framkvæmd af krafti. Sjálfur er ég bæði ættaður frá Siglufirði að hluta, en afi minn var þaðan, og ekki síður tel ég mikilvægt að standa vörð um þessa staði út með firði og tel göngin forsendu sameiningar milli sveitarfélaganna sem samþykkt var nýlega og þess að Siglufjörður sé fyrir það fyrsta hluti af Norðausturkjördæmi.

Héðinsfjarðargöng voru eitt af kosningamálunum í Norðausturkjördæmi í þingkosningunum árið 2003. Allir flokkar nema Nýtt afl studdu göngin í orði í kosningabaráttunni. Formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins komu norður í kosningabaráttunni og lofuðu því að göngin yrðu staðreynd á kjörtímabilinu en þegar að kosningar fóru fram hafði framkvæmdin verið boðin út. Kortéri eftir kosningar guggnaði ríkisstjórnin á þessu og verkefnið var blásið af og hætt við þrátt fyrir útboðið. Það var reiðarslag, sérstaklega fyrir okkur sjálfstæðismenn hér. Sú ákvörðun var enda með öllu óverjandi og með hreinum ólíkindum að menn kæmu fram með þessum hætti. Frægt varð að Guðmundur Skarphéðinsson formaður fulltrúaráðs flokksins á Siglufirði og nú formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, gekk ásamt fleiri flokksmönnum á Siglufirði á fund Davíðs Oddssonar í Stjórnarráðinu. Fyrir lá að kæmi ekki nýr tímarammi framkvæmda fram myndu allir Siglfirðingar í flokknum ganga úr honum á einu bretti.

Það dugði til þess að menn hlustuðu og menn náðu áfangasigri í málinu þrátt fyrir að menn sviku kosningaloforðin með svo gróflegum hætti. Tímarammi var lagður fram af forsætis-, utanríkis- og samgönguráðherra. Á fundi í Bátahúsinu á Siglufirði þann 19. mars 2005 staðfesti Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, planið sem kynnt var tveim árum áður. Nýlega voru göngin boðin út öðru sinni. Þetta er því komið allt rétta leið. Það er því með hreinum ólíkindum að sjá svona ályktun lagða fram. Ég lít svo á að þessi ályktun sé sem blaut vatnstuska framan í okkur hér fyrir norðan sem höfum þurft að horfa upp á grófleg svik lykilkosningaloforðs.

Við hér fyrir norðan stólum nú algjörlega á það að menn í forystusveit stjórnmála, sérstaklega innan Sjálfstæðisflokksins, séu svo stöndugir að standa við sín stóru orð sem komu fram sumarið 2003 og staðfest voru vorið 2005. Ef svo verður ekki mun verulega hrikta í innstu stoðum stjórnarflokkanna hér á svæðinu. Altént mun ég ekki tala máli þessa flokks hér að ári svíki menn loforðin enn eina ferðina. Nú er komið að því að efndir fylgi för hinum fögru orðum. Því get ég ekki annað en látið undrun mína og reiði í ljós þegar að önnur eins ályktun sést á þeim vettvangi sem ég hef valið mér til stjórnmálastarfa. Ég get ekki annað en lýst furðu yfir innihaldinu.

Pistill minn um málið á Íslendingi

Norðanátt og aftur norðanátt á Akureyri

Akureyri í vetrarklæðum - 27. mars 2006

Það er mikið vetrarríki núna hér norður á Akureyri. Það snjóar og snjóar - sennilega er mesta kalsaveður þessa vetrar hér núna, altént er mesti snjórinn í allan vetur hér núna. Fyrir um hálfum mánuði var hér mikill hiti og flestir töldu að vorið væri komið. Það er þó ekki margt sem minnir á vorið á Akureyri þessa dagana. Nú er það bara snjór og vetrarríki sem blasir við okkur. Þvi er ekki að neita að flestir bæjarbúar voru komnir í vorgírinn og því hrökkva menn svolítið til baka við þetta veður. Ég fór í lummukaffi til ömmu í gær og komst þrátt fyrir kalsaveðrið. Reyndar er ekki langt fyrir mig að fara, enda er Kaupangur í göngufjarlægð frá Víðilundi. Þó er það nú svo að ég er ekki beint til í hlaup þessa dagana og því hjálpar veðrið ekki til. Þó er alltaf eitthvað heillandi við snjóinn en þó væri ég vel til í að það vori snemma.

En þetta er mjög gott veður fyrir skíðamenn og þá sem unna vetraríþróttum. Það er enginn vafi á því fyrir okkur hér á Akureyri að snjór kemur sér vel fyrir okkur. Miðstöð vetraríþrótta hér veitir ekki af snjó og fátt er annars skemmtilegra en að skella sér á skíði og renna niður Hlíðarfjallið. Víst er að margir hugsa sér gott til glóðarinnar og ætla að halda hingað norður yfir páskana, skella sér á skíði og fara í leikhús og njóta hér allra lífsins gæða. Er það svo sannarlega mikið ánægjuefni og við hér fyrir norðan getum verið í senn stolt og glöð með hversu vinsæll ferðamannastaður Akureyri er yfir veturinn. Hér enda margt spennandi fyrir fólk og þetta er góður valkostur fyrir fólk. Framundan eru páskarnir og alkunn er þjóðsagan um páskahretið og því má allt eins búast við meiri snjó.

Nú þegar að ég lít út um gluggann minn á Þórunnarstrætinu á þessum þriðjudagsmorgni sé ég mikinn snjó og það kyngir enn niður snjó. Það er svo sannarlega vetrarríki hér fyrir norðan hjá okkur. Sennilega eru þau sælustu með þetta börnin sem leika sér í snjókarlagerð og fleiru skemmtilegu. Kannski maður skelli sér á skíði bara um páskana. Altént ætla ég mér að eiga notalega og góða páskahátíð og ef marka má stöðuna verður skíðafærið upp í fjalli eðalgott og notaleg stemmning þar.

Saga dagsins
1875 Öskjugos hófst - þetta er talið eitt mesta öskugos sem orðið hefur á Íslandi síðan að sögur hófust - aska náði allt til Svíþjóðar og áttu afleiðingar öskufallsins mikinn þátt í Ameríkuferðunum.
1909 Safnahúsið við Hverfisgötu formlega vígt - það var þá og er enn eitt glæsilegasta hús landsins.
1977 Leikarinn Sir Peter Finch hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Howard Beale í Network. Það var sögulegt við að Finch hlaut óskarinn að hann lést snögglega nokkrum vikum áður, í janúar 1977. Það kom því í hlut ekkju hans, Elethu, að taka við verðlaununum. Sir Peter er eini leikarinn í sögu bandarísku kvikmyndaakademíunnar sem hefur hlotið óskarinn eftir andlát sitt. Finch var einn af svipmestu leikurum Breta og átti stjörnuleik í fjölda mynda og túlkaði marga glæsilega karaktera.
1997 Leikkonan Frances MacDormand hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á hinni kasóléttu og úrræðagóðu lögreglukonu Marge Gunderson í hinni stórfenglegu úrvalskvikmynd Coen-bræðra Fargo.
2004 Leikarinn Sir Peter Ustinov lést í Sviss, 82 ára að aldri - Ustinov kom fyrst fram á leiksviði 19 ára að aldri og lék eftir það í fjölda kvikmynda og leikrita. Hann sendi einnig frá sér skáldsögur og leikrit. Ustinov er ógleymanlegur kvikmyndaáhugafólki fyrir túlkun sína á spæjaranum Hercule Poirot í fimm kvikmyndum á áttunda og níunda áratug 20. aldarinnar. Hann hlaut óskarsverðlaun tvívegis á sjöunda áratugnum fyrir leik sinn í myndunum Spartacus og Topkaki. Seinustu árin vann Ustinov ötullega að mannúðarmálum og var til fjölda ára velviljasendiherra UNICEF, barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

Snjallyrðið
More than any time in history mankind faces a crossroads. One path leads to despair and utter hopelessness, the other to total extinction. Let us pray that we have the wisdom to choose correctly.
Woody Allen leikari og leikstjóri (1935)

27 mars 2006

Lífróður Framsóknarflokksins í Reykjavík

Björn Ingi Hrafnsson

Það er alveg ljóst að skoðanakönnun Fréttablaðsins í gær á fylgi flokkanna í borginni var reiðarslag fyrir meirihlutaflokkana innan R-listans. Ef marka má þá könnun er Sjálfstæðisflokkurinn með yfirburðastöðu og með afgerandi meirihluta. Allar kannanir seinustu mánuðina hafa verið að sýna sterka stöðu flokksins og í raun blasir við að meirihlutaflokkarnir eiga verulega undir högg að sækja. Sýnu verst er staða Framsóknarflokksins, sem mælist nú með innan við þriggja prósenta fylgi. Þetta lélega gengi kemur á óvart miðað við hversu mikla athygli Framsóknarflokkurinn hefur verið að fá seinustu vikur, bæði vegna prófkjörs og kynningar á framboðslista. Ef marka má þetta mun Framsóknarflokkurinn vera utangarðs í borgarstjórn næstu fjögur árin sem væri áfall fyrir flokkinn. Hann hefur enda haft veruleg áhrif í borgarkerfinu innan R-listans og t.d. er hann nú með forsæti borgarstjórnar og forystu í ýmsum helstu nefndum borgarinnar.

Það er mjög merkilegt að innkoma Björns Inga Hrafnssonar hefur ekki bætt stöðu flokksins með neinum hætti. Það vekur athygli enda er Björn Ingi ungur maður og ekki með fortíð í borgarmálum og er því sem ferskur vindblær fyrir flokkinn. Það er þó ekki að skila sér í fylgi eða sterkri stöðu í aðdraganda kosninganna. Það hefur gengið allt á afturfótunum hjá Framsókn seinustu vikurnar eftir prófkjörið og vond staða virðist aðeins ætla að verða sífellt verri. Þar spilar mikla rullu brotthvarf Önnu Kristinsdóttur úr forystusveit flokksins. Hún varð undir í leiðtogaslag prófkjörsins og boðaði brotthvarf sitt úr borgarmálum í kjölfar þess að hún varð í öðru sæti í prófkjörinu og hafnaði formlega sætinu. Í staðinn mun Óskar Bergsson verða í öðru sæti listans, en hann varð þriðji í prófkjörinu. Greinilegt er á tali Önnu Kristinsdóttur og skrifum hennar að hún ætlar ekki að lyfta litla putta fyrir Björn Inga og reynir að gera honum sem mesta skráveifu. Það sést vel á því sem gerst hefur seinustu vikur.

Ég skil Önnu Kristinsdóttur og sárindi hennar mjög vel. Hún sóttist eftir fyrsta sætinu og lagði mikið undir. Það náðist ekki og því metur hún það best að halda sig til hlés. Ég þekki þetta vel sjálfur enda hef ég farið í prófkjör og óskað eftir stuðningi flokksfélaga til verka og orðið undir í þeim slag. Það er mjög erfitt að ætla sér að halda áfram á sama krafti eftir og áður var. En það sést reyndar vel á því hverjir eru í pólitík af ástríðu. Hafi fólk áhuga getur það ekki hætt að spá í pólitík. Það enda sést mjög vel að Anna er hvergi nærri hætt og stefnir að framboði síðar. Held ég að hún ætli í þingkosningarnar að ári. Allavega talar hún ekki eins og kona sem hefur lagt árarnar í bát í pólitík. Tel ég að hún meti það sem svo að hennar séns verði meiri en ella ef Björn Ingi siglir flokknum í strand í borgarstjórnarkosningum. En Anna er ákveðin í hörku sinni og hvergi feimin. Reyndar er það mesti skaði Framsóknar að báðir borgarfulltrúarnir hætta og því ljóst að Björn Inga skortir sárlega reynslu í baráttuna.

Framsóknarflokkurinn í Reykjavík rær þessar vikurnar klárlega lífróður sinn. Ef þeir þurrkast út í borgarstjórn í vor mun það klárlega teljast afhroð fyrir flokkinn og pólitískur ferill Björns Inga mun bíða verulegan hnekki. Ef Björn Ingi nær ekki kjöri þá er það auðvitað gríðarlegt kjaftshögg fyrir flokksforystuna í Framsóknarflokknum að ekki aðeins mun nánasti armur Halldórs Ásgrímssonar verða fyrir hnekki heldur hann sjálfur auðvitað. Það er því greinilegt að allt mun verða lagt í sölurnar og fróðlegt að sjá hvernig Björn Ingi og hans liðsveit spilar úr sínum spilum og möguleikum sínum næstu vikurnar. Það verður mjög athyglisvert að mínu mati að fylgjast með lífróðri Framsóknar í borgarmálunum. Einn þáttur þessa er að Alfreð Þorsteinsson er horfinn og væntanlega munu allir flinkustu auglýsingaspekúlantar landsins verða dregnir til að reyna að hífa Framsókn upp.

Það verður óneitanlega ein af stærstu spurningum þessarar kosningabaráttu hvort að Framsókn í Reykjavík þurrkast út eða tekst að halda sér á floti undir pólitískri forystu Björns Inga Hrafnssonar. Ef marka má stöðuna er tveir mánuðir sléttir eru til stefnuna blæs ekki byrlega fyrir meirihlutaflokkana og allra síst Framsókn undir forystu Björns Inga.

Nýr utanríkisráðherra í Svíþjóð

Jan Eliasson

Mörgum að óvörum tilkynnti Göran Persson forsætisráðherra Svíþjóðar, í morgun að Jan Eliasson forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og sendiherra Svíþjóðar hjá SÞ, hefði verið skipaður sem utanríkisráðherra Svíþjóðar í stað Lailu Freivalds sem sagði af sér embættinu í síðustu viku. Til bráðabirgða hafði Bosse Ringholm aðstoðarforsætisráðherra Svíþjóðar, gegnt embættinu en Freivalds hrökklaðist frá embættinu eftir langvinna erfiðleika og að hafa í raun aldrei tekist að festa sig í sessi. Freivalds hafði tekið við utanríkisráðuneytinu í kjölfar morðsins á Önnu Lindh, forvera sínum í embætti. Skipan Eliasson í stöðu utanríkisráðherra kom mjög óvænt en velt hafði verið vöngum í Svíþjóð yfir því hver hlyti stöðuna. Flestir höfðu talið að Persson myndi velja konu til starfsins til að reyna að flikka upp á stöðu mála eftir mikla erfiðleika í ráðherratíð Freivalds en greinilegt er að hann hefur viljað fara aðrar leiðir í þeirri stöðu sem uppi var.

Það er alveg ljóst að með skipan Jan Eliasson í embætti utanríkisráðherra Svíþjóðar reynir Persson að snúa vörn í sókn, bæði fyrir sig og sænska Jafnaðarmannaflokkinn. Eliasson er enda vissulega maður reynslu og þekkingar. Það deilir enginn um það að hann sé reyndur sérfræðingur í alþjóðamálum. Starfssvið hans hefur verið í utanríkisþjónustunni til fjöldamargra ára. Eliasson er fæddur og uppalinn í Gautaborg og fór ungur í skiptinám til Indiana í Bandaríkjunum og lauk prófi í hagfræði frá hagfræðiháskólanum í Gautaborg árið 1962. Allt frá 1965 hefur hann helgað krafta sína störfum fyrir sænsku utanríkisþjónustuna. Hann var til fjölda ára sérlegur ráðgjafi Jafnaðarmannaflokksins í utanríkismálum og vann í utanríkisráðuneytinu í Stokkhólmi til fjölda ára. Hann var náinn persónulegur vinur Olof Palme forsætisráðherra Svíþjóðar, og margoft ráðlagði hann honum í utanríkismálum. Saman voru þeir til fjölda ára lykilmenn í utanríkisstefnu Jafnaðarmannaflokksins.

Jafnaðarmannaflokkurinn missti völdin tímabundið á áttunda áratugnum sem leiddi til þess að Eliasson skipti um starfsvettvang og hann hélt til starfa í Afríku og Asíu í utanríkismálum af hálfu Svíþjóðar. Eftir valdatöku Palmes á nýjan leik árið 1982 kom hann aftur til starfa í utanríkisráðuneytinu í Stokkhólmi í sérverkefnum og undir lok starfstímans um miðjan níunda áratugarins var hann ráðuneytisstjóri þar. Eftir morðið á Olof Palme, félaga hans og læriföður í flokksstarfinu, hélt Eliasson til New York og varð sendiherra Svíþjóðar hjá Sameinuðu þjóðunum árið 1988. Fjórum árum síðar var komin hægristjórn í Svíþjóð og hann ákvað að halda til starfa innan SÞ og varð formaður neyðarnefndar SÞ í mannréttindamálum og varaforseti ECOSOC. Hann varð talsmaður mannréttindamála hjá SÞ á árunum 1992-1994. Þá hélt hann aftur til Svíþjóðar til starfa í utanríkisráðuneytinu. Anna Lindh utanríkisráðherra, skipaði Eliasson sem sendiherra Svíþjóðar í Washington árið 1999. Þar starfaði hann til haustsins 2005.

13. júní 2005 var Jan Eliasson kjörinn forseti allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og tók við embættinu þann 15. september. Hann mun gegna embættinu til 24. apríl nk. er starfstímabili þingsins lýkur að sinni og tekur þann sama dag við utanríkisráðuneytinu. Fram að þeim tíma mun Kärin Jemtin þróunarráðherra, gegna embættinu, en eins og flestir vita hefur Laila Freivalds látið af embætti og vikið úr sænskum stjórnmálum. Valið á Eliasson þarf vart að koma á óvart, enda er hann einn helsti sérfræðingur sænskra jafnaðamanna í utanríkismálum. Hann hefur verið orðaður við embættið tvisvar, bæði 1994 er kratar komust til valda eftir þriggja ára stjórnarandstöðu og ennfremur haustið 1998 er Anna Lindh var valin til verka í ráðuneytinu. Fáir töldu að Eliasson yrði valinn nú og kom valið mörgum í opna skjöldu. En það er greinilegt að með valinu stólar Persson á þekkingu hans og reynslu og vonast til að með innkomu hans gleymist vandræðakaflinn sem var í ráðherratíð Freivalds.

Hvað svo sem mönnum finnst um stjórnmálaskoðanir Jan Eliasson deila mjög fáir um það að hann er sérfræðingur í utanríkismálum og hefur yfir mikilli reynslu að ráða sem nýtist vel í ráðuneytinu. Það er því alveg ljóst að val forsætisráðherrans á honum er snjallt og gæti hjálpað sænskum krötum í kosningabaráttunni sem framundan er. Staða þeirra er veik í könnunum og með því að láta Lailu Freivalds fara og velja diplómatann Jan Eliasson er Persson að reyna að snúa vörn í sókn. Jafnframt er hann að veita utanríkispólitík sænska Jafnaðarmannaflokksins meiri vigt en hefur verið nú um nokkuð skeið, allt frá því að hin vinsæla Anna Lindh hvarf af pólitísku sjónarsviði fyrir þrem árum.

Saga dagsins
1957 Leikkonan Ingrid Bergman hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun á hinni dularfullu en heillandi Anastasiu - hún hlaut óskarinn alls þrisvar á löngum leikferli sínum: 1944 fyrir leik sinn í Gaslight og 1974 fyrir Murder on the Orient Express - Bergman var ein af svipmestu kvikmyndaleikkonunum í kvikmyndasögunni. Hún lést úr krabbameini á 67. afmælisdegi sínum í ágúst 1982.
1963 Skagafjarðaskjálftinn - mikill skjálfti, sem var um 7 stig á Richtersskala, fannst víða um land. Upptökin voru norður af Skagafirði. Hús léku á reiðiskjálfi um allt Norðurland og olli mikilli skelfingu.
1973 Leikarinn Marlon Brando hlaut óskarinn fyrir stórfenglega túlkun sína á Don Vito Corleone í The Godfather. Brando hafði áður hlotið verðlaunin árið 1954 fyrir leik sinn í On the Waterfront. Brando varð einn af svipmestu leikurunum í gullaldarsögu Hollywood. Marlon Brando lést 1. júlí 2004. Hann átti þá að baki einn litríkasta leikferil kvikmyndasögunnar og var ímynd töffarans í kvikmyndum - goðsögn í lifanda lífi.
1979 Menachem Begin forsætisráðherra Ísraels, og Anwar Sadat forseti Egyptalands, semja um frið og undirrita friðarsamkomulag um að Ísrael og Egyptaland bindi enda á þriggja áratuga stríð á milli landanna. Samkomulagið var kennt við Camp David, sumardvalarstað Bandaríkjaforseta í Maryland, en viðræður leiðtoganna fóru fram þar undir forystu Jimmy Carter forseta Bandaríkjanna. Begin og Sadat hlutu friðarverðlaun Nóbels árið 1979 fyrir framlag sitt til friðar. Samkomulagið kostaði Sadat lífið, en öfgamenn réðu hann af dögum í nóvember 1981, en þeir töldu hann svíkja málstað þeirra.
1995 Leikarinn Tom Hanks hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Forrest Gump - Hanks, sem er einn af svipmestu leikurum nútímans, hlaut áður verðlaunin árið áður fyrir magnaða túlkun sína á lögfræðingnum alnæmismitaða Andrew Beckett og mannlegri baráttu hans í Philadelphia.

Snjallyrðið
I don't want to achieve immortality through my work. I want to work, and work hard while I am living. Those who appreciate will appreciate, others don´t. That´s fine by me. I am not working for others, this is my work and my choice of living.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna (1913-1994)

26 mars 2006

Sunnudagspistill - 26. mars 2006

Stefán Friðrik

Þrjú mál eru í brennidepli í sunnudagspistlinum:

- Viðræður munu hefjast við Bandaríkjamenn um varnir landsins í vikunni. Tel ég að þær viðræður verði að snúast um hvað þeir ætli í staðinn að gera til að tryggja sýnilegar varnir hér á landi. Það er enda mat mitt að án sýnilegra varna sé varnarsamningurinn við Bandaríkin ekki pappírsins virði og þá verði að líta í aðrar áttir og við að taka frumkvæðið til okkar í því sem koma skal. Ég tel t.d. hjalið um nútímavæðingu varna vera fyrir neðan virðingu okkar. Annaðhvort eru hér sýnilegar varnir eða engar varnir. Orðið nútímavæðing er bara valið til að milda reiði okkar að talsverðu leyti. Það er alveg ljóst að án marktækra varna er hlutverki varnarsamningsins í raun lokið. Það blasir að efla verður Landhelgisgæsluna og fá fleiri þyrlur. Vil ég að ein þeirra verði staðsett hér norður á Akureyri.

- Tel ég að netskrif og virk þátttaka í þjóðmálaumræðunni sé mjög vænleg fyrir fólk. Það hefur lengi verið mitt mat að fólk geti orðið virkara með því að skrifa um stjórnmál en að standa í atinu sjálft. Hef ég reynslu af bæði virku starfi í stjórnmálum og því að skrifa um það. Það er margsannað að rödd eins manns sem berst eftir slóðum Internetsins á bloggvefi og heimasíðu geti orðið áhrifameiri en þess sem stendur í þingsal. Fjölmiðlun er orðin svo fersk og áleitin að Netið er orðinn ráðandi aðili á markaðnum. Fer ég yfir virkni í pólitík og tjái mig um mína reynslu af báðu.

- Þingkosningar verða í Ísrael á þriðjudaginn. Flest bendir til að hinn nýstofnaði flokkur Kadima vinni afgerandi sigur í kosningunum í Ísrael á þriðjudag undir forystu Ehud Olmert en í skugga alvarlegra veikinda leiðtogans Ariel Sharon forsætisráðherra, sem verið hefur í dái á sjúkrahúsi í Jerúsalem síðan í ársbyrjun.

1000. bloggfærslan á vefnum

1000

Þetta er 1000. dagsfærslan sem rituð er á þennan bloggvef minn. Ég hef skrifað hér allt frá októbermánuði 2002 og styttist því í fjögurra ára afmæli vefsins. Þann 19. ágúst 2004 náði ég því marki að rita 500. dagsfærsluna. Frá haustinu 2003 hafa skrif hér verið efnismeiri og ítarlegri en fyrsta árið. Hér hef ég daglega umfjöllun um helstu fréttirnar og efni sem mér þykir vert að benda á. Með þessu hef ég fengið það fram að vefdagbókin hér er heimild um atburði í samfélaginu, einskonar atburðasamantekt. Þetta er mín dagbók, ef svo má segja, og ég hef mjög gaman af þessu og met það mikils ef aðrir hafa áhuga á að lesa.

Þakka ég góðar viðtökur sem bloggið hefur hlotið og góðar kveðjur frá þeim sem lesa reglulega efnið. Það hafa greinilega margir fleiri gaman að lesa pælingar mínar og það veitir mér kraft til að halda áfram. Fyrst og fremst er þetta gert fyrir mig - þessi skrif eru áhugamál mitt og ástríða og þau halda áfram af miklum krafti svo lengi sem húsbóndinn á vefnum hefur áhuga á þessu. Það hefur oft verið sagt að netið sé áhrifaríkasti miðillinn. Það er mitt mat að svo sé. Ég næ allavega athygli þeirra sem hingað koma. Ég get því ekki annað en metið það sem svo að netið sé nútímasamskiptaleiðin og held áfram af krafti að nota mér hana.

Vonandi eigum við öll samleið hér áfram!

bestu kveðjur frá Akureyri
Stefán Friðrik Stefánsson

Sjálfstæðisflokkurinn með yfirburði í borginni

Ráðhúsið í Reykjavík

Á morgun eru tveir mánuðir til sveitarstjórnarkosninga. Framboðslistar eru á flestum stöðum komnir fram og styttist í að kraftmesti hluti kosningabaráttunnar hefjist af fullu afli. Frambjóðendur eru víðsvegar á fullu að kynna sig. Sumir þeirra skrifa greinar og minna á sig og framboðið sem það tilheyrir. Framundan er svo sannarlega lífleg og beitt barátta fólks til að ná til almennings í von um atkvæði þeirra. Enginn vafi leikur á að víðsvegar verður spennandi barátta og getur víða orðið mjög tvísýnt á milli framboða. Sennilega munu flestir áhugamenn um stjórnmál horfa til Reykjavíkur í þessum kosningum. Fyrirséð er að breytingar verði þar, enda býður meirihlutinnn, R-listinn, ekki fram aftur í sömu mynd og flokkarnir eru komnir með eigin framboð. Það er því öllum ljóst að 12 ára valdatíð R-listans lýkur í vor en menn deila um hvað taki við að kosningum loknum.

Ef marka má skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag eru yfirburðir Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík miklir í þeirri baráttu. Hann mælist nú með níu borgarfulltrúa inni og fylgi upp á tæp 54%. Samfylking er næststærst með 33% og fimm menn inni en fylgi flokksins hefur aukist óverulega frá prófkjörinu í byrjun febrúarmánaðar.VG eru aðeins með rúm 6% og einn mann inni, sem hljóta að vera mikil vonbrigði fyrir VG og leiðtogann Svandísi Svavarsdóttur sem nú er á fundaferð um alla borg. Frjálslyndi flokkurinn mælist með 3,5% og Framsóknarflokkurinn 2,4%. Skiljanlega nægir það hvorugu framboði til að hljóta mann inn. Það blasir við öllum sem sjá þessa könnun að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur mikilla yfirburða og ef marka má þetta er aðeins spurning um hvort að þeir nái inn níunda manninum. Sá áttundi virðist tryggur haldi fólk þar rétt á málum og vinni baráttuna af krafti næstu átta vikurnar sem framundan eru til kosninga.

Það er enginn vafi af þessari könnun að það háir vinstriframboðunum að hafa skugga R-listans á eftir sér. R-listinn hefur runnið sitt skeið og það hafa líka margir úreltir stjórnmálamenn sem þar enn sitja í nafni listans og eru að verja erfið mál. Enginn vafi er á því að lóðaklúðrið við Úlfarsvatn hefur skaðað vinstriflokkana mikið. Það er enda svo að almenningur virðist hafa fengið nóg af vinstristjórn í borginni. Er það vel. Það er vonandi að borgarbúar tjái þá andstöðu af krafti þann 27. maí nk. Ef marka má þessa könnun verður sigur Sjálfstæðisflokksins afgerandi í vor og þá fær borgin loksins sterka og samhenta stjórn - stjórn sem tekur á málum eftir ráðleysi vinstrimanna seinustu árin.

Í grunninn séð verður enda kosið um það í Reykjavík hvort að borgarbúar vilja marka nýja sýn til framtíðar og kjósa öfluga forystu í borgarmálunum - fá betri borg - eftir veiklulega forystu hins fallna R-lista. Grunnpunktur sjálfstæðismanna verður að benda á ferska sýn til framtíðar og öflugt fólk sem sé tilbúið til að leiða af krafti þau mál sem setið hafa á hakanum hjá R-listanum. Ef marka má kannanir vilja borgarbúar þá breytingu. Það er auðvitað mikið fagnaðarefni.

Saga dagsins
1947 Knattspyrnusamband Íslands var stofnað - KSÍ er langfjölmennasta sérsambandið innan raða Íþrótta- og Ólympíunefndar Íslands, enda munu rúmlega 14.000 landsmenn iðka fótbolta hérlendis
1958 Leikarinn Sir Alec Guinness hlaut óskarinn fyrir frábæra túlkun sína á Nicholson ofursta í The Bridge on the River Kwai - Guinness var einn af bestu leikurum Breta á 20. öld og var þekktur fyrir glæsilega túlkun sína á svipmiklum karakterum. Guinness hlaut heiðursóskar fyrir æviframlag sitt til leiklistar árið 1980. Hann var mjög sérlundaður og horfði t.d. aldrei á myndir sínar og hataði frægt hlutverk sitt í Star Wars. Alec lést árið 2000.
1973 Flugvélin Vor fórst í Búrfjöllum, norður af Langjökli, og með henni fimm manns - meðal þeirra sem fórust í flugslysinu var einn af reyndustu flugmönnunum í flugsögu Íslendinga, Björn Pálsson.
1990 Leikkonan Jessica Tandy hlaut óskarinn fyrir stórglæsilega túlkun sína á suðurríkjahefðarfrúnni Daisy Werthan í kvikmyndinni Driving Miss Daisy - með þessu varð Tandy elsti kvikmyndaleikarinn til að hljóta óskarsverðlaun, en hún var þá 81 árs að aldri. Tandy vann við leik allt til æviloka, þrátt fyrir að greinast með krabbamein árið 1991 vann hún við hverja myndina uns yfir lauk. Hún lést í septembermánuði 1994.
2000 Leikarinn Kevin Spacey hlaut óskarinn fyrir óaðfinnanlega túlkun sína á neðanmálsmanninum Lester Burnham í hinni ógleymanlegu American Beauty - Spacey, sem er einn besti leikari nútímans, hlaut áður verðlaunin 1995 fyrir túlkun sína á Verbal Kint í The Usual Suspects.

Snjallyrðið
Friendship... is not something you learn in school. But if you haven't learned the meaning of friendship, you really haven't learned anything.
Muhammad Ali hnefaleikameistari (1942)

25 mars 2006

Saga af snúnum ökkla

Snúinn ökkli

Þessi vika sem er að líða hefur verið sérkennileg. Það markast af því óhappi sem ég varð fyrir síðdegis á mánudag þegar að ég sneri á mér ökklann skömmu eftir vinnu. Ég náði að komast á slysadeild og fór við svo búið heim og mætti þangað aftur morguninn eftir til að fara í röntgenmyndatöku. Læknar á spítalanum gátu ekki með vissu sagt mér á mánudeginum hvort um væri að ræða ökklabrot eða snúinn ökkla. Þegar að ég vaknaði á þriðjudeginum gat ég ekki stigið í vinstri fótinn og því þótti réttast að ég færi í myndatöku til að skera úr um það. Reyndar var það nokkuð vesen fyrir mig að komast á spítalann á þriðjudeginum en það hafðist allt með góðri hjálp en ég get auðvitað ekkert komist um þessa dagana nema að vera keyrður um allt. Niðurstaðan var annars sú að um væri að ræða mjög slæman snúning á ökkla og ég fór af spítalanum með hækjur. Þær notaði ég þar til í gær á föstudag.

Reyndar var einn hjalli umfram aðra sem voru ekki góðir við að vinna úr þessu. Það var auðvitað að komast í vinnuna en þar er nokkuð stór og mikill stigi um að fara. Það gekk mjög illa fyrsta daginn en svo stig af stigi betur hina dagana. En þrjóskan er svo mikil í mér að ég komst þetta allt frá upphafi, þótt það tæki tímann sinn fyrsta daginn. En ég er semsagt laus við hækjurnar og kominn á eðlilegt ról. Það tók mig reyndar tíma að æfa mig á hækjunum, enda hef ég ekki notað slíkar græjur nema einu sinni á minni ævi. Það var sumar eitt fyrir nokkrum árum - dökkt sumar á minni ævi svo vægt sé til orða tekið. En þetta gekk allt mjög vel og ég er svona stig af stigi að ná réttum hjalli. Reyndar má með sanni segja að með ólíkindum sé að ég hafi ekki ökklabrotnað. Reyndar var það svo á mánudaginn að ég heyrði smella við fallið og því vissi ég alltaf að um snúinn ökkla eða brot væri að ræða en hvorttveggja kom til greina og myndatakan sýndi stöðuna.

Einn vondur fylgifiskur þessa er auðvitað að geta með engu móti verið í skó á veika fætinum. Eiginlega fannst mér það verst af öllu enda var snjókoma hér þessa vikuna og ekki gott um að fara með þessum hætti. Bólgan á fætinum varð svo mikil að ég gat engu móti komið skó á vinstri fótinn. Niðurstaðan varð auðvitað sú að ég var bara í sokk á öðrum fætinum en skó á hinum. Þetta gekk bara alveg ágætlega miðað við aðstæður. Fóturinn á mér bólgnaði reyndar svo mikið að mér varð nóg um og hætti að lítast um tíma á blikuna, en þetta er allt nú á réttri leið. Annars hef ég fengið alla umsögn um svona frá pabba en hann hefur bæði snúið ökkla og brotið ökkla. Af tvennu mjög illu er skárra að snúa hann held ég. Annars eru tilfellin mörg en stundum getur einmitt verið snúningurinn verið verri, ótrúlegt en satt komi hann niður á vondum svæðum á fætinum. Eitt er þó víst að ég var heppinn að brjóta mig ekki og læknarnir skildu með engu móti hversu vel ég slapp.

Samhliða þessu hef ég auðvitað kynnst vel aðbúnaðinum á slysadeild og þessu blessaða heilbrigðiskerfi okkar. Það er ekkert nema gott um það hægt að segja. Við hér á Akureyri erum svo lánsöm að eiga góðan spítala og afburðahæft starfsfólk. Ég kynntist þessu fólki vel á mánudag og þriðjudag og öll þau samskipti voru af hinu góða fannst mér. Reyndar kynntist ég vel að það er ekki gott að bíða á slysadeildinni eftir þjónustu en ég kynntist líka hversu rosalega mikið er þar að gera og miklar annir. En ég kvarta ekki yfir þjónustunni. Ég fékk fínan aðbúnað og fannst þetta allt ganga vel hvað þetta varðar. Hvað varðar batann er hann fyrst að verða sýnilegur núna. Enn get ég þó ekki komist í skó á öðrum fætinum en það kemur vonandi allt til þegar að líður á næstu viku. Ég hef um helgina að mestu haft það bara rólegt og slappað af, en ég hef seinustu dagana unnið minn vinnudag og sinnt öðrum verkefnum.

Reyndar fannst ættingjum mínum ég fara ótrúlega bratt af stað eftir þetta allt. Það er eðlilegt að maður reyni að keyra sig sem mest áfram eftir öllum mætti. Það er enda ekki óeðlilegt að maður vilji reyna að halda sinni rútínu eftir fremsta megni. En það var gott að fá helgarleyfi og hvíla fótinn. Reyndar er blánaður fóturinn vinsælt sýningarefni fyrir ættingjana en þetta er eins og hið besta listaverk þessa dagana. Það styttist sem betur fer í að þetta verði allt eins og áður var. Eina sem pabbi fræddi mig um var að þetta myndi aðeins geta lagast eftir að fóturinn yrði blár svo að ég get farið að hlakka til einhvers núna. :)

Olmert og Kadima á sigurbraut í Ísrael

Ehud Olmert

Nú þegar að aðeins nokkrir dagar eru til þingkosninga í Ísrael bendir nær allt til þess að Kadima, nýstofnaður flokks Ariels Sharons forsætisráðherra Ísraels, vinni afgerandi sigur og leiði ísraelsk stjórnmál næstu árin. Skugga fellur á væntanlegan sigur að maðurinn sem stofnaði flokkinn með miklum hvelli undir lok síðasta árs liggur í dái á sjúkrahúsi í Jerúsalem, og hefur gert allt frá því að hann fékk alvarlegt heilablóðfall fyrir tæpum þrem mánuðum, þann 4. janúar sl. Litlar sem engar líkur eru á því að jarðýtan, eins og Ariel Sharon var alltaf nefndur í ísrelskum stjórnmálum, snúi aftur á hið pólitíska svið og eru meiri líkur á því en minni að hann liggi banaleguna þessar vikurnar. Kadima er nýr flokkur en nýtur alþýðuhylli. Umfram allt er það vegna þess að Sharon er mikils metinn af löndum sínum og er enn vinsælasti stjórnmálamaður landsins, þrátt fyrir veikindin.

Ehud Olmert starfandi forsætisráðherra Ísraels, fer fyrir Kadima og hefur stýrt flokknum í gegnum veikindi Sharons og mun verða forsætisráðherra Ísraels að loknum kosningunum væntanlega. Ef marka má skoðanakannanir nýtur Olmert trausts þjóðarinnar til forystu. Mikið tómarúm hefur verið í ísraelskum stjórnmálum eftir veikindi Sharons og snögglegt brotthvarf frá stjórnmálaforystu. Þetta tómarúm hefur Ehud Olmert fyllt í huga Ísraela. Vandinn sem blasti við Olmert í ársbyrjun var auðvitað tvíþættur. Í fyrra lagi var ekki formlega búið að byggja Kadima upp sem stjórnmálaflokk áður en Sharon veiktist - hann var stofnaður utan um áherslur Sharons og vinsældir hans sem stjórnmálamanns. Í seinna lagi blasti við honum það verkefni að stjórna Ísrael í þá 100 daga sem liðu frá veikindum Sharons til kosninga og halda með trúverðugum hætti þeim öfluga svip sem var á landsstjórninni á taflborði stjórnmálanna undir stjórn Sharons þrátt fyrir að hún væri í raun fallin.

Olmert tókst að koma standandi frá þessari miklu pólitísku áskorun og er í huga landsmanna sigurvegari kosningabaráttunnar. Við blasir að hann muni einnig eftir 28. mars verða hinn nýji sterki þjóðarleiðtogi sem tekur á málunum með krafti. Olmert var ekki öfundsverður af sínu hlutskipti í upphafi ársins. Það var þó margt sem varð til þess að hjálpa honum. Hann naut óskoraðs stuðnings innan Kadima til forystustarfa að Sharon burtkvöddum og naut trausts til að halda áfram á sömu braut og honum auðnaðist. Hann hefur enda ásýnd leiðtogans og þess forystumanns sem bæði Ísrael þarfnast nú þegar að Sharon hefur væntanlega sagt sitt síðasta í stjórnmálabaráttu. Mest af öllu munaði honum um það að lykilmenn Sharonstímans sem ráðlögðu honum og treystu fylktu sér að baki Olmert og engin lykilbreyting varð er Sharon hvarf svo óvænt burt. Olmert tók við sverði og skildi Sharons og hélt áfram alveg ótrauður.

Ehud Olmert, sem fæddur er árið 1945, og er því tæplega tveim áratugum yngri en Sharon, er einn nánasti samstarfmaður Sharons og fylgdi honum úr Likud um leið og Sharon fór úr honum. Olmert var borgarstjóri í Jerúsalem í tíu ár, árin 1993-2003, og hefur gegnt fjórum ráðherraembættum á ferlinum. Hann var fjármálaráðherra og aðstoðarforsætisráðherra í stjórn Sharons. Segja má að Olmert sé mjög líkur Sharon á hinu pólitíska taflborði og hafi verið sá eini sem hefði getað tekið við við keflinu af Sharon og leitt hjörðina saman í kosningar við þessar aðstæður sem við blöstu. Olmert hefur bæði kraftinn og styrkleikann sem þurfti til þess að leysa Sharon af hólmi - mann sem hafði verið lykilmaður á pólitísku taflborði Ísraels í meira en 40 ár.

Það stefnir í áhugaverðar kosningar í Ísrael á þriðjudaginn. Forvera Sharons á leiðtogastóli í Likud, Benjamin Netanyahu, sem verið hafði forsætisráðherra Ísraels 1996-1999 og leiðtogi Likud 1993-1999, hefur mistekist að höfða til þjóðarinnar að þessu sinni og blasir við að verði fylgi Likud í takt við kannanir að pólitískum ferli hans ljúki með miklum hvelli. Sama má segja um Verkamannaflokkinn sem hefur ennfremur mistekist að vega að Olmert og Kadima. Það stefnir því í góðan kosningasigur Kadima og allar líkur eru á því að baráttumaðurinn Ehud Olmert myndi brátt eigin ríkisstjórn í Ísrael.

Það segir enda margt um stöðuna að alþjóðlegir fréttaskýrendur velta mest vöngum yfir því hversu mikið fylgi Kadima og Olmert verði. Nú er bara að fylgjast með því hvort að pólitískt hugarfóstur Ariel Sharon verði það forystuafl sem altént hann stefndi ótrauður að yrði að veruleika, en náði ekki sjálfur að leiða. Fari svo sem allt bendir til munu augu allrar heimsbyggðarinnar verða á baráttujaxlinum frá Jerúsalem eftir helgina.

Skemmtileg fjölskylduhefð á laugardegi

Mjólkurgrautur

Sú skemmtilega hefð er í minni fjölskyldu að hittast alltaf í hádeginu á laugardögum og borða saman léttan og góðan hádegisverð. Skiptumst við á að bjóða í mat. Oftar en ekki er hrísgrjónagrautur á borðum og gott meðlæti. Þennan laugardaginn hélt ég rétt um hádegið niðureftir í Norðurgötu 51 til Línu systur og Skarphéðins mágs en nú var komið að þeim að bjóða heim í hádegismat. Þetta er flott hefð og alltaf gaman að borða saman og að ég tali nú ekki um að spjalla, en það er mikið talað og spekúlerað í fjölskylduboðum í minni ætt. Það er gaman að hittast öll með þessum hætti og er reyndar alltaf leitt að geta ekki verið heima á laugardögum og missa þarmeð af þessu. Síðustu tvo laugardaga hef ég ekki verið heima í hádeginu og misst því af léttum hádegisverði með fjölskyldunni.

Lína og Skarpi voru með mjólkurgraut (eins og oftast) og með var auðvitað brauð og gott álegg. Á eftir var eins og venjulega kaffi og veitingar með. Það var gaman að fara til þeirra í dag enda hafa þau verið á fullu að mála íbúðina og gaman að fylgjast með breytingunum á þeim bænum. Það er skemmtilegt að halda þessum góða sið við og hittast í hádeginu á laugardegi. Reyndar verð ég væntanlega ekki heima um næstu helgi frekar en margar aðrar en eftir hálfan mánuð er komið að mér í röðinni að bjóða í mat. Var ég að hugsa um að brjóta upp hefðina þá og gera skyr og hafa létt og gott meðlæti með.

Hádegin á laugardögum eru því fjölskyldustund í minni fjölskyldu.

Saga dagsins
1954 Leikkonan Audrey Hepburn hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Önnu prinsessu í kvikmyndinni Roman Holiday - Hepburn var ein af svipmestu kvikmyndaleikkonum í gullaldarsögu Hollywood og varð vinsæl fyrir táknræna túlkun á sterkum persónum. Hún lést úr krabbameini í janúar 1993.
1975 Samþykkt var á Alþingi að friðlýsa að fullu Vatnsfjörð í Barðastrandasýslu. Friðlandið var alls um 100 ferkílómetrar. Hrafna-Flóki nam land þar og nefndi landið Ísland, eins og segir frá í Landnámu.
1975 Feisal konungur Saudi-Arabíu, myrtur, í höfuðborginni Riyadh. Hann var þá 68 ára að aldri.
1985 Leikkonan Sally Field hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Ednu Spalding í kvikmyndinni Places in the Heart - var þetta annar óskar Field sem hlaut verðlaunin fimm árum áður fyrir leik sinn í Normu Rae. Er Field tók við verðlaununum flutti hún sögulega þakkarræðu og sagði svo: "I haven't had an orthodox career and I wanted more than anything to have your respect. The first time I didn't feel it but this time I feel and I can't deny the fact that you like me. You really like me!". Urðu fleyg orð.
2001 Schengen-samstarf 15 Evrópuríkja tók gildi. Markmið þess er að tryggja frjálsa för einstaklinga um innri landamæri samstarfsríkjanna og styrkja um leið baráttu gegn alþjóðlegri afbrotastarfsemi. Breytingar á mannvirkjum og búnaði á Keflavíkurflugvelli vegna þessa kostuðu 800 milljónir króna.

Snjallyrðið
I always cheer up immensely if an attack is particularly wounding because I think, well, if they attack one personally, it means they have not a single political argument left.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)

24 mars 2006

Sjálfsörugga glimmergellan brillerar

Silvía Nótt

Glimmergellan veraldarvana og sjálfsörugga Silvía Nótt (í magnaðri túlkun landsbyggðarstelpunnar hógværu Ágústu Evu Erlendsdóttur) kom, sá og sigraði í forkeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva hér heima á klakanum í byrjun ársins með laginu Til hamingju Ísland. Hún sló í gegn og hafði alla forkeppnina afgerandi forskot hvað varðar athygli og umgjörð atriðisins. Sigur hennar var enda afgerandi og aldrei í hættu.

Í kvöld var frumsýnt myndband við lag hennar. Nú er lagið komið á ensku til að fá skírskotun út fyrir Ísland og heitir það nú Congratulations. Myndbandið er litríkt og hressilegt - rétt eins og flytjandinn. Silvía Nótt er með þetta allt á hreinu og mun ekki eiga í neinum erfiðleikum með að ná athygli Evrópubúa með framkomu sinni og litríku lagi. Vonandi gengur Silvíu Nótt vel í Aþenu í forkeppninni þann 18. maí.

Congratulations

Skemmtilegt rými á netinu

laptop

Fyrir nokkrum dögum benti góður vinur minn mér á vefinn MySpace.com. Þar er hægt að skrá sig inn og vera í góðu sambandi við vinina. Þarna er flott samfélag og skemmtilegir valkostir. Hvet alla til að skella sér þarna inn og bætast í hópinn.

Mitt rými á MySpace.com

Björgunarþyrlu til Akureyrar

Björgunarþyrla

Eins og vel hefur komið fram eru þáttaskil framundan í varnarmálum Íslands og bandaríski herinn er búinn að tilkynna brotthvarf sitt héðan með haustinu. Það er því ljóst að hlutverk Keflavíkurflugvallar breytist. Rætt er um hvernig eigi að mæta þessum breytingum og oftar en ekki ber Landhelgisgæsluna oft á góma í því samhengi. Það blasir við öllum að Gæsluna verður að styrkja verulega. Í morgun kynnti Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, á ríkisstjórnarfundi tillögur sínar í málinu. Þær gera ráð fyrir því að staðan verði leyst í tveim áföngum. Er ætlað að lokatillögur um framtíðarskipulag þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar liggi fyrir innan 2 mánaða og að tillögur til bráðabirgðalausnar séu ljósar innan þriggja vikna. Telur Björn að til bráðabirgða sé vænlegt að leigja þyrlur í nánu samstarfi við nágrannaþjóðir okkar en til langframa sé stefnt að því að kaupa eða leigja nýjar þyrlur. Hefur verið skipuð nefnd til að vinna að lokatillögum, sem liggja eigi fyrir bráðlega.

Á fundi bæjarráðs Akureyrar í gær lagði Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, fram tillögu, sem var samþykkt, er bendir á mikilvægi þess að a.m.k. ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar verði staðsett hér á Akureyri. Eins og bent er á í tillögu Kristjáns Þórs er ljóst að öll lengri flug til björgunar norður og austur af landinu verða mun erfiðari en verið hefur frá suðvesturhorninu. Eins og allir vita er hér fyrir norðan miðstöð sjúkraflugs á Íslandi. Á Akureyri er í senn allt til staðar: hátæknisjúkrahús, sólarhringsvakt á flugvelli og sérþjálfað teymi vegna sjúkraflugs. Enginn vafi er því á að björgunarþyrla stassjóneruð á Akureyri myndi auka öryggi vegna sjúkraflugsins mun frekar en nú er. Óskaði bæjarráð samhliða samþykkt tillögu bæjarstjóra eftir viðræðum við ríkisstjórn Íslands um uppbyggingu björgunarstarfs Íslendinga í kjölfar brottflutnings þyrlusveitar varnarliðsins. Tillaga bæjarstjóra var samþykkt samhljóða á fundi bæjarráðs.

Það er viðeigandi við þau þáttaskil sem nú blasa við og ljóst er að fjölga verður björgunarþyrlum að hafa eina þyrlu til staðar hér á Akureyri. Það er alveg sjálfsagt að við þá endurskoðun sem framundan er sé gert ráð fyrir að á Akureyri verði allur sá búnaður sem nauðsynlegur er við björgun. Það er algjör óþarfi að haga málum með þeim hætti að allt sé staðsett á sama stað og viðeigandi nú þegar talað er t.d. um Keflavíkurflugvöll sem einhverja miðstöð Landhelgisgæslunnar að menn líti norður yfir heiðar og dreifi kröftunum með þeim hætti að hér sé allt til staðar til að sinna þessum hluta landsins, bæði hér og austur á fjörðum. Það blasir við öllum að óháð því hvernig viðræður við Bandaríkjastjórn sem fram fara í Reykjavík í næstu viku þarf að efla Landhelgisgæsluna til mikilla muna og stokka upp allt kerfi hennar samhliða þeirri uppstokkun.

Við hér fyrir norðan teljum á þessum þáttaskilum rétt að horft verði til Akureyrar og hvetjum við auðvitað stjórnvöld til að huga að því að hér sé staðsett björgunarþyrla. Að mínu mati mæla öll rök með því að hér sé björgunarþyrla og rétt að stjórnvöld hagi málum með þeim hætti að ekki séu allar þær þyrlur, sem til staðar verða eftir að Landhelgisgæslan hefur verið efld með þeim hætti sem við blasir að verður að gera, staðsettar á suðvesturhorni landsins. Það er við hæfi að horft sé til Akureyrar í þeim efnum að dreifa kröftunum hvað varðar þyrlusveit Landhelgisgæslunnar.

Saga dagsins
1948 Breski leikarinn Sir Laurence Olivier hlaut óskarinn fyrir hreint stórfenglega túlkun á prinsinum Hamlet - Olivier var einn fremsti leikari og leikstjóri Breta á 20. öld og fór á kostum í dramatískum myndum og skapaði einnig ógleymanlega karaktera á hvíta tjaldinu á löngum leikferli sínum. Sir Laurence varð bráðkvaddur í júlímánuði 1989. Hann var valinn besti leikari Bretlands á 20. öld við lok aldarinnar árið 2000.
1973 Kjarvalsstaðir, myndlistarhús Reykjavíkurborgar á Miklatúni, tekið formlega í notkun - húsið var helgað minningu Jóhannesar Sveinssonar Kjarval listmálara, en borgin eignaðist flest listverk hans.
1987 Albert Guðmundsson segir af sér ráðherraembætti - var það vegna ásakana um að hann hefði ekki talið fram til skatts sérstakar greiðslur, sem fyrirtæki í eigu hans hafði fengið frá fyrirtækinu Hafskip hf. á meðan hann var fjármálaráðherra á árunum 1983-1985. Varð skipafyrirtækið gjaldþrota í árslok 1985 og Útvegsbankinn tapaði þar stórfé en Albert var formaður stjórnar Hafskips og formaður bankaráðs Útvegsbankans 1980-1983. Albert gekk í kjölfarið úr Sjálfstæðisflokknum og stofnaði með stuðningsmönnum sínum Borgaraflokkinn, sem hlaut 7 þingmenn í kosningunum 1987. Albert sat á þingi fyrir flokkinn til 1989 og varð sendiherra í Frakklandi. Hann lést í apríl 1994.
1989 Eitt af verstu olíuslysum í sögu Bandaríkjanna á 20. öld á sér stað þegar að olíuflutningaskipið Exxon Valdez strandar við Alaska - síðar kom það í ljós að skipstjórinn hafði verið drukkinn. Leiddi til málaferla og deilna. Varð slysið álitshnekkir fyrir Exxon sem neyddist til að borga metfé í skaðabætur.
2002 Leikkonan Halle Berry hlaut óskarsverðlaun fyrir túlkun sína á Leticiu Musgrove í Monster´s Ball - Berry varð fyrsta þeldökka aðalleikkonan í sögu akademíunnar til að hljóta þessi leikverðlaun.

Snjallyrðið
Everytime you smile at someone, it is an action of love, a gift to that person, a beautiful thing.
Móðir Teresa (1910-1997)

23 mars 2006

Vangaveltur um umferðarslys

Lágheiði

Ansi oft er umræða um banaslys í umferðinni upptalning á þeim sem látist hafa í umferðinni og hversu mörg slys hafa átt sér stað. Í gær hlustaði ég einmitt á frétt þar sem fjallað var um stöðu mála með því að telja upp hversu margir hefðu látist í bílslysum á árinu. Eins og allir vita hafa alltof margir látist í umferðarslysum hérlendis þetta árið, sem og mörg hin fyrri. Það er dapurlegt að heyra þessar tölur og heyra sögu sumra slysanna. Það er oft sagt að meirihluti banaslysa í umferðinni sé á þjóðvegum landsins og slys utan borgar- og bæjarmarka en nú ber svo við að fleiri slys eru í þéttbýli það sem af er árinu. Það hefur verið dapurlegt að fylgjast með fréttum seinustu vikna af alvarlegum slysum í umferðinni og dapurlegum örlögum fjölda fólks sem látið hefur lífið í þessum slysum.

Á árinu 2004 létu t.d. 23 einstaklingar lífið í 20 umferðarslysum. Í fyrra voru sem betur fer færri sem létust. Það sem af er þessu ári hafa alltof mörg slys orðið og margir látist, þar á meðal nokkur fjöldi af ungu og efnilegu fólki - öflugu fólki sem mikil eftirsjá er að. Á bakvið þessar nöpru tölur um látna í umferðarslysum eru fjölskyldur í sárum - einstaklingar í sorg vegna sorglegs fráfalls náinna ættingja. Það hefur sérstaklega verið dapurlegt að heyra fréttir af skelfilegum umferðarslysum þar sem látist hafa ungir strákar hér í Eyjafirði. Það er vægt til orða tekið að hér ríki mikil sorg og fólk í sárum. Það er nokkuð um liðið síðan að önnur eins sorg hefur ríkt hér vegna umferðarslysa. Lengi hef ég verið mikill talsmaður þess að hafa öfluga umfjöllun um umferðarmál og minna fólk sífellt á mikilvægi þess að keyra varlega og varast slys.

Umferðarslys eru sorgleg og tíðni þeirra hérlendis er alltof mikil. Umferðarslys breyta lífi fólks að eilífu. Ekkert verður samt eftir þau. Þeir vita það best sem misst hafa náinn ættingja eða vin í slíku slysi hversu þung byrði það er að lifa eftir þau sorglegu umskipti og sárin sem fylgja slíku dauðsfalli gróa seint eða aldrei. Það er sorgleg staðreynd eins og fyrr segir að árlega er fjöldi fjölskyldna í sárum vegna dauðsfalls af völdum umferðarslyss. Síðustu ár hafa Umferðarráð og síðar Umferðarstofa staðið sig vel í að tjá sig um þessi mál og koma boðskapnum sem einfaldast og best til skila. Sérstaklega fannst mér þetta heppnast best í auglýsingaherferð á síðasta ári þar sem hljómaði tónverk Jóns Ásgeirssonar við Vísur Vatnsenda Rósu og sýndar voru myndir af vegum og myndir látinna kristölluðust þar. Þetta voru í senn táknrænar auglýsingar og vöktu fólk til umhugsunar.

Í grunninn séð vekur það okkur öll vonandi til lífsins í þessum efnum að sjá þær skelfilegu tölur um fjölda látinna í umferðarslysum og fjölda slysa almennt. Ég vona það allavega. Dapurleg umferðarslys seinustu ára og hörmuleg örlög fjölda Íslendinga sem látist hafa eða slasast mjög illa í skelfilegum umferðarslysum á að vera okkur vitnisburður þess að taka til okkar ráða - það þarf að hugleiða stöðu mála og reyna að bæta umferðarmenninguna. Það er mikilvægt að við séum vel á verði og munum að við verðum að taka slysin úr umferð!

Málefnafundur Varðar í kvöld

Fálkinn

Í kvöld ætlum við hjá Verði að hefja formlega kosningastarf okkar fyrir komandi kosningar með fundi í Kaupangi undir yfirskriftinni "Hvað vill ungt fólk á Akureyri?" Ætlum við þar að bjóða öllu ungu fólki sem er áhugasamt um bæjarmálin til að ræða við okkur um áherslur sínar í stórum málaflokkum í komandi kosningum: atvinnu-, skóla- og forvarnamál. Fundurinn verður mjög léttur og fyrst og fremst ætlað að vera pólitískt skemmtilegur og líflegur. Þegar að þátttakendur hafa skipt sér upp í vinnuhópa tekur við vinna í málaflokkunum og er ætlað að hóparnir róterist á kortérs fresti þar til að allir hafa setið í öllum málaflokkum og innlegg allra í hvern málaflokk hafa komist að. Þetta skapar líflegt og gott fundaform og allir fá að segja sitt um öll mál.

Í miðjunni ætlum við að fá okkur léttar veitingar og spjalla og að því loknu munu hópstjórar kynna hugmyndir hópanna og tillögur þeirra. Fundarstjóri er María Marinósdóttir, frambjóðandi á lista Sjálfstæðisflokksins í vor en hópstjórar verða ég, Hanna Dögg Maronsdóttir og Jóna Jónsdóttir. Væntum við skemmtilegra umræðna og líflegs kvölds. Ég hvet alla áhugasama um bæjarmálin og vilja leggja sitt af mörkum í málefnavinnu okkar að mæta og taka þátt. Hittumst hress í kvöld!

Saga dagsins
1663 Ragnheiður Brynjólfsdóttir biskupsdóttir, lést í Skálholti, 21 árs að aldri - við útför Ragnheiðar var sálmur sr. Hallgríms Péturssonar, Allt eins og blómstrið eina, fluttur í fyrsta skipti. Einn þekktasti sálmur landsins og er hann sá sálmur sem oftast er spilaður við jarðarfararathafnir í kirkjum landsins.
1937 Sundhöllin í Reykjavík var vígð að viðstöddu fjölmenni - tilkoma Sundhallarinnar markaði talsverð þáttaskil í íþróttamálum hérlendis.
1950 Leikkonan Olivia de Havilland hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á hefðarmaddömunni Catherine Sloper í kvikmyndinni The Heiress - De Havilland hlaut áður óskarinn þrem árum áður fyrir leik sinn í To Each his Own. Hún var ein vinsælasta leikkona gullaldarsögu Hollywood og túlkaði margar sterkar kvenpersónur á hvíta tjaldinu. De Havilland hlaut heiðursóskar fyrir æviframlag að kvikmyndum í mars 2003.
1998 Leikarinn Jack Nicholson hlaut óskarinn fyrir magnaða túlkun sína á sérvitringnum Melvin Udall í kvikmyndinni As Good as it Gets. Þetta var þriðji óskar hans, en hann hafði áður hlotið verðlaunin fyrir leik sinn í One Flew Over the Cuckoo´s Nest og Terms of Endearment. Hefur verið tilnefndur til verðlaunanna tólf sinnum, oftar en nokkur annar karlleikari. Á þessari sömu óskarsverðlaunahátíð hlaut kvikmyndin Titanic alls ellefu óskarsverðlaun. Titanic varð vinsælasta kvikmynd 20. aldarinnar í bíó.
2003 Breska leikkonan Catherine Zeta-Jones hlaut óskarinn fyrir litríka túlkun sína á skassinu Velmu Kelly í Chicago.

Snjallyrðið
A loving heart is the beginning of all knowledge.
Thomas Carlyle heimspekingur (1795-1881)