Í kvöld horfði ég á borgarafund NFS frá Fjarðabyggð. Þar sátu fyrir svörum leiðtogar framboðanna fjögurra sem nú þegar liggja fyrir og helstu kosningamálin fengu sína kynningu eins og vera ber. Mér finnst NFS vera að standa sig alveg frábærlega með þessum borgarafundum og kynna landsmönnum pólitíkina úti á landi. Þetta er eitthvað sem þeir mega vera stoltir af. Það hefur enda verið svo að borgarpólitíkin hefur fengið langmest rými í fjölmiðlaumræðunni og gott að fá sjónarhorn á stöðuna utan Ártúnshöfðans. Höfum við nú séð ítarlega og vandaða þætti frá Akranesi, Árborg og Akureyri, en ég var viðstaddur þann fund á veitingastaðnum Strikinu fyrir viku og hafði gaman af. Fyrir mig var auðvitað sérstaklega áhugavert að fylgjast með pólitísku umræðunni í Fjarðabyggð. Ég á að hluta ættir mínar að rekja austur og hef alltaf þótt gríðarlega vænt um byggðirnar þar og á taugar til staðanna í gömlu Fjarðabyggð sérstaklega.
Hin gamla Fjarðabyggð var til með sameiningu Neskaupstaðar, Eskifjarðar og Reyðarfjarðar árið 1998. Sú sameining hefur gengið að mörgu leyti vel en að öðru leyti ekki. Var ég reyndar gáttaður er sú sameining fór í gegn enda hef ég verið alinn upp við að heyra sögurnar af rígnum milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar sérstaklega. Þegar að ég fer austur á firði til móðurfjölskyldu minnar á Eskifirði er ávallt svo að menn ræða um þennan ríg og hann er ótrúlega mikið enn til staðar þrátt fyrir sameininguna. Að mörgu leyti er það skoðun fólks að sameiningin frá 1998 hafi aldrei verið fullkláruð, svo eðlileg teljist hún. Að mörgu leyti hverfur þessi rígur með eldri kynslóðunum en að öðru leyti ekki. Hef ég haft lúmskt gaman af þessum ríg sem verið hefur og er oft tvennt ólíkt að heyra t.d. Halldór móðurbróður minn á Eskifirði og Lalla móðurbróður á Norðfirði lýsa lífinu og tilverunni þar.
Það vakti mikla athygli mína og eflaust margra fleiri þegar að aðeins var samþykkt sameiningartillaga um að sameina Austurbyggð, Fjarðabyggð og Mjóafjarðarhrepp í eitt sveitarfélag í sameiningarkosningunum 8. október 2005. Sameiningarkosningin þótti misheppnuð og hún miðaði lítið áfram. En nú er þetta að verða eitt sveitarfélag fyrir austan og ég tel að það styrki byggðirnar þar. Annars mun staða þessa alls verða metið af því hvernig til tekst hjá þeim sem ráða för í nýju sveitarfélagi frá 15. júní. Eitt og annað hefur breyst í pólitíkinni fyrir austan með þessari sameiningu. Auðvitað fækkar þar sveitarstjórnarmönnum til samræmis við þetta og nýir tímar renna upp. Í aðdraganda kosninganna var stillt upp hjá öllum framboðunum fjórum nema Framsóknarflokknum. Reyndar fannst mér merkilegt að sjá stöðuna sem úr því prófkjöri kom en staða sveitarstjórnarfulltrúanna frá Austurbyggð varð þar sterk.
Nýtt sveitarfélag er 4000 manna byggðarlag - sterkt sveitarfélag og þar er mikil uppbygging á öllum sviðum. Í raun hefur verið ævintýralegt að fylgjast með kraftinum þar. Hef ég séð hann vel af ferðum mínum þangað seinustu árin. Nýtt sveitarfélag heitir Fjarðabyggð, rétt eins og sveitarfélagið sem varð til árið 1998. Nýtt pólitískt landslag blasir við í nýju sveitarfélagi og munu nýjir tímar vonandi verða þar með kosningunum eftir rúman mánuð. Í kvöld var kynnt ný skoðanakönnun á fylgi framboðanna í Fjarðabyggð. Þar mælist Fjarðalistinn (sameiginlegt framboð félagshyggjuflokkanna) stærst með 35,6%, næstur kemur Sjálfstæðisflokkurinn með 31,8% og Framsóknarflokkurinn mælist með 29,7% fylgi. Öll mælast framboðin þrjú með þrjá menn inni. Biðlistinn, sem stofnaður var í aðdraganda kosninganna 2002, mælist aðeins með 1,7% fylgi og missir meginþorra fylgis síns.
Fjarðalistinn er byggður á grunni Alþýðubandalagsins á Norðfirði sem þar réð lögum og lofum í hálfa öld og kjarninn í framboðinu eru vinstrimenn á öllum stöðunum. Þó er Fjarðalistinn ekki borinn upp af neinum flokkum beint en undirstaða listans er þó öllum ljós. Ef marka má þessa skoðanakönnun er Fjarðalistinn að missa mann frá kosningunum 2002 í gömlu Fjarðabyggð. Smári Geirsson sem leiddi Fjarðalistann 1998 og 2002 er svo sannarlega þekktur í sveitarstjórnarpólitík um allt land og var lengi leiðtogi Alþýðubandalagsins á Norðfirði er í fjórða sæti Fjarðalistans að þessu sinni. Hann setur sjálfan sig í oddasæti og leggur allt undir með því að Fjarðalistinn haldist enn stærsta aflið í bæjarmálunum þar. Ef marka má þessa könnun er hann ekki inni en er þó skv. henni næstur inn og þá á kostnað þriðja manns Framsóknarflokksins. Það verður óneitanlega merkilegt að sjá hvort Smári helst inni.
Sjálfstæðisflokkurinn er í mikilli uppsveiflu í Fjarðabyggð í þessari könnun. Þar er öflugur nýr framboðslisti og mikið af öflugu og góðu fólki sem gefur kost á sér - til að leiða flokkinn til sigurs þar. Nýr leiðtogi, Valdimar O. Hermannsson, er kominn til sögunnar. Þar er öflugur og vandaður maður. Hitti ég hann á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrr í mánuðinum og ræddi örlítið við hann um pólitísku stöðuna þar. Tel ég flokkinn eiga mikil sóknarfæri í Fjarðabyggð að þessu sinni. Markmiðið hlýtur að vera að tryggja kjör Jens Garðars Helgasonar og ná því að tryggja að Sjálfstæðisflokkurinn verði stærst framboða í sveitarfélaginu. Listi flokksins í Fjarðabyggð er svo til algjörlega nýr og það er öllum ljóst að með honum er opnað á ný tækifæri og nýtt upphaf í stjórnmálunum í bænum. Ef marka má þessa könnun eru tækifæri Sjálfstæðisflokksins miklir í nýju sveitarfélagi og þriðji maðurinn virðist öruggur inni.
Framsóknarflokkurinn er leiddur af Guðmundi Þorgrímssyni bæjarfulltrúa í Austurbyggð. Prófkjör flokksins þótti skila af sér kostulegum úrslitum og í raun má telja merkilegt hversu sterkir fulltrúar Austurbyggðar urðu þar en kjörnir fulltrúar flokksins í Fjarðabyggð urðu undir. Er reyndar athyglisvert að sjá hversu sterk staða flokksins er í Fjarðabyggð miðað við aðrar kannanir út um landið. Virðist flokkurinn standa sterkar þarna en á mörgum öðrum stöðum. Biðlistinn var stofnaður með krafti fyrir fjórum árum af frænda mínum, Helga Seljan, og vinum hans. Þeir unnu mikinn sigur og náðu að fella kommameirihlutann alræmda, sem var mikið þarfaverk. Segja má að Biðlistinn hafi breytt mjög pólitísku stöðunni þarna. Ef marka má stöðuna nú er á brattann að sækja fyrir listann og Ásmund, sem varð bæjarfulltrúi í stað Helga og leiðir listann að þessu sinni. En væntanlega stefna þeir hátt.
Þessi könnun sýnir nýtt landslag í pólitíkinni fyrir austan. Fyrst og fremst sýnir hún að Sjálfstæðisflokkurinn á öll sóknarfæri í það að verða stærst framboðanna fjögurra í Fjarðabyggð. Ég ætla svo sannarlega að vona það að flokksfélagar mínir leiði flokkinn til glæsilegs sigurs eftir rúman mánuð. Mér finnst listi þeirra góður allt frá þeim sem leiða til þeirra sem með fylgja. Heiðurssæti listans skipar Georg Halldórsson á Eskifirði en við erum systkinabörn. Goggi hefur eins og flest okkar fólk frá Eskifirði fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum. Á móti kemur að allir erum við, ég, Goggi og Helgi Seljan yngri, náskyldir og afkomendur Friðriks Árnasonar, sem var lengi hreppstjóri á Eskifirði. Friðrik afi var sjálfstæðismaður fram í hjartarót og fáum hef ég kynnst á lífsleiðinni sem var gegnheilli hægrimaður.
Ég vona að hægrisigur verði niðurstaðan í Fjarðabyggð eftir mánuð!