Skemmtilegt sumar framundan
Það er loksins komið sumar á Akureyri eftir kuldahret skömmu fyrir kosningar. Það er því loksins viðeigandi útivistar- og grillveður komið. Það varð visst tómarúm í mínu lífi rétt eins og allra annarra sem unnu að kosningunum þegar að þeim var lokið. Mikil vinna og törn var seinustu vikuna og unnið allan daginn af miklum krafti. Nú er baráttan búin og framundan hversdagslífið. Fólk er misjafnlega sátt við úrslitin hér eins og gengur. Nú standa meirihlutaviðræður af krafti og beðið niðurstaðna í því hvernig sá meirihluti líti út sem taki við stjórn bæjarins er kjörtímabili fráfarandi bæjarstjórnar lýkur formlega um miðjan næsta mánuð. Það hefur verið í mörg horn að líta hjá mér seinustu daga þrátt fyrir að kosningarnar séu afstaðnar. Þá fá vinir og ættingjar meiri tíma en áður og það er viss tilhlökkun í mér yfir þeim sumarvikum sem framundan eru. Ég ætla mér að fara víða í sumar og hafa gaman af. Fyrirhuguð er utanlandsferð og ferðir um landið.
Það er mjög gaman að fara í Kjarnaskóg núna öll kvöld og fá sér góðan göngutúr. Þar er 2,2 kílómetra gönguleið um skóginn sem virkilega notalegt er að fara. Ég fer þessa leið nú á hverjum degi. Það verður ánægjulegt næstu vikur að sjá skóginn taka við sér og fara í sumarklæðin. Það er enda fátt skemmtilegra en að sjá náttúruna taka á sig sumarblæ. Aðstaðan í Kjarnaskógi er öll til fyrirmyndar. Ég hef oft stundað það að fá mér góðan göngutúr um skóginn og slappa af um leið - það er fátt betra til afslöppunar en að fá sér góðan göngutúr og er leiðin um Kjarnaskóg tilvalin. En nú er ég semsagt staðráðinn í að labba þessa rúmu tvo kílómetra á hverjum degi. Í gær fór ég leiðina eftir kl. 21:00 enda þá nýkominn úr fimmtán ára afmæli Andreu og Berglindar. Þar voru tertur og glæsilegar veitingar eins og Hönnu er von og vísa - svo sannarlega viðeigandi að fara þessa góðu gönguleið strax að því loknu.
Ég ætla að vona að þetta sumar verði gott. Því ætla ég að eyða í útivist og ferðalögum að miklu leyti. Það er ágætt að taka sér gott frá pólitíkinni og það hyggst ég gera. Því má búast við að meiri áhersla verði lögð á kvikmyndir og pælingar án stjórnmála í sumar. Stöku sinnum skýt ég að pólitískum pælingum. Það má búast við átakalitlu pólitísku sumri og ágætt að taka því rólega í sumar.