Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 júlí 2005

Punktar dagsins
Páll Magnússon verðandi útvarpsstjóri

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, skipaði í dag Pál Magnússon í embætti útvarpsstjóra frá 1. september nk. Páll Magnússon verðandi útvarpsstjóri, er þaulreyndur fjölmiðlamaður og er því án nokkurs vafa sviðsvanur á þeim vettvangi sem hann er að fara á er hann tekur við þessu starfi. Hann var blaðamaður á Vísi 1980-1981 og fréttastjóri á Tímanum 1981-1982. Páll var fréttamaður og þingfréttamaður hjá Sjónvarpinu 1982-1985 og varafréttastjóri Sjónvarpsins 1985-1986. Um tíma á þeim starfstíma var Páll starfandi fréttastjóri í veikindaforföllum Ingva Hrafns Jónssonar þáv. fréttastjóra. Árið 1986 var Páll ráðinn fyrsti fréttastjóri Stöðvar 2 og gegndi því starfi til ársins 1990. Páll var framkvæmdastjóri dagskrár- og framleiðslusviðs Stöðvar 2 1990-1991 og forstjóri Íslenska útvarpsfélagsins 1991-1994. Hann var ritstjóri Morgunpóstsins 1994-1995, sjónvarpsstjóri Sýnar 1995-1996, fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar 1996-2000 og framkvæmdastjóri samskipta- og upplýsingasviðs Íslenskrar erfðagreiningar 2000-2004. Eftir störf utan fjölmiðla um tíma kom hann aftur á sinn gamla vinnustað árið 2004 og var á rúmu ári þar framkvæmdastjóri dagskrársviðs Íslenska útvarpsfélagsins og svo að lokum sjónvarps- og fréttastjóri Stöðvar 2 þar til fyrr í þessum mánuði.

Í sunnudagspistli mínum um síðustu helgi skrifaði ég um fjölmiðla og taldi þar Pál Magnússon koma vel til greina í þetta starf. Það hefur alla tíð verið skoðun mín að í þessu starfi eigi að vera þaulreyndur fjölmiðlamaður. Páll hefur það sem til þarf í þetta embætti. Hann þekkir fjölmiðlalandslagið eftir áratugastörf að fréttamennsku og í kastljósi fjölmiðla. Hann hefur unnið víða að fjölmiðlum, það sem mest er vert að hann þekkir fjölmiðlaheiminn utan veggja Ríkisútvarpsins í Efstaleiti og þekkir lífið bæði innan veggja RÚV og ekki síður utan þeirra og hefur unnið á ólíkum fjölmiðlum. Páll verður ferskur blær breytinga inn í hið staðnaða Ríkisútvarp. Páll hefur ákveðnar skoðanir á fjölmiðlum og það hefur gustað af honum sem litríkum fjölmiðlamanni. Þannig útvarpsstjóra þurftum við að eignast. Því fagna ég mjög ákvörðun Þorgerðar Katrínar og líst vel á þær breytingar sem munu verða með Páli. Hefur hann í dag tjáð sig um verkefnin framundan og talað um breytta tíma í mörgu innan RÚV undir sinni stjórn. Það er mjög gott að heyra. Með skipan Páls Magnússonar í embætti útvarpsstjóra er vonandi hægt að stokka upp RÚV og horfa til nýrra tíma þar innbyrðis.

Í kvöld var Páll Magnússon verðandi útvarpsstjóri, gestur beggja dægurmálaþáttanna og svaraði þar spurningum fjölmiðlamanna með miklum bravúr. Hreifst ég af framkomu hans, hugmyndum og markmiðum í starfinu. Sannfærðist ég þar endanlega um að rétti maðurinn var valinn til verkanna sem framundan eru. Páll hefur margt með sér sem fær fólk til að trúa á hann og það sem hann talar fyrir. Hann hefur verið lengi öflugur fjölmiðlamaður og öðlast reynslu úr mörgum áttum. Öll sú reynsla verður honum öflugt veganesti á þeirri vegferð sem framundan er. Líst mér sífellt betur á hann og hans boðskap og sannfærðist um það yfir þáttunum að hér er kominn maður sem er kominn í starfið til að hafa áhrif til betri vegar og færa stofnunina áfram í átt til nauðsynlegra breytinga sem framundan eru samhliða því að útvarpsráð verður lagt niður og breytingar verða samhliða nýjum útvarpslögum. Það þarf svona týpu til verksins - hreint út sagt. Ég vil nota tækifærið og óska nýráðnum útvarpsstjóra innilega til hamingju með starfið og óska honum góðs í störfum sínum.

Páll í Kastljósi
Páll í Íslandi í dag

Síminn

Stærsta einkavæðing í sögu landsins hefur átt sér stað. Í gær voru tilboð í Símann opnuð. Þrjú tilboð komu. Hæsta tilboðið kom frá Skipta ehf, sem er í eigu Exista (fjárfestingarfélags Bakkavararbræðra), lífeyrissjóðs verslunarmanna, Gildi-lífeyrissjóðs, sameinaða lífeyrissjóðsins, Samvinnulífeyrissjóðsins, MP fjárfestingarbanka hf, Kaupþing banka hf. og IMIS ehf. Tilboðið hljóðaði upp á 66,7 milljarða króna. Var því tekið, enda var næsta boð um 10% lægra. Því kom ekki til framhaldsferlis sem hefði orðið ef 5% hefðu orðið milli hæsta og næsthæsta tilboðs í fyrirtækið. Hefði það orðið raunin hefði næsthæsti bjóðandi getað hækkað boð sitt og til móts getað komið hærra boð frá hæstbjóðanda. Það mikill munur var á milli að það ferli fór ekki af stað og tilboði Skipta var því tekið. Það kom því ekki til spennuferlis sem hefði orðið að kapphlaupi á örfáum klukkutímum. Skrifað verður undir samninga vegna kaupanna í næstu viku. Næsthæsta boð átti Símstöðin, sem hljóðaði upp á 60 milljarða króna. Í þeim hópi voru t.d. KEA, Burðarás og Tryggingamiðstöðin. Þriðja og lægsta boð átti Nýja símafélagið, tæpa 55 milljarða króna, og var það tæplega 20% hærra en boð Skipta.

Fagna ég mjög því að þessu ferli sé lokið og nýr eigandi taki brátt við Símanum. Það sem mér þykir verst að ekki skuli hafa verið búið að selja Símann fyrir löngu. Það var reynt að gera það árið 2001 og leitt að það skyldi ekki takast. Það er auðvitað afleitt að ríkið hafi verið að reka samkeppnisfyrirtæki í símarekstri og í þeirri aðstöðu að halda utan um slíkt fyrirtæki og markaðinn með þessum hætti. Því er víðast um heiminn lokið og þetta kemur varla að óvörum hér. Annars eru bara rúm fimm ár síðan ríkið hafði eitt leyfi til að reka símafyrirtæki og menn voru ansi lengi aftarlega á merinni í þessum efnum og einkaaðilum bannað að reka samkeppni gegn Símanum. Það er auðvitað fáránlegt að ríkið sé í bullandi samkeppni við einkaframtakið og sé t.d. eigandi að Skjá einum, sem veitir okkur ókeypis sjónvarpsefni. En þessu er nú öllu að ljúka. Markmið nýrra eigenda virðist vera að tryggja áfram öfluga þjónustu við viðskiptavini, um allt land - dreifðar byggðir landsins, og enn frekari sókn Símans á fjarskiptamarkaði.

Síminn er stöndugt fyrirtæki og það verður fróðlegt að sjá framtíð þess í eigu annarra. Ekki tel ég veita af því að Síminn standi á eigin fótum í harðnandi samkeppni og fái aðra ásýnd með nýjum eigendum. Hvað varðar þá peninga sem koma í ríkiskassann vona ég að þeim verði vel varið. Eitt hið mikilvægasta er að greiða niður erlendar skuldir ríkisins með krafti og tryggja að allir landsmenn fái notið andvirðisins í formi þess að efla byggðir landsins, t.d. í formi betri samgangna.

Strandgata á Akureyri

Á morgun hyggst Minjasafnið hér á Akureyri bjóða fólki upp á sögugöngu um Oddeyrina. Er þetta kærkomið tækifæri til að kynna sér sögu þessa merka svæðis og húsanna á Eyrinni. Fyrir okkur sem höfum áhuga á sögu Akureyrar og þessa svæðis er þetta ánægjulegt mjög og hef ég í hyggju að fara í gönguna og kynna mér söguna og það sem kynnt er af hálfu Minjasafnsins. Alla tíð hefur mér þótt Eyrin heillandi, þar er mikil saga í gömlu húsunum. Sögu Eyrarinnar má rekja allt aftur til ársins 1300 og í gegnum tíðina hefur Eyrin verið vettvangur útgerðar og verslunar. Gránufélagið byggði upp höfuðstöðvar sínar þar og hús þess standa enn sem glæsilegur vitnisburður um liðna tíma í verslunarsögu bæjarins. Oddeyrin efldist mjög undir lok 19. aldar. Byggð kom þar til sögunnar í vaxandi mæli á þeim tíma. Strandgatan er virkilega heillandi og góð gata. Að Strandgötu 43 reisti langafi minn, Stefán Jónasson útgerðarmaður, sér hús og þar komu hann og langamma, Gíslína Friðriksdóttir, sér upp heimili og þar ólust börn þeirra upp. Alla tíð hef ég borið hlýjan hug til þessarar götu og húsanna sem standa glæsileg á þessu fallega svæði í bænum. Verður ánægjulegt að fara í þessa sögugöngu og kynna sér þá sögu sem svæðið býr yfir.

Sumarsól í Eyjafirði árið 2004

Verslunarmannahelgin er að skella á. Þessi mesta ferðahelgi ársins hentar vel til þess að slappa vel af heima eða að ferðast um landið og kynna sér útihátíðirnar og skemmta sér vel. Margir verða á faraldsfæti og hingað norður er kominn nokkur fjöldi fólks, eins og venjulega, á fjölskylduhátíðina Ein með öllu. Að þessu sinni ætla ég að dveljast hér heima á Akureyri og njóta lífsins vel. Það er viðeigandi að kanna vel menningarlífið í bænum, fara í sögugönguna (sem fyrr er nefnd), sleikja sólina og skemmta sér vel í hópi ættingja og vina. Á sunnudagskvöldið er svo ómissandi liður í hátíðahöldum helgarinnar, brekkusöngurinn á Íþróttavellinum. Þar tökum við öll, bæjarbúar sem og gestir okkar, lagið saman og eigum notalega og ljúfa stund saman í kvöldrökkrinu. Svo má ekki gleyma því að á sunnudaginn verður grillað ekta lambakjöt. Uppskrift að notalegri og góðri helgi. Óska öllum lesendum góðrar skemmtunar um helgina, hvar svo sem þið eruð stödd.

Saga gærdagsins
1662 Erfðahyllingin í Kópavogi (Kópavogsfundurinn) - helstu forystumenn þjóðarinnar undirrituðu þá formlega í Kópavogi skjal er markaði að fullu formlegt upphaf fulls einveldis Danakonungs á Íslandi.
1750 Eitt þekktasta tónskáld sögunnar, Johann Sebastian Bach deyr - hann var þá 65 ára að aldri.
1960 Norðurlandaráðsþing var haldið á Íslandi í fyrsta skipti - Norðurlandaráð var stofnað árið 1952.
1988 Paddy Ashdown kjörinn leiðtogi Frjálslyndra demókrata í Bretlandi - í 11 ára leiðtogatíð hans stækkaði flokkurinn um meira en helming - Ashdown hætti afskiptum af stjórnmálum á árinu 2001.
1990 Alberto Fujimori kjörinn forseti Perú - hneykslismál tengd honum voru mjög algeng í valdatíð hans. Fujimori neyddist til að segja af sér embætti vegna slíkra mála árið 2000 og fór þá í útlegð til Japans, þar sem hann hefur dvalið síðan. Fujimori er eftirlýstur af Interpol, t.d. fyrir fjármálamisferli, skjalafals og morðákærur. Fari hann frá Japan verður hann handtekinn og síðan framseldur til Perú.

Saga dagsins
1890 Einn þekktasti málari sögunnar, Vincent Van Gogh svipti sig lífi - hann var þá 37 ára gamall.
1934 Fyrsta ríkisstjórnin undir forsæti Hermanns Jónassonar tekur við völdum - sat við völd í sjö ár.
1954 Fyrsta bindið af þrem í The Lord of the Rings, The Fellowship of the Ring, eftir J.R.R. Tolkien kemur út - sögurnar voru svo kvikmyndaðar í lok 20. aldarinnar og hlutu lof kvikmyndaunnenda og hlaut seinasta myndin í myndaflokknum, The Return of the King alls 11 óskarsverðlaun árið 2004.
1968 Páll VI páfi, tilkynnir um það að kaþólska kirkjan fordæmi notkun getnaðarvarna og herðir á afstöðunni gegn fóstureyðingum. Yfirlýsing páfa markaði þáttaskil, var talað af meiri hörku en áður. Einn af eftirmönnum hans, Jóhannes Páll II páfi, sem ríkti í 27 ár, tók algjörlega undir afstöðu hans.
1981 Karl ríkisarfi bresku krúnunnar, giftist lafði Díönu Spencer, í St. Paul's dómkirkjunni í London - hjónaband þeirra virtist í upphafi ætla að styrkja konungdæmið í Bretlandi og verða hamingjusamt. Eignuðust þau tvo syni, William, 1982, og Harry, 1984. Brestir komu þó fljótt í hjónabandið og þau skildu að borði og sæng í desember 1992, 11 árum eftir giftinguna. Lögskilnaður þeirra varð svo að veruleika í ágúst 1996 og hélt Díana titli sínum sem hin konunglega hátign. Díana prinsessa lést í vofveiflegu bílslysi í París 31. ágúst 1997. Karl giftist unnustu sinni Camillu Parker Bowles árið 2005.

Snjallyrðið
Sú rödd var svo fögur, svo hugljúf og hrein,
sem hljómaði til mín úr dálitlum runni.
Hún sat þar um nætur og söng þar á grein
svo sólfögur ljóð um svo margt sem ég unni,
og kvöld eftir kvöld hóf hún ástarljóð ein,
ó, ef að þú vissir hvað mikið hún kunni.

En fjarri er nú söngur þinn, sólskríkjan mín,
og sumur þíns vinar hin fegurstu liðin.
Hann langar svo oft heim á Þórsmörk til þín,
hann þráir svo ljóðin og vornæturfriðinn,
hann harmar í skógunum hrjósturlönd sín,
hann hlustar sem gestur á náttgalakliðinn.
Þorsteinn Erlingsson skáld (1858-1914) (Sólskríkjan)

27 júlí 2005

Könnun á fylgi flokkanna á Akureyri

Akureyri

Eins og vel hefur komið fram í fjölmiðlum seinustu dagana framkvæmdi IMG Gallup viðamikla könnun á lífskjörum íbúa á Akureyri í marsmánuði. Samhliða þeirri könnun var spurt um afstöðu fólks til þeirra fimm framboða sem hafa fulltrúa í bæjarstjórn Akureyrar eftir sveitarstjórnarkosningarnar 2002. Úrtakið var handahófsvalið úr þjóðskrá. Svarhlutfall í könnuninni var 53,7%. Sjálfur lenti ég í þessari könnun. Hún var verulega umfangsmikil. Hringt var í mig miðvikudagskvöld eitt í marsmánuði og þar spurt um allt mögulegt og ómögulegt. Var ég í símanum að mig minnir í kortér og man ég að ég taldi að þetta ætlaði engan endi að taka. En hvað með það. Þetta var ítarleg könnun og margt fróðlegt hefur komið út úr henni. Man ég að mér þótti mjög athyglisvert á sínum tíma að spurt væri samhliða þessu um fylgi þeirra framboða sem eru í bæjarstjórn. Stutt er síðan niðurstöður þessarar lífsgæðakönnunar voru birtar formlega. Hinn 8. júlí sl. var fjallað um málið á vef Akureyrarbæjar. Í stuttri frétt eru raktir helstu þættir könnunarinnar hvað varðaði lífskjörin. Eins og athugulir lesendur taka eftir er litið er á tengilinn stendur þar feitletrað neðst: "Niðurstöðum könnunarinnar verða gerð frekari skil síðar."

Í vikunni hófst umræða um stjórnmálahluta þessarar könnunar. Ríkisútvarpið sló fréttinni upp að kvöldi mánudags í svæðisútvarpinu hér á Akureyri. Þar var fullyrt að meirihlutinn væri fallinn og að könnuninni hefði verið stungið undir stól. Í frétt um málið að kvöldi mánudagsins sagði Björn Þorláksson fréttamaður, frá meginniðurstöðunum. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hefðu ekki lengur meirihluta í bæjarstjórn, Oddur Helgi væri inni þrátt fyrir umfangsmikið fylgistap Lista fólksins, Samfylkingin og VG bættu við sig og meirihlutaflokkarnir hefðu dalað nokkuð. Á þessu var svo haldið áfram að klifa í gær. Nema að þá birtist Oktavía Jóhannesdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, og sakaði meirihlutann um valdníðslu og að hafa leynt könnuninni því meirihlutinn ætti að vera fallinn. Einnig hefur svo verið talað ítarlega um málið á vef Samfylkingarinnar hér í bænum og fullyrt auðvitað á mánudag í takt við Ríkisútvarpið og talnameistarann Björn Þorláksson að meirihlutinn væri fallinn. Já þetta er merkileg pólitík sem Samfylkingin stundar finnst mér. En annars er skiljanlegt að menn þar á bæ hafi vonað að meirihlutinn væri fallinn - þó það nú væri.

Tölurnar eru þessar:
Sjálfstæðisflokkurinn: 29,8%
Samfylkingin: 26,8%
Vinstrihreyfingin - grænt framboð: 18,5%
Framsóknarflokkurinn: 17,1%
Listi fólksins: 6,3%

Akureyri

Þegar nánar var litið á þessa könnun og Gallup kynnti tölurnar og skiptingu bæjarfulltrúa kom mjög skondið í ljós. Meirihlutinn, þrátt fyrir nokkuð fylgistap, var ekki fallinn. Sjálfstæðisflokkur heldur sínum fjórum bæjarfulltrúum og Framsókn hlýtur tvo, missir einn. Eins og allir talnaglöggir átta sig á, ef þeir kunna þ.e.a.s. að reikna, eru þar komnir sex bæjarfulltrúar, sem nægir að mynda meirihluta, allavega í ellefu manna bæjarstjórn. Eða það segir mín grunnskólastærðfræði mér. Þegar maður er með sex epli og fimm appelsínur er nokkuð ljóst að eplin eru fleiri. Eða þetta kenndi góður stærðfræðikennari mér allavega einu sinni. En hvað með það. Greinilegt er að fréttamaður hefur fjallað um málið með þeim hætti að meirihlutinn hlyti að vera fallinn, fyrst hann fengi undir 50% fylgi. Því hlyti Oddur Helgi að vera inni og treysta ætti á það sem virtist sjást í tölunum. Það er merkilegt að reyndir fréttamenn hafi ekki gengið úr skugga um að atkvæði greidd Lista fólksins hafi ekki nægilega mikið á bakvið sig til að koma manni inn. Eins og sést hefur nú þegar könnunin er greind kemur L-listi Odds Helga Halldórssonar ekki að manni og missir báða sína fulltrúa, þrátt fyrir að hafa setið í minnihluta í tvö kjörtímabil.

Oddur Helgi er vissulega nokkur kraftaverkamaður í pólitík og það er vonlaust að afskrifa hann nú, þrátt fyrir þessa könnun. Honum átti að bola burt fyrir kosningarnar 1998 úr bæjarfulltrúahópi Framsóknarflokksins, þar sem hann hafði tekið sæti sem aðalmaður árið 1997. Hann lét ekki bjóða sér varamannssæti á ný og fór í sérframboð og komst inn, þvert á margar spár. Fyrir síðustu kosningar bætti hann verulega við sig fylgi og fór inn við annan mann á lista, Marsibil Fjólu Snæbjarnardóttur. Oddur Helgi og Marsibil Fjóla hafa verið lítt áberandi á kjörtímabilinu og ekki mikið við að taka afstöðu til mikilvægra mála. Er oft erfitt að sjá hvar þau standa í málum og því verið minna áberandi, en t.d. Samfylkingin sem finnur sér skotfæri í fjölda mála og lætur meira á sér kræla. Þó að Oddur Helgi mælist með þessum hætti núna er varhugavert að afskrifa hann. Honum hefur tekist í tveim kosningum að byggja með undraverðum hraða maskínu til verka og komið sér inn í bæjarstjórn og bætti svo verulega við kjörfylgi sitt 1998 síðast. Verður fróðlegt að sjá hvað Listi fólksins og Oddur Helgi persónulega geri í aðdraganda næstu kosninga.

Akureyri

Greinilegt er að nokkur valdabarátta er framundan innan Samfylkingarinnar fyrir næstu kosningar. Oktavía er greinilega komin í varnarstöðu fyrir komandi átök innan síns flokks. Í dag lýsti Hermann Jón Tómasson varabæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, yfir framboði sínu til leiðtogastöðu flokksins í bænum í prófkjöri Samfylkingarinnar í haust. Hefur Oktavía ekki gefið upp hvað hún ætlar sér, en ekki er búist við að hún hætti. Oktavía var bæjarfulltrúi Akureyrarlistans 1998-2002 og því í meirihluta með Sjálfstæðisflokki af þeirra hálfu ásamt Ásgeiri Magnússyni. Fyrir seinustu kosningar vann hún Ásgeir í forvali innan Samfylkingarinnar og Ásgeiri var bolað burt. Nú stefnir í átök milli Hermanns og Oktavíu um forystuna. Skiljanlegt er því að Oktavía minni á sig og hefji öfluga fjölmiðlaframkomu til að vekja á sér athygli og nái almennilegri vígstöðu í þessu prófkjöri. Í því ljósi er framkoma hennar í fjölmiðlum í gær skiljanleg. Hún er að reyna að fá á sig aggressívari ímynd og reyna að notfæra sér vaxandi fylgi flokksins sér til framdráttar í ljósi prófkjörsins sem flokkurinn stendur fyrir. Er vissulega merkilegt að Samfylkingin sem hefur vaxið nokkuð nú undir forystu Oktavíu sjái fram á átök um leiðtogahlutverk flokksins.

Flokkurinn hefur vaxið nokkuð milli kannana. Er ekkert óeðlilegt að hann eflist að mínu mati. Samfylkingin var að skrapa algjört botnfylgi í seinustu kosningum og áttu greinilega í stökustu vandræðum þá. Nú koma þau sterkari til leiks og svo virðist sem að Oktavía hafi náð að efla fylgi flokksins. Það er reyndar skondið ef henni verður svo launað það með því að verða sparkað af Hermanni Jóni. Eitt fannst mér ennfremur athyglisvert í gær. Það var að Lára Stefánsdóttir varaþingmaður, kom fram í spjallþættinum Sjónarhornið á Aksjón sem talsmaður Samfylkingarinnar. Fyrirfram hefði ég búist við Oktavíu þar sem leiðtoga flokksins í bæjarmálunum og hún myndi tala þar ásamt Oddi Helga sem þar var að tala um fylgi Lista fólksins og sína stöðu almennt pólitískt. Vissulega er Lára með þingmanninn í maganum og kæmi sér henni vel að koma sér vel á framfæri, en ég verð að viðurkenna að merkilegt var að Oktavía kom ekki fram þarna. En kannski er óánægjan með forystu Oktavíu meiri en heyrist úti í bæ. Allavega er leiðtogaframboð Hermanns fyrirboði um nokkur átök í þessu prófkjöri Samfylkingarinnar.

Akureyri

Framsóknarflokkurinn hefur dalað gríðarlega í bæjarmálunum hér seinasta áratuginn. Árið 1994 fékk flokkurinn fimm bæjarfulltrúa kjörna af ellefu og vann mikinn sigur. Jakob Björnsson varð bæjarstjóri og myndaður var meirihluti með krötum sem höfðu einn mann, Gísla Braga Hjartarson. Fyrir kosningarnar 1998 varð mikið umrót. Framsóknarflokkurinn klofnaði og Oddur Helgi fór í sérframboð. Hann komst inn og Framsókn fór niður í þrjá bæjarfulltrúa. Á því tímabili leiddi flokkurinn minnihlutann en var frekar lítt sýnilegur þar. Framsókn hélt sínum þrem síðast og myndaður var meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Framsókn hefur minnkað í bæjarmálunum og er kominn niður í rúm 17% í þessari könnun, sem er söguleg mæling í þessu fyrrum höfuðvígi flokksins. Vinstri grænir bæta verulega við sig og eflast, eins og við var að búast. Flokkurinn fékk lítið fylgi í síðustu kosningum og getur ekki annað en bætt við sig eftir þá herfilegu útreið. Verður fróðlegast að sjá hverjir muni leiða framboð VG í næstu kosningum. Valgerður Bjarnadóttir mun væntanlega ætla sér að halda áfram og sama má segja um Jón Erlendsson en mikið er talað um Andreu Hjálmsdóttur og Hall Gunnarsson í umræðunni líka.

Við sjálfstæðismenn missum nokkuð fylgi í þessari könnun en höldum okkar fulltrúafjölda. Þó er alveg ljóst að þetta fylgi er vart ásættanlegt og við þurfum að fá vel yfir 30% til að eiga okkar fjóra bæjarfulltrúa vel trygga inn. Þannig að framundan hjá okkur er öflug og massív kosningabarátta þar sem við ætlum okkur að halda okkar hlut. Ljóst er að nokkur hörð mál hafa verið í aðdraganda þessarar könnunar. Deilt var um hugmyndir um byggingu tólf hæða íbúðablokkar á Baldurshagareitnum, hér rétt fyrir neðan heimili mitt í Þórunnarstrætinu. Það var mikil heift og læti í því máli. Að lokum kom meirihlutinn til móts við óskir fólks og byggingin var lækkuð og niðurstaðan eru tvær sjö hæða blokkir á þessum reit. En það er auðvitað alltaf svo að upp koma deilumál. Það er erfitt að stjórna vaxandi sveitarfélagi svo allir séu sáttir. En það er alveg ljóst að við sjálfstæðismenn munum koma sterkir til leiks eftir að við höfum ákveðið aðferð til að velja framboðslista okkar fyrir næstu kosningar. Hvort sem uppstilling eða prófkjör verður ofan á tel ég mikilvægt að uppstokkun verði í hópi tíu efstu og þar muni koma fleiri yngri frambjóðendur til sögunnar en var síðast.

Sumarsól í Eyjafirði árið 2004

Kemur vel til greina að ég muni gefa kost á mér til setu á framboðslista Sjálfstæðisflokksins hér á Akureyri. Mig skortir ekki áhuga á stjórnmálum og er alveg ljóst að ég mun leggja mitt að mörkum til framboðs flokksins á komandi ári. Ég hef í skrifum mínum verið virkur við að tala fyrir bæjarmálum og fókuserað mig mikið á skipulags- og skólamálin. Það eru þeir málaflokkar auk atvinnumála sem ég tel að verði aðalmál næstu kosningabaráttu. Það er mikilvægt að yngra fólk sé virkt við að tala fyrir sinni stefnu og við í Verði munum vera virk á vetri komanda við að vinna okkar sýn í bæjarmálum. Tel ég mikilvægt að með einum eða öðrum hætti komi ungt fólk sterkt inn á listann að ári. Við sjáum á þessari könnun að viss uppstokkun þarf að vera og er gott að fá þessa mælingu á þessum tímapunkti. Allavega er ljóst að spennandi kosningar eru framundan. Það sem ekki er vitað er hvernig sveitarfélagið lítur út að vori. Það er sameiningarkosning hér í firðinum í október og þar verður fróðlegt að sjá hver niðurstaðan verði að lokum.

Saga dagsins
1903 Fyrsta kvikmyndasýningin fer fram í Reykjavík - sýndar voru þá breskar fréttakvikmyndir í Iðnó.
1965 Sir Edward Heath var kjörinn leiðtogi breska Íhaldsflokksins - hann varð fyrsti almúgamaðurinn sem kjörinn var á leiðtogastól flokksins. Heath varð forsætisráðherra Bretlands árið 1970 og sat allt til ársins 1974. Þá tapaði hann í tveim þingkosningum árið 1974 og missti leiðtogastólinn til Margaret Thatcher árið 1975. Heath sat á breska þinginu í hálfa öld, 1951-2001. Hann lést hinn 17. júlí 2005.
1996 Sprengjutilræði á Ólympíuleikunum í Atlanta í Georgíu - tveir létu lífið og fjöldi fólks slasaðist.
1999 Milljónasti bíllinn fór um Hvalfjarðargöng, rúmu ári eftir að þau voru opnuð, hinn 11. júlí 1998.
2003 Gamanleikarinn Bob Hope deyr í Toluca Lake í California - Hope var þá nýlega orðinn tíræður.

Snjallyrðið
Ég á það heima sem aldrei gleymist
né umbreyst fær,
við ölduhreiminn mig ávallt dreymir
um auðnir þær,
sem vindar geyma og vetrar snær,
þar vatnsföll streyma um dali tær.

Ó, fögru sveitir með fell og leiti
og fannagljá,
með svipinn hreina á öllu og einu
sem ann mín þrá.
Við minnstu steina grær minning smá
sem mun ei leynast né falla í dá.
Unnur Benediktsdóttir Bjarklind (Hulda) skáldkona (1881-1946) (Heima)

26 júlí 2005

Punktar dagsins
Kárahnjúkar

Það hefur varla farið framhjá neinum að undanfarnar vikur hafa umhverfissinnaðir atvinnumótmælendur verið við Kárahnjúka og mótmælt þar væntanlegri virkjun og álveri á Austurlandi. Framan af voru þessi mótmæli mjög friðsamleg og gengu eðlilega fyrir sig. Fólk kom vissulega á framfæri skoðunum sínum og það með hófsömum hætti að mestu leyti. Það er eðli þjóðmálaumræðu að uppi séu ólíkar skoðanir og ólík sýn meðal fólks á hitamál samtímans. Kárahnjúkavirkjun og álver við Reyðarfjörð eru eins og allir vita eitt mesta hitamál þjóðmálaumræðunnar á seinustu árum. En það er alveg hægt að fullyrða að vinnubrögð atvinnumótmælendanna seinustu daga að Kárahnjúkum hefur farið algjörlega yfir strikið. Mótmælendur hafa að undanförnu hlekkjað sig við vinnuvélar, málað ókvæðisorð á vélar, skilti og á ýmsa hluti á svæðinu og ennfremur verið með óásættanlega framkomu við starfsfólk á svæðinu. Lögreglan greip til sinna ráða í nótt og skakkaði leikinn með nauðsynlegum hætti. Það er alveg ljóst að það sem gengið hefur á þarna að undanförnu af hálfu mótmælendanna er með öllu óásættanlegt.

Nú hefur svo leyfið fyrir tjaldbúðunum verið afturkallað eftir læti seinustu daga. Prestsetrarsjóður veitti leyfið, enda eru tjaldbúðirnar í landi prestsetursins Valþjófsstaðar. Á morgun mun lögregla grípa til sinna ráða til að koma fólkinu burt og vísa því frá. Hafa mótmælendur sagst halda mótmælum áfram með einum hætti eða öðrum, ef marka má vefrit þeirra, savingiceland.org. Verður merkilegt að fylgjast með atburðum þarna á næstunni. Eru þessi mótmæli svo sannarlega ekki neinum til sóma. Það er auðvitað ekki hægt að ætlast til að allir séu sammála um virkjun og álver fyrir austan, en það á að vera hægt að búast við að mótmæli séu bæði málefnaleg og friðsamleg. Það er mjög mikilvægt að lögreglan taki til sinna ráða. Það er algjörlega ótækt að horfa lengur á stöðu mála með þessum hætti og þau vinnubrögð sem atvinnumótmælendurnir beita þar. Það á ekki að vera líðandi að eignir fyrirtækja eða mannvirki á staðnum verði fyrir skemmdum og ráðist sé að þeim sem þarna vinna. Um er að ræða löglegar framkvæmdir fyrirtækjanna á staðnum og taka verður á því með hörku ef mótmælendurnir fara yfir strikið.

Ein með öllu

Eins og flestir vita er framundan verslunarmannahelgin, ein af stærstu ferðahelgum ársins. Eins og oft áður er haldin hér á Akureyri fjölskylduhátíð þar sem margt er skemmtilegt á dagskrá. Búast má við miklum mannfjölda í bænum og skemmtilegu andrúmslofti eins og fyrri ár. Í fyrra var fjölmennasta útihátíð ársins hér í bænum og var virkilega gaman að fara um bæinn. Þá streymdi fólk í bæinn og voru 15-16.000 gestir hér. Mikið blíðviðri var alla helgina og hátíðin að mestu leyti til fyrirmyndar. Mestan skugga á hátíðina settu vandræðin með tjaldsvæðið hér í Þórunnarstrætinu. Á því hefur nú verið tekið með nýjum reglum um svæðið, þar sem nú mega aðeins vera fjölskyldufólk með fellihýsi, tjaldvagna og húsbíla. Var gott að tekið var á þeim málum og vonandi mun þessi ágalli, annars góðrar útihátíðar, heyra sögunni til. Enginn vafi er að Ein með öllu er mikil lyftistöng fyrir verslunar- og þjónustuaðila í bænum og mun hátíðin styrkja bæinn og stöðu hans til muna, eins og jafnan áður. Meðal skemmtiatriða verða Sálin, Papar, Stuðmenn, Nýdönsk, Hildur Vala, Nylon og Davíð Smári. Svo er auðvitað rúsínan í pylsuendanum brekkusöngurinn á íþróttavellinum að kvöldi sunnudagsins. Framundan er því hin besta helgi.

Kista Sir Edward Heath

Sir Edward Heath fyrrum forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins, var jarðsunginn frá dómkirkjunni í Salisbury í gær. Rúmlega 1600 manns voru viðstödd útförina, þar á meðal allir eftirmenn Heath á leiðtogastóli flokksins og meðal þeirra því t.d. fyrrum forsætisráðherrar landsins, þau Margaret Thatcher barónessa, og Sir John Major. Bæði hafa þau minnst Heath með glæsilegum hætti eftir andlát hans, hinn 17. júlí sl. Thatcher felldi Heath af leiðtogastóli flokksins árið 1975 og milli þeirra ríkti kalt stríð um stefnuáherslur innan flokksins eftir það, en ennfremur viss gagnkvæm persónuleg virðing. Ennfremur voru viðstaddir útförina fjöldi breskra stjórnmálamanna sem bæði höfðu unnið með Heath á löngum ferli innan flokksins og eins þeir sem voru pólitískir andstæðingar hans. Í pistli mínum hinn 18. júlí sl. fjallaði ég um Heath, feril hans og persónuna á bakvið pólitíkusinn. Fór ég jafnframt yfir álit mitt á honum sem stjórnmálamanni. Heath hafði mikil áhrif í breskum stjórnmálum - hann var kjörinn á breska þingið í þingkosningunum 1951 og sat á þingi í hálfa öld, allt til þingkosninganna í júní 2001. Heath var leiðtogi breska Íhaldsflokksins í áratug, 1965-1975, og var forsætisráðherra Bretlands í fjögur ár, 1970-1974. Við leiðarlok er Heath, að mínu mati, minnst sem öflugs forystumanns og litríks talsmanns hægristefnu.

Ásbyrgi

Um síðustu helgi fór ég austur í bústað fjölskyldunnar í Núpakot í Aðaldal og þar var gott að slappa af í góðra vina hópi. Það var grillað, skemmt sér og síðast en ekki síst hlegið dátt saman - það er ekkert betra en gleði og tær ró á góðum stað. Frábært var að geta átt helgi án tölvu, sjónvarps og að mestu var slökkt á símanum - algjör friður eins og best gerist. Hið besta var auðvitað að nær allan tímann var mikill hiti og tær sumarblíða. Var gaman að fara í smáferðalag á laugardeginum. Haldið var um Tjörnesið austur fyrir að Ásbyrgi. Alltaf er gaman að koma í Ásbyrgi. Þar er yndisleg náttúrufegurð sem gaman er að sýna gestum og ekki síður að njóta sjálfur. Þar er falleg kyrrð og sannkölluð ró. Það jafnast fátt á við það að vera þar. Dvaldist ég í tvö sumur í sumarbúðunum á Ástjörn. Svæðið þekki ég því vel - þar var gott að vera og gaman að njóta náttúrufegurðar og geta dvalið í friði og ró, en nóg er af því á svæðinu. Þetta er sannkölluð náttúruperla. Á heimleiðinni litum við í minjasafnið að Mánárbakka en safnið hefur fyrir löngu vakið athygli og hvet ég alla til að skoða safnið hans Aðalgeirs á Mánárbakka. Alltaf er svo gaman að spjalla við Aðalgeir. En já þetta var góð helgi fyrir austan - þar sem ró og skemmtun var aðalsmerki.

Sólarlag á Akureyri í júlí 2003

Notalegt og gott sumarveður hefur verið hér á Akureyri seinustu dagana. Það er notalegt þessa dagana að hafa það rólegt, fara í sund, grilla, hjóla um og labba í Kjarnaskógi. Það er alltaf gaman af fallegu sumri og góðu veðri. Þessa dagana er ég að lesa ljóðabækur meistara Davíðs frá Fagraskógi. Hann hefur alltaf heillað mig með ljóðasnilld sinni. Hann talar beint til hjartans míns oft og hefur alla tíð verið í miklu uppáhaldi hjá mér. Fáum íslenskum skáldum tókst betur að tjá sig frá hjartanu, er þá sama hvort átt er við gleði, sorg, ástina eða lífskraftinn. Davíð tjáði af stakri snilld sannar tilfinningar og varð eitt ástsælasta skáld okkar á 20. öld. Það er alltaf styrkjandi að lesa ljóð Davíðs, þar fær maður gleði og líka kraft til að horfast í augu við lífsins gátur og flækjur hvunndagsins. Í ljóðabókinni Að norðan, sem kom út árið 1936, orti hann um bæinn við fjörðinn fagra. Er við hæfi að enda í dag á lokaerindi þessa fallega kvæðis.

Því gleðin angar frá iðjagrænum hlíðum,
ástin streymir þaðan, með sumarblænum,
tignin ljómar af fjallatindum fríðum,
fjörðurinn safnar gjöfum handa bænum,
loftið er milt og mjöllin hvergi hreinni,
máninn fegri, né stjörnuskinið bjartara.
Hér gætu menn numið af náttúrunni einni
að njóta lífsins - fagna af öllu hjarta.

Saga dagsins
1945 Verkamannaflokkurinn vinnur öllum að óvörum þingkosningarnar í Bretlandi - stríðshetjan Sir Winston Churchill missir forsætisráðherrastólinn til Clement Attlee leiðtoga stjórnarandstöðunnar, mjög óvænt - Churchill leiddi stjórnarandstöðuna eftir tapið og varð forsætisráðherra 6 árum síðar.
1952 Eva Peron forsetafrú Argentínu, deyr úr krabbameini, 33 ára að aldri - Eva naut mjög mikilla vinsælda í Argentínu og var elskuð af landmönnum og dauði hennar var þjóðinni nokkuð reiðarslag.
1956 Stjórnvöld í Egyptalandi ríkisvæða Súez-skurðinn - þeirri ákvörðun var mótmælt um allan heim.
1963 Þúsundir manna farast eða slasast lífshættulega í jarðskjálfta í bænum Skopje í Júgóslavíu.
2000 George W. Bush velur Dick Cheney sem varaforsetaefni sitt - unnu kosningarnar 2000 og 2004.

Snjallyrðið
Þið þekkið fold með blíðri brá,
og bláum tindi fjalla,
og svanahljómi, silungsá
og sælu blómi valla,
og bröttum fossi, björtum sjá
og breiðum jökulskalla.
Drjúpi hana blessun drottins á
um daga heimsins alla.
Jónas Hallgrímsson skáld (1807-1845) (Íslandsminni)

24 júlí 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um fjölmiðlaumhverfið í ljósi þess að ný fréttastöð í sjónvarpi hefur brátt göngu sína. Má leiða líkum að því að ef hún gangi upp muni hún marka þáttaskil í fréttamennsku hérlendis og jafnvel verða Ríkisútvarpinu mjög skeinuhætt. Er ekki annað hægt fyrir fréttafíkil en mig að lýsa yfir ánægju með þessa nýju stöð og með þessu að hafa alltaf aðgang að fréttaumfjöllun og ferskum fréttum á netinu eða í sjónvarpi þegar að hentar. Það er ekki amalegt að geta gengið að öflugum fréttum og spjalli um dægurmálin eins og kalda vatninu í krananum – alltaf aðgengilegt, svo fremi að maður sé við tölvu eða sjónvarp í verkefnum hvunndagsins. Þetta eru vissulega þáttaskil. Fyrsta spurningin sem vaknar þó er litið er kalt á myndina er: hvernig stendur þetta undir sér? Er virkilega nægt streymi frétta til að halda uppi slíkri stöð og er rekstrargrundvöllurinn slíkur að hann standi undir þessu verkefni. Allt eru þetta hugleiðingar og spurningar sem svör koma fljótt við er stöðin hefur hafið göngu sína. Fjalla ég ennfremur um Ríkisútvarpið, en þar blasa við breytingar samhliða útvarpsstjóraskiptum. 23 umsóknir komu um embætti útvarpsstjóra og nefni ég hvernig ég vilji að næsti útvarpsstjóri verði og tel rétt að Elín Hirst eða Páll Magnússon taki við starfinu.

- í öðru lagi fjalla ég um John G. Roberts sem hefur verið tilnefndur dómari við hæstarétt Bandaríkjanna. Rétturinn er stjórnlagadómstóll og því dæmir hann fyrst og fremst í málum sem rísa vegna ágreinings um stjórnarskrá Bandaríkjanna. Dómarar við réttinn eru ekki bundnir neinum aldursmörkum og eru því skipaðir til dauðadags, nema þeir biðjist lausnar frá setu þar eða gerast sekir um brot á lögum og verða vegna þess að láta störfum. Gott dæmi um þetta er að forseti réttarins, William Rehnquist, sem hefur setið á forsetastóli frá árinu 1986, hefur setið í réttinum í 33 ár, eða frá árinu 1972, eða síðan í forsetatíð Richard M. Nixon. Einn dómarinn er orðinn hálfníræður. Aðeins einn þeirra er yngri en sextugur, Clarence Thomas, sem er fæddur árið 1948. Ekki hefur losnað sæti í réttinum í áratug, en síðast var skipað í réttinn árið 1994 er Bill Clinton tilnefndi Stephen Breyer. Fer ég yfir stöðu mála í réttinum og ferlið sem nú tekur við vegna valsins á Roberts.

- í þriðja lagi fjalla ég um eymd Framsóknar sem hefur birst stjórnmálaáhugamönnum um nokkuð skeið. Merkilegt var að flokksfélagið í kjördæmi sjálfs forsætisráðherra þjóðarinnar skyldi boða til aðalfundar síns helgina fyrir verslunarmannahelgina, semsagt í júlí. Þá er eins og nærri má geta margir á faraldsfæti og lítið um að vera í pólitíkinni. Reyndar gengur á ýmsu í sama kjördæmi innan Framsóknarflokksins vissulega. Það er alveg greinilegt að mikill eymdarbragur er yfir Framsóknarflokknum í borginni. Í hverri Gallup-könnuninni á eftir annarri mælist flokkurinn með innan við 5% í kjördæmi forsætisráðherrans. Það hefur ekki ræst að Framsóknarflokkurinn muni sjálfkrafa styrkjast samhliða því að taka við forsæti ríkisstjórnarinnar.


Pólitíska ræman
JFK

Eitt áleitnasta hitamál bandarískrar stjórnmálasögu á 20. öld er óneitanlega morðið á John Fitzgerald Kennedy forseta Bandaríkjanna, í Dallas í Texas, föstudaginn 22. nóvember 1963. Hann hafði þá setið á forsetastóli í Bandaríkjunum í rúmlega 1000 daga. Atburðarás þessa sólbjarta nóvemberdags í Dallas hefur verið umfjöllunarefni margra bóka og kvikmynda og þetta sjónarhorn er sérstakt mjög, enda er þarna beint sjónum að mörgum samsæriskenningum málsins. Þessi kaldi föstudagur í borginni varð hörmungarviðburður, en engu að síður sögulegur. Ráðgert var að forsetahjónin myndu ásamt ríkisstjórahjónunum keyra um borgina í opnum bíl til að heilsa almenningi. Í hádeginu keyrði bílalestin í gegnum Dealey Plaza í miðborg Dallas. Á slaginu 12.30 er bílalestin beygði inn á Elmstræti kváðu við skothvellir. Þrjú skot lentu í forsetanum en eitt í John Connally ríkisstjóra. Bílalestin hélt í kjölfarið rakleiðis á Parkland sjúkrahúsið sem var skammt frá. Hálfri stundu eftir skotárásina var Kennedy forseti, úrskurðaður látinn. Hann var 46 ára að aldri. Fráfall hans er einn nöturlegasti atburður 20. aldarinnar og muna margir hvar þeir voru staddir er þeir fengu fregnina af dauða forsetans.

Andlát hans var tilkynnt skömmu síðar opinberlega í fjölmiðlum, fyrst í útsendingu CBS af sjónvarpsfréttamanninum Walter Cronkite. Fráfall hans var gríðarlegt áfall fyrir Bandaríkjamenn. Miklar vonir voru bundnar við forsetann sem tákn nýrra tíma og andlát hans mikið reiðarslag. Þjóðarsorg var um allan heim í kjölfar þess að fregnin um morð hans fór um heimsbyggðina. Lyndon B. Johnson varaforseti, sór embættiseið sem 36. forseti Bandaríkjanna, um borð í forsetaflugvélinni kl. 14.38, tveim klukkustundum eftir lát forsetans með eiginkonu sína, Lady Bird, og ekkju forsetans, Jackie, sér við hlið. Að því loknu var haldið með lík Kennedys til Washington. Sama dag var Lee Harvey Oswald handtekinn vegna morðsins. Hann var myrtur tveim dögum síðar af næturklúbbseigandanum Jack Ruby, er flytja átti hann milli borgarfangelsis og sýslufangelsis í Dallas. 29. nóvember 1963 skipaði Johnson forseti sérstaka nefnd undir forsæti Earl Warren forseta hæstaréttar, til að rannsaka morðið á Kennedy. Bar nefndin nafn Warrens. Tæpu ári síðar, í september 1964, skilar nefndin skýrslu sinni. Þar kemur fram niðurstaða hennar að Oswald hafi verið einn að verki.

Að margra mati er sem spurningunni um hver myrti forsetann hafi ekki verið svarað með fullnægjandi hætti. Opinber rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að Lee Harvey Oswald hefði framið morðið og verið einn að verki en margir aðhyllast þá kenningu að árásarmennirnir hafi verið tveir og sumir segja allt að fjórir. Einnig hafa komið fram kenningar um að mafían, bandaríska leyniþjónustan, útsendarar erlendra ríkja eða jafnvel Johnson forseti, hafi skipulagt ódæðið. Allt frá unglingsárum hafði Oliver Stone fylgst með miklum áhuga með rannsókninni á morðinu á Kennedy forseta. Hann ákvað því að gera þessa mynd um rannsóknina og þær samsæriskenningar sem fóru um allan heiminn þess efnis að stjórnvöld hefðu átt þátt í morðinu og hann gerði myndina frá sjónarhorni Jim Garrison sem fór fremstur í fylkingu þeirra sem vildu að málið yrði kannað til fulls og allar samsæriskenningarnar kannaðar og málið galopnað. Myndin varð umdeild en mögnuð lýsing á þessu þekkta morðmáli.

Er fátt meira viðeigandi fyrir áhugamenn um þetta valdamesta embætti stjórnmálaheimsins, forsetaembættið í Bandaríkjunum, en að kynna sér þetta umdeilda sjónarhorn á morðið á einum kraftmesta stjórnmálamanni Bandaríkjanna á 20. öld, sem hvarf af sjónarsviðinu með vofeiflegum hætti fyrir rúmum fjórum áratugum. Skylduáhorf fyrir alla unnendur stjórnmálasögu og úrvalskvikmyndagerðar.

Saga dagsins
1956 Þriðja ríkisstjórnin undir forsæti Hermanns Jónassonar tekur við völdum - hún sat í rúm 2 ár.
1959 Nikita Khrushchev Sovétleiðtogi og Richard Nixon varaforseti Bandaríkjanna, rífast opinberlega á amerískri sýningu í Moskvu - rifrildið gengur undir nafninu The Kitchen Debate og varð mjög frægt.
1967 Charles De Gaulle forseti Frakklands, ergir með áberandi hætti kanadísk stjórnvöld í heimsókn sinni til Kanada með stuðningsyfirlýsingu við frjálst Québec með orðum sínum: Vive le Québec libre!.
1980 Gamanleikarinn Peter Sellers deyr í London, 54 ára að aldri - Sellers var án vafa einn af helstu gamanleikurum 20. aldarinnar og varð víðfrægur um allan heim fyrir leik sinn í fjölda gamanmynda.
1987 Jeffrey Archer lávarður, vinnur sigur í meiðyrðamáli fyrir dómstólum gegn slúðurblaði - málið var síðar tekið upp þegar ljóst var að hann hafði framið meinsæri og logið fyrir rétti og hlaut hann fjögurra ára fangelsisdóm árið 1999 sem markaði lok stjórnmálaferils hans. Hann var látinn laus 2003.

Snjallyrðið
Tíminn líður en minningar lifa
í hjarta eru lífsins gleði og tár
allar lífsins vonir í huganum lifa
þó fenni í sporin ávallt koma ný ár.

Með allar lífsins vonir héldum saman
í gegnum alla hina skipulögðu lífsgöngu.
Markmiðin breyttust en minningar lifðu,
myndirnar varðveitast í gegnum ævigöngu.

Eignast vildi ég ljóma og gleði í hjarta og sál
draumana mína eignast ég vildi með þér,
lífið breyttist snöggt og alltof fljótt kól hjartabál
það fennir í sporin en mynd þinna minninga geymi enn.
Stefán Friðrik Stefánsson (Myndir minninganna)

22 júlí 2005

Punktar dagsins
Ríkisútvarpið við Efstaleiti

Óhætt er að fullyrða að Ríkisútvarpið sé á krossgötum. Á þessu ári eru 75 ár liðin frá stofnun þessa rótgróna ríkisfjölmiðils. Um þessar mundir eru einnig að eiga sér stað breytingar á yfirstjórn fyrirtækisins. Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri, hefur sagt starfi sínu lausu og hættir eftir rúman mánuð, þann 1. september nk. Þann dag tekur hann til starfa í utanríkisþjónustunni og mun í vetur verða sendiherra Íslands í Kanada. Deilt var um störf Markúsar í vetur samhliða fréttastjóraráðningu hjá fréttastofu útvarps og hann hefur nú ákveðið að skipta um vettvang. Markús Örn starfaði lengi hjá RÚV, var lengi fréttamaður hjá Sjónvarpinu og varð útvarpsstjóri, eftir störf að stjórnmálum, árið 1985. Hann var ráðinn borgarstjóri í Reykjavík árið 1991 og hætti sem útvarpsstjóri. Hann var borgarstjóri í þrjú ár en hóf aftur störf hjá RÚV er hann var ráðinn framkvæmdastjóri útvarps árið 1996. Markús Örn var að nýju ráðinn sem útvarpsstjóri árið 1997. Nú þegar að Markús Örn er á útleið, endanlega að því er virðist óneitanlega, úr starfi útvarpsstjóra og lætur af störfum hjá Ríkisútvarpinu eftir langt starf blasir við að breytingar séu framundan hjá Ríkisútvarpinu og þar þurfi að stokka verulega upp.

Í ítarlegum pistli á íhald.is í dag fjalla ég um Ríkisútvarpið og það sem framundan er þar. Framundan er þar ráðning á nýjum útvarpsstjóra, eins og fyrr segir. Í gær rann út umsóknarfrestur um embættið. Er fresturinn rann út höfðu 22 lagt inn umsókn, þ.á.m. reynt fjölmiðlafólk og áhugafólk um ríkisfjölmiðilinn af ýmsu tagi ennfremur. Margt hefur breyst í fjölmiðlaumhverfinu á undanförnum árum og við Ríkisútvarpinu blasir allt annað landslag á fjölmiðlamarkaði en fyrir einungis átta árum er Markús Örn Antonsson var öðru sinni ráðinn til starfa á útvarpsstjórastól. Því vakti það óneitanlega athygli að þegar þetta mikla starf, stjórnendastarf þessarar öflugu fjölmiðlastofnunar ríkisins, var auglýst voru ekki gerðar neinar hæfniskröfur eða útlistað nánar hverskonar aðila væri auglýst eftir eða hvaða sýn hann hefði til verkefnisins. Í grunninn tel ég mikilvægt að á þessum stóli sitji aðili sem hafi starfað að fjölmiðlum, þekki starfsumhverfið því mjög vel og sé sviðsvanur á þessum vettvangi. Meðal umsækjenda eru margir slíkir aðilar. Við blasir að á 75 ára afmæli sínu að Ríkisútvarpið sé í tilvistarkreppu og erfiðleikar blasi við stofnuninni. Óhjákvæmilegt er að breyta þurfi til í innra kerfi Ríkisútvarpsins.

Í pistlinum rek ég væntanlegar breytingar á RÚV samhliða frumvarpi til breytinga á útvarpslögum sem rætt verður á þingi í vetur og minni á skoðanir mínar í þeim efnum. Eins og fyrr segir blasir nýtt fjölmiðlaumhverfi við nýjum útvarpsstjóra. Er mikilvægt að við starfinu taki fjölmiðlamanneskja sem þekkir sviðið mjög vel og þau verkefni sem við blasa. Vona ég að menntamálaráðherra ráði til starfans þann aðila sem er líklegur til að stýra þessu fleyi rétta átt, í markvissa átt til uppstokkunar og breytinga og leiði vinnuferlið þar með öðrum hætti og taki til hendinni. Ekki veitir af því ef RÚV á að standa undir nafni sem fjölmiðill allra landsmanna, en ekki safnhaugur erlends afþreyingarefnis t.d. í sjónvarpi. Menntamálaráðherra heldur á þessu ferli og það er Þorgerðar Katrínar að velja til starfans þann sem hún vill að vinni á sínum forsendum og leiði RÚV með þeim hætti sem frumvarp hennar gerir ráð fyrir að RÚV verði á komandi árum. Verður fróðlegt að sjá hver sá aðili muni verða.

John Roberts

Eins og kom fram hér á vefnum í vikunni hefur George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilnefnt John G. Roberts sem dómara við hæstarétt Bandaríkjanna. Í umfjöllun minni á miðvikudag fór ég yfir stöðu mála og spáði því að deilur myndu verða um skipan hans og harðvítug flokkspólitísk rimma (les: drullukast í leðjupolli). Ólíklegra er nú en áður að svo verði. Roberts hefur nefnilega á tveim dögum tekist að mestu að heilla öldungadeildarþingmenn beggja stóru flokkanna. Meira að segja hörðustu andstæðingar hægriíhaldsgildanna í senatinu eru orðnir hikandi um að Roberts fái mótstöðu í takt við það sem spáð var. Roberts fór í gær og hitti leiðtoga flokkanna í öldungadeildinni og í þingnefndinni sem hann mun koma fyrir í staðfestingarferlinu. Óhætt er að segja að þingmennirnir hafi heillast af dómaraefninu. Enginn þorir að draga feril hans, hið minnsta jafnvel, í efa og ljúka allir lofsorði á störf hans. Búast má við að hann fái á sig margar krefjandi spurningar og sótt verði að honum með því. En hinsvegar minnka sífellt líkurnar á hvassyrtu staðfestingarferli. Eru flestir spekingarnir vestanhafs farnir að spá því að Roberts muni fljúga með hraði inn í réttinn og mæti lítilli mótspyrnu er á hólminn komi.

Sálmar - geislaplata Ellenar Kristjánsdóttur

Ég á marga geisladiska sem ég set á þegar ég vil hafa það rólegt og spá í hlutunum í mjúkri ró. Ég er einnig til í það að setja harðasta metalrokk á og get svifið með hraði beint í háklassík gömlu snillinganna. Ein er þó sú geislaplata sem ég set á þegar ég skrifa og vil íhuga málin mjög vel. Það er diskur sem fær mig til að hugsa hlutina mjög vel og slakar á í kringum mig. Ég er að tala um Sálma, undurfagra geislaplötu Ellenar Kristjánsdóttur, sem kom út fyrir seinustu jól. Hef ég alla tíð dáðst mjög að söng Ellenar, sem býr yfir lungamjúkri og fimri söngrödd sem líður áfram eins og lækurinn úti í sveit, tær og svo innilega fagur. Ég held að ég geti sagt með sanni að fáir diskar hafi náð að heilla mig meira, eða rói mig meira niður í erli hversdagsins. Það er viss upplifun að hlusta á lögin tólf á disknum og kemst maður í róandi andrúmsloft sem oft er svo sannarlega þörf á. Þarna eru fjöldamörg góð lög, öll eru þau stórfengleg. Þarna eru gömlu góðu sálmalögin sem hafa fylgt manni í gegnum gleði og sorg lífsins: Nú legg ég augun aftur, Heyr himnasmiður, Ó Jesú bróðir besti, Ástarfaðir himinhæða, Hærra minn guð til þín, Ó faðir gjör mig lítið ljós og fleiri. Þetta er svo sannarlega einstök perla, sem allir verða að eignast.

Raggi Bjarna

Enginn vafi leikur á því að Raggi Bjarna sé einn vinsælasti söngvari þjóðarinnar. Hann er sígildasti söngvarinn í dag, maður allra aldurstímabila og fangar hug og hjarta þjóðarinnar þegar að hann syngur lög sín. Hann sýndi og sannaði kraft sinn með því að gefa út plötu fyrir seinustu jól og slá algjörlega í gegn, enn á ný. Hann hefur, ótrúlegt en satt, eignast nýjan og ferskan hlustendahóp, unga fólkið, og er klassasöngvarinn (að mínu mati). Það var merkilegt að heyra af því að plötufyrirtækin hefðu hafnað, eða haft efasemdir, um að gefa út plötuna með honum fyrir jólin seinustu. Hann tók áhættuna, gaf út plötuna sjálfur og hún varð ein mest selda plata ársins 2004. Það efast enginn lengur um vinsældir Ragga Bjarna allavega. Nú hefur hann gefið út aðra plötu, sem er full af smellum og flottum takti að hætti Ragga. Keypti ég mér hana í vikunni og mæli eindregið með henni. Þetta er klassaplata með besta núlifandi söngvara þjóðarinnar. Alla tíð hef ég metið verk hans, enda hefur maður alist upp með klassasmellum hans seinustu áratugina og þeir verða sífellt betri með aldrinum, eins og sá sem syngur. Hvet alla til að skella sér í taktinn með Ragga Bjarna og fá sér nýju plötuna.

Algjört lostæti frá Sporði

Eins og vel hefur komið fram á ég góð tengsl austur á firði. Um daginn fékk ég góða sendingu að austan - vænan kassa með bitaharðfiski frá Sporði. Fátt er betra að borða og ekkert er meiri freisting sem sannkallað nammi en bitafiskurinn að austan. Frændi minn, Atli Börkur Egilsson, er eigandi þessa rótgróna fyrirtækis. Er harðfiskurinn frá Sporði að mínu mati einn allra besti harðfiskur landsins. Fékk ég senda bæði poka með ýsu og steinbít. Bæði er alveg einstaklega gott, en ekkert jafnast á við steinbítinn. Hvet ég alla til að fá sér bitafisk ef þeir eiga kost á. Alveg frábært nammi. :)

Saga dagsins
1245 Kolbeinn ungi Arnórsson lést, 37 ára að aldri - Kolbeinn ungi var höfðingi af ætt Ásbirninga.
1929 Landakotskirkja í Reykjavík formlega vígð - hún er kirkja kaþólska söfnuðarins hér á Íslandi.
1965 Sir Alec Douglas-Home biðst lausnar sem leiðtogi breska Íhaldsflokksins - hann varð leiðtogi flokksins og forsætisráðherra við afsögn Macmillan árið 1963 - tapaði kosningum árið 1964 og var utanríkisráðherra í ríkisstjórn eftirmanns síns, Edward Heath, árin 1970-1974. Hann lést árið 1995.
1977 Deng Xiaoping nær fullum völdum eftir dauða Mao Zedong árið áður - varð einráður í Kína að mestu við það og ríkti sem yfirmaður einræðisstjórnar Kommúnistaflokksins allt til dauðadags 1997
2003 Uday og Qusay Hussein, synir Saddams Husseins, felldir í skotbardaga í N-Írak - faðir þeirra náðist síðar sama ár í holu við bóndabæ við Tikrit. Síðar á árinu verður réttað yfir Saddam í landinu.

Snjallyrðið
Nú hverfur sól í haf
og húmið kemur skjótt.
Ég lofa góðan Guð
sem gefur dag og nótt,
minn vökudag, minn draum og nótt.

Þú vakir faðir vor
ó, vernda börnin þín
svo víð sem veröld er
og vonarstjarnan skín,
ein stjarna hljóð á himni skín.

Lát daga nú í nótt
af nýrri von og trú
í myrkri hels og harms
og hvar sem gleymist þú
á jörð sem átt og elskar þú.

Kom nótt, með náð og frið,
kom nær, minn faðir hár,
og leggðu lyfstein þinn
við lífsins mein og sár,
allt mannsins böl, hvert brot og sár.
Sigurbjörn Einarsson biskup (1911) (Nú hverfur sól í haf)

21 júlí 2005

Punktar dagsins
Eskifjörður (séð frá Hólmanesi)

Seinustu dagana hef ég verið á ferðalagi vítt og breitt. Vefurinn hefur borið þess merki á meðan að ég hef verið lítið við tölvu og bloggið lítið verið uppfært á meðan því stóð. Nú er ég aftur kominn heim til Akureyrar og færslurnar fara því að verða reglulegri á ný. Þeir sem líta á bloggið eiga því von á tíðari skrifum en verið hefur í mánuðinum en færslur seinustu vikna hafa verið óvenju fáar, eins og athugulir gestir hafa séð mjög vel. Sumarið hér fyrir norðan hefur verið hæðótt. Seinustu daga hefur verið sól og brakandi blíða og það hefur verið notað. Í gær fór ég í notalegan og góðan göngutúr í Kjarnaskóg og fínan hjólatúr með því auðvitað. Á heimleiðinni kom ég við í Brynju og fékk mér þar besta ís í heimi (að mínu mati allavega). Hann er rosalega góður, hefur alla tíð verið og mun alla tíð verða (að því gefnu að menn kasseri ekki uppskriftinni!!). Nú spyrja sjálfsagt einhverjir hvort ráðlegt sé að fara í göngutúr og langan hjóltúr og hjóli svo að því loknu beint í næstu ísbúð og fái sér þar Brynjuís. Eflaust er það öfug röð á heilsusamlegu líferni að einhverra mati, en hvað með það. Það skiptir engu máli, þetta er forgangsröðun sem hentar þegar manni vill líða vel á góðum og fögrum degi í bænum við fjörðinn fagra (það er ekki flóknara en það).

Um síðustu helgi fór ég austur á firði. Þangað er alltaf gaman að koma. Með aldrinum er mér alltaf að skiljast betur og betur hversu austfirska taugin er sterk í mér. Ég hef enda farið oftar austur á firði á þessu ári en jafnan áður. Í gamla daga var sumarferð austur á firði fastur liður í tilverunni. Mamma er að austan og alltaf var farið í vikutíma (stundum lengur) í ferð til Eskifjarðar og litið til Valda frænda, Stínu konu hans, fjölskyldu þeirra og auðvitað litið til Friðriks afa. Það voru skemmtilegar ferðir, hreint ógleymanlegar. Stína hefur alltaf verið höfðingi heim að sækja, eldhúsið hennar var einstakt og fyrir matgæðing eins og mig jafnaðist ekkert á við að heimsækja þessa einstöku konu, þá sem ávallt síðar. Það er ekki laust við að þegar þessar línur séu ritaðar fari minningarstígurinn á fulla ferð í huganum. Mér fannst tilveran fyrir austan dofna mjög þegar að afi og Valdi kvöddu þennan heim með skömmu millibili á síðasta áratug. Það er ekki eins að fara austur síðan, það hefur alltaf eitthvað vantað síðan. Báðir voru þeir öflugir karakterar og settu mikinn svip sinn á tilveruna fyrir austan. En austur er alltaf gaman að fara. Þar er eitthvað sem heillar mig og einhvernveginn finn ég betur með aldrinum hversu vænt mér þykir um þetta svæði. Það skiptir mig máli.

Í síðustu ferð fór ég í Stríðsminjasafnið á Reyðarfirði og hitti gott og skemmtilegt fólk. Safnið er gulls ígildi fyrir sagnfræðilegan áhugamann, eins og mig. Þangað var gaman að koma. Reyndar er skömm frá því að segja að þetta var fyrsta ferð mín þangað frá því það var opnað fyrir áratug. Alltaf hef ég ætlað að fara í það, en nú kom loks að því. Reyndar sé ég alltaf betur, nú þegar Reyðarfjörður blómstrar, hversu góður bær þetta er og fullur af tækifærum og náttúrufegurð. Í dag birtist á vef SUS pistill minn um stöðu mála fyrir austan, en þar er ótrúleg uppbygging á öllum sviðum. Þessi pistill talar sínu máli. Þeir sem lesa hann sjá eflaust þar hvaða hug ég ber til Austfjarðanna og þess sem þar á sér stað samhliða álvers- og virkjunarframkvæmdum á Austurlandi. Fer ég yfir það mál með mínum hætti. Hef ég alltaf haft mjög ákveðnar skoðanir á stóriðjumálunum fyrir austan og hika aldrei við að tjá þær. En ég er semsagt kominn heim aftur. Ferðin austur var skemmtileg - enda var gott veður og fallegt um að líta. Austfirska þokan var þó á sínum stað - það er alltaf eitthvað heillandi við hana.

Guðbrandur, Bjarki og Kristján Þór á Ráðhústorginu

Undanfarinn mánuð hafa félagarnir Guðbrandur Einarsson og Bjarki Birgisson gengið hringinn í kringum landið saman undir kjörorðinu "Haltur leiðir blindan". Um er að ræða glæsilegt afrek hjá þeim félögum. Bjarki er hreyfihamlaður og Guðbrandur er næstum því blindur. Þeir hafa sigrast á hverri þraut á leiðinni og farið í gegnum þær með glans. Í gær komu kapparnir til Akureyrar. Var stutt móttökuathöfn þeim til heiðurs við Leirunesti, við innkomuna í bæinn. Þar tók Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, á móti þeim ásamt fleiri bæjarfulltrúum. Labbaði hópurinn með þeim frá Leirunesti og í bæinn. Bjarki og Guðbrandur eru nú rúmlega hálfnaðir á hringferð sinni og eiga nú eftir að fara bara frá Akureyri suður til borgarinnar. Er óhætt að fullyrða að þeim hafi tekist að vekja athygli á málstaðnum og hefur allsstaðar verið tekið með kostum. Akureyri er engin undantekning og ánægjulegt að heyra í þeim hljóðið og finna kraftinn í þeim, þrátt fyrir langa göngu um landið. Það er ánægjuefni að fylgjast með þessum köppum á ferð sinni. Vonandi gengur þeim vel alla leið á leiðarenda.

Eggert Skúlason með góðum félögum

Fleiri kappar hafa verið á hringferðinni en þeir Bjarki og Guðbrandur. Á föstudag lauk Eggert Skúlason hringferð sinni um landið. Hjólaði hann hringinn til styrktar Hjartaheill, landssamband hjartasjúklinga, og vakti athygli með því á þörfu og góðu málefni. Var Eggert þrjár vikur að fara hringinn. Sjálfur fékk Eggert hjartaáfall fyrir fjórum árum. Á ferð sinni fékk hann marga þekkta Íslendinga til að hjóla með sér. Vann Eggert þetta með glæsilegum hætti að mínu mati og á hrós skilið. Með þessu fékk hann marga til að hugsa um þessi mál með markvissum hætti, þess er þörf, enda eru hjartasjúkdómar algengir og málefnið sem vakið er máls á er gríðarlega mikilvægt. Það er mikilvægt að allir landsmenn styrki félagasamtök á borð við LHS, sem vinna að hag og heill okkar allra. Er það hvatning fyrir okkur öll að styrkja málefnið eftir að hafa heyrt af afrekum Eggerts í þágu LHS. Hvet ég alla til að hringja í 907-2001 eða 907-2003 og styrkja þetta góða málefni. Í tilefni þessa átaks Eggerts samdi Akureyringurinn Jónsi frábært lag sem var einkunnarorð hjólatúrsins og meginstef þess. Hvet ég alla til að hlusta á smellinn Slag fyrir slag eftir Jónsa.

Sverrir Páll Erlendsson kennari

Undanfarnar vikur hefur Sverrir Páll Erlendsson íslenskukennari við MA, verið með athyglisverða (og ekki síður mjög góða) pistla á Rás 1. Er hann einn af fimm einstaklingum sem sjá um þáttinn Sögumenn samtímans, þar tala þau til fólks um hugleiðingar sínar. Sem jafnan fyrr er Sverrir Páll ófeiminn við að tjá skoðanir sínar. Er gaman að hlusta á hugleiðingar hans og get ég ekki annað en bent á þessa pistla hans hér á vefnum. Þessar hugleiðingar þessa góða íslenskukennara okkar Akureyringa í MA eru jafnan góðar og eiga erindi við fólk. Sérstaklega vakti athygli mína góðar hugleiðingar Sverris Páls um íslenskt mál og málrækt almennt í ljósi amerískra menningaráhrifa á tungumálið (en eins og gefur að skilja er íslenskt mál megináhugamál Sverris Páls sem mikils postula í málrækt). Hefur Sverrir Páll nú um nokkuð skeið haldið úti áhugaverðum bloggvef um málrækt, sem hann kallar Mannamál, sem jafnan er gaman að líta á. En ég hvet alla til að hlusta á pistla Sverris Páls eða lesa þá og önnur skrif hans. Áhugavert, eins og jafnan þegar Sverrir Páll tjáir skoðanir sínar.

Baldurshagi

Þegar heim var komið úr fríinu mikla var Baldurshagi horfinn. Það var óneitanlega svolítið merkileg tilfinning að labba þennan stutta spöl sem er héðan frá Þórunnarstræti 136 að Baldurshaga, hér rétt fyrir neðan í götunni og skoða vinnusvæðið - húsið var farið. Auðvitað vissu allir að þetta væri handan við hornið, vinnuframkvæmdir komnar á fullt og allt í fulle swing þarna. En merkilegt var að sjá húsið farið. Þetta hús var merkilegt kennileiti þar sem það var og setti svip á bæinn, eins og öll hús sem eiga merka sögu og hafa sál sem talar framan í þá sem framhjá því keyrðu, hjóluðu eða gengu dag hvern til fjölda ára. En nú er það farið og í staðinn koma tvær blokkir, kraftmiklar og tignarlegar. Fögur hús á fögru svæði í hjarta bæjarins. Verður gaman að sjá framkvæmdirnar á næstunni.

Saga dagsins
1914 Sigurður Eggerz verður ráðherra Íslands - Sigurður var einnig forsætisráðherra árin 1922-1924.
1944 Franklin D. Roosevelt forseti Bandaríkjanna, útnefndur forsetaefni demókrataflokksins í fjórða skiptið - Roosevelt sat á forsetastóli lengur en nokkur annar, rúm 12 ár, eða allt til dauðadags 1945.
1963 Skálholtskirkja formlega vígð við hátíðlega athöfn af Ásgeiri Ásgeirssyni þáv. forseta Íslands.
1969 Bandaríkjamaðurinn Neil Armstrong stígur fyrstur manna fæti á tunglið - við það tækifæri féllu hin fleygu spakmæli hjá Armstrong: "That's one small step for man but one giant leap for mankind."
1994 Tony Blair kjörinn leiðtogi breska Verkamannaflokksins - hann varð forsætisráðherra Bretlands 2. maí 1997, eftir kosningasigur flokksins, og setið síðan við völd og unnið þrjár þingkosningar í röð.

Snjallyrðið
Ástarfaðir himinhæða,
heyr þú barna þinna kvak,
enn í dag og alla daga
í þinn náðarfaðm mig tak.

Náð þín sólin er mér eina,
orð þín döggin himni frá,
er mig hressir, elur, nærir,
eins og foldarblómin smá.

Einn þú hefur allt í höndum,
öll þér kunn er þörfin mín,
ó, svo veit í alnægð þinni
einnig mér af ljósi þín.

Anda þinn lát æ mér stjórna,
auðsveipan gjör huga minn,
og á þinnar elsku vegum
inn mig leið í himin þinn.
Steingrímur Thorsteinsson skáld (1831-1913) (Ástarfaðir himinhæða)

20 júlí 2005

John Roberts tilnefndur í hæstarétt

John Roberts og George W. Bush

George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilkynnti í Hvíta húsinu í gærkvöldi að hann hefði tilnefnt John G. Roberts sem dómara við hæstarétt Bandaríkjanna í stað Söndru Day O'Connor sem setið hefur í réttinum allt frá árinu 1981. Tilkynnti hún um afsögn sína hinn 1. júlí sl. og hafði síðan verið uppi mikill orðrómur um hver yrði tilnefndur í hennar stað. Nú þegar tilkynnt hefur verið um valið fer málið fyrir Bandaríkjaþing. Mun Roberts koma fyrir þingnefnd seinni hluta ágústmánaðar og svara þar spurningum um lögfræðileg álitaefni og tengd málefni. Nefndin mun í kjölfarið kjósa um tilnefninguna og fer málið svo fyrir öldungadeildina í heild sinni. Hljóti Roberts meirihluta atkvæða (fleiri en 50 atkvæði) er hann réttkjörinn til setu í réttinum. Valið á Roberts kom að mörgu leyti ekki á óvart, en þó hafði verið talið líklegra seinustu daga að Alberto Gonzales dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, og dómararnir Priscilla Owen, Edith Jones og Edith Clement yrðu fyrir valinu. Fullyrt var lengi vel í gær að Clement hefði orðið fyrir valinu og fluttu fréttastöðvar fréttir þess efnis að sú yrði raunin en þau drógu fullyrðinguna til baka þegar leið að tilkynningunni í Hvíta húsinu og ljóst var að hún hefði ekki hlotið tilnefninguna.

Bush forseti, ræddi við fjölda aðila áður en hann tók ákvörðun. Mun fjöldinn vera rúmlega 10 manns sem raunverulega kom til greina í embættið. Roberts var alla tíð meðal þeirra sem helst komu til greina en þegar nær dró ákvörðuninni var talið að möguleikar hans hefðu minnkað og fjölmiðlar fjölluðu mest um konurnar sem fyrr eru nefndar og Gonzales. Tilkynnt var í gær að forsetinn myndi tilkynna um val sitt á hæstaréttardómara í stað Söndru klukkan níu að kvöldi að bandarískum tíma í beinni sjónvarpsútsendingu á öllum sjónvarpsstöðvum. Var það nýmæli, en jafnan hefur valið verið tilkynnt með lágstemmdum hætti á blaðamannafundi með annarri framsetningu, en Bush boðaði til blaðamannafundar í austurálmu Hvíta hússins. Var talið að um konu væri að ræða og orðrómurinn um Edith Clement varð allnokkur. CNN taldi sig svo örugga um að hún yrði dómaraefnið að þau fullyrtu að hún hefði flogið ásamt manni sínum frá New Orleans til Washington og væri í borginni. Stóðu þeir við fréttina þar til kom í ljós að eiginmaður Edith var í New Orleans og að hún væri þar líka. Þá varð ljóst að hún var ekki dómaraefnið.

John Roberts og George W. Bush

John G. Roberts er fæddur 27. janúar 1955 í Buffalo í New York-fylki. Eiginkona hans er Jane Sullivan Roberts og eiga þau tvö börn, Josephine og Jack. Roberts útskrifaðist frá Harvard árið 1979 og átti glæsilegan námsferil að baki þar. Hann var um tíma aðstoðarmaður Rehnquist forseta hæstaréttar Bandaríkjanna. Hann starfaði um tíma í bandaríska dómsmálaráðuneytinu og Hvíta húsinu en hefur verið dómari við áfrýjunardómstólinn í Washington frá 2003. Ferill hans er glæsilegur og hann kemur víða nærri og verður seint hægt að finna að fræðimannsferli hans og starfsferli sem dómara og lagasérfræðings. Hinsvegar er hann mun hægrisinnaðri í skoðunum en hin hófsama íhaldskona Sandra og hætt við að átök verði um tilnefningu hans. Segja má að viðbrögðin við tilnefningu Roberts í hæstarétt hafi verið mjög flokkaskipt. Repúblikanar fögnuðu mjög tilnefningu hans og hrósuðu forsetanum fyrir valið. Demókratar voru sumir jákvæðir en flestir þeirra frekar neikvæðir og sögðu harðvítugt staðfestingarferli framundan. Roberts þykir vera íhaldssamur og því er hætt við að demókratar reyni að flokkseinkenna þessa tilnefningu og finna höggstaði á þeim tilnefnda og ekki síður þeim sem valdi hann, forsetanum sjálfum.

Þetta hefur oft gerst en ekki alltaf tekist. Besta dæmið um misheppnaðar skipanir í réttinn var þegar að Lewis Powell tilkynnti um starfslok sín sumarið 1987. Reagan forseti tilnefndi Robert Bork til embættisins en öldungadeildin hafnaði honum, 58-42. Þá tilnefndi Reagan í staðinn Douglas H. Ginsburg en hann varð að draga sig til baka vegna orðróms um dópneyslu hans fyrr á árum. Þá var í þriðju tilraun tilnefndur Anthony Kennedy og tók hann loks við embætti, nokkru eftir formleg starfslok Powell. Hvað varðar Roberts nú má búast við mikilli hörku frá báðum hliðum ef út í átök fer. Frjálslyndir telja hann ekki viðeigandi dómaraefni, hann hafi að þeirra mati lagst gegn mál- og trúfrelsi og gæti þrengt lagaramma þess sem dómari. Þá segir hópur, sem berst fyrir frjálsum fóstureyðingum, að Roberts hafi skrifað lögfræðiálit árið 1990 þar sem færð voru rök fyrir því að hæstiréttur ætti að breyta afstöðu sinni til fóstureyðinga. Frægt er málið, Roe v. Wade árið 1973, þar sem réttur kvenna til fóstureyðinga var staðfestur. Nýir dómarar gætu snúið þeim tímamótadómi og hert lagarammann. Þó hefur Roberts ekki sagst telja rétt að gera það. En nú tekur við merkilegt ferli málsins. Staðfestingarferlið mun verða gegnumskrifuð pólitík. Alveg einfalt!

Hæstiréttur Bandaríkjanna

Búast má við enn frekari breytingum á hæstarétti á komandi mánuðum, í kjölfar þess að eftirmaður Söndru hefur tekið þar sæti. Þegar er ljóst að stutt er í að forseti réttarins, hinn áttræði William Rehnquist, láti af störfum, enda hefur hann greinst með krabbamein og er orðinn nokkuð veiklulegur. Sást við embættistöku Bush forseta í janúar að heilsa hans er brothætt og hægt að slá því föstu að hann láti brátt af störfum. Hann hefur verið í réttinum frá forsetatíð Nixons og forseti hans frá árinu 1986. Aðeins einn forseti hefur setið lengur en hann í sögu réttarins. Þrátt fyrir að Rehnquist hafi nýlega lýst yfir að hann ætli ekki að hætta, hefur hann sagt að hann muni sitja í réttinum svo lengi sem heilsa hans leyfir. Það er því ljóst að starfslok gætu orðið á hverri stundu. Einnig blasir við að John Paul Stevens, sem er 85 ára, hætti brátt í réttinum. Hann hefur verið dómari frá 1975 (í forsetatíð Fords). Það eru því miklar breytingar í sjónmáli og ljóst að Bush forseti getur með vali sínu á eftirmönnum þessara dómara sem teljast hægrisinnaðir breytt réttinum og hvernig hann muni dæma í stórum og vandasömum málum á komandi árum.

Saga dagsins
1627 Guðbrandur Þorláksson biskup á Hólum, lést, 85 ára gamall - Guðbrandur var biskup í 56 ár.
1783 Eldmessan á Kirkjubæjarklaustri haldin - meðan að sr. Jón Steingrímsson flutti þrumandi ræðu yfir sóknarbörnum sínum stöðvaðist framrás hraunsins úr Skaftáreldum, skamman spöl frá kirkjunni.
1944 Adolf Hitler lifir af banatilræði - hann svipti sig lífi er seinna stríðið var loks tapað í maí 1945.
1951 Abdullah I Jórdaníukonungur myrtur í mosku í Jerúsalem - Abdullah var þá sjötugur að aldri.
1960 Sirimavo Bandaranaike kjörin í embætti forsætisráðherra Ceylon (Sri Lanka) - Sirimavo varð fyrsti kvenforsætisráðherra heimsins og einnig fyrsta konan er kjörin var til leiðtogastarfa í pólitík.

Snjallyrðið
Heyr himnasmiður
hvers skáldið biður.
Komi mjúk til mín
miskunnin þín.
Því heiti eg á þig,
þú hefur skaptan mig,
ég er þrællinn þinn,
þú ert Drottinn minn.

Guð, heit eg á þig,
að græðir mig.
Minnst mildingur mín,
mest þurfum þín.
Ryð þú röðla gramur,
ríklyndur og framur,
hölds hverri sorg
úr hjarta borg.

Gæt, mildingur mín,
mest þurfum þín,
helst hverja stund
á hölda grund.
Set, meyjar mögur,
málsefni fögur.
Öll er hjálp af þér
í hjarta mér.
Kolbeinn Tumason (1170-1208) (Heyr himnasmiður)

18 júlí 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli að þessu sinni fjalla ég um tvö fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um heimilisrifrildið innan R-listans þar sem innri valdaerjur kristallast vel þessa dagana. Tók umræðan um stöðuna innan þessa meirihlutaafls í borginni nýja stefnu í viðræðunefndinni í vikunni þar sem mál voru settluð með merkilegum hætti og reynt að breiða yfir heimiliserjurnar. Eftir að viðræðunefndin var sett af tímabundið og umræðan færð að nýju í bakherbergin, sem eru að verða aðalsvistarverur R-listans, áttu margir von á að svefn færðist yfir málið fram yfir verslunarmannahelgi. Ekkert myndi gerast - ró og friður tækju við í bakherbergjunum við að plottast um völdin, stólana og áhrifin sem fylgja völdunum sem flokkarnir hafa haft í rúman áratug. Það sem gerst hefði jafnan myndi gerast enn eina ferðina, plottið tæki völdin og menn létu sig hverfa úr sviðsljósinu og allir leyfðu því að hafa sinn gang og óánægjuraddirnar myndu þagna fljótt. Sú varð, merkilegt nokk, alls ekki raunin. Undir lok vikunnar tók Össur Skarphéðinsson leiðtogi Samfylkingarinnar í Reykjavík norður og fyrrum formaður flokksins, að hefja skrif á bloggvef sínum með afgerandi hætti um stöðu borgarmálanna og viðræðnanna um áframhaldandi R-listasamstarf. Talar hann þar af krafti um stöðu mála. Fer ég yfir stöðu mála vegna merkilegrar atburðarásar seinustu vikuna.

- í öðru lagi fjalla ég um Sir Edward Heath, sem lést um helgina, 89 ára að aldri. Fer ég yfir stjórnmálaferil hans og það sem ég tel skipta máli er fjallað er um þann litríka karakter sem Heath bjó yfir. Heath var einn af mest áberandi stjórnmálamönnum Breta á 20. öld og verður minnst sem slíks, en hann var forsætisráðherra Bretlands í upphafi áttunda áratugarins, leiddi Íhaldsflokkinn í áratug og sat á breska þinginu samfellt í hálfa öld.


Sir Edward Heath
1916-2005


Sir Edward Heath (1916-2005)

Sir Edward Heath fyrrum forsætisráðherra Bretlands, er látinn, 89 ára að aldri. Óhætt er að fullyrða að með Heath er fallinn í valinn einn litríkasti stjórnmálamaður Bretlands á 20. öld. Hann var umdeildur og ennfremur heillandi að merkilegu leyti. Tekist á um kosti hans og galla. Hann sannaði hinsvegar vel á löngum stjórnmálaferli hvers hann var megnugur og var kraftmikill maður sem barðist með kjafti og kló fyrir málefnum sínum og hugsjónum flokksins sem hann leiddi. Hann var sannur í forystu og verkum og ennfremur öflugur í að standa vörð um það sem hann trúði á í pólitískum veruleika Bretlands og þau gildi sem hann taldi hin einu réttu. Ted Heath var risi í breskum stjórnmálum, eins og Margaret Thatcher benti réttilega á í yfirlýsingu við andlát hans. Hann var kjörinn á breska þingið í þingkosningunum 1951 og sat á þingi í hálfa öld, allt til þingkosninganna í júní 2001. Var Heath alla tíð áberandi í þingsalnum í Westminster. Heath lét finna fyrir sér og var óhræddur við að tjá skoðanir sínar, sama á hverju gekk innan flokks sem og í stjórnmálatilverunni í Bretlandi. Hann kom öllum á óvart með því að sigra með nokkuð afgerandi hætti í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins árið 1965 og leiddi hann flokkinn í gegnum súrt og sætt í áratug.

Sir Edward Heath (1916-2005)

Heath varð fyrsti maðurinn af almúgaættum til að leiða Íhaldsflokkinn. Fram að því höfðu það verið hefðarmenn af öflugum ættum sem höfðu verið valdir til forystu þar. Kjör hans markaði því þáttaskil í sögu flokksins. Íhaldsflokknum mistókst að komast til valda undir forystu Heath í kosningunum 1966. Árið 1970 var aftur komið að kosningum. Þá sigraði Heath og Íhaldsflokkurinn, Harold Wilson þáv. forsætisráðherra og Verkamannaflokkinn, með naumum hætti. Heath lofaði því í kosningabaráttunni að standa fyrir "hljóðlátri byltingu" til að binda enda á langvarandi samdrátt í bresku efnahagslífi. Sigurinn var það naumur að Wilson neitaði að játa ósigur sinn fyrr en liðið var fram á annan sólarhring eftir kosninguna. Hann baðst lausnar og Heath fékk umboð drottningar til að mynda stjórn. Heath sat á forsætisráðherrastóli í fjögur ár, allt til ársins 1974. Sá tími markaðist af miklum verkefnum og fjölda úrlausnarefna. Þrátt fyrir loforðin mistókst Heath að efna loforðið vegna harðvítugra vinnudeilna og átaka við verkalýðshreyfinguna. Hann boðaði til þingkosninga og spurði kjósendur hverjir ættu að stjórna landinu, hann eða vinstriöflin. Hann tapaði kosningunum og Wilson komst til valda að nýju.

Segja má að Heath verði helst minnst fyrir það á stormasömum valdaferli að hafa samið um aðild Bretlands að Efnahagsbandalagi Evrópu, EBE, árið 1972 og hafa leitt landið þar inn ári síðar með formlegum hætti. Heath tókst á forsætisráðherraferlinum að breyta ímynd sinni með nokkuð áberandi hætti og verða alþýðlegur leiðtogi, þó með íhaldssömum hætti og hélt í grunngildi hægristefnu sem leiðarljós sitt við stjórnvölinn. Þrátt fyrir að honum mistækist að halda völdum í þingkosningunum 1974 og tapaði aukakosningum síðar sama ár var hann alla tíð virtur fyrir verk sín á valdastóli og stjórnmálalega forystu. En þrátt fyrir að hafa verið risi innan síns flokks á tíu ára leiðtogaferli og virtur fyrir forystu sína var gerð atlaga að honum árið 1975 og Margaret Thatcher, sem var menntamálaráðherra í ráðuneyti Heath, bauð sig fram í leiðtogakjöri. Þáttaskil höfðu orðið og Thatcher var táknmynd nýrra tíma í breskum stjórnmálum og kom með ferska sýn í hugsjónaheim hægrimanna í Evrópu. Henni tókst að sigra Heath í fyrri umferð leiðtogakjörsins, hlaut 130 atkvæði gegn 119 atkvæðum hans. Það var ekki nóg til að tryggja sigur Thatcher og náði hún kjöri í seinni umferðinni eftir að Heath hafði dregið sig formlega í hlé frá leiðtogaembættinu.

Sir Edward Heath og Margaret Thatcher

Þrátt fyrir að Edward Heath og Margaret Thatcher sýndu hvoru öðru kurteisi í kjölfar kjörsins var öllum ljóst að hann fyrirgaf henni aldrei það að hafa farið fram gegn sér og komið sér frá völdum innan flokksins. Kuldinn milli þeirra varði alla tíð síðan. Lágstemmd kurteisi var þeirra á milli við opinberar athafnir en bakvið tjöldin innan þingflokks Íhaldsflokksins geisaði kalt stríð þeirra á milli um stefnu og áherslur. Hann neitaði að taka sæti í skuggaráðuneyti Thatchers eftir tapið í leiðtogakjörinu og tók sæti á aftari bekkjum þingsalarins og talaði með sínum hætti um málin og tók upp eigin stíl við framsetningu skoðana sinna. Hann afþakkaði ennfremur ráðherrasæti í stjórn frú Thatchers er Íhaldsflokknum tókst loks að komast í ríkisstjórn í maí 1979, eftir fimm ára stjórnarandstöðu. Thatcher ríkti í ellefu og hálft ár og leiddi flokkinn samfellt í fimmtán ár. Hún varð einn sigursælasti stjórnmálamaður í stjórnmálasögu Bretlands. Engu að síður var skuggi Heath alltaf að baki henni og hann hikaði ekki við að reyna með lítt duldum hætti að finna að forystu hennar og stefnu. Hann átti erfitt með að leyna gleði sinni er Thatcher var steypt af stóli í innri valdabaráttu í Íhaldsflokknum árið 1990.

Fræg er sagan af því er fréttamaður BBC spurði Heath að því í desember 1990 hvort hann hafi brugðist við falli Thatcher með því að kalla "gleði - gleði!". Hann hikaði örlítið við spurningunni en svaraði svo með háðsku glotti. "Nei, ég sagði það þrisvar". Heath tók aldrei sæti í lávarðadeild breska þingsins og var áberandi í forystu breskra stjórnmála með sínum hætti allt fram á nýja öld, eftirmönnum sínum á leiðtogastóli flokksins til lítillar gleði. Hann varð aldursforseti breska þingsins í kjölfar kosninganna 1992, en þá lét Margaret Thatcher af þingmennsku. Heilsu hans hrakaði ört í kjölfar þess að hann vék af þingi fyrir fjórum árum og hann lést að kvöldi sunnudags að heimili sínu í Salisbury. Þingmenn og forystumenn bresku flokkanna í gegnum seinustu áratugina minntust Heath við andlát hans. Sérstaklega hjartnæm var kveðja Margaret Thatcher til forvera síns á leiðtogastóli og þótti mér merkilegt að lesa yfirlýsingu hennar vegna andláts Heaths. Ennfremur var hans minnst í breska þinginu í dag þar sem Tony Blair og Michael Howard fluttu glæsilegar ræður þar sem þeir minntust pólitískrar forystu Heaths.

Sir Edward Heath (1916-2005)

Við andlát Ted Heath minnast evrópskir hægrimenn öflugs forystumanns sem setti sterkan svip á alþjóðastjórnmál og pólitíska litrófið í Bretlandi. Persónulega þótti mér alltaf mikið til hans koma sem stjórnmálamanns. Hann var þekktur fyrir að tala með áberandi hætti þegar hann hafði skoðanir og ekki síður að vera sannur í baráttu fyrir þeim verkefnum sem hann barðist fyrir. Þannig eiga stjórnmálamenn auðvitað að vera. Heath var þekktur fyrir að vera blíður og hvass í senn, í merkilegum hlutföllum. Persónulega þótti mér merkilegt að kynna mér pólitíska forystu hans þegar ég var yngri. Skrifaði ég ritgerð um hann í framhaldsskóla á sínum tíma og er þessi frásögn að nokkru byggð á henni. Þó að Thatcher sé að mínu mati merkasti leiðtogi breskra íhaldsmanna frá dögum Churchills, er Heath ekki fjarri að baki henni. Bæði höfðu þau áhrif, nútímavæddu breska Íhaldsflokkinn og færðu hann rétta leið til valda og áhrifa. Þá sýn vantar í dag og þegar Heath er kvaddur vakna spurningar um hvert flokkur þeirra stefni nú. En við leiðarlok er Heath, að mínu mati, minnst sem öflugs forystumanns og litríks talsmanns hægristefnu.

Saga dagsins
1918 Nelson Mandela fæðist í bænum Qunu í S-Afríku - hann sat á forsetastóli í S-Afríku 1994-1999.
1918 Samningar um frumvarp til sambandslaga undirritaðir. Frumvarpið var svo að lokum samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu þremur mánuðum síðar. Lögin tóku svo formlega gildi hinn 1. desember 1918.
1947 Breytingar samþykktar á hinni formlegu valdaröð Bandaríkjanna, á eftir forseta og varaforseta koma forseti fulltrúadeildarinnar, leiðtogi meirihlutans í öldungadeildinni og utanríkisráðherra, sem fram að því hafði verið þriðji í valdaröðinni. Misskilningur á valdaröðinni varð heimsfrægur er Reagan forseti var skotinn í mars 1981 og Alexander Haig sem var utanríkisráðherra, tók sér þá forsetavald meðan George Bush varaforseti, var á leiðinni frá Texas til Washington. Haig var af blaðamönnum bent á að Tip O'Neill forseti fulltrúadeildarinnar hefði forsetavaldið. Reagan setti Haig af árið eftir.
1969 Edward Kennedy öldungadeildarþingmaður, keyrir bifreið sinni framaf brú og lendir í tjörn á Chappaquiddick eyju í Massachusetts-fylki. Kennedy slapp lifandi, en ung kona, Mary Jo Kopechne drukknaði. Kennedy tilkynnti ekki um slysið fyrr en 10 tímum síðar, líklegast þótti að Kennedy hefði verið drukkinn og ekki þorað að tilkynna slysið vegna skaðans sem það ylli ferli hans. Síðar varð ljóst að hann hafði verið próflaus í fimm mánuði fyrir slysið afdrifaríka. Ferill Kennedys skaðaðist nokkuð og náði hann ekki árangri í forsetaframboði 1980. Kennedy hefur átt sæti í öldungadeildinni frá 1962.
2003 Dr. David Kelly vopnasérfræðingur breska varnarmálaráðuneytisins, finnst látinn í skóglendi skammt frá heimili sínu í Oxfordshire. Í kjölfar dauða hans kom í ljós að hann var einn af helstu heimildarmönnum BBC fyrir fréttum um að breska ríkisstjórnin hafi ýkt einum of ógnina af íröskum stjórnvöldum og vopnaeign þeirra, en því hafði áður verið neitað. Litlu munaði að dauði dr. Kelly, eftirmálinn og rannsókn á vinnubrögðum ríkisstjórnar Bretlands myndi fella Tony Blair af valdastóli.

Snjallyrðið
Nú sefur jörðin sumargræn.
Nú sér hún rætast hverja bæn
og dregur andann djúpt og rótt
um draumabláa júlínótt.

Við ystu hafsbrún sefur sól
og sofið er í hverjum hól
í sefi blunda svanabörn
og silungur í læk og tjörn.

Á túni sefur bóndabær
og bjarma á þil og glugga slær.
Við móðurbrjóstin börnin fá
þá bestu gjöf sem lífið á.

Nú dreymir allt um dýrð og frið
við dagsins þögla sálarhlið,
og allt er kyrrt um fjöll og fjörð
og friður drottins yfir jörð.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Nú sefur jörðin)

14 júlí 2005

Saga af fallandi gengi innan hræðslubandalags
R-listafólk glatt í sundi (hvar er Alfreð?)

Eins og sjá má hér að ofan var eitt sinn glatt á hjalla innan R-listans. Fyrir seinustu kosningar skelltu frambjóðendur listans sér saman í sund (allt er hægt að gera fyrir ljósmyndara og PR-sérfræðinga) og brostu sínu bjartasta sólskinsbrosi framan í ljósmyndarana. Þó vantaði þar Alfreð Þorsteinsson, en einhverra hluta vegna var þessi lífsreyndi frambjóðandi og forystumaður Orkuveitunnar að mestu falinn í kosningabaráttunni 2002. En hvað með það, nú virðist eitthvað farið að kárna gamanið á þessum bænum. Þessa dagana eiga sér stað miklar og flóknar samningaviðræður um framtíð R-listans. Þar er tekist á um skiptingu valda, það virðist vera það eina sem er í raun fjallað um. Það þarf að skipta bitlingunum og valdastöðunum svo allir séu sáttir. Lengi hefur verið aðall R-listans að allir hafa verið jafnir og getað unað sáttir með að skipta völdunum eins jafnt og hægt er og svo hefur verið dassað með óháðu Samfylkingarfólki á básana svo allir geti unað sáttir við stöðuna.

Svo einfalt er það nú ekki eftir að óháði borgarstjóri Samfylkingarinnar hrökklaðist frá. Nú vill enginn óháða stjórnmálamenn því það hentar ekki og Framsókn berst í bökkum við að reyna að halda áhrifum sínum. Neikvæð ásjóna Alfreðs í Orkuveitunni virðist vera að ríða Framsókn í borginni að fullu. Það sást á mánudag að margt á að reyna til að halda R-listanum saman. Þá umpólaðist Samfylkingin til að halda samstarfinu saman. Það þótti ekki nógu gáfulegt og PR-heillavænlegt að "dömpa" Framsóknarflokknum og kasta samstarfinu fyrir róða í skugga nýlegrar skoðanakönnunar sem sýndi Sjálfstæðisflokkinn með meirihluta í borginni. Kippt var í spotta af æðstu stöðum og umræðurnar í viðræðunefndinni svokölluðu settar til hliðar í undirnefnd og málið tekið úr kastljósi fjölmiðla. Ekki þótti ráðlegt að kafsigla R-listanum í skugga þessarar könnunar. Margar fréttir hafa borist af því seinustu daga hver atburðarásin hafi verið. Ljóst er þó að innan Samfylkingarinnar kom kallið sem bjargaði R-listanum.

Framsókn var að ganga úr skaftinu vegna hugmynda Samfylkingarinnar um ójafnara vægi innan R-listans en verið hafði. Rætt hafði verið um 4 borgarfulltrúa Samfylkingar og 2 hjá Framsókn og VG, og jafnvel vildi Samfylkingin meira en það. Framsókn var því við það að ganga út og ekki þótti rétt að slitin kæmu í kjölfar könnunar sem sýndi fallandi gengi R-listans og ekki síður raunhæfa möguleika á hreinum meirihluta Sjálfstæðisflokksins. Reyndar er það nú svo að R-listinn er alveg orðinn strandaður í pólitískri forystu sinni, bæði innbyrðis og á vettvangi borgarmálanna. R-listinn hefur svikið kosningaloforð sín og gengið gegn öllu því sem hann lofaði að gera og stefna að með áhrifum sínum í kosningabaráttunni 1994 þegar ólíkir flokkar sameinuðust á bakvið einn frambjóðanda gegn einum flokki. Nú sameinar það eitt ólíkt fólk, ólíkar stefnur og áherslur að vera á móti Sjálfstæðisflokknum.

Það eitt er sameiningarafl R-listans og heldur liðinu saman þó það treysti vart orðið hvort öðru. En hversu lengi heldur einn flokkur ósáttu fólki og óánægjuöflum saman? Ætli komi ekki brátt að því að sjóði uppúr þessum veikbyggða potti eymdar andstöðuafla Sjálfstæðisflokksins? Ég held það, en það sést af atburðum vikunnar innan R-listans og óskiljanlega vitlausri yfirlýsingu viðræðunefndar R-listans í vikunni (sem sagði ekki neitt) að þetta er bara hræðslubandalag - einfalt mál. Nú er það svo að ég vona að R-listinn haldi áfram saman og fari fram í næstu kosningum og svari fyrir verk sín. Það er nauðsynlegt að vinstrimennirnir svari fyrir stjórn Alfreðs Þorsteinssonar (í þeirra nafni) innan Orkuveitunnar, það er nauðsynlegt að svarað verði fyrir það sem viðgengist hefur á valdaskeiði meirihlutans undanfarinn áratug. Það er síðast en ekki síst rökréttast að flokkarnir fari allir saman og svari fyrir heildarsýn sína í þrennum kosningum sem hefur ekki ræst og hefur aðeins orðið hryggðarmynd.

Með því að splitta upp flokkunum geta þeir farið fram án þess að svara fyrir fortíðina og eymdarbrag R-listans (hræðslubandalagsins) undanfarinn áratug. Ef það er eitthvað sem er mikilvægara en annað er það að þessi öfl fari fram saman og svari fyrir verk sín. Það gengur greinilega brösuglega að tryggja það og sést vel á öllum vinnubrögðunum að óbragð er í munni við samningagerðina. Enginn þorir þó að stökkva fyrir borð í annan bát og heldur vistinni áfram, þrátt fyrir allt sem gerst hefur. Vinnubrögð seinustu daga innan R-listans og yfirlýsingin óskiljanlega eru augljós merki þess að hér er um hræðslubandalag að ræða gegn einum flokki. Á sama tíma og Sjálfstæðisflokkurinn hefur komið með raunhæfar og djarfar hugmyndir í skipulagsmálum, hefur heimsótt vinnustaði og markað sér skýra og afgerandi stefnu hefur ríkt ósætti og stefnuleysi í forystusveit og stefnumörkun R-listans. Þetta blasir við.

Skipulagsmálin kristalla vandræðaganginn umfram allt. Við bætist svo fréttir seinustu daga um uppsagnir starfsmanna á gæsluvöllum borgarinnar og þeirrar mannvonsku sem þar kemur fram. Er þar komin félagshyggjan sem R-listinn var byggður utan um? Er nema von að spurt sé. En þessi skoðanakönnun um daginn þjappar kannski R-listaflokkunum saman og fær þá til að standa saman um að verja verk sín í kosningabaráttu. Það er þó ljóst að borgarbúar eru að verða þreyttir á R-listanum, hræðslu- og hagsmunabandalagi í borgarmálum. Skal það engan undra!.

Saga gærdagsins
1954 Mexíkóski listmálarinn Frida Kahlo deyr, 47 ára að aldri. Sagt var frá litríkri ævi hennar og listferli í kvikmyndinni Frida árið 2002. Salma Hayek fór á kostum við túlkun á listakonunni Fridu.
1960 John Fitzgerald Kennedy öldungadeildarþingmaður, formlega útnefndur forsetaframbjóðandi demókrataflokksins, á flokksþingi þess í New York - Kennedy vann sigur í forsetakosningunum síðar sama ár og varð yngsti forseti landsins í sögu þess. Kennedy forseti féll fyrir morðingjahendi í Dallas
í Texas, 22. nóvember 1963. Hann var þá 46 ára að aldri og hafði setið rúma 1000 daga í embætti.
1984 Walter Mondale forsetaefni demókrata, útnefnir Geraldine Ferraro sem varaforsetaefni sitt - Ferraro var fyrsta konan (er enn sú eina) er var í framboði í forystu í forsetakjöri í Bandaríkjunum.
1985 Live Aid-tónleikarnir voru haldnir í London, til styrktar hungruðum í Afríku. Tveim áratugum síðar, 2. júlí 2005, voru Live 8-tónleikarnir haldnir í átta helstu iðnríkjum heims, til að hvetja þau til að efla þróunaraðstoð í Afríku, í aðdraganda fundar iðnveldanna í Gleneagles í Skotlandi í júlí 2005.
2000 Víetnam og Bandaríkin undirrita viðskiptasamning - markaði tímamót í samskiptum landanna.

Snjallyrðið
I’ve lived a life that’s full.
I’ve traveled each and every highway;
And more, much more than this,
I did it my way.

Regrets, I’ve had a few;
But then again, too few to mention.
I did what I had to do
And saw it through without exemption.

Yes, there were times, I’m sure you knew
When I bit off more than I could chew.
But through it all, when there was doubt,
I ate it up and spit it out.
I faced it all and I stood tall;
And did it my way.

I’ve loved, I’ve laughed and cried.
I’ve had my fill; my share of losing.
And now, as tears subside,
I find it all so amusing.

To think I did all that;
And may I say - not in a shy way,
No, oh no not me,
I did it my way.

For what is a man, what has he got?
If not himself, then he has naught.
To say the things he truly feels;
And not the words of one who kneels.
The record shows I took the blows
And did it my way!
Frank Sinatra söngvari og leikari (1915-1998) (My Way)