George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilkynnti á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í morgun að hann hefði skipað dómarann Samuel Alito sem dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna. Er hann skipaður í réttinn sem eftirmaður Söndru Day O'Connor, sem tók fyrst kvenna sæti í réttinum árið 1981. Er hann þriðja dómaraefnið sem skipað er í stað Söndru. Upphaflega, fyrr í sumar, hafði forsetinn skipað John G. Roberts sem dómara við réttinn. Í kjölfar andláts William H. Rehnquist forseta Hæstaréttar, í haust, var Roberts skipaður í stað hans og var staðfestur sem forseti réttarins í lok september. Þá skipaði forsetinn Harriet Miers yfirlögfræðing Hvíta hússins, sem dómara. Tilkynnt var á fimmtudag að hún hefði hætt við að þiggja útnefninguna. Sýnt var að henni skorti nauðsynlegan meirihluta í dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings og í þingdeildinni sjálfri. Andstaða við hana innan hins íhaldssama arms Repúblikanaflokksins varð henni að falli - án þess stuðnings var borin von að hún hlyti tilskilinn stuðning í þinginu. Því fór sem fór. Brotthvarf Miers frá ferlinu og erfiðleikar hennar í stöðunni markaði vandræðalegt ástand fyrir forsetann. Það er alltaf vandræðalegt fyrir sitjandi forseta þegar dómaraefni hans er ekki staðfest af þinginu eða viðkomandi neyðist til að bakka frá ferlinu vegna þess að ferlið er strandað eða sá sem forsetinn hefur valið missir baklandið.
Nú tekur Bush forseti engar áhættur í stöðunni. Skipaður er tryggur hægrimaður - umfram allt tryggur íhaldsmaður í lykilmálum. Alito er mjög tryggur íhaldsmaður hvað varðar þau lykilmál sem deilt hefur verið um seinustu árin. Hann er allavega talinn svo líkur hæstaréttardómaranum íhaldssama Antonin Scalia, að hann er almennt uppnefndur Scalito. Þessi brandari er lífseigur og rifjast upp nú þegar hann er orðinn útnefndur dómari við réttinn og þarf að heyja baráttu í þinginu fyrir staðfestingu. Bakgrunnur Alito er allavega mjög honum til styrktar hvað varðar stuðning repúblikana í þinginu. Bush gerði sér allavega grein fyrir því hvaða stuðning þarf til að dómaraefnið komist heilt í land - vandræði Miers og harkaleg endalok staðfestingarferlisins sannfærðu hann vel um það. Því er skipaður tryggur íhaldsmaður með þær grunnskoðanir sem forsetinn telur þurfa til að dómaraefnið nái í gegnum hið langvinna og harðvítuga ferli. Búast má við umtalsverðum deilum. Nú er verið að fylla í skarð Söndru, sem var þekkt sem swing vote í réttinum. Búast má við að demókratar berjist hatrammlega gegn því að yfirlýstur íhaldsmaður taki við af Söndru. Þegar hafa þekktir demókratar tjáð andstöðu sína við Alito og líklegt að nokkur átök verði í þinginu. Um mun meira er enda verið að spila nú en þegar Roberts kom fyrir þingið.
Samuel Alito er fæddur í Trenton í New Jersey hinn 1. apríl 1950. Hann útskrifaðist frá Princeton-háskóla árið 1972 og fór í Yale lagaskólann að því loknu. Hann útskrifaðist þaðan árið 1975. Árin 1976-1977 starfaði hann sem aðstoðarmaður alríkisdómarans Leonard I. Garth. Árin 1977-1981 var Alito aðstoðardómsmálaráðherra New Jersey-fylkis. 1981-1985 var Alito aðstoðarmaður Rex E. Lee lagasérfræðings Hvíta hússins. Árin 1985-1987 var Alito aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna, í ráðherratíð Edwin Meese. 1987-1990 var Alito saksóknari New Jersey-fylkis. Frá árinu 1990 hefur Alito verið alríkisdómari við áfrýjunardómstólinn í Philadelphiu. Alito og eiginkona hans, Martha, búa í West Caldwell í New-Jersey. Þau eiga tvö börn, soninn Phil og dótturina Lauru. Eins og sést á verkum Alito hefur hann gríðarlega reynslu að baki og erfitt verður að finna að verkum hans sem lagasérfræðings. Hann hefur ennfremur flutt tólf mál fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna og býr því yfir víðtækri reynslu. Það er enda rétt sem forsetinn sagði í dag að Alito er einn virtasti og hæfasti dómari í Bandaríkjunum.
Verður merkilegt að fylgjast með því er hann kemur fyrir dómsmálanefndina og svarar þar spurningum um lagaleg álitaefni og hitamál samtímans. Má búast við átökum fyrir þinginu vegna skipunar Bush forseta á kaþólikkanum Alito í Hæstarétt Bandaríkjanna. Þar verða átakapunktarnir klassískir - en umfram allt harðir. Þar takast á grunnpólar, með og á móti íhaldssömum sjónarmiðum. Verður sá slagur mjög hvass, enda mun sá sem tekur sæti Söndru Day O'Connor í réttinum hafa umtalsverð áhrif á skipan mála á komandi árum og framvindu hitamálanna sem allir þekkja. Því má búast við að það muni reyna mjög bæði á Alito, sem berst fyrir staðfestingu þingsins, og ekki síður Bush, sem skipar hann til setu í réttinum.
Í gærkvöldi horfði ég á einn þátt úr þáttaröð CNN: The Cold War. Þar var um að ræða þátt um fall Berlínarmúrsins. Má fullyrða að fall múrsins hinn 9. nóvember 1989 hafi verið eitt skýrasta tákn þess að kalda stríðið væri á enda og kommúnisminn í Evrópu væri að geispa golunni. Með falli múrsins birtust fyrstu skýru merki endaloka kommúnistastjórna um mið-Evrópu. Nokkrum dögum eftir fall múrsins féll A-þýska kommúnistastjórnin og hinar fylgdu síðar ein af annarri. Endalok kommúnistastjórnanna urðu misjafnlega friðsamlegar í þessum löndum. Í A-Þýskalandi féll stjórnin með mjúkum hætti, en t.d. í Rúmeníu kom til valdaskipta með harkalegum hætti og aftöku á forsetahjónum landsins t.d. Múrinn var reistur árið 1961 til að koma í veg fyrir fólksflótta frá A-Þýskalandi til V-Berlínar og varð hann á þeim 28 árum sem hann stóð ein af allra helstu táknmyndum kalda stríðsins, þessa merkilega tímabils. Á þessum 28 árum og í kalda stríðinu voru rúmlega 1.000 A-Þjóðverjar drepnir á flótta til vesturs.
9. nóvember verður í sögubókunum ávallt dagur sem markar bæði sigur frelsis og lýðræðis í heiminum. Endalok Berlínarmúrsins markaði alheimsþáttaskil, fáum hefði órað fyrir að fall hans yrði með jafnrólegum hætti og raun bar vitni. Fólkið vann sigur gegn einræðisherrum og einræði með eftirminnilegum hætti þennan dag. Ég gleymi aldrei þessum degi og þáttaskilunum. Ég var 12 ára þegar þessi þáttaskil urðu. Svipmyndirnar af almenningi hamrandi með sleggjum og hömrum á múrnum gleymast aldrei. Eftirminnilegust er þó myndin af vinnuvélunum fella bita úr múrnum og þegar fólkið gekk yfir. Frelsið hafði náð til hinna þjáðu kommúnistaríkja. Þetta voru að mínu mati hin stærstu þáttaskil endaloka kommúnismans. Einræðið var drepið þetta nóvemberkvöld í Berlín. Slíkt augnablik gleymist að sjálfsögðu aldrei. Allavega man ég eftir þessum degi eins og hann hefði verið í gær. Sagan var þarna að gerast - atburður sem hóf dómínófall kommúnismans. Það er enn í dag gleðiefni að horfa á þessi miklu umskipti. Hvet alla til að sjá þessa þætti.
Hvað er málið með forsætisráðherrann? Nú er hann búinn að skipa einhverja þá tilgangslausustu nefnd sem ég hef heyrt af til fjölda ára. Um er nefnilega að ræða nefnd sem (svo orðrétt sé vitnað í orðagjálfurstexta Stjórnarráðsins) "greina á vanda sem tengist óhollu mataræði, offitu, átröskun og hreyfingarleysi og koma með tillögur að samræmdum aðgerðum til að taka á vandamálum sem tengjast þessu." Jahá, það er ekkert annað - góðan daginn maður minn, varð mér að orði við að lesa þessa frétt á netinu. Hvernig á nefnd einhverra besservissera fyrir sunnan að taka á þessu máli? Er þetta ekki bara enn ein nefndin sem sett er á fyrir fólk sem ekkert að gera nema sitja á nefndarfundum? Kannski drekka nefndarmenn kaffi og svolgra í sig sætabrauðsfóðri á þessum fundum til að meta heilsustaðal þjóðarinnar. Ég er eins og vel hefur áður komið fram algjörlega á móti því að ríkið eigi að setjast niður á básum sínum til að móta hvað sé öðru fólki hollt eður ei. Það verður hver og einn landsmaður að vega það og meta hvað þau setja ofan í sig eða drekka, sama hvort það er hard liqueur, kaffisull eða gosdrykkir. Það er móðgun við allt hugsandi fólk að setja á stofn silkihúfunefnd til að ráða hvað ég og nágranni minn megum éta eða drekka.
Það bar til tíðinda undir lok síðustu viku að Ingibjörg Sólrún mætti með betlistafinn til útgerðarmanna og tók lagið: "Ég vil ganga þinn veg - ef þú vilt ganga minn veg" með grátstafinn í kverkunum. Alveg sérdeilis hlægilegt. Þar talaði ISG með þeim hætti að ná mætti sáttum ef aðeins yrði farið eftir hennar leikreglum. Það fyrsta sem mér varð að orði við þessar fregnir var að nú væri greinilega orðið hart í ári í Sollukoti Samfylkingarinnar. Hún semsagt mætt til útgerðarmannanna með blik í auga en kröfuspjöld á lofti. Þetta finnst flestum fyndið - ja nema flokksfélögum hennar (sem flestir hafa vit á því að segja ekki neitt um þetta útspil) og svo auðvitað frjálslyndum sem hafa misst grínið og beina nú spjótum sínum að Samfylkingunni og láta þingmenn flokksins hátt á blaðursíðum sínum. Lítið endilega á það. En fyrir mig sem andstæðing ISG og Samfylkingarinnar er ekki ónýtt að horfa á þetta fyrrum forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í kosningunum 2003 éta ofan í sig nú alla þvæluna um fyrningarleiðina sem þá var látin falla. Skál fyrir því áti Ingibjargar Sólrúnar!
Það er bara að verða ansi jólalegt og notalegt hér norður á Akureyri. Það snjóar og snjóar - kominn ekta vetur með tilheyrandi frosti, skammdegi og kuldatíð. Þó að ég sé ekki mikið fyrir snjó finnst mér alltaf eitthvað ansi rómantískt við snjó og skammdegið. Nú styttist óðum í heilagasta tíma ársins - jólin sjálf. Innan við mánuður er í upphaf aðventunnar og upphaf jólaundirbúningsins. En ég ætla að vona að það muni ekki massasnjóa hér næstu vikurnar. Tel þetta orðið notalegt og gott. Get sætt mig við þetta - ef þetta helst svona. Þó að snjórinn sé rómantískur eru takmörk fyrir öllu þykir mér.
Saga dagsins
1955 Margrét prinsessa, tilkynnti formlega að hún muni ekki ganga að eiga heitmann sinn, Peter Townsend flotaforingja. Konungsfjölskyldan féllst ekki á ráðahag þeirra vegna þess að Peter var fráskilinn. Peter var alla tíð stóra ástin í lífi Margrétar og varð það henni þungt að geta ekki gifst honum nema að þurfa að fórna stöðu sinni innan fjölskyldunnar og í valdaröðinni. Hún giftist 1960 og eignaðist tvö börn síðar. Hún var alla tíð í ástarsorg vegna Peters og lauk hjónabandi hennar með skilnaði 1980. Margrét lést í febrúar 2002, en hún hafði seinustu árin átt við heilsuleysi að stríða.
1984 Indira Gandhi forsætisráðherra Indlands, myrt af síkhum sem komist höfðu í lífvarðasveit hennar og skutu hana í garði fyrir utan embættisbústað hennar í Nýju Delhi. Indira var kraftmesti stjórnmálamaður Indlands í nokkra áratugi og leiddi Kongressflokkinn frá 1966 til dauðadags. Hún var forsætisráðherra landsins 1966-1977 og aftur frá 1980. Sonur hennar, Rajiv, tók við völdum í landinu nokkrum klukkutímum eftir lát móður sinnar. Óeirðir urðu um allt landið í kjölfar dauða hennar.
1993 Ítalski leikstjórinn Federico Fellini lést í Róm, 73 ára að aldri - var meistari í kvikmyndagerð.
1997 Breska fóstran, Louise Woodward, sakfelld fyrir að hafa valdið dauða barns sem hún passaði í Boston þegar hún var þar au-pair. Var orsök andláts barnsins sagt vera Shaken baby syndrome. Dómnum var síðar breytt í manndráp af gáleysi og Louise fékk að halda aftur heim til Englands.
2003 Mahathir bin Mohamad lætur af embætti sem forsætisráðherra Malasíu eftir 22 ára valdaferil.
Snjallyrðið
Heyr himnasmiður
hvers skáldið biður.
Komi mjúk til mín
miskunnin þín.
Því heiti eg á þig,
þú hefur skaptan mig,
ég er þrællinn þinn,
þú ert Drottinn minn.
Guð, heit eg á þig,
að græðir mig.
Minnst mildingur mín,
mest þurfum þín.
Ryð þú röðla gramur,
ríklyndur og framur,
hölds hverri sorg
úr hjarta borg.
Gæt, mildingur mín,
mest þurfum þín,
helst hverja stund
á hölda grund.
Set, meyjar mögur,
málsefni fögur.
Öll er hjálp af þér
í hjarta mér.
Kolbeinn Tumason (1170-1208) (Heyr himnasmiður)
Fallegt ljóð Kolbeins Tumasonar sem snertir alltaf streng í hjartanu mínu - í þessu ljóði er næm taug og tær sál.