Úrslit kosninganna - ný ríkisstjórn
Úrslit alþingiskosninganna 10. maí sl. voru um margt athyglisverð.
Athyglisverðustu niðurstöður þeirra voru á þá leið að
Sjálfstæðisflokkurinn hélt stöðu sinni sem stærsti og öflugasti flokkur landsins. Og það þrátt fyrir að hart hafi verið sótt að honum og einkum leiðtoga hans.
Samfylkingin bætti við sig nokkrum prósentustigum en náði ekki því fylgi sem henni var spáð í upphafi ársins, fyrst eftir að fyrrverandi borgarstjóri varð talsmaður flokksins í kosningabaráttunni.
Framsóknarflokkurinn vann varnarsigur og hélt velli þrátt fyrir að hafa tekið djúpa dýfu í skoðanakönnunum eftir áramótin og um tíma verið á góðri leið með að þurrkast út. Með markvissum auglýsingum og kraftmikilli kosningabaráttu náði flokkurinn nokkurnveginn sínu fylgi frá 1999.
VG missti mann og fékk ekki það mikla fylgi sem honum var spáð um tíma á seinasta kjörtímabili í skoðanakönnunum.
Frjálslyndir bættu við sig tveim þingmönnum og nokkrum prósentustigum, en náðu ekki öllu því mikla fylgi sem skoðanakannanir sýndu nokkrum vikum fyrir kosningnar. Mikilvægasta niðurstaða kosninganna var þó hiklaust sú að ríkisstjórn
Sjálfstæðisflokks og
Framsóknarflokks hélt velli með fimm þingmanna meirihluta. Stjórnin stóð semsagt af sér þá atlögu sem gerð var að henni.
Samfylkingin ætlaði að slá um sig fyrir kosningar og sótti
Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarfulltrúa, í Ráðhúsið, gerði hana að forsætisráðherraefni flokksins til að framkvæma pólitísk kraftaverk þar. Augljós markmið
Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni voru einkum þrenn; að fella ríkisstjórnina, verða stærsti flokkur landsins og koma
Ingibjörgu Sólrúnu inn á þing úr fimmta sætinu í
Reykjavík norður. Ekkert af þessu gekk eftir. Flokkurinn fékk svipað fylgi og hann var í, í skoðanakönnunum í desember 2002 þegar
Ingibjörg Sólrún fór í landsmálin. Innkoma hennar breytti því engu þegar á hólminn kom. Þrátt fyrir fylgisaukninguna stendur
Ingibjörg Sólrún nú eftir sem varaþingmaður og óbreyttur borgarfulltrúi. Ekki beint það hlutskipti sem að var stefnt. Eftir kosningarnar kom svo
Össur Skarphéðinsson fram á sjónarsviðið eftir að hafa verið týndur að mestu í kosningabaráttunni og eignaði sér fylgisaukninguna, t.d. í
Reykjavík norður. Hann sagðist ekki ætla að víkja af formannsstóli á landsfundi flokksins í haust og hefði til setu á honum stuðning
Ingibjargar. Eins og flestir vita er hún lagin við að skipta um skoðanir og spurning hversu lengi sú stuðningsyfirlýsing stendur. Nú þegar eru farnar að heyrast háværar raddir innan flokksins að
Ingibjörg eigi að fá formannsstólinn og
Össur eigi að víkja.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er valdalaus eftir þessar kosningar. Ekki getur hún farið aftur í borgarstjórastólinn og því aðeins mögulegt að fara í landsmálin ef hún ætlar að halda áfram í pólitík. Ekki verður séð hvernig það á að ganga eftir á næstu árum nema þá að hún verði gerð að forystumanneskju flokksins eða einhver þingmanna í hennar kjördæmi víki. Ekki verður henni henni bjargað nema með björgunaraðgerðum innan flokksins. Sem fyrr verður væntanlega send björgunarþyrla eftir henni.
Eftir kosningarnar hófu
Davíð Oddsson og
Halldór Ásgrímsson, viðræður um áframhaldandi samstarf stjórnarflokkanna. Urðu þær viðræður árangursríkar. Þann 23. þessa mánaðar, 13 dögum eftir alþingiskosningar, tók við fjórða ráðuneyti
Davíðs Oddssonar forsætisráðherra. Seinustu átta ár hafa þessir flokkar unnið saman og samstarfið verið farsælt. Það hefur umfram allt einkennst af heiðarleika og trausti milli forystumanna flokkanna. Sama ráðuneytaskipan verður áfram í stjórninni. 15. september 2004 verður sú breyting að
Davíð Oddsson hættir sem forsætisráðherra og við tekur
Halldór Ásgrímsson.
Sjálfstæðisflokkur fær þá í sinn hlut embætti utanríkis- og umhverfisráðherra. Verða þá sjálfstæðismenn með sjö ráðherra en framsóknarmenn fimm.
Davíð hefur sem forsætisráðherra í 12 ár verið áberandi og
Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið sterkari en undir hans forystu. Hann er ótvíræður leiðtogi okkar sjálfstæðismanna.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið leiðandi aðili í þessu samstarfi og verður það áfram með stærri þingflokk og fleiri ráðherra. Hinsvegar er ljóst að
Halldór Ásgrímsson býr yfir gríðarlegri reynslu, sem þingmaður og ráðherra. Hann er starfsaldursforseti
Alþingis og hefur setið rúman hálfan annan áratug á ráðherrastóli, 8 ár sem utanríkisráðherra og 8 ár sem sjávarútvegsráðherra. Hann er því hæfur til starfans. Það er þó óneitanlega undarleg tilfinning að
Sjálfstæðisflokkurinn, stærsti flokkur landsins leiði ekki stjórnina allt kjörtímabilið.
Á þessu kjörtímabili verða miklar breytingar á ráðherrahóp Sjálfstæðisflokksins.
Björn Bjarnason hefur nú tekið sæti í ríkisstjórn að nýju, nú sem dóms- og kirkjumálaráðherra.
Björn er einn af reyndustu þingmönnum flokksins, sat sem menntamálaráðherra í sjö ár og hefur jafnframt verið leiðtogi flokksins í borgarstjórn. Það kom vel í ljós í prófkjörinu í borginni í fyrra að staða hans er sterk innan flokksins. Á gamlársdag mun
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir setjast í stól menntamálaráðherra og taka við af
Tómasi Inga Olrich. Það eru mjög góð tíðindi að
Þorgerður setjist í ríkisstjórn, enda er hún vinsæl innan flokksins og nýtur mikils trausts flokksmanna. Hún verður glæsilegur fulltrúi flokksins í þessu ráðuneyti. 15. september á næsta ári verður svo
Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra. Hún hefur sem þingflokksformaður og formaður utanríkis- og menntamálanefndar sannað getu sína og á ráðherrastólinn fyllilega skilið.
Sólveig Pétursdóttir hættir sem ráðherra en verður forseti
Alþingis í stað
Halldórs Blöndals á miðju kjörtímabili. Sú endurnýjun sem nú á sér stað, bæði með nýjum þingmönnum á borð við
Birgi Ármannsson,
Guðlaug Þór,
Sigurð Kára og
Bjarna Benediktsson og svo með skipan
Þorgerðar Katrínar í stól menntamálaráðherra, felur í sér ákveðin kynslóðaskipti. Þau kynslóðaskipti vekja upp ákveðna tilhlökkun til framtíðarinnar. Það verður fróðlegt að fylgjast með framgangi þessa fólks og annarra ungra lofandi sjálfstæðismanna á komandi árum.