Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 júlí 2004

John Edwards og John KerryHeitast í umræðunni
John Kerry forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, þáði útnefningu flokksins sem forsetaefni hans í tæplega 50 mínútna langri ræðu á flokksþingi Demókrataflokksins í Boston í Massachusetts í gærkvöldi. Í ræðunni gagnrýndi Kerry harkalega stefnu forsetans og hét breytingum ef hann yrði kjörinn forseti í kosningunum 2. nóvember nk. Kerry hóf ræðu sína á því að heilsa þingfulltrúum með hermannakveðju og sagði: "Ég heiti John Kerry og ég er til þjónustu reiðubúinn." Var hann þar væntanlega að vísa til herferils síns og þjónustu við föðurlandið í Víetnam á sjöunda áratugnum. Í ræðunni voru margar tilvísanir til herþjónustu og föðurlandsástar. Kom m.a. fram í ræðunni að bandaríski fáninn tilheyrði ekki forsetum, hugjónum eða stjórnmálaflokki heldur tilheyrði hann allri bandarísku þjóðinni, væri sameign þjóðarinnar. Kerry réðist harkalega að Íraksstefnu stjórnvalda, en lét þess auðvitað ógetið að hann studdi lengst af innrás og var t.d. þegar árið 1998 þeirrar skoðunar að steypa ætti Saddam af stóli með landhernaði, eins og sést í myndbandi sem sýnir flipp flopp hans í málinu allt frá 1991-2004. Ræðu Kerrys var almennt vel tekið, en það varpaði skugga á að ræðu hans var lekið og var hún orðin aðgengileg t.d. á Drudge Report klukkutíma fyrir upphaf hennar. Ræðan var hápunktur flokksþingsins í Boston og markaði jafnframt endalok fjögurra daga fjölmiðlasamkundu demókrata. Kerry og varaforsetaefni hans, John Edwards, halda nú í dag í kosningaferðalag um 21 ríki landsins. Bush Bandaríkjaforseti, sem verið hefur í sumarleyfi, hefur nú kosningabaráttu að nýju. Má fullyrða að kosningabarátta milli Kerry og Bush fyrir forsetakosningarnar í nóvember sé nú hafin af fullum krafti og verði gríðarlega harkaleg og beinskeytt.

BessastaðirÓlafur Ragnar Grímsson verður settur inn í embætti forseta Íslands, þriðja sinni, nk. sunnudag. Meðal gesta verða ráðherrar ríkisstjórnarinnar, hæstaréttardómarar, alþingismenn, erlendir gestir og boðsgestir forsetahjónanna. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og starfandi forsætisráðherra, mun ásamt Halldóri Blöndal forseta Alþingis og Markúsi Sigurbjörnssyni forseta Hæstaréttar, stjórna athöfninni. Athygli hefur vakið að aðeins rúmur helmingur þingmanna og nákvæmlega helmingur ráðherra hefur tekið boði um að vera viðstaddir athöfnina. Kemur það langt í frá á óvart, við því var glögglega að búast eftir atburði sumarsins, þegar Ólafur Ragnar gekk gegn þingræðinu og breytti eðli forsetaembættisins og gerði það berskjaldaðra. Forsetaembættið er gjörbreytt eftir átök seinustu mánaða: blasir við að aðför Ólafs Ragnars Grímssonar að þinginu, með því að synja lögum frá þinginu staðfestingar í júní og rjúfa þar með 60 ára gamla hefð, muni leiða til uppstokkunar á stjórnarskrárþáttum tengdum forsetaembættinu. Miðað við það sem á undan er gengið í samskiptum forseta og Alþingis leikur enginn vafi á því að mjög nauðsynlegt er að breyta 26. grein stjórnarskrárinnar.

SólKveðja til lesenda vefsins
Það er siður á öllum góðum bæjum að bregða sér frá að sumri og slappa af. Í pólitískum deilum sumarsins hef ég skrifað mikið um helstu málefnin, hér hefur verið ítarleg umfjöllun um það sem gengið hefur á seinustu mánuði og farið yfir söguleg efni auk stjórnmála og skotið inn öðru hverju fróðleiksmolum um góðar kvikmyndir. Viðbrögðin hafa nú sem fyrr verið góð, margir senda póst og ræða um efnið og heimsóknartölur staðfesta að margir líta á efnið. Fyrir það er ég mjög þakklátur og þakka kærlega öllum þeim sem fylgjast með fyrir að halda tryggð við mig og fylgjast með efninu. Það er mér ómetanlegt. Ég hef gaman af þessum skrifum og líkar vel ef aðrir deila þeim áhuga mínum. En nú er kominn tími til að taka sér einhverja pásu frá skrifunum hér. Áfram verður stutt umfjöllun um sunnudagspistla mína birt hér á sunnudögum, en pistlarnir munu birtast í allt sumar sem ávallt á heimasíðu minni. Ég mun skrifa hér í ágúst eftir því sem ég tel ástæðu til, en ekki verður um dagleg skrif að ræða meginpart mánaðarins.

Áhugavert á Netinu
V-dagurinn er lofsvert framtak - pistill Jóns Hákons Halldórssonar
Umfjöllun um bíla og skattana tengda þeim - pistill á Vef-Þjóðviljanum
John Kerry þiggur útnefningu demókrataflokksins í 45 mínútna langri ræðu
Ræða John Kerry á flokksþinginu í Boston þar sem hann þiggur útnefninguna
Flokksþingi demókrata lokið - Kerry og Edwards halda í kosningaferðalag
Embættistaka forseta Íslands mun verða í þinghúsinu nk. sunnudag
Helmingur ráðherra ríkisstjórnarinnar fjarverandi embættistöku
Færeyingar fá ekki fullveldi strax skv. ummælum á Ólafsvöku - vonbrigði
Drudge birti fyrst allra ræðu Kerry, klukkutíma áður en hann flutti hana
Evrópusambandið er alls ekki fríverslunarsvæði heldur tollabandalag
Umfjöllun Dan Rather um flokksþing Demókrataflokksins í Boston
Fjöllin hafa vakað - Egó / um endurgerð The Manchurian Candidate
Umfjöllun um ræðu Kerrys og um það hvernig hann flutti hana til áhorfenda
Mikil spenna í söguþræði hinna lífseigu Simpson-þátta nú rétt eins og í fyrra
Pierce Brosnan segist hættur að leika Bond - ólíklegt þó að hann hætti strax

Dagurinn í dag
1874 Kristján 9. Danakonungur kom til Reykjavíkur - hann varð fyrsti þjóðhöfðingi Danmerkur og Íslands sem kom til landsins - hann færði Íslendingum fyrstu stjórnarskrána í ferðinni
1965 Lyndon B. Johnson forseti Bandaríkjanna, undirritar tímamótalög sem leiða til mikilla umbóta í heilbrigðismálum í Bandaríkjunum með formlegri stofnun Medicare og Medicaid
1966 Englendingar vinna heimsmeistaratitilinn í fótbolta með sigri á V-Þjóðverjum: 4-2
1991 Óperusöngvarinn Luciano Pavarotti heldur eftirminnilega tónleika í Hyde Park í London, þeir voru ókeypis fyrir alla sem vildu koma. Rúmlega 100.000 manns hlýddu á tónleikana í hellirigningu. Eru almennt taldir með bestu tónleikum þessa einstaka óperusöngvara
2000 Haraldur Noregskonungur vígði stafkirkju við athöfn í Vestmannaeyjum

Morgundagurinn
1498 Landkönnuðurinn Kristófer Kólumbus finnur eyjuna Trinidad í leiðangri sínum
1935 Tryggvi Þórhallsson lést, 46 ára að aldri - hann var forsætisráðherra 1927-1932, alþingismaður 1923-1934 og að lokum bankastjóri Búnaðarbankans 1932-1935
1948 Alþjóðaflugvöllurinn í New York vígður - varð kenndur við Kennedy forseta 1963
1975 Bandaríski verkalýðsleiðtoginn Jimmy Hoffa hverfur sporlaust í Detroit í Michigan. Hoffa var mjög tengdur mafíunni og flestir telja að mafían hafi látið drepa hann. Aldrei hefur verið upplýst formlega hvað varð um hann, en hann var formlega úrskurðaður látinn árið 1982
1991 Kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Börn náttúrunnar, frumsýnd. Í aðalhlutverkum voru Gísli Halldórsson og Sigríður Hagalín. Myndin var tilnefnd til Óskarsverðlauna árið 1992

Snjallyrði dagsins
Try not to become a man of success but rather to become a man of value.
Albert Einstein (1879-1955)

Ég sendi bestu kveðjur til allra lesenda með óskum um góða og skemmtilega helgi

29 júlí 2004

John EdwardsHeitast í umræðunni
Á þriðja degi flokksþings Demókrataflokksins í Boston í Massachusetts, snerist allt um að kynna stefnu flokksins í utanríkis- og varnarmálum og minna á hvernig ríkisstjórn landsins hefði haldið á málum varðandi Írak og eftirmála hryðjuverkanna, 11. september 2001. Gagnrýndu ýmsir lykilræðumenn kvöldsins ríkisstjórnina fyrir að halda illa á stöðu mála og sökuðu hana um að ná ekki tökum á málum. Eins og við var að búast var reynt eftir fremsta megni að hylja veikleika demókrata í þessum málum, t.d. flikk-flakk á skoðunum John Kerry forsetaframbjóðanda, allan feril málsins, og stuðning hans við stríðið í upphafi. Jafnframt var auðvitað ekkert minnst á að hann greiddi atkvæði í öldungadeildinni gegn því að styrkja herinn með framlögum. Í gær ávarpaði John Edwards varaforsetaefni flokksins, flokksþingið og kynnti sig og stefnumál sín og Kerry. Hét hann því að í sameiningu myndu þeir brúa bil á milli ríkra og fátækra. Sagði hann að hann liti á líf sitt sem ímynd bandaríska draumsins, hann hefði verið fyrstur af fjölskyldu sinni til að leggja stund á háskólanám og síðar hefði hann komist til metorða. Að hans mati væri aðalmarkmið sitt að allir fengju að njóta sömu tækifæra og hinir ríku hlytu. Var ræðunni sjónvarpað um allt landið og á öllum stöðvum og um að ræða mikilvægt tækifæri fyrir hann til að kynna sig. Hann var ákaft hylltur að lokinni ræðunni ásamt eiginkonu sinni Elizabeth, og börnum þeirra þrem. Í kvöld er svo komið að stóru stundinni fyrir John Kerry, sem mun í tæplega klukkustundarlangri ræðu þiggja formlega útnefningu flokksins sem forsetaefni hans. Er um að ræða mikilvægustu ræðu stjórnmálaferils hans, hann veit að hann verður að heilla landsmenn sem flokksmenn og allt verður lagt undir að fegra gildi frambjóðandans og hann sem mest í ræðunni.

Vandræðalegasta kosningamyndin í kosningaslagnum í Bandaríkjunum

EyjafjörðurNú þegar ljóst er endanlega að álver við Reyðarfjörð og Kárahnjúkavirkjun, verða að veruleika til heilla fyrir okkur í Norðausturkjördæmi, er mikilvægt að hugsa um fleiri álverskosti á næstu árum. Enginn vafi leikur á því að næsta álver verður reist á Norðurlandi, gert hefur verið ráð fyrir því til fjölda ára og enginn hefur reynt að bera á móti því að svo sé, gert er ráð fyrir slíku t.d. í byggðastefnu ríkisstjórnarinnar sem kynnt var fyrir nokkrum árum. Alla tíð hefur verið gert ráð fyrir að það álver yrði reist í Eyjafirði, eins og fyrrnefnd byggðaáætlun gerir augljóslega ráð fyrir að verði. Nú ber svo við í fréttum útvarps í gær að Reinhard Reynisson bæjarstjóri á Húsavík, segir að það styrki byggðastefnu við Eyjafjörð að setja álver í nágrenni Húsavíkur. Hann sagði í því viðtali að allt mælti með álveri á þeim slóðum. Ég er algjörlega ósammála bæjarstjóranum. Í mínum huga kemur ekki til greina að álver á Norðurlandi verði annarsstaðar en þar sem gert hefur ráð fyrir því að það verði, við Dysnes í Eyjafirði. Draumurinn um álver í Eyjafirði er gamall. Frægt varð kapplaup milli suðurnesjamanna, Reyðfirðinga og Eyfirðinga um álver 1990, þegar ákveðið var að reisa álver á Keilisnesi, við vonbrigði jafnt okkar hér sem Reyðfirðinga. En nú er lag og tími til kominn að huga að stóriðjuframkvæmdum í Eyjafirði. Allt tal um álver í Þingeyjarsýslu kemur ekki til greina að mínu mati.

Born on the Fourth of JulyPólitískt bíó - Born on the Fourth of July
Sérlega áhrifamikil og sterk kvikmynd sem fjallar um ævi hermannsins Ron Kovic sem fór fullur af föðurlandsást og hetjudýrkun í Víetnamsstríðið á sjöunda áratug 20. aldarinnar, en kom þaðan lamaður fyrir neðan mitti, bundinn við hjólastól. Brátt tóku hugmyndir hans um tilgang stríðsins að breytast, honum fannst hann hafa verið blekktur til þess að taka upp rangan málstað og fórna lífshamingju sinni fyrir þann vonda málstað. Hann fer að berjast með mótmælendum stríðsins til að knýja fram stefnubreytingu stjórnvalda í málefnum tengdum Víetnam. Í bakgrunni eru þjóðfélagsbreytingar hippatímans, þegar stjórnkerfið varð undir og ungmenni náðu fram stefnubreytingum með samstöðu sinni. Eftirminnileg og kraftmikil ádeila, sterkt uppgjör Ron Kovic við Víetnamtímabilið og kannski ekki síst virðingarvottur við það fólk sem slapp lifandi úr stríðinu. Oliver Stone hlaut óskarsverðlaunin fyrir magnaða og sennilega mun frekar djarfa leikstjórn sína, enda óvæginn og hispurslaus sem fyrr í túlkun sinni á Víetnamsstríðinu, enda var hann þar og horfði upp á nána vini sína deyja hvern af öðrum. Tom Cruise hefur að mínu mati aldrei leikið betur en í þessari mynd, en hann fer algjörlega á kostum í hlutverki Ron Kovic, hermanninum sem berst gegn hinu eilífa óréttlæti stríðsmennskunnar. Ef þú vilt horfa á mynd með ekta pólitískan boðskap og sem hefur hjarta og sál ráðlegg ég þér að horfa á Born on the Fourth of July.
stjörnugjöf

Áhugavert á Netinu
Lög felld úr gildi og umræða getur hafist - pistill Stefáns Friðriks Stefánssonar
Umfjöllun um greinasafn Friðriks Daníelssonar - pistill á Vef-Þjóðviljanum
John Kerry þiggur útnefningu demókrata í kvöld - mikilvægasta ræða hans
John Edwards flytur hjartnæma ræðu og þjappar demókrötum saman
Ræða John Edwards á flokksþinginu í Boston - umfjöllun um frambjóðandann
Repúblikanar hafa opnað vef til að svara fullyrðingum demókrata í Boston
Repúblikanar rekja í ítarlegri auglýsingu flikk-flakk Kerrys í Íraksmálinu
Óborganlegar myndir af Kerry teknar í ferð hans í NASA á mánudag
Kerry tekinn í gegn í nýrri bók fyrrum herfélaga hans í Víetnamsstríðinu
Engar stórfelldar breytingar verða gerðar á sjávarútvegsstefnu ESB úr þessu
Umfjöllun Dan Rather um flokksþing Demókrataflokksins í Boston
Frelsið er yndislegt - Nýdönsk / Fjöllin hafa vakað - Kalli Bjarni og Hreimur
Hálf öld liðin frá því fyrsta bók Hringadróttinssögu kom út í Bretlandi
Umdeild mynd Michaels Moore frumsýnd í heimabæ Bush forseta, í Texas
Catherine Zeta-Jones lýsir morðhótunum sem hún fékk í nokkrum bréfum

Dagurinn í dag
1890 Einn þekktasti málari sögunnar, Vincent Van Gogh svipti sig lífi, var 37 ára gamall
1934 Fyrsta ríkisstjórn Hermanns Jónassonar tekur við völdum - sat við völd í sjö ár
1954 Fyrsta bindið af þrem í The Lord of the Rings, The Fellowship of the Ring, eftir J.R.R. Tolkien kemur út - sögurnar voru kvikmyndaðar í byrjun 21. aldarinnar og hlutu mikið lof kvikmyndaunnenda og hlaut seinasta myndin í flokknum, 11 óskarsverðlaun árið 2004
1968 Páll VI páfi, tilkynnir um að kaþólska kirkjan fordæmi notkun getnaðarvarna og herðir á afstöðunni gegn fóstureyðingum. Yfirlýsing páfa markaði þáttaskil, var talað af meiri hörku en áður. Eftirmaður hans, Jóhannes Páll páfi II, tók algjörlega undir afstöðu forvera síns
1981 Karl ríkisarfi Bretlands, kvænist lafði Díönu Spencer, í St. Paul's dómkirkjunni í London - hjónaband þeirra virtist í upphafi ætla að styrkja konungdæmið í Bretlandi og verða hamingjuríkt, eignuðust þau tvo syni, William, 1982, og Harry, 1984. Brestir komu þó fljótt í hjónabandið og þau skildu að borði og sæng í desember 1992, 11 árum eftir giftinguna. Lögskilnaður þeirra varð að veruleika í ágúst 1996 og hélt Díana titli sínum sem hin konunglega hátign. Díana prinsessa, lést í vofeiflegu bílslysi í París þann 31. ágúst 1997

Snjallyrði dagsins
Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla. Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt. Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari.

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.
Kærleikurinn (Kor.1.1-13)

28 júlí 2004

Teresa Heinz KerryHeitast í umræðunni
Á öðrum degi flokksþings Demókrataflokksins í Boston í Massachusetts, snerist allt um að kynna forsetaframbjóðandann John Kerry, kosti hans sem persónu og stefnumál fyrir kjósendum. Það hefur sannast á flokksþinginu að helsti tilgangur þess er að kynna upp frambjóðendur, um er að ræða gríðarlega vel skipulagða fjölmiðlasamkundu þar sem fram kemur nær einvörðungu einhliða málflutningur um frambjóðendur og stefnuna sem mörkuð hefur. Engin málefnavinna fer fram á þinginu, ákveðin stefna er lögð fram og hún er ákveðin án afskipta þingfulltrúanna. Eini tilgangur þeirra er að kjósa beint frambjóðendurna, en allir vita hvernig sú kosning fer, enda var aðeins Kerry eftir í framboði þegar í mars, og samkeppnin því lítil. Í gær ávarpaði eiginkona frambjóðandans, Teresa Heinz Kerry, flokksþingið og kynnti persónu hans fyrir þingfulltrúum og leitaðist við að fara yfir jákvæðustu kosti hans, í þeim tilgangi að veita viðkvæmari og ljúfari útgáfu af honum, en hann hefur almennt verið talinn frekar ópersónulegur og fjarlægur. Í gærkvöldi fluttu einnig ávörp mótframbjóðendur Kerrys fyrr á árinu, Dick Gephardt og Howard Dean, ennfremur samstarfsmaður hans í öldungadeildinni, Edward M. Kennedy og að lokum blökkumaðurinn Barack Obama, sem er í framboði til öldungadeildarinnar fyrir flokkinn í Illinois. Sló hann í gegn og flutti að flestra mati bestu ræðu dagsins og er nú talinn ein af helstu vonarstjörnum flokksins á næstu árum.

John EdwardsKvöldið nú á þriðja degi flokksþingsins í Boston, mun verða stund John Edwards varaforsetaefnis flokksins. Hann mun formlega þiggja útnefningu flokksins og boð Kerrys um að leiða framboðið með honum í ítarlegri ræðu, þar mun hann kynna helstu stefnumál sín og framtíðarsýn þá sem hann hefur fyrir framboðið og Bandaríkin á næsta kjörtímabili, verði hann og Kerry kjörnir til forystu í forsetakosningunum 2. nóvember nk. Edwards er lítt reyndur stjórnmálamaður, hann var kjörinn í öldungadeildina árið 1998. Er kjörtímabili hans þar að ljúka, en hann gefur ekki kost á sér til endurkjörs, mun einbeita sér að framboðinu með Kerry, ólíkt Joe Lieberman sem var í kjöri til öldungadeildarinnar árið 2000, samhliða framboði sínu með Al Gore. Hvað svo sem segja má um reynsluleysi Edwards, deilir enginn um að hann er hörkuduglegur og fylginn sér og hefur víðtækan stuðning demókrata. Helstu veikleikar hans eru utanríkismál, en hann mun í ræðu sinni í kvöld eflaust fjalla sérstaklega um þann málaflokk. Allt frá því að Kerry náði útnefningu sem forsetaefni, þótti líklegast að hann myndi velja Edwards sér við hlið, enda eru þeir að ýmsu leyti heppilegar andstæður. Annar Norðurríkjamaður, nokkuð hátíðlegur, farinn að reskjast og með reynslu af utanríkis- og hermálum. Hinn Suðurríkjamaður, telst alþýðlegur og fjörug týpa, nokkuð unglegur og að auki sérfróður um efnahags- og félagsmál. Framboð þeirra er því talið sterkt og ljóst að Edwards mun nota ræðuna til að vekja athygli á hversu vel þeir nái saman.

West Side StoryMeistaraverk - West Side Story
Klassísk og marglofuð kvikmynd sem enn í dag er jafn óaðfinnanlega góð og vel heppnuð og hún var, er hún var frumsýnd árið 1961. Í henni er sagan af Rómeó og Júlíu færð til nútímans frá Verónu á Ítalíu til Manhattan á New York. Við kynnumst hér elskendunum Tony og Maríu sem tilheyra hvort sinni unglingaklíkunni þar, þegar hópunum lýstur loks saman fer allt alveg gersamlega úr böndunum. Foringi annarrar klíkunnar er drepinn fyrir slysni og Tony fellir banamann hans sem er bróðir Maríu, í hefndarskyni. Ástarsaga Tony og Maríu hlýtur harmsöguleg endalok í þessari stórkostlegu, einstöku og ógleymanlegu kvikmynd. West Side Story hlaut 10 óskarsverðlaun, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins 1961, fyrir leikstjórn snillinganna Jerome Robbins og Robert Wise, ennfremur fyrir leikkonu og leikara í aukahlutverki, stórkostlega kvikmyndatöku, gullfallega búninga, og eftirminnilega tónlist meistarans Leonard Bernstein. Natalie Wood og Richard Beymer eru heillandi í hlutverkum elskendanna og Rita Moreno og George Chakiris hlutu óskarinn fyrir tilþrifamikinn leik. Þeim sem ekki hafa séð þessa gullaldarklassík kvikmyndasögunnar ráðlegg ég að drífa í því sem fyrst.
stjörnugjöf

Áhugavert á Netinu
Um stefnu vinstriflokkanna í fjölmiðlamálinu - pistill Kristins Más Ársælssonar
Fréttaumfjöllun Fréttablaðsins um fjölmiðlamálið - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Umfjöllun um nýlega bók Ómars Ragnarssonar - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Teresa Heinz Kerry fangar athyglina og kynnir eiginmann sinn á flokksþinginu
Ræður á flokksþinginu: Teresa Heinz Kerry - Ted Kennedy - Barack Obama
John Kerry formlega útnefndur forsetaefni demókrata í Boston í dag
John Edwards flytur mikilvægustu ræðu stjórnmálaferils síns í kvöld
Flokksþing Demókrataflokksins í myndum - John Edwards undirbýr sig
Umfjöllun Dan Rather um flokksþing Demókrataflokksins í Boston
Teresa hefur lært lexíuna að það þarf að slípast til að verða forsetafrú
Breska eðalgamanmyndin Whisky Galore! verður endurgerð árið 2005
Michael Moore styður Kerry, sem studdi stríðið í Írak: nokkur húmor í því
Maður vill skipta á áritaðri ævisögu Clintons forseta og sæti á flokksþinginu

Dagurinn í dag
1662 Erfðahyllingin í Kópavogi (Kópavogsfundurinn) - helstu forystumenn þjóðarinnar undirrituðu þá formlega skjal er markaði upphaf fulls einveldis Danakonungs á Íslandi
1750 Eitt þekktasta tónskáld sögunnar, Johann Sebastian Bach deyr, 65 ára að aldri
1960 Norðurlandaráðsþing haldið á Íslandi í fyrsta skipti - það var stofnað 1952
1988 Paddy Ashdown kjörinn leiðtogi Frjálslyndra demókrata í Bretlandi - í 11 ára leiðtogatíð hans stækkaði flokkurinn um meira en helming - hann hætti afskiptum af stjórnmálum 2001
1990 Alberto Fujimori kjörinn forseti Perú - hneykslismál tengd honum voru algeng í stjórnartíð hans. Hann neyddist til að segja af sér embætti vegna slíkra mála árið 2000 og fór í útlegð til Japans, þar sem hann hefur dvalið síðan - hann er eftirlýstur af Interpol, t.d. fyrir fjármálamisferli, skjalafals og morðákærur. Fari hann frá Japan verður hann handtekinn

Snjallyrði dagsins
The enemies of freedom do not argue; they shout and they shoot.
William R. Inge rithöfundur (1860-1954)

27 júlí 2004

Ólafur Ragnar GrímssonHeitast í umræðunni
Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti með yfirlýsingu seinnipartinn í dag að hann hefði ákveðið að staðfesta lagafrumvarpið sem samþykkt var á Alþingi fyrir tæpri viku, sem felldi úr gildi fjölmiðlalögin sem hann synjaði staðfestingar 2. júní sl. Í yfirlýsingu forseta segir að mikilvægt sé að lagasetning um fjölmiðla muni styðjast við víðtæka umræðu í samfélaginu og almenn sátt væri um vinnubrögð og niðurstöður. Að auki kemur fram af hálfu forseta, að þingið hafi fellt úr gildi lög sem ollið hefði hörðum og langvarandi deilum og myndað djúpa gjá milli þingvilja og þjóðarvilja. Hann segist því samþykkja lögin í anda þess að koma megi á sáttum í samfélaginu. Það er stórmerkilegt að forseti taki svo til orða, fyrst hann leggur til sættir í málinu. Deilur eru ekkert síður í samfélaginu um hann og hans framgöngu en afstöðu stjórnvalda um lagasetninguna í upphafi. Forsetaembættið er stórskaddað og laskað eftir atburði sumarsins. Ég fagna því hinsvegar að Ólafur hafi staðfest þetta frumvarp. Með því ætti að vera hægt að horfa fram á veginn. Umræða um málið heldur áfram væntanlega í fjölmiðlanefndinni í vetur og farið þar nánar yfir það. Ég tel að flestir séu þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að setja þurfi lög um eignarhald á fjölmiðlum og vonandi getur nú hafist hin efnislega umræða um málið sem hefur vantað, og vonandi er að allir flokkar komi þar fram með stefnu sína og vinni eftir henni þannig að þverpólitísk samstaða náist um slíka lagasetningu.

Bill Clinton og Hillary Rodham ClintonBill Clinton fyrrum forseti Bandaríkjanna, og eiginkona hans, Hillary Rodham Clinton öldungadeildaþingmaður í New York, stálu algjörlega senunni við upphaf flokksþings Demókrataflokksins í Boston í Massachusetts, í gærkvöldi. Allt ætlaði um koll að keyra er þau komu til að ávarpa fulltrúa á flokksþinginu og voru bæði hyllt. Enginn vafi leikur á því að staða þeirra innan flokksins er sterk og viðbrögð við ræðu Hillary þykja staðfesta að hún muni njóta mikils fylgis í forsetakosningunum 2008, ef Kerry tapar þessum kosningum, blasir við að hún fari þá fram. Hún varði meginhluta ræðu sinnar í að biðla til landsmanna um að kjósa John Kerry og John Edwards. Aðalhlutverk hennar var þó í raun að kynna eiginmann sinn, en segja má samt að hún hafi notað tækifæri mjög til að kynna málefni New York og eigið ágæti í þeim efnum. Clinton var ákaft hylltur er hann fór í ræðustól. Í 20 mínútna langri ræðu fjallaði hann að mestu um utanríkis- og efnahagsmál. Honum varð tíðrætt um skattastefnu Bush stjórnarinnar og veika stöðu Bandaríkjanna á erlendum vettvangi. Fyrr um kvöldið fluttu Al Gore fyrrum varaforseti, og Jimmy Carter ræður. Gore fjallaði um úrslit forsetakosninganna 2000 og bitur örlög sín og þótti mörgum hann vera of kaldlyndur í málflutningi. Carter náði vel til mannfjöldans með mannúðlegri ræðu. Enginn vafi var á að Clinton-hjónin áttu sviðið fyrsta kvöldið, svo mjög að talað er um að þeirra málflutningur muni skyggja á frambjóðandann og hans málflutning að lokum. Sannaðist það reyndar við upphaf flokksþingsins að hinn litlausi Kerry stendur langt að baki hinum litríka Clinton.

Teresa Heinz Kerry og John KerryEf eitthvað eitt setti mikinn skugga á fyrsta dag flokksþingsins og glæsileika vel undirbúinnar fjölmiðlasamkundu flokksins í Boston, má segja að það hafi verið framkoma Teresu Heinz Kerry eiginkonu frambjóðandans. Á sunnudagskvöld lenti hún í orðasennu við Colin McNickle fréttamann Pittsburgh Tribune-Review, og sakaði hann um að hafa haft rangt eftir sér eftir ræðu hennar á málþingi fyrr um kvöldið í Boston. Sagði hún fréttamanninum að fara til fjandans. Atvikið náðist á filmu og var sýnt mörgum sinnum í gær á helstu fréttastöðvum landsins. Atvikið þykir hafa skaddað bæði Kerry persónulega og ekki síður trúverðugleika konu hans. Í kvöld mun hún ávarpa flokksþingið ásamt samstarfsmanni eiginmanns hennar til fjölda ára í öldungadeildinni, Edward M. Kennedy. Fyrr í dag var birt brot úr 30 ára gömlu viðtali við Teresu þar sem hún kallar Edward vitleysing og segist ekki treysta honum. Á þeim tíma var Teresa virk í Repúblikanaflokknum, en fyrri maður hennar, John Heinz var öldungadeildarþingmaður, hann lést árið 1991. Teresa og John Kerry giftust árið 1995. Það er ljóst að gömul ummæli Teresu setja svip á hátíðleika kvöldsins og mun gera sameiginlega framkomu hennar og Kennedys á flokksþinginu vandræðalega.

Áhugavert á Netinu
Varhugaverð þróun hjá ríkisvaldinu - pistill Snorra Stefánssonar
Ólafur Ragnar Grímsson staðfestir lög sem afturkalla fjölmiðlalögin
Halldór Ásgrímsson átti aldrei von á öðru en Ólafur myndi skrifa undir
Bill Clinton og Hillary Rodham Clinton hyllt á flokksþinginu í Boston
Ræður á flokksþinginu í gær: Bill Clinton - Jimmy Carter - Al Gore
Teresa Heinz Kerry ávarpar flokksþingið - vonast til að heilla kjósendur
Repúblikanar segja að Kerry fari í gegnum 'extreme makeover' í Boston
John Edwards hvílir sig heima og vinnur að því að klára þingræðuna sína
Umfjöllun Dan Rather um flokksþing Demókrataflokksins í Boston
Ingólfur Bjarni Sigfússon fréttamaður, fjallar um flokksþing demókrata
Bruce Willis leikur lögguna John McClane í fjórða skiptið í Die Hard 4
Michael Moore býður George W. Bush forseta, í bíó í Crawford í Texas

Dagurinn í dag
1903 Fyrsta kvikmyndasýningin í Reykjavík - breskar fréttamyndir voru sýndar í Iðnó
1965 Edward Heath kjörinn leiðtogi breska Íhaldsflokksins - hann varð forsætisráðherra Bretlands árið 1970, tapaði í tveim þingkosningum árið 1974 og missti leiðtogastólinn til Margaret Thatcher árið 1975. Heath sat á breska þinginu til 2001, er nú í lávarðadeildinni
1996 Sprengjutilræði á Ólympíuleikunum í Atlanta í Georgíu - 2 látast og margir slasast
1999 Milljónasti bíllinn fór um Hvalfjarðargöng, rúmu ári eftir að þau voru opnuð
2003 Gamanleikarinn Bob Hope deyr í Toluca Lake í California, 100 ára að aldri

Snjallyrði dagsins
Ask not what your country can do for you - ask what you can do for your country. My fellow citizens of the world: ask not what America will do for you, but what together we can do for the freedom of man.
John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna (1917-1963)

26 júlí 2004

John Edwards og John KerryHeitast í umræðunni
Flokksþing Demókrataflokksins hefst í Fleet Centre íþróttahöllinni í Boston í kvöld. Meiri öryggisráðstafanir, en áður hafa sést, verða gerðar vegna flokksþingsins, en um er að ræða fyrstu stóru flokkssamkomuna í Bandaríkjunum, frá hryðjuverkunum í New York og Washington, 11. september 2001. Rúmlega 60 ræðumenn munu taka til máls á flokksþinginu, þ.á.m. fyrrverandi forsetar flokksins, allir frambjóðendur í forkosningum fyrr á árinu, þingmenn og forystumenn flokksins í stórborgum, eiginkonur og börn frambjóðenda flokksins nú og að lokum John Kerry forsetaframbjóðandi flokksins og John Edwards varaforsetaefni hans, en þeir verða formlega útnefndir í lok þingsins á fimmtudag. Í kvöld verður megináhersla lögð á að kynna stefnu flokksins í efnahagsmálum og verða aðalræðumenn þar fyrrum forsetarnir Bill Clinton og Jimmy Carter auk Al Gore fyrrum varaforseta, sem var forsetaefni flokksins árið 2000. Hillary Rodham Clinton öldungadeildarþingmaður, mun flytja ræðu og ennfremur kynna eiginmann sinn formlega. Öll koma þau fyrsta daginn til að skyggja ekki á frambjóðandann og hans fólk, síðar í vikunni. Á morgun verður stefna Kerrys í mennta- og heilbrigðismálum kynnt með ítarlegum hætti og munu m.a. Edward Kennedy öldungadeildarþingmaður og Teresa Heinz Kerry eiginkona frambjóðandans, flytja ræður þá. Á miðvikudag verður áherslan lögð á öryggis- og varnarmál og mun Elizabeth Edwards þá kynna eiginmann sinn, sem þiggur þá formlega útnefningu sína.

John KerryÁ fimmtudag er komið að stóru stundinni hjá demókrötum. Þá mun allt snúast um að kynna Kerry. Vinir og fjölskylda munu tala um persónu Kerry, hver hann er og hvaða reynsla það er sem skapað hefur manninn sem nú sækist eftir forsetaembættinu. Það er yfirlýst markmið flokksþingsins að kynna John Kerry og John Edwards fyrir bandarísku þjóðinni. Þrátt fyrir mikla fjölmiðlaumfjöllun í forkosningunum er stór hópur kjósenda sem telur sig vita lítið um frambjóðendurna og enn minna um stefnu þeirra í þjóðmálum. Óttinn við hryðjuverk hefur orðið til þess að öryggisráðstafanir verða meiri en nokkru sinni fyrr á flokksþingi í Bandaríkjunum. Hundruðum öryggismyndavéla hefur verið komið fyrir í íþróttahöllinni og þúsundir lögreglumanna munu gæta öryggis þingfulltrúa og fjölda fréttamanna sem þar verður. Í lok flokksþingsins er alveg ljóst að Kerry mun mælast með mun meira fylgi en forsetinn, það kemur alltaf fylgissveifla eftir flokksþing. Verði sveiflan undir 10% má ljóst telja að forsetinn nær vopnum sínum aftur, enda er flokksþing repúblikana í lok ágúst og það mun gefa forsetanum bæði tækifæri til að vinna það fylgi sem nú tapast og jafnvel mun meira til. Framundan er kraftmikil kosningabarátta næstu 100 dagana.

SiglufjörðurSíldarhátíð á Siglufirði
Að morgni laugardags fór ég til Siglufjarðar ásamt fleira fólki og tókum við þar þátt í 100 ára afmælishátíð Síldarævintýris Íslendinga. Enginn staður á Íslandi hentar betur til að fagna þessu merkisafmæli en Siglufjörður, enda var hann miðstöð síldarlífsins á Íslandi meðan síldarævintýrið stóð sem hæst. Alltaf er gaman að koma til Siglufjarðar, enda á maður ættir sínar að hluta að rekja þangað. Afi er Siglfirðingur og öll hans föðurætt kemur þaðan og enn búa þar nokkrir af ættingjum mínum og alltaf gaman að líta í heimsókn. Stemmningin á staðnum var virkilega góð. Í hádeginu var síldarsöltun, bryggjuball og harmonikkuleikur við Síldarminjasafnið, sem er rómað og allir verða að skoða sem eiga þar leið um. Um eittleytið voru sjósettir við smábátahöfnina tveir norskir bátar, Vetvik og Kyrabaten. Ávörp og skemmtun var um tvöleytið við Gránupallinn við safnið, þar fluttu ráðherrar og forseti Íslands ræður. Að því loknu skemmti danshljómsveit Siglufjarðar ásamt Helenu Eyjólfs og Gretti Björnssyni. Var þar slegið upp balli að gömlum sið og var virkilega gaman að taka þátt í því. Seinnipartinn, þegar formlegri dagskrá var lokið leit ég í heimsókn til fólks sem ég þekki þar og leit t.d. til Grétu frænku minnar, en hún er alltaf hress og óneitanlega er gaman að ræða þjóðmálin við hana. Fylgist hún jafnan vel með og hefur gaman af pólitískum pælingum. Um kvöldið fór ég í kvöldverð vegna hátíðarinnar, í bátahúsinu við safnið og var það virkilega skemmtileg stund og ekta síldarstemmning sveif yfir vötnum. Dagurinn var í alla staði mjög vel heppnaður.

Áhugavert á Netinu
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, fer yfir 10 ára sögu heimasíðu sinnar
Farið yfir fjölmiðamálið og ýmsar hliðar þess - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Ég, vinstrimaður - pistill Ragnars Jónassonar (skrifaður í anda I, Robot)
Pælingar um ýmisleg málefni á hásumri - pistill Benedikts Jóhannessonar
Flokksþing demókrata hefst í dag - flokksmenn flykkjast til Boston
Clinton-hjónin, Carter og Gore flytja opnunarræður á flokksþinginu í Boston
Saddam Hussein les, ræktar blómagarð og étur bandarískt góðgæti í fangelsinu
Teresa Heinz Kerry reiðist fréttamanni - John Kerry ver eiginkonu sína
Bill Clinton mun opna flokksþing demókrata í Boston með langri ræðu
Hillary Clinton segir að þau hjónin muni ekki skyggja á Kerry á flokksþinginu
Tony Blair stappar stálinu í flokksmenn - sögulegur sigur náist vinni allir saman
Sean Penn og Jude Law leika í endurgerð kvikmyndarinnar All the King's Men
Sir Laurence Olivier leikur í mynd, 15 árum eftir dauðann - hljómar undarlega

Dagurinn í dag
1945 Verkamannaflokkurinn vinnur öllum að óvörum þingkosningar á Bretlandi - stríðshetjan Winston Churchill missir forsætisráðherrastólinn mjög óvænt til Clement Attlee leiðtoga stjórnarandstöðunnar - Churchill varð aftur forsætisráðherra Bretlands sex árum síðar
1952 Eva Peron forsetafrú Argentínu, deyr úr krabbameini, 33 ára að aldri
1956 Stjórnvöld í Egyptalandi ríkisvæða Súez-skurðinn - því mótmælt um allan heim
1963 Þúsundir manna farast eða slasast alvarlega í jarðskjálfta í Skopje í Júgóslavíu
2000 George W. Bush velur Dick Cheney sem varaforsetaefni sitt - unnu naumlega

Snjallyrði dagsins
Without tenderness, a man is uninteresting.
Marlene Dietrich (1901-1992)

25 júlí 2004

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í upphafi þessa sunnudagspistils sendi ég góðar kveðjur til Davíðs Oddssonar forsætisráðherra, sem nú dvelst á sjúkrahúsi eftir aðgerð í vikunni. Ennfremur fjalla ég um umræðu vikunnar í fjölmiðlamálinu á þingi, en stjórnarandstaðan verður nú að koma fram með efnislega afstöðu sína hvað varðar eignarhald á fjölmiðlum og er þegar ljóst að hún er klofin, enda hafa forystumenn tveggja flokka ljáð máls á lagasetningu en formaður Samfylkingarinnar er augljóslega á móti öllum hugmyndum í þá átt. Að lokum fjalla ég um heimsókn Denis MacShane Evrópumálaráðherra Bretlands í vikunni, en hann náði þar loks að sannfæra varaformann Samfylkingarinnar um mikilvægar staðreyndir Evrópumála, er það verkefni sem engum hefur tekist fyrr. Það er gott að heyra að Ingibjörg skilur orðið grunnatriði málsins. Kannski ættu forsvarsmenn ESB að koma hingað oftar, en Samfylkingarmenn hafa varla gleymt heimsókn Franz Fischlers fyrir tæpu ári, þar sem hann sagði að Ísland fengi aldrei undanþágur frá sjávarútvegsstefnu ESB. Það virðist hafa góð áhrif á Ingibjörgu og fleiri forystumenn Samfylkingarinnar að fá talsmenn ESB og forsvarsmenn Evrópumála í nágrannalöndum okkar í heimsókn. Það virðist vera þeim heppileg lexía að heyra staðreyndir málsins frá kunnáttumönnum á þeirra væng stjórnmála, ekki hlusta þau á staðreyndir málsins sem komið hafa fram á undanförnum árum m.a. hjá Heimssýn og þessir erlendu spekingar taka undir í öllum meginatriðum.

Halldór Blöndal forseti AlþingisRæða Halldórs
Halldór Blöndal forseti Alþingis, flutti ítarlega ræðu á Alþingi, miðvikudaginn 21. júlí sl. þar sem hann kom Alþingi til varnar í kjölfar umræðu seinustu vikna eftir synjun forseta Íslands á lagafrumvarpi sem réttkjörinn meirihluti þingmanna hafði samþykkt. Ræðan birtist í dag á vef mínum, tel ég rétt að hafa þessa góðu ræðu aðgengilega á vef mínum, enda er um að ræða ítarlega og yfirgripsmikla ræðu, flutta af manni sem hefur yfirburðaþekkingu á sögu málsins. Í ræðu sinni sagði Halldór orðrétt: “Við getum velt því fyrir okkur, þegar Alþingi er búið að vinna dag og nótt í fimm vikur í umdeildu frumvarpi: Er þá eðlilegt, miðað við það sem fyrir liggur, að herra Ólafur Ragnar Grímsson, forseti lýðveldisins, hefði a.m.k. einni eða tveimur vikum áður en þeim umræðum lyki uppi efasemdir um hvort hann mundi skrifa undir? Enginn í þessum þingsal hefur velt upp þeirri spurningu hvort rétt hefði verið að forseti lýðveldisins lýsti áhyggjum sínum við ríkisstjórn eða forseta Alþingis yfir þessum málum. Það hefur enginn talað um það.” Eðlilegt er að fá fram þetta sjónarhorn á málið, enginn hefur leitt hugann að því hvort forseti hefði átt af virðingu við þingið að koma skoðun sinni að, en sem kunnugt er gerði forsetinn aldrei ríkisstjórn eða þinginu beint kunnugt um afstöðu sína, þó hann væri á landinu megnið af annarri og þriðju umræðu málsins í maímánuði. Hvet ég alla til að lesa ræðuna.

Dagurinn í dag
1912 Hannes Hafstein varð ráðherra Íslands, öðru sinni - sat í rúm tvö ár
1929 Van Rossum kardináli, vígði Martein Meulenberg biskup kaþólskra á Íslandi - tæplega 400 árum eftir að Jón Arason seinasti kaþólski biskupinn á Íslandi, var tekinn af lífi
1943 Benito Mussolini einræðisherra á Ítalíu, missir völd sín - hann var drepinn 1945
1946 Alþingi samþykkti að sækja um aðild að Sameinuðu þjóðunum - tók gildi sama ár
2000 Concorde þota ferst í flugtaki við De Gaulle flugvöll í París - 113 létust í slysinu

Snjallyrði dagsins
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt
Einar Benediktsson skáld (1864-1940)

23 júlí 2004

George W. Bush og John KerryHeitast í umræðunni
Kosningabaráttan vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum, þriðjudaginn 2. nóvember nk. er tekin að harðna nokkuð og mun hún brátt ná hámarki. Flokksþing demókrata verður haldið í Boston í Massachusetts-fylki, heimavígi John Kerry forsetaframbjóðanda flokksins og öldungadeildarþingmanns, og hefst á mánudag og mun standa í fjóra daga. Þar munu forystumenn flokksins og trúnaðarmenn hans, sem kjörnir voru í forkosningum fyrr á árinu hittast, ráða ráðum sínum, móta endanlega kosningastefnu sína og setja kosningavél sína endanlega á fullt. Að kvöldi fimmtudagsins 29. júlí lýkur flokksþinginu með því að Kerry þiggur útnefningu flokksins og flytur einskonar stefnuræðu sína. Daginn áður mun varaforsetaefni hans, John Edwards þiggja formlega boð Kerrys um að leiða framboð flokksins með honum, með ræðu í Boston. Fram að því munu Kerry og Edwards dvelja á búgarði í Nantucket og undirbúa sig fyrir flokksþingið með ræðuriturum til að semja ræður sínar. Meðan demókratar hittast og móta baráttutaktíkina fyrir baráttuna, eru George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og Dick Cheney varaforseti, á fullu á kosningaferðalagi um gervöll Bandaríkin og hitta kjósendur. Nú er forsetinn í Pennsylvaníu, en það er eitt hinna svokölluðu "key state" sem eru tæp, Gore vann þar naumlega árið 2000 en Bush reynir nú að ná yfirhöndinni. Flokksþing repúblikana hefst í lok næsta mánaðar og mun standa frá 30. ágúst - 2. september. Allar skoðanakannanir vestanhafs sýna að það stefnir í jafnar kosningar. Má búast við að átökin milli Kerrys og Bush geti orðið ein af hatrömmustu kosningabaráttum seinni tíma.

Peter MandelsonTony Blair forsætisráðherra Bretlands, tilkynnti í morgun að Peter Mandelson þingmaður Verkamannaflokksins og fyrrum ráðherra í stjórn hans, yrði tilnefndur sem næsti fulltrúi Bretlands í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Mandelson hefur til fjölda ára verið einn nánasti samverkamaður forsætisráðherrans, var ásamt Alastair Campbell einn af helstu hugsjónahönnuðum hins nýja Verkamannaflokks (New Labour og spinnpólitíkurinnar kennda við Blair) eftir valdatöku Blairs í aðdraganda þingkosninganna 1997. Ári eftir kosningarnar, varð Mandelson viðskiptaráðherra, en varð að víkja vegna hneykslismála fyrir lok ársins. Árið 1999 varð hann skipaður aftur í stjórnina sem ráðherra málefna N-Írlands, en varð að víkja aftur vegna hneykslismála skömmu eftir þingkosningarnar 2001. Hefur hann setið sem þingmaður Hartlepool frá 1992, en verður að víkja af þingi ef hann er samþykktur af Evrópuþinginu. Fara þá aukakosningar fram um sæti hans. Reyndar fór Mandelson fram á sæti í stjórn Blairs, en var hafnað en fær tilnefningu í þetta starf nú, er tveir Bretar láta af störfum í framkvæmdastjórn ESB: Neil Kinnock fyrrum leiðtogi Verkmannaflokksins og Chris Patten fyrrum ráðherra Íhaldsflokksins. Missa Bretar nú annað sætið og því mun Mandelson einn taka þar sæti af hálfu Breta.

Cinema ParadisoKlassabíó - Cinema Paradiso
Kvikmyndin verður eilíf, ég tel það allavega. Þetta er það listform sem hefur sameinað kynslóðirnar í rúma öld og heillað þær, sagt sögur og mótað fólk verulega. Áhrifamáttur kvikmyndanna er gríðarlegur. Varla er hægt að vera annarrar skoðunar eftir að hafa séð ítölsku kvikmyndina, Cinema Paradiso. Þetta heillandi meistaraverk hlaut óskarinn sem besta erlenda kvikmyndin árið 1989 og fær alla sem hana sjá til að njóta kvikmyndagerðalistarinnar og gerir okkur öll að ég tel betri og mannlegri, við gleymum okkur í hugarheimi kvikmyndanna meðan myndin stendur. Slíkur er kraftur hennar. Segir frá frægum kvikmyndagerðarmanni sem snýr aftur til æskuslóða sinna á Sikiley eftir 30 ára fjarveru. Þar rifjast upp fyrir honum æskuárin og hvernig hann kynntist töfraheimi kvikmyndanna. Hann vingaðist í æsku við sýningarstjórann í bíóinu, Alfredo, og stelst í bíóið til að gleyma innri veikleikum og raunveruleika hins ytri heims. Hann tekur síðar við starfi þessa læriföður síns og fetar slóðina í átt að frægð með því að gerast kvikmyndagerðarmaður. Líf hans snýst því allt frá æskuárum um kvikmyndina, listformið og það að finna hinn rétta tón í að njóta kvikmyndarinnar, en það er viss list útaf fyrir sig. Giuseppe Tornatore skapar hér sannkallaðan gullmola, spinnur heillandi andrúmsloft og sprelllifandi persónur. Fylgst er með reisn og hnignun kvikmyndanna á hálfrar aldar tímabili, en sjónvarpið drap kvikmyndahúsið sem Salvatore naut í æsku. Þetta er mynd sem er unnin af næmleika og óblandinni lotningu fyrir listgreininni, hér er lífið svo sannarlega kvikmynd. Þú munt sjá lífið í öðru ljósi, þegar myndinni lýkur. Ef þú ert ekki kvikmyndaunnandi fyrir, verðurðu það að lokinni myndinni. Töfrar í sinni bestu mynd.
stjörnugjöf

Dagurinn í dag
1926 Fyrsta hljóðmyndin sýnd - tóku ekki við sessi þöglu myndanna fyrr en 1931
1951 Frímúrarareglan var stofnuð á Íslandi - nú eru um 3.000 manns í reglunni
1952 Farouk Egyptalandskonungi, steypt af stóli - konungdæmið þar var afnumið árið eftir
1974 Gríska einræðisherstjórnin missir völdin - Karamanlis verður aftur forsætisráðherra
1986 Andrew Bretaprins giftist Söru Ferguson í Westminster Abbey - þau skildu árið 1992

Morgundagurinn
1956 Þriðja ríkisstjórn Hermanns Jónassonar tekur við völdum - sat í rúm tvö ár
1959 Khrushchev Sovétleiðtogi og Nixon varaforseti Bandaríkjanna, rífast opinberlega á amerískri sýningu í Moskvu - rifrildið gengur almennt undir nafninu The Kitchen Debate
1967 De Gaulle Frakklandsforseti, ergir kanadísk stjórnvöld í heimsókn sinni til landsins með stuðningsyfirlýsingu sinni við frjálst Québec með orðunum: "Vive le Québec libre!"
1980 Gamanleikarinn Peter Sellers deyr í London, 54 ára að aldri - hann var einn af helstu gamanleikurum 20. aldarinnar og varð víðfrægur um allan heim fyrir leik sinn í Dr. Strangelove, Ladykillers, Lolitu, Being There og myndunum um klaufabárðinn Clouseau
1987 Jeffrey Archer lávarður, vinnur sigur í meiðyrðamáli fyrir dómstólum gegn slúðurblaði - málið var síðar tekið upp þegar ljóst var að hann hafði framið meinsæri og logið fyrir rétti og hlaut hann fjögurra ára fangelsisdóm árið 1999 sem markaði lok stjórnmálaferils hans

Snjallyrði dagsins
A free society is a place where it's safe to be unpopular.
Adlai Stevenson sendiherra (1900-1965)

22 júlí 2004

Davíð Oddsson forsætisráðherraÍ gærkvöldi gaf forsætisráðuneytið út yfirlýsingu um að Davíð Oddsson forsætisráðherra, hefði gengist undir aðgerð síðdegis í gær, en hann veiktist aðfararnótt miðvikudags af gallblöðrubólgu og var fluttur á Landspítalann við Hringbraut. Við rannsókn kom í ljós staðbundið æxli við hægra nýra og gekkst forsætisráðherra undir aðgerð þar sem gallblaðran og hægra nýra ásamt æxlinu voru fjarlægð. Er Davíð nú kominn á legudeild, er líðan hans góð og framfarir eðlilegar, almennt eftir aðgerð af þessu tagi að sögn lækna. Fréttir af veikindum Davíðs komu öllum að óvörum, enda hafði hann haft fullt starfsþrek og haft í mörgu að snúast samhliða umræðu um fjölmiðlamálið og var t.d. í viðtölum við fréttamenn á þriðjudag vegna þess, er tilkynnt var um lausn málsins. Honum voru á þingi í gær færðar góðar kveðjur frá bæði forseta þingsins og leiðtoga stjórnarandstöðunnar. Er ánægjulegt að þrátt fyrir átök undangenginna vikna og mánaða sameinast allir sem einn í að senda forsætisráðherra góðar kveðjur, að sjálfsögðu leggja menn deilur til hliðar og standa saman er veikindi steðja að. Það er von allra að Davíð nái sem fyrst fullri starfsorku og heilsu. Vil ég senda Davíð, eiginkonu hans, Ástríði, og syni þeirra, Þorsteini, mínar bestu kveðjur, með góðum óskum um að Davíð nái sem fyrst fullum bata.

AlþingiHeitast í umræðunni
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og starfandi forsætisráðherra, las skömmu eftir hádegið forsetabréf um frestun þingfunda til þingsetningar, föstudaginn 1. október nk. Áður hafði breytt frumvarp stjórnarflokkanna um niðurfellingu fjölmiðlalaganna verið samþykkt sem lög af þinginu, eftir þriðju umræðu um málið. Verða lögin nú send forseta Íslands til staðfestingar. Frumvarpið var samþykkt með 32 atkvæðum þingmanna stjórnarflokkanna, en þingmenn stjórnarandstöðunnar sátu hjá. Með þessu er endanlega ljóst að engin lög um eignarhald á fjölmiðlum verða sett á sumarþinginu og lögin sem samþykkt voru 24. maí sl. og forseti synjaði staðfestingar 2. júní sl. falla úr gildi, við undirritun forseta á nýjum lögum. Mikið var deilt um það í annarri umræðu í gær og þeirri þriðju í dag hvort þjóðaratkvæðagreiðsla ætti að fara fram um fjölmiðlalögin sem forseti synjaði. Það er auðvitað fjarstæða enda eru þau nú fallin úr gildi og erfitt að kjósa um lög sem ekki eru lengur til staðar. Þingið hefur fullan rétt á að setja lög og jafnframt að fella þau úr gildi. Málið er nú komið á þann reit að nauðsynlegt er að taka loks hina efnislegu umræðu um málið, það er langt í frá á byrjunarreit eftir umræðu seinustu mánuða, en það vantar efnislega afstöðu stjórnarandstöðunnar. Málið verður því rætt af krafti, bæði í fjölmiðlanefnd og á þingi á næsta starfsvetri löggjafarsamkundunnar.

Séð og heyrtÍ gærkvöldi var rætt í Kastljósinu um nýlegan dóm í máli Karólínu prinsessu af Mónakó, sem hún höfðaði gegn slúðurblöðum fyrir að taka myndir af henni og fjölskyldu sinni, og rofið með því friðhelgi einkalífsins. Karólína vann fullnaðarsigur í málinu. Þessi blöð hafa allajafna í vinnu hina svokölluðu paparazzi ljósmyndara sem taka myndir af fólki án þess að sýna einkalífi þess nokkurt grið eða bera virðingu fyrir fólkinu og þeirra prívatmálum. Þetta mál var rætt í því samhengi í þættinum að hérlendis er til eitt blað, sem óhikað birtir fréttir af einkalífi fólks, setur saman myndir af því með fréttum til að krydda gildi heitrar forsíðufréttar og til að selja blaðið. Allir sem hafa séð blaðið og lesið vita að fólki er þar ekkert grið gefið og ekkert hik er á að segja sögur af því t.d. hver sé að skilja, eignast börn og sé kominn í nýtt ástarsamband, svo fátt eitt sé nefnt. Það var greinilegt í þættinum að Kristján Þorvaldsson ritstjóri blaðsins, átti mjög í vök að verjast í rökræðum um málið gegn Sigrúnu Jóhannesdóttur forstjóra Persónuverndar, og Þorfinni Ómarssyni fréttamanni. Er það engin furða, enda eru vinnubrögð Séð og heyrt, og ógeðfelld fréttamennska þeirra sem heggur oft skörð í einkalíf fólks og friðhelgi þess, algjörlega óverjandi og siðlaus með öllu. Það er von mín að þessi slúðurfréttamennska sem sést í þessu blaði og eins á hverjum degi í soraritinu DV, falli um sjálft sig á endanum.

All the King's MenPólitískt bíó - All the King's Men
Í All the King's Men er sögð saga stjórnmálamannsins Willie Stark sem rís upp úr litlum efnum, nemur lögfræði og gefur kost á sér til stjórnmálastarfa. Hann er kosinn sem leiðtogi í stéttarfélag og nær þannig að vekja á sér athygli með því að komast í sveitarstjórn svæðisins. Hann reynir því næst að komast í ríkisstjórastólinn og tekst það í annarri tilraun, en í þeirri fyrri höfðu valdamiklir menn barist gegn honum, en í seinna skiptið samdi hann við andstæð öfl til að hljóta stuðning. Með þessu opnar hinn heiðarlegi Willie veginn fyrir því að kaupa sér stuðning og kemst í óvandaðan félagsskap. Brátt kemur að því að samstarfsfólk ríkisstjórans heiðarlega fer að taka eftir því að hann er bæði orðinn óheiðarlegur og siðspilltur og hefur umturnast í argaþrasi stjórnmálanna. Einstaklega góð mynd sem hlaut óskarinn sem besta kvikmyndin árið 1949. Ætti að henta öllu stjórnmálaáhugafólki. Skólabókardæmi um það hvernig stjórnmálamaður getur fallið í freistni, farið af leið og endað sem andstæða þess sem stefnt var að: óheiðarlegur og spilltur. Broderick Crawford fer á kostum í hlutverki Willies, sem var hlutverk ferils hans, en hann hlaut óskarsverðlaunin fyrir heilsteyptan leik, ennfremur Mercedes McCambridge sem stelur senunni í hlutverki hjákonu Willies. John Ireland er svo eftirminnilegur ennfremur í lágstemmdu hlutverki sögumannsins Jack Burden, sem rekur upphaf, hátind og að lokum fall stjórnmálamannsins Willie Stark, sem að lokum verður andstæða alls þess í stjórnmálum sem hann stefndi að í upphafi. Óviðjafnanleg mynd sem allir stjórnmálaáhugamenn verða að sjá, þó ekki væri nema einu sinni. Hún er lífslexía fyrir alla stjórnmálamenn.
stjörnugjöf

Dagurinn í dag
1245 Kolbeinn ungi Arnórsson lést, 37 ára gamall - var höfðingi af ætt Ásbirninga
1929 Landakotskirkja í Reykjavík vígð - er kirkja kaþólska söfnuðarins á Íslandi
1965 Alec Douglas-Home biðst lausnar sem leiðtogi breska Íhaldsflokksins - varð leiðtogi flokksins og forsætisráðherra við afsögn Macmillan árið 1963 - tapaði kosningum 1964
1977 Deng Xiaoping nær fullum völdum eftir dauða Maó árið áður - varð einráður í Kína að mestu við það og ríkti sem yfirmaður einræðisstjórnarinnar allt til dauðadags 1997
2003 Uday og Qusay Hussein, synir Saddams Husseins, felldir í skotbardaga í N-Írak

Snjallyrði dagsins
Það er sárt að sakna, einhvers
Lífið heldur áfram, til hvers?
Ég vil ekki vakna, frá þér
Þvi ég veit að þú munt aldrei aftur
Þú munt aldrei, aldrei aftur
Aldrei aftur strjúka vanga minn
Eyjólfur Kristjánsson (Draumur um Nínu)

21 júlí 2004

Davíð Oddsson forsætisráðherraDavíð Oddsson forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, veiktist snögglega í nótt og var fluttur á spítala, þar sem hann gengst nú undir rannsóknir. Sendi ég Davíð og fjölskyldu hans mínar bestu kveðjur og góðar óskir um að hann nái skjótum bata. Davíð er kraftmikill stjórnmálamaður og hefur undanfarinn áratug verið öflugur forystumaður hægrimanna og það er því okkur hægrimönnum öllum mikilvægt að hann nái sem fyrst bata og við fáum notið farsællar forystu hans í landsmálunum á næstunni.
AlþingiHeitast í umræðunni
Eftir atburði gærdagsins er sá tími loksins að renna upp að stjórnarandstaðan verður að gera heyrinkunna efnislega afstöðu sína til lagasetningar um eignarhald á fjölmiðlum, ekki gengur lengur að vísa á aðra aðila þegar spurt er eftir skoðunum flokkanna til lagasetningar um málið, enda hefst innan nokkurra mánaða umræða í fjölmiðlanefndinni um málið. Það sást vel í Kastljósviðtali í gærkvöldi að stjórnarandstaðan er ekki á einu máli þegar kemur að því að taka afstöðu til lagasetningar um eignarhaldið. Einar K. Guðfinnsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, þurfti eiginlega að toga með töngum uppúr Össuri Skarphéðinssyni þá skoðun hans að ekki þyrfti að setja lög um eignarhaldið. Reyndar virðist ekki vera full samstaða um þetta, enda hafði áður komið fram í viðtali við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í sama þætti að stjórnarandstaðan kæmi að málinu með opnum huga og útilokaði ekkert í því samhengi. Við blasir nú að algjör grundvallarmunur er í afstöðu Samfylkingarinnar til málsins miðað við VG og Frjálslynda. Formaður Samfylkingarinnar vill enga lagasetningu, meðan forystumenn hinna flokkanna taka undir þörfina á lagasetningu um eignarhaldið. Það hefur svosem blasað við, en ágætt að fá það fram með þessum hætti.

Tony BlairÍ dag eru 10 ár liðin frá því að Tony Blair var kjörinn leiðtogi breska Verkamannaflokksins, hann tók við af John Smith sem varð bráðkvaddur í maí 1994. Blair gjörbreytti flokknum, sveigði hann inn á miðjuna og náði með því að gera Verkamannaflokkinn að miðjuflokki sem náði að höfða til fleiri hliða en fyrri leiðtogar hans höfðu gert. Flokkurinn vann stórsigur í þingkosningunum 1. maí 1997. Verkamannaflokkurinn varð nútímalegri og heillandi en t.d. undir forystu Neil Kinnock sem var með flokkinn mun meira til vinstri og náði aldrei að leiða flokkinn til sigurs, einmitt vegna vinstriáherslna hans. Blair stokkaði upp öll vinnubrögð og áherslur innan flokksins er hann tók við valdataumunum innan hans og náði að gera flokkinn að stórveldi í breskum stjórnmálum á ný. Að undanförnu hefur hallað undan fæti, við upphaf valdaferils hans 1997, hafði hann um 80% persónufylgi, nú eru innan við 40% landsmanna sem vilja hann beinlínis sem forsætisráðherra og styðja hann persónulega. Hvað gerist nú er stór spurning en greinilega er kominn flótti í þá þingmenn Verkamannaflokksins sem tæpastir voru inn á þing í seinustu kosningum og telja að nú verði að stokka upp til að flokkurinn eigi möguleika á sigri í næstu kosningum. Framtíð Blair er því mjög óviss á þessum tímamótum.

Jahérna hér....

On the WaterfrontMeistaraverk - On the Waterfront
On the Waterfront er hiklaust eitt af bestu meistaraverkum kvikmyndasögunnar. Segir frá spilltu verkalýðsfélagi hafnarverkamanna sem lendir í rannsókn yfirvalda. Til að forða félaginu frá skaða ráða verkalýðsleiðtogarnir einum verkamanninum, Joey Doyle, bana. Meðal þeirra sem standa að baki því er félagi hans, uppgjafa boxarinn Terry Malloy. Verkalýðsleiðtoginn Johnny Friendly stendur að baki glæpaveldinu við höfnina og meðal samverkamanna hans er bróðir Terrys, Charley. Eftir morðið á Joey verður Terry hrifinn af systur hans, Edie, og fer Terry að fá samviskubit vegna þess sem gert var. Með hjálp hennar og sr. Barry bætir Terry fyrir mistök fortíðarinnar og leggur til atlögu við glæpaveldið við höfnina. Marlon Brando fékk óskarinn fyrir hreint magnaðan leik sinn á Terry Malloy og Eva Marie Saint ennfremur fyrir stórleik í hlutverki Edie. Lee J. Cobb er hrollkaldur í hlutverki Johnnys en samt svo magnaður, Rod Steiger er eftirminnilegur sem Charley og Karl Malden fer á kostum í lágstemmdu hlutverki sr. Barry. Sögufrægur leikhópurinn vinnur því glæsta sigra. Elia Kazan heldur einkar vel utanum þessa beittu ádeilu er lýsir á einkar stórbrotinn hátt einu allra mesta böli bandarísks þjóðlífs, sem er skipulögð glæpastarfsemi. Myndin hefur elst með stakri prýði, boðskapur hennar og ágæti er engu síðra nú en þegar hún var gerð á sínum tíma. Hlaut átta óskarsverðlaun árið 1954, þ.á m. sem besta kvikmynd ársins, fyrir leikstjórn Elia Kazan og magnaðan leik Brando og Saint. Ég hvet alla kvikmyndaunnendur til að sjá þetta magnaða meistaraverk ef þeir eiga tök á því, betri mynd er vart hægt að sjá.
stjörnugjöf

Áhugavert á Netinu
Enn þáttaskil í fjölmiðlamáli - pistill Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra
Grein á Múrnum svarað á frelsi.is - pistill Hafsteins Þórs Haukssonar
Forseti fer út og Samfylking klofin í fjölmiðlamáli - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Þingfundur kl. 13:30 í dag - búist við að þinghaldi muni ljúka fyrir helgina
Fjölmiðlalög felld úr gildi - unnið í málinu á næstu mánuðum í fjölmiðlanefnd
Davíð Oddsson forsætisráðherra, vill endurskoða 26. grein stjórnarskrárinnar
Halli á rekstri Ríkisendurskoðunar meiri en leyfilegt er - skondið vægast sagt
George W. Bush heitir því á kosningafundi í Iowa að tryggja öryggi landsins
Sandy Berger viðurkennir að hafa orðið á - mun hætta sem ráðgjafi Kerrys
10 ár frá því Tony Blair var kjörinn leiðtogi breska Verkamannaflokksins
Farið yfir 10 ára leiðtogaferil Tony Blair - eftirminnileg ummæli Blair
Tony Blair, Michael Howard og Charles Kennedy takast á um Íraksmálið
Tapi John Kerry kosningunum, vilja flestir demókratar Hillary Clinton 2008
George W. Bush og John Kerry eyða álíka miklum peningum í baráttuna
Michael Howard heitir þjóðaratkvæði strax nái Íhaldsmenn völdum í UK
Ísland í sjöunda sæti á lífgæðalista Sameinuðu þjóðanna - góð tíðindi
I Robot, með Will Smith slær í gegn í Bandaríkjunum, fór beint á toppinn
Fangar í Tennessee í Bandaríkjunum stinga af - fóru og keyptu sér einn kaldan
John Edwards heldur kosningafund á verönd í Durham í Norður Karólínu
Bill Gates telur alveg öruggt að DVD verði að mestu orðið úrelt eftir 10-15 ár
Karl Bretaprins fer fyrsta sinni í leigubíl - hlýtur að vera viðbrigði fyrir karlinn

Dagurinn í dag
1914 Sigurður Eggerz verður ráðherra Íslands - sat sem forsætisráðherra 1922-1924
1944 Franklin D. Roosevelt forseti Bandaríkjanna, útnefndur forsetaefni demókrataflokksins í fjórða skiptið - hann sat á forsetastóli lengur en nokkur annar í Bandaríkjunum, rúm 12 ár
1963 Skálholtskirkja vígð við hátíðlega athöfn af Ásgeiri Ásgeirssyni forseta Íslands
1969 Bandaríkjamaðurinn Neil Armstrong stígur fyrstur manna fæti á tunglið - við það tækifæri féllu hin fleygu orð: "That's one small step for man but one giant leap for mankind."
1994 Tony Blair kjörinn leiðtogi breska Verkamannaflokksins - hann varð forsætisráðherra Bretlands 2. maí 1997, eftir kosningasigur flokksins, og hefur setið síðan á valdastóli

Snjallyrði dagsins
The greatness comes not when things go always good for you. But the greatness comes when you're really tested, when you take some knocks, some disappointments, when sadness comes. Because only if you've been in the deepest valley can you ever know how magnificent it is to be on the highest mountain.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna (1913-1994)

20 júlí 2004

StjórnarráðiðHeitast í umræðunni
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að fella fjölmiðlalögin úr gildi og draga til baka fjölmiðlafrumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi. Allsherjarnefnd samþykkti á fundi sínum í dag nýtt og breytt frumvarp þar sem meginefni hins eldra hafa verið tekin út en eftir standa tvö atriði: að fella brott fjölmiðlalögin sem Ólafur Ragnar Grímsson synjaði staðfestingar 2. júní sl. og breyting á skipan útvarpsréttarnefndar. Ekki verður lagt nýtt frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum á sumarþinginu og stefnt er að því að þinghaldi ljúki undir lok vikunnar þegar breytt frumvarp hefur verið afgreitt. Fjölmiðlanefnd mun taka til starfa aftur í haust eins og áður hafði verið stefnt að og gefst stjórnarandstöðunni færi á að taka þátt í störfum hennar og koma fram með skoðanir sínar á málinu, efnislega hlið sína á lagasetningu um eignarhald á fjölmiðlum. Ég tel að ríkisstjórnin hafi tekið rétt skref í málinu, enda er mikilvægt að stjórnarandstaðan komi fram með skoðun sína á málinu og hætti þeirri tækifærismennsku sem hún hefur haldið uppi allt frá því að frumvarpsdrög voru fyrst kynnt í aprílmánuði. Skynsamlegt er að salta málið í sumar, taka það upp aftur í haust og leiða þá til lykta frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum, enda tel ég að vilji meirihluta landsmanna sé að setja leikreglur um eignarhaldið. En nú ætti efnisleg umræða um málið að geta hafist, er það ánægjulegt.

BessastaðirÍ dag lá fyrir vilji stjórnarflokkanna til að hefja vinnu að endurskoðun stjórnarskrárinnar, einkum er víkur að stjórnarskrárþáttum sem víkja að embætti forseta Íslands. Með því verður ljós vilji stjórnarflokkanna að hér verði fest í stjórnarskrá þingræði og það að forseti framkvæmi vald ráðherra, eins og almennt var talið að væri til staðar þar til Ólafur Ragnar Grímsson gekk gegn þingræðinu, 2. júní sl. Til þess að afnema synjunarvald forsetans í 26. greininni þarf stjórnarskrárbreytingu. Tvö þing verða að samþykkja slíka breytingu, það sem nú situr og það sem kjörið verður í næstu þingkosningum. Í sunnudagspistli mínum um síðustu helgi, rakti ég deilur sumarsins um efni 26. greinarinnar og hvatti pólitíska forystu landsins til að taka af skarið í þessum efnum, með því að fella niður synjunarrétt forsetans á málum frá þinginu og gera skýrt að forseti ætti að framkvæma vald ráðherra. Það er skoðun mín nú sem ávallt fyrr að forseti eigi ekki að hafa það vald sem 26. greinin gaf í skyn að hann hefði og því mikið gleðiefni að taka eigi þetta til endurskoðunar og pólitísk samstaða hefur náðst milli stjórnarflokkanna um að stuðla að breytingum á stjórnarskrárþáttum tengdum forsetaembættinu, sérstaklega 26. greininni sem lengi hefur verið umdeild, en verður nú tekin til rækilegrar endurskoðunar.

Pistill SFS um tíðindi dagsins í fjölmiðlamálinu

BettýBókalestur - spennusögur Arnaldar Indriðasonar
Ég hef alla tíð verið mikill bókaunnandi og les jafnan mikið, eins og góðvinir mínir á Amtsbókasafninu á Akureyri ættu að vera farnir að átta sig vel á. Það er fátt betra en fara einu sinni í viku á bókasafnið, taka nokkrar bækur og rýna í þær og jafnframt líta á gömul dagblöð, sem ég geri oft ef mig vantar upplýsingar um eldri atburði og vil kynnast umfjöllun dagblaða um mikilvæg málefni fyrri tíma. Nú á seinustu vikum hef ég stúderað mikið í skáldsögum Arnaldar Indriðasonar, en ég er mikill unnandi spennusagna hans og á þær allar. Sérstaklega er notalegt hvernig Arnaldur yfirfærir spennusagnaformið á íslenskt samfélag og fléttar persónurnar saman við veruleika sem allir ættu að geta kannast við, sem um væri að ræða það sem lesandinn getur staðsett sig í beint. Í gærkvöldi lauk ég við að lesa í þriðja sinn, spennusöguna Bettý, eftir Arnald. Las ég hana fyrst um jólin seinustu. Er hér sögð einkar spennandi saga af ungum lögfræðingi sem situr í fangelsi af völdum háskakvendisins Bettýar, og hvernig lögfræðingurinn reynir að snúa sig útúr þeim svikavef sem Bettý hefur spunnið. Bettý er ung og glæsileg kona, gift forríkum útgerðarmanni á Akureyri, sem ræður lögfræðinginn til að sjá um erlenda samninga fyrir sig. Og áður en varir er lögfræðingurinn kominn á kaf í flókna atburðarás. Í þessari mögnuðu spennusögu er hægt að finna einn athyglisverðasta viðsnúning sem ég hef upplifað í spennusögu, en sagan tekur mjög merkilegan hring þegar rúmlega helmingur hefur verið lesinn. Hvet ég alla til að lesa bókina, sem það hafa ekki gert nú þegar. Svo má enginn gleyma að lesa t.d. Röddina, Mýrina og Grafarþögn, sem er án vafa demanturinn í öllum skrifum Arnaldar.

Áhugavert á Netinu
Frelsi er stefna í menntamálum - pistill Kristins Más Ársælssonar
Tel að það sé vilji allra að setja reglur um fjölmiðla - Davíð Oddsson
Ríkisstjórnin ákveður að fella niður fjölmiðlalög - málið sett í vinnslu
Ný og beinskeytt auglýsing frá George W. Bush um fjölskyldustefnu Kerrys
Kosningabarátta á fullu í USA: Bush í Missouri og Kerry slappar af í Nantucket
Schwarzenegger ríkisstjóri, segist ekki þurfa að biðja demókrata afsökunar
Sandy Berger sakaður um að hafa tekið í eigin vörslu leynileg öryggisskjöl
Spænski sósíalistinn Josep Borrell kjörinn forseti Evrópuþingsins í dag
Filippseyingar kalla her sinn heim frá Írak - filippeyska gíslinum sleppt
Ariel Sharon forsætisráðherra Ísraels, ekki aufúsugestur í Frakklandi
Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, ver innrás Bandamanna í Írak
John Kerry mun nota ríkisstyrk til handa framboðinu eftir allt saman
Kerry og Edwards gera lítið úr miklum ágreiningi sínum um utanríkismál
Drudge Report fer enn og aftur á kostum í að gera grín að John Kerry
Ahmed Qurei fellst á að sitja áfram - Arafat sakaður um fjárdrátt í PLO
60 ár liðin frá því reynt var að drepa Hitler - tilræðismannanna minnst
Kostuleg lýsing á því hvernig kaffidrykkjan er skaðleg skammtímaminninu
Söngkonan Linda Ronstadt veldur vandræðum á söngskemmtun í Las Vegas
Elizabeth Edwards, eiginkona John Edwards, ein á kosningaferðalagi
Martha Stewart hefur í hyggju að gefa út leiðbeiningabók um réttarhöld
Gömlu brýnin Paul Simon og Art Garfunkel slá í gegn á tónleikum í Hyde Park

Dagurinn í dag
1627 Guðbrandur Þorláksson biskup á Hólum, lést, 85 ára gamall - var biskup í 56 ár
1783 Eldmessan á Kirkjubæjarklaustri - meðan Sr. Jón Steingrímsson flutti þrumandi ræðu yfir sóknarbörnum sínum stöðvaðist framrás hraunsins úr Skaftáreldum, stutt frá kirkjunni
1944 Adolf Hitler lifir af banatilræði - hann svipti sig lífi er stríðið var tapað í maí 1945
1951 Abdullah I Jórdaníukonungur myrtur í Jerúsalem, hann var þá sjötugur að aldri
1960 Sirimavo Bandaranaike kjörin forsætisráðherra Ceylon (Sri Lanka) - hún varð fyrsti kvenforsætisráðherra heimsins og fyrsta konan er kjörin var til leiðtogastarfa í pólitík

Snjallyrði dagsins
We stand for freedom. That is our conviction for ourselves; that is our only commitment to others.
John F. Kennedy forseti Bandaríkjanna (1917-1963)

19 júlí 2004

AlþingiHeitast í umræðunni
Hlægilegt hefur verið að fylgjast með stjórnarandstöðunni undanfarna daga. Við málsmeðferð fjölmiðlafrumvarpsins í vor kvörtuðu forystumenn stjórnarandstöðunnar undan því að of skammur tími væri gefinn til að afgreiða málið. Nú þegar sama mál er til umræðu í allsherjarnefnd kvartar stjórnarandstaðan undan því að málið sé í rólegum farvegi og vill að því sé hraðað í gegnum þingið. Eins og ég hef oft bent á, hér á þessum vettvangi, er þessi skoðun stjórnarandstöðunnar helguð af því að forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna vilja ekki ræða efnisatriði málsins eða vilja eyða tíma í að taka umræðuna beint um efni lagasetningar um eignarhald á fjölmiðlum. Eins og fram hefur komið hafa breytingar á frumvarpinu gengið mjög nærri því sem forystumenn tveggja af þrem stjórnarandstöðuflokkunum höfðu rætt um, og er því andstaða þeirra við nýtt frumvarp stórundarleg og helgast af tækifærismennsku. Á öll þessi atriði hef ég minnst áður og tel rétt að benda á þetta enn einu sinni, enda verður þetta sífellt greinilegra. Stjórnarandstaðan hefur nú um helgina verið í fýlu yfir því að stjórnarflokkarnir nái vænlegri lausn í fjölmiðlamálinu og hafa ásamt vissum fjölmiðlum reynt að magna upp umræðu um ágreining um málið innan stjórnarmeirihlutans. Í dag ræddu formenn stjórnarflokkanna saman og ljóst að niðurstaða þeirra verður kynnt á morgun og liggur þá fyrir hver næstu skref ríkisstjórnarinnar í málinu verða.

Íslenski fáninnÍ dag eru tvö ár liðin frá því að samningar voru undirritaðir um álver við Reyðarfjörð og virkjun við Kárahnjúka. Um er að ræða mikinn hátíðisdag fyrir Austfirðinga, en sú breyting varð þó á vinnsluferlinu frá þeim tíma að Norsk Hydro dró sig út úr málinu og Alcoa kom í staðinn og mun álver á þeirra vegum verða að veruleika við Reyðarfjörð árið 2007. Í dag hvatti Náttúruvaktin landsmenn til að flagga í hálfa stöng, bæði til að lýsa andstöðu við framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun og minna á það að þennan dag árið 1998 flaggaði Guðmundur Páll Ólafsson rithöfundur og náttúrufræðingur, í hálfa stöng til að mótmæla því að Fögruhverum væri sökkt. Allt frá því hafa landverðir og skálaverðir á hálendinu haft þennan hátt á og mótmæla stefnu stjórnvalda í umhverfismálum. Er ástæða til að mótmæla þessari hvatningu og þess í stað hvetja alla landsmenn til að flagga í heila stöng í dag, til að minnast þeirra miklu tímamóta þegar endanlega varð ljóst að álver myndi rísa við Reyðarfjörð, landsmönnum og einkum íbúum Norðausturkjördæmis alls til heilla. Þessi dagur er hátíðisdagur Austfirðinga jafnt sem okkar allra í kjördæminu. Ég gef lítið fyrir niðurrifsraddir þeirra sem eru andvígir framkvæmdum fyrir austan og samfagna Austfirðingum með stöðu mála, þeir eiga svo sannarlega skilið þann uppgang sem þar er.

ShrekKvikmyndaumfjöllun - Shrek 2
Græna tröllið Shrek snýr nú aftur á hvíta tjaldið, hress og glaður að vanda. Hann kætti alla kvikmyndaunnendur árið 2001 í drepfyndinni tölvuteiknimynd, sem sló hressilega í gegn. Framhaldsmyndin er stórfengleg að öllu leyti og gefur þeirri fyrri ekkert eftir. Í upphafi er Fiona prinsessa staðráðin í því að fara nú heim til foreldra sinna eftir að hafa verið bjargað úr prísundinni af Shrek og vinum hans í fyrri myndinni. Shrek er ekki alltof hrifinn af því að fara og hitta tengdaforeldra sína en lætur það eftir ástinni sinni. Faðir Fionu vill ekki sjá Shrek sem tengdason og sættir sig enn síður við að fallega dóttirin sé orðin að skessu. Ekki bætir það svo úr skák að fláráð Álfadís hefur hreðjatak á konunginum og hafði gert samkomulag við hann um að Fiona giftist Draumaprinsinum, syni sínum. Kóngurinn bregður því á það ráð að fá leigumorðingja, Stígvélaða köttinn, til þess að koma Shrek fyrir kattarnef. Málin þróast þó í óvæntar áttir og ekki fer allt eins og stefnt er að. Mike Myers fer sem fyrr á kostum í hlutverki Shrek, Eddie Murphy er kostulegur sem asninn og Cameron Diaz heillandi sem Fiona. En það er ekki á neinn hallað þó ég fullyrði að Antonio Banderas steli senunni í hlutverki Stígavélakattarins. Julie Andrews og John Cleese eru stórfengleg í hlutverkum konungshjónanna. Þetta er einstaklega góð mynd, viðeigandi fyrir alla fjölskylduna og þá sem unna góðum húmor og vandaðri kvikmyndagerð. Brandararnir ættu að hitta á réttar nótur hjá kvikmyndaáhorfendum, enda alveg einstaklega vel heppnaðir. Þeirra sem sjá Shrek 2 bíður heillandi og skemmtileg kvöldskemmtun. Ég mæli með henni við alla þá sem hafa góðan húmor og vilja skemmta sér vel á góðu kvöldi.
stjörnugjöf

Áhugavert á Netinu
Helgarpistill Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra - 18. júlí 2004
Orðrómurinn um árásir á Eirík og flaggað á hálendinu - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Um ESB og tollana og ráðvillta stjórnarandstöðu - pistill á Vef-Þjóðviljanum
Vændisumræða og frjálslyndi í Bretlandi - pistill Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur
Athugasemdir við athugasemdir á ungkratavefnum politik.is - pistill á frelsi.is
Tekið úr einum vasanum... - pistill Egils Heiðars Bragasonar á Íslendingi
Niðurstaða verður kynnt í fjölmiðlamálinu á ríkisstjórnarfundi í fyrramálið
Allt í upplausnarástandi á Gaza - Arafat bakkar í valdastríði á Vesturbakkanum
Flokksþing Demókrataflokksins hefst í Boston í Massachusetts í næstu viku
Kosningabaráttan í Bandaríkjunum harðnar - ný og beinskeytt auglýsing frá Bush
Hillary Rodham Clinton mun kynna eiginmann sinn á flokksþinginu í Boston
Dick Cheney segist ekki vera að hætta í stjórnmálum - hvar er Rumsfeld?
Gerhard Schröder lofar þá sem reyndu að ráða Hitler af dögum fyrir 60 árum
Öryggisskjöl breskra stjórnvalda hverfa sporlaust - rannsókn fyrirskipuð á málinu
Drudge Report gerir grín að hrukkunum á John Kerry forsetaframbjóðanda
Bandarísku forsetaframbjóðendurnir berjast um að safna sem mestum peningum
Nelson Mandela heldur upp á 86 ára afmælið í Qunu með lágstemmdum hætti
Enski boltinn rúllar á Skjá einum í ágúst - kurr í sumum / Singer leikstýrir Superman
Joe Carnahan hættir við að leikstýra Mission: Impossible 3 - leitað nú að öðrum
Hrafn Jökulsson blaðamaður, selur allt bókasafnið sitt fyrir mjög góðan málstað
Óvíst hvar Wayne Rooney mun spila - sögusagnir um sölu á honum háværar

Dagurinn í dag
1813 Gengið á hæsta tind landsins, Hvannadalshnjúk á Öræfajökli, í fyrsta skipti
1953 Minnismerki um Stephan G. Stephansson skáld, vígt á Vatnsskarði í Skagafirði
1989 Bygging þyrlupalls í Kolbeinsey hófst - Kolbeinsey er nú að mestu horfin í sæ
2001 Árni Johnsen tilkynnir að hann muni segja af sér þingmennsku vegna hneykslismáls
2001 Davíð Oddsson hafði á þessum degi gegnt embætti forsætisráðherra lengur en nokkur annar Íslendingur: í 10 ár, 2 mánuði og 20 daga. Áætlað er að Davíð muni láta af embætti forsætisráðherra 15. september nk. Þá hefur hann setið í 13 ár, 4 mánuði og 16 daga

Snjallyrði dagsins
Do what you feel in your heart to be right - for you'll be criticized anyway. You'll be damned if you do, and damned if you don't.
Eleanor Roosevelt forsetafrú Bandaríkjanna (1884-1962)