Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 september 2004

Metdagur í sögu bloggsins
Það sem af er þessum degi hafa rúmlega 1300 heimsóknir verið á bloggvefinn. Þetta er met í heimsóknum á einum og sama deginum, frá því hann opnaði í október 2002. Er þetta bæði ánægjulegur áfangi og í senn gleðilegur. Það er auðvitað jákvætt að fólk hafi áhuga á að lesa bloggið og kynna sér skoðanir mínar á málefnum samtímans.
George W. Bush og John KerryHeitast í umræðunni
Lokahnykkur kosningabaráttunnar vegna forsetakosninganna í Bandaríkjunum þann 2. nóvember nk. hefst formlega í kvöld þegar forsetaframbjóðendurnir George W. Bush og John Kerry mætast í fyrstu kappræðum sínum í háskólanum í Coral Gables í Miami í Flórída. Eru kappræðurnar jafnan taldar vera seinasta tækifæri frambjóðendanna að ná til hins óákveðna kjósanda með málflutning sinn og stefnu. Rúmlega 20% þeirra sem ætla að mæta á kjörstað eftir 33 daga, munu gera endanlega upp hug sinn um hvorn frambjóðandann þeir kjósi eftir því hvernig þeir muni tjá sig um málefnin í kappræðunum. Það er því eftir miklu að sækjast og nauðsynlegt að frambjóðendur leggi allt sitt í framkomu sína í kappræðunum þrem, ætli þeir að vinna sigur í kosningunum. Samkvæmt öllum könnunum sem birtar hafa verið seinustu vikuna er Bush forseti með afgerandi forskot á keppinaut sinn. Í nýrri könnun ABC og Washington Post hefur forsetinn 6 prósentustiga forskot á Kerry, forskotið er hið nákvæmlega sama í könnun TIME. Eins og ég benti svo á í fyrradag hefur forsetinn 8 prósentustiga forskot í könnun CNN, USA Today og Gallup. Forsetinn stendur því gríðarlega vel að vígi þegar kappræðurnar skella á. Pressan er mun meiri eins og gefur að skilja á Kerry. Hann verður að leggja allt sitt í frammistöðu sína, strax í kvöld og ná vígstöðu gegn forsetanum, ef hann á að ná einhverri þeirri stöðu að framboð hans nái þeirri stöðu að hann eigi séns í sigur í kosningunum. Það hlýtur að vera vonbrigði fyrir demókrata að nú þegar innan við fimm vikur eru til kosninga er hann undir í fylgi í öllum stærstu málaflokkum kosningabaráttunnar. Fleiri kjósendur telja Bush hæfari til að stýra öryggis- og varnarmálum, menntamálum og efnahagsmálum. Þá eru þau stóru tíðindi að eiga sér stað að fleiri konur ætla að kjósa Bush, sem er reiðarslag fyrir demókrata, enda hefur meirihluti kvenna jafnan til þessa kosið forsetaefni demókrataflokksins. Al Gore fékk t.d. 11 prósentustigum fleiri kvenatkvæði en Bush árið 2000. Það má því búast við hvössum og einbeittum Kerry í fyrstu kappræðunni. Hann verður að sækja af kappi ef hann á að haldast á floti pólitískt í gegnum komandi átök.

Arnbjörg SveinsdóttirÞingflokkur Sjálfstæðisflokksins kom saman í gær og gekk frá skipan sinni í nefndir þingsins og stjórn þingflokksins, samhliða breytingum sem orðið hafa á þingflokknum vegna ráðherrahrókeringa og fleiri þátta. Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður flokksins í Norðausturkjördæmi, var kjörin varaformaður þingflokksins í stað Sigríðar Önnu Þórðardóttur umhverfisráðherra. Valið var ennfremur í nefndarsæti Sigríðar Önnu. Guðlaugur Þór Þórðarson tekur við formennsku í umhverfisnefnd og Arnbjörg tekur sæti í nefndinni í stað Sigríðar Önnu. Einar K. Guðfinnsson tekur við af Sigríði Önnu sem nefndarmaður í Íslandsdeild Þingmannaráðstefnunnar um Norðurskautsmál og verður Sigurður Kári Kristjánsson varamaður þar í stað Einars. Bjarni Benediktsson tekur sæti í heilbrigðis- og trygginganefnd í stað Sigríðar Önnu. Samhliða þessu víkur Arnbjörg úr allsherjarnefnd og kemur Kjartan Ólafsson í stað hennar í nefndina. Okkar góði félagi og leiðtogi í Suðurkjördæmi, Árni Ragnar Árnason, lést eftir erfið veikindi í ágúst. Mun Drífa Hjartardóttir, sem tekið hefur við leiðtogahlutverki flokksins í kjördæminu, taka sæti hans í utanríkismálanefnd. Verður Sigurður Kári Kristjánsson varamaður í nefndinni í stað Drífu. Einar Oddur Kristjánsson verður formaður í sendinefnd þingsins hjá NATO í stað Árna og verður Kjartan Ólafsson varamaður í stað Einars Odds. Auk þess að taka við öðrum almennum nefndasætum Árna Ragnars mun Kjartan taka sæti í Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins í stað Einars Odds. Mun Birgir Ármannsson verða varamaður í Evrópuráðinu í stað Árna Ragnars. Mikið ánægjuefni er fyrir okkur sjálfstæðismenn í Norðausturkjördæmi að Abba taki nú við varaformennsku í þingflokknum. Hef ég frá kjördæmabreytingunni unnið talsvert innan flokksins, hér í kjördæminu, með henni og kynnst þar kraftmikilli kjarnakonu sem er trú sannfæringu sinni og vinnur þau verk vel sem henni er treyst fyrir. Ég óska Öbbu innilega til hamingju og óska henni jafnframt alls góðs í störfum sínum fyrir þingflokkinn á næstu árum.

Geir H. Haarde fjármálaráðherraSkipan Jóns Steinars
Eins og nærri má geta var mikið fjallað í fréttum í gær um þá ákvörðun Geirs H. Haarde fjármálaráðherra og setts dómsmálaráðherra, að skipa Jón Steinar Gunnlaugsson sem dómara í Hæstarétti Íslands frá 15. október. Geir var gestur beggja dægurmálaspjallþáttanna í gærkvöldi og fór þar vel yfir ástæður þess að hann ákvað að skipa Jón Steinar í embættið. Færði hann ennfremur góð rök fyrir ákvörðun sinni. Eins og öllum ætti að vera ljóst hafði margoft komið fram að allir umsækjendur voru metnir hæfir. Enginn vafi leikur á að skipunarvaldið er hjá framkvæmdarvaldinu. Það er ráðherra sem skipar í stöðuna útfrá eigin viðmiðunum og mati á því hver gagnast mest réttinum, hver sé heppilegastur til setu þar á hverjum tíma. Ekki mati og viðmiðunum réttarins, sitjandi dómara. Það á ekki að vera þeirra að velja samstarfsmenn sína og eftirmenn. Það er mat ráðherra hver eigi að vera skipaður til starfans. Geir ákvað að leggja upp með lögmannsstörf sem meginviðmið við skipun á dómara. Það er óumdeilt að mestu að Jón Steinar hefur þar mestu reynsluna og hefur að baki langan og farsælan feril sem slíkur. Lýsi ég því enn og aftur ánægju minni með þessa ákvörðun, enda tími til kominn að virkur lögmaður fái starfið. Var ennfremur gleðiefni að sjá hversu vel ráðherra færði rök fyrir máli sínu og mati á því hver hefði átt að hljóta embættið að þessu sinni. Það er merkilegt að sjá að þeir sem helst láta illum látum og segja að um sé að ræða pólitíska skipun eru hvað ötulastir í því að vera með pólitísk gleraugu uppi þegar litið er á þessi mál. Með ólíkindum er reyndar að sjá suma gefa það í skyn að nýr dómari muni í störfum sínum verða málsvari einhverra eða leppur fólks. Það er reyndar skondnast af því öllu að sama liðið sem öskrar og gargar sem mest vegna þessa getur ekki fært nokkur rök, allavega ekki sannfærandi, fyrir því að einn annar maður hafi verið hæfari en aðrir.

Dagurinn í dag
1148 Bæjarbruni á Mýrum, Hítardalsbrenna - mannskæðasti bruni landsins. Rúmlega 70 fórust
1946 Alþjóðlegur dómstóll í Nurnberg í Þýskalandi finnur 22 háttsetta nasista seka um stríðsglæpi
1955 Leikarinn James Dean ferst í bílslysi í Cholame í Kaliforníu, 24 ára að aldri. Á skömmum leikferli sínum lék hann í þrem stórmyndum: East of Eden, Rebel Without a Cause og Giant, sem var frumsýnd skömmu eftir lát hans. Dean varð átrúnaðargoð og goðsögn heillar kynslóðar fólks um allan heim. Almennt talin hin eina sanna ímynd hins uppreisnargjarna og hugsjónasinnaða einstaklings
1966 Ríkissjónvarpið hóf útsendingar - dagskráin hófst formlega með ávarpi Vilhjálms Þ. Gíslasonar útvarpsstjóra. Fyrst í stað var sjónvarpað tvo daga í viku og tvær til þrjár klukkustundir í einu
1996 Eldgos hófst í Vatnajökli, milli Bárðarbungu og Grímsvatna, sem stóð í rúman hálfan mánuð. Eldstöðin sem nefnd var Gjálp, bræddi mikið af ís og safnaðist vatn saman í Grímsvötn og hljóp þaðan mánuði síðar yfir Skeiðarársand og skemmdi mjög mannvirki. Er talið fjórða stærsta gosið á tuttugustu öld. Einungis, Kötlugos 1918, Heklugos 1947 og Surtseyjargos 1963, voru stærri en gosið

Snjallyrði dagsins
Þegar kviknar á deginum og í lífinu ljós
þegar myrkrið hörfar frá mér.
Þá er eitthvað sem hrífur mig líkt og útsprungin rós,
þá vil ég vera hjá þér

Þegar geng ég í sólinni mitt um hábjartan dag,
litafegurð blasir við mér.
Þegar heimurinn heillar mig líkt og töfrandi lag,
þá vil ég vera hjá þér.

Ég vil bæði lifa og vona,
ég vil brenna upp af ást.
Ég vil lifa með þér svona,
ég vil gleðjast eða þjást.
Meðan leikur allt í lyndi,
líka þegar illa fer.
Meðan lífið heldur áfram
þá vil ég vera hjá þér.
Friðrik Sturluson (Hjá þér - Sálin hans Jóns míns)

29 september 2004

Jón Steinar Gunnlaugsson verðandi hæstaréttardómariJón Steinar Gunnlaugsson skipaður hæstaréttardómari
Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmaður, var í dag skipaður dómari við Hæstarétt Íslands frá og með 15. október. Það var Geir H. Haarde fjármálaráðherra, sem skipaði í embættið en Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, vék sæti vegna máls Hjördísar Hákonardóttur, sem sótti um stöðu hæstaréttardómara í fyrra og aftur nú. Jón Steinar mun taka við embætti af Pétri Kr. Hafstein sem setið hefur í réttinum frá 1991. Aðrir umsækjendur um starfið voru Allan Vagn Magnússon héraðsdómari, Eggert Óskarsson héraðsdómari, Eiríkur Tómasson prófessor, Hjördís Björk Hákonardóttir dómstjóri, Leó E. Löve hæstaréttarlögmaður og Stefán Már Stefánsson prófessor. Ég fagna skipan Jóns Steinars í réttinn. Með honum kemur þar inn ferskur vindur nýrra tíma, virkur lögmaður sem hefur víðtæka reynslu sem verður nauðsynleg fyrir réttinn í komandi framtíð. Greinilegt var að Jón Steinar naut ekki sannmælis í umsögn dómara vegna skipunar í réttinn nú. Með ólíkindum var að reynsla hans og störf á sviði lögfræði væru svo lítið metin sem raun ber vitni í mati réttarins. Það á að meta menn eftir réttum stöðlum, en ekki hentiástæðum þegar umsækjendur eru metnir í tengslum við svo virðulegt embætti. Minni ég við þetta tækifæri enn á að mikilvægt er að breyta vinnuferli við skipan dómara í réttinn. Sérstaklega er mikilvægt að binda enda á að sitjandi dómarar hafi eitthvað um það að segja hverjir taka sæti í réttinum, það á að vera í verkahring annarra. Sitjandi dómarar eiga ekki að velja samstarfsmenn sína eða eftirmenn í réttinum. En það er gleðiefni að virkur lögmaður og farsæll á sínu sviði taki sæti í réttinum, enda langt um liðið síðan virkur lögmaður tók þar sæti. Það eina neikvæða við þessa niðurstöðu er að við sem styðjum frelsi einstaklingsins og sjálfstæðisstefnuna í stjórnmálum missum úr sviðsljósinu einn af okkar kraftmestu málsvörum. Það er hinsvegar enginn vafi á að Jón Steinar mun vinna af krafti í nýju starfi. Ég sendi honum mínar innilegustu hamingjuóskir.

Kristinn H. GunnarssonHeitast í umræðunni
Þingflokkur Framsóknarflokksins kom saman í gærkvöldi til að ganga frá nefndaskipan flokksins á komandi þingvetri. Mesta athygli við niðurstöðu þingflokksins vekur óneitanlega að Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður flokksins í Norðvesturkjördæmi, mun ekki sitja í þingnefndum fyrir hönd flokksins í vetur. Kristinn sat áður í fjórum nefndum fyrir flokkinn, var formaður í iðnaðarnefnd og varaformaður í þrem nefndum: efnahags- og viðskiptanefnd, sjávarútvegsnefnd og samgöngunefnd. Hjálmar Árnason þingflokksformaður, hefur sagt að þingmenn flokksins hafi ekki lengur treyst Kristni fyrir því að fara með trúnaðarstörf í þingnefndum. Upphaflega hafi verið um smávægilegan trúnaðarbrest að ræða en endað með algjörum slitum á trúnaði og miklum samstarfsörðugleikum við Kristinn. Kristinn hefur ákveðið að starfa áfram innan þingflokksins, að minnsta kosti fyrst í stað. Hann hyggst taka málið upp á næstu mánuðum á vettvangi miðstjórnar, kjördæmisþings og flokksþings. Segir hann að forysta flokksins sé að hefna sín á sér vegna afstöðu sinnar í tveim málum seinasta vetur, fjölmiðlamálinu og Íraksmálinu. Kristinn gekk í flokkinn fyrir sex árum, en hann hafði áður verið alþingismaður Alþýðubandalagsins. Hann var þingflokksformaður Framsóknarflokksins, kjörtímabilið 1999-2003. Ekki er hægt að segja að þessi ákvörðun þingflokksins komi á óvart. Kristinn hefur allt frá því hann missti þingflokksformennsku hjá Framsókn fyrir rúmu ári verið sólóleikari innan flokksins og þetta endar með þessum hætti. Hann hefur jafnan rekist illa í flokki og endað úti á kanti og svo fer núna hjá Framsókn, hefur þetta blasað við mjög lengi að svona myndu lyktir mála verða. Á fundi þingflokksins var ákveðið að Siv Friðleifsdóttir fyrrum umhverfisráðherra, yrði formaður félagsmálanefndar og tæki við varaformennsku í utanríkismálanefnd og heilbrigðis- og trygginganefnd. Eflaust má telja þetta vísbendingu í þá átt að Siv verði félagsmálaráðherra síðar á kjörtímabilinu og hrókeringar verði á stólum þegar líða tekur á tímabilið. Birkir Jón Jónsson tekur við formennsku í iðnaðarnefnd og varaformennsku í sjávarútvegsnefnd. Dagný Jónsdóttir tekur við varaformennsku í efnahags- og viðskiptanefnd og Hjálmar verður varaformaður samgöngunefndar.

AlþingiAlþingi Íslendinga verður sett með formlegum hætti, nk. föstudag, 1. október. Óhætt er að fullyrða að Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, verði áberandi á þingi fyrstu starfsdaga nýs þingvetrar. Hann mun sem starfsaldursforseti stjórna fyrsta þingfundi þess, þangað til Halldór Blöndal hefur verið endurkjörinn til setu á forsetastóli þingsins, síðar á föstudeginum. Á þessum fyrsta fundi verða jafnframt kjörnir varaforsetar þingsins og kosið formlega í fastanefndir á vegum þess og ennfremur til Íslandsdeilda þeirra alþjóðasamtaka sem Alþingi er aðili að. Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar verður svo formlega kynnt síðar um daginn og dreift til þingmanna. Halldór mun svo flytja stefnuræðu sína og ríkisstjórnarinnar að kvöldi mánudagsins 4. október. Er það í fyrsta skipti sem hann flytur ræðuna sem forsætisráðherra. Þar fjallar hann um þau verkefni sem framundan eru á vegum ríkisstjórnarinnar áhersluatriði hennar á þingvetrinum. Í framhaldinu fara fram umræður um ræðuna og stjórnmálaástandið almennt. Geir H. Haarde fjármálaráðherra, mun svo á þriðjudeginum 5. október, mæla formlega fyrir frumvarpi til fjárlaga. Flest bendir til að þingveturinn verði rólegur, engar kosningar eru framundan og kosningar ekki nýafstaðnar. Þetta er týpískt milliþing, reyndar má svosem færa að því rök að deilur sumarsins hafi verið svo miklar og harkalegar að menn séu rólegri en oft áður þegar kemur að þingsetningu. Annars fer þetta allt eftir þeim málum sem upp munu koma, hvert stefnan fer á mál og áherslur tengt þeim. Óhætt er að fullyrða að tekist verði á um málefnin og ólíkar skoðanir uppi. Stjórnarandstaðan virkar frekar veikluleg og því gæti orðið minna um raunveruleg átök en oft áður.

Eiffel-turninn í ParísÍslandskynning í París
Seinustu daga hefur staðið í París, íslensk menningarkynning. Hún var formlega sett í byrjun vikunnar og mun standa allt til 10. október. Munu á annað hundrað íslenskir listamenn taka þátt í henni. Kynningin er tvíþætt: annarsvegar er vísindasýning í vísindasafninu Palais de la Découverte í Grand-Palais höllinni, sem byggð var í tengslum við heimssýninguna 1896. Þar verður árangri Íslendinga á sviði eldfjallafræði, haffræði, orku og vetnis, jarðhitafræði og erfðafræði lýst með nýstárlegum hætti. Hinsvegar er efnt til viðburða á listasviðinu: í myndlist, tónlist, bókmenntum, leiklist og kvikmyndum. Það var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, sem opnaði formlega kynninguna. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, er jafnframt í París og hefur undanfarna daga átt þar viðræður við fjölda forystumanna í frönskum stjórnmálum, t.d. Jean-Pierre Raffarin forsætisráðherra Frakklands. Mikið hefur verið fjallað um Íslandskynninguna í frönskum fjölmiðlum. Margir voru viðstaddir tónleika Kristins Sigmundssonar og Jónasar Ingimundarsonar í gærkvöldi og framundan eru menningarviðburðir með Sigur Rós, Steindóri Andersen og Schola Cantorum, Apparat, Jóhanni Jóhannssyni, Mugison og mörgum fleirum. Íslensk menning blómstrar því svo um munar í París þessa dagana.

Dagurinn í dag
1906 Landssími Íslands tók formlega til starfa - sent var fyrsta símskeyti milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar. Símalínan frá Seyðisfirði norður um land og til Reykjavíkur var 614 km löng
1974 Auður Eir Vilhjálmsdóttir tók prestvígslu, fyrst íslenskra kvenna - hún vígðist fyrst til Staðarprestakalls á Súgandafirði. Auður Eir gaf kost á sér, fyrst kvenna, í biskupskjöri árið 1997
1978 Tilkynnt formlega um lát Jóhannesar Páls páfa I. Hann var 65 ára er hann lést og hafði aðeins setið á páfastóli í 33 daga, en hann var kjörinn til setu á páfastóli í ágúst 1978 - lengi hefur verið uppi sá orðrómur um að páfanum hafi verið byrlað eitur. Eftirmaður hans tók sér nafn hans til minningar um hinn látna páfa og var kallaður Jóhannes Páll páfi II. Hann hefur setið á páfastóli síðan, í 26 ár
1990 Nesjavallavirkjun í Grafningi var formlega gangsett af Davíð Oddssyni þáv. borgarstjóra
2000 Auðlindanefnd skilaði tillögum sínum. Hún lagði til í skýrslu sinni að sett yrðu ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareign á náttúruauðlindum landsins og gjald skyldi tekið fyrir nýtingu þeirra

Snjallyrði dagsins
Laughter is the sun that drives winter from the human face.
Victor Hugo rithöfundur (1802-1885)

28 september 2004

John Kerry og George W. BushHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, hefur þónokkuð forskot á keppinaut sinn, John Kerry öldungadeildarþingmann frá Massachusetts, ef marka má nýjustu skoðanakönnun CNN, USA Today og Gallup sem birt var í morgun. Í dag eru 35 dagar, nákvæmlega fimm vikur, þar til Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu og kjósa forseta Bandaríkjanna, kjörtímabilið 2005-2009. Samkvæmt fyrrnefndri könnun hefur Bush forseti, 52%, Kerry nýtur fylgis 44% kjósenda og neytendafrömuðurinn Ralph Nader hefur 3%. Svo virðist vera sem munurinn hafi aftur aukist, en í seinustu könnun hafði munurinn minnkað í sex prósent. Þegar nánar er spurt um frambjóðendurna hefur Bush yfirburði á öllum sviðum yfir Kerry. Er greinilegt reyndar að Bush hefur bætt sig verulega hvað varðar afstöðu fólks til baráttunnar gegn hryðjuverkum, Íraksmálsins og utanríkismála almennt. Er ljóst að bandarískir kjósendur treysta betur Bush en Kerry til að leiða Bandaríkin á komandi árum. Þessi könnun kemur á þeim tímapunkti að tveir sólarhringar eru í fyrstu kappræður forsetaefnanna, sem er að segja má seinasta stóra tækifæri þeirra til að koma stefnu sinni og málefnum í kastljós fjölmiðlanna og ná að ræða það af krafti. Segja má að staða Kerrys sé að verða töpuð, nema þá að til komi meiriháttar kraftaverk í kringum kappræðurnar þrjár milli hans og Bush forseta. Kerry hefur úr þessu engu að tapa og ljóst að hann verði beittur í fyrstu kappræðunum og verði þar öllu að beita til að reyna að snúa taflinu við og ná einhverri þeirri stöðu til að berjast gegn forsetanum. Þó er ljóst að sigurlíkur forsetans aukast nú sífellt, ef marka má allar kannanir sem benda til öruggs sigurs hans eftir fimm vikur. Verður fróðlegt að sjá hvernig slagurinn þróast eftir að kappræðurnar hefjast á fimmtudaginn, þar sem Kerry og Bush mætast í umræðum í fyrsta skipti, augliti til auglitis. Búast má við hvössum skotum milli frambjóðendanna í fyrstu kappræðunni.

Tony BlairTony Blair forsætisráðherra Bretlands, hóf formlega kosningabaráttu sína og Verkamannaflokksins, í ítarlegri ræðu á flokksþingi Verkamannaflokksins í Brighton í dag. Lýsti Blair því yfir í ræðu sinni að það væri markmið flokksins að vinna næstu þingkosningar og vera við stjórnvölinn í Bretlandi áfram, þriðja kjörtímabilið í röð. Sagðist hann myndu sækjast eftir því að leiða flokkinn í gegnum kosningarnar og næstu árin. Það hefur aldrei gerst í sögu flokksins að hann sitji við völd lengur en tvö kjörtímabil. Aðeins Margaret Thatcher hefur tekist að leiða breskan stjórnmálaflokk í gegnum þrennar kosningar í röð og sigra þær allar. Það er því ljóst að Blair stefnir að því að jafna met Thatcher og sækist eftir að ná að komast nálægt meti hennar sem þaulsætnasta forsætisráðherra landsins í seinni tíma stjórnmálasögu, en Thatcher sat sem forsætisráðherra í rúm 11 ár, frá 1979-1990. Blair stendur vissulega á krossgötum, nú þegar hann ávarpar flokksmenn sína. Aldrei hefur óánægja verið meiri með stjórn hans á landinu og flokknum en núna. Harkaleg valdabarátta stendur milli hans og Gordon Brown bakvið tjöldin og óánægjan kraumar undir niðri. Mjög er deilt innan flokksins um afstöðu hans í Íraksmálinu og hefur hún orðið honum fjötur um fót, eins og sást í sveitarstjórnarkosningum í landinu fyrr á árinu. Í ræðunni í dag markaði hann stefnu næstu ára, nái hann að vinna næstu kosningar og fjallaði hann þar að mestu um innanríkismál og velferðarmál sem aðalkosningamál. Með því hyggst hann reyna að beygja umræðunni frá utanríkismálunum og reyna að auka sigurlíkurnar, en skv. skoðanakönnunum eru tveir stærstu flokkar landsins hnífjafnir. Líklegast er að Bretar muni ganga að kjörborðinu þann 5. maí 2005. Dagsetningin er ekki valin af tilviljun (05-05-05).

Bandaríski fáninnVefsíður tengdar forsetakosningunum
Forsetakosningar í Bandaríkjunum fara fram 2. nóvember, eins og ég hef svo oft bent á. Á netinu er hægt að nálgast mikið af upplýsingum um kosningarnar, embætti forseta Bandaríkjanna og fleira. Á vef Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur verið birtur ítarlegur listi yfir nokkrar helstu síðurnar. Er rétt að fara yfir nokkra vefi. Ber fyrst að nefna heimasíðu George W. Bush. Þar er hægt að nálgast allar upplýsingar um framboðið og sjónvarpsauglýsingar sem framboðið hefur látið gera. Á þessari síðu er hægt að nálgast ítarlega stefnuskrá forsetans í öllum helstu málaflokkum. Vefsíða Repúblikanaflokksins er mjög ítarleg og góð. Í lok ágúst og byrjun september héldu repúlikanar flokksþing sitt í New York, heimasíða þingsins er mjög gagnleg. Ekki má svo gleyma ítarlegu myndbandi þar sem tekin eru saman ummæli Kerrys um Íraksmálið. Þegar litið er á demókrata ber fyrst að nefna heimasíðu John Kerry, þar sem finna má allar upplýsingar um stefnumál forsetaframbjóðandans. Demókratar héldu flokksþing sitt í Boston í júlí og er heimasíða þess mjög gagnleg. Vefur Demókrataflokksins er ennfremur ítarlegur. Á þessum vef er svo að finna upplýsingar um allar kappræður sem fram hafa farið milli forsetaframbjóðenda síðan 1960. Á síðunni er hægt að fá endurrit af öllum kappræðunum. Að auki mætti nefna fjölda fréttavefa og upplýsingasíðna, en á þær er frekar bent á í umfjölluninni á vef SUS. Hvet ég alla til að líta á listann og fara á vefina og kynna sér vel málefni þessarar athyglisverðu kosningabaráttu.

Dagurinn í dag
1988 2. ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við völdum - hún sat til 1991 með breytingum
1994 Bílaferjan Estonia ferst á Eystrasalti - 854 fórust með ferjunni, flestir Svíar. Þetta var mannskæðasta sjóslys frá því í seinni heimsstyrjöldinni. Þeir sem fórust liggja í kaldri gröf í flaki skipsins, en öll ríki við Eystrasaltið ákváðu að ferjan skyldi algjörlega friðuð og ekki hreyft við neinu
2000 Heimsókn hins umdeilda stjórnmálamanns Ariel Sharon í hina helgu Al-Aqsa mosku, leiðir til mikilla óeirða milli Palestínumanna og Ísraela. Sharon varð forsætisráðherra Ísraels í janúar 2001
2000 Pierre Elliot Trudeau fyrrum forsætisráðherra Kanada, deyr í Toronto, áttræður að aldri. Trudeau var einn fremsti stjórnmálamaður Kanada og var forsætisráðherra 1968-1979 og 1980-1984
2003 Óskarsverðlaunaleikstjórinn Elia Kazan deyr í New York, 94 ára að aldri. Kazan var einn af umdeildustu leikstjórum 20. aldarinnar og hlaut hann tvívegis óskarsverðlaun fyrir leikstjórn: fyrir Gentleman's Agreement og On the Waterfront. Hann hlaut heiðursóskar fyrir ævistarf sitt 1999

Snjallyrði dagsins
I want to thank the Academy for its courage and generosity. I want to thank you all very much. I think I can just slip away now.
Elia Kazan leikstjóri (1909-2003) (er hann tók við heiðursóskarnum 1999)

27 september 2004

John Kerry og George W. BushHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, og John Kerry öldungadeildarþingmaður, undirbjuggu sig um helgina fyrir fyrstu kappræður sínar sem fram munu fara á fimmtudagskvöldið í háskólanum í Coral Gables í Miami, Flórída. Kerry æfði sig í Boston en Bush á búgarði sínum í Texas. Verður þetta fyrsta kappræðan af þrem talsins. Í þeim fyrstu munu frambjóðendurnir standa við ræðupúlt og verða spurðir af fréttamanninum Jim Lehrer í 90 mínútur og flytja tveggja mínútna lokaorð að því loknu. Þeim er ekki heimilt þar að spyrja hvorn annan en mega skiptast á skoðunum að vild. Í annarri kappræðunni verður um að ræða opinn fund með kjósendum sem spyrja frambjóðendur spurninga. Verða þátttakendur þar valdir af handahófi af Gallup. Er þeim frjálst þar að taka til máls og ræða saman um spurningar. Í seinustu kappræðunni verður um að ræða svipað fyrirkomulag og í þeirri fyrstu nema að þá mega þeir spyrja hvorn annan og ræða saman um málefni. Í fyrstu kappræðunni á fimmtudagskvöldið mun aðallega verða rætt um utanríkis- og varnarmál. Er það málefni sem báðir frambjóðendur hafa gert að miklu umræðuefni í baráttu sinni. Samkvæmt skoðanakönnunum er forsetinn sterkari í þeim málaflokki og nær betur til kjósenda en Kerry. Á flokksþingi demókrata lagði Kerry upp með það sem grunnatriði sinnar baráttu en það hefur breyst eftir því sem liðið hefur á. Seinustu vikur hefur hann aftur á móti ráðist harkalega að forsetanum vegna stefnu hans varðandi stríðið gegn hryðjuverkum og Írak, þar sem hann sjálfur stendur veikur fyrir. Bush hefur forskot í skoðanakönnunum svo líklegt er að hann verði hófstilltari í kappræðunni á fimmtudag en Kerry, sem hefur eins og staðan er nú allt að vinna og engu að tapa. Verður fróðlegt að sjá hvernig slagurinn þróast eftir að kappræðurnar hefjast á fimmtudaginn, þar sem Kerry og Bush mætast í umræðum í fyrsta skipti, augliti til auglitis.

John HowardSpennandi þingkosningar eru framundan í Ástralíu þann 9. október nk. Undanfarna mánuði hefur stefnt í að ríkisstjórn John Howard forsætisráðherra, myndi bíða afhroð í kosningunum, en forsætisráðherranum hefur tekist á seinustu vikur að snúa vörn í sókn og samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum leiðir hann slaginn í fyrsta skipti það sem af er liðið árinu. Stefndi lengi vel í að Verkamannaflokkurinn myndi ná að vinna kosningarnar og að leiðtogi flokksins, Mark Latham yrði forsætisráðherra landsins. Fylgi ríkisstjórnarinnar tók mikla niðursveiflu eftir Íraksstríðið, en Howard og flokkur hans studdu innrásina í Írak með krafti og hefur varið þá ákvörðun síðan, á meðan henni hefur verið mótmælt af almennum kjósendum. Íhaldsflokkur Howards hefur stjórnað í Ástralíu í þrjú kjörtímabil, eða allt frá árinu 1996. Var talið í fyrra að Howard myndi draga sig í hlé fyrir kosningar en hann tók síðan þá ákvörðun að bjóða sig fram á ný, í síðasta skipti. Howard hóf opinbera kosningabaráttu um helgina með því að heita 6 milljarða dollara framlögum til nýrra verkefna eða sem svarar 280 milljörðum króna. Íhaldsflokkurinn stefnir að því að peningarnir verðir settir í fjölskylduvæn verkefni, t.d. í skóla, læknisþjónustu utan dagvinnutíma, barnagæslu, skattaívilnanir til smáfyrirtækja og stofnun 24 iðn- og verknámsskóla í héruðum þar sem skortur er á verkmenntun. Er ljóst að Íhaldsflokkurinn hefur náð að snúa vörn í sókn og er líklegra nú en áður að hann nái að halda völdum. Hægristjórn Howards hefur 82 þingmenn á 150 manna þingi Ástralíu og missir því hreinan meirihluta ef hún tapar 7 þingmönnum. Einnig gæti stefnt í að flokkurinn missti meirihlutann en héldi leiðtogahlutverki sínu á landsvísu og þyrfti því að leita eftir samstarfi við smáflokka í samsteypustjórn. Verður fróðlegt að sjá hver úrslitin verða.

Tölvugerð mynd af mislægum gatnamótum við Miklubraut og KringlumýrarbrautEftir hverju er beðið - mislæg gatnamót sem fyrst!
Með ólíkindum er að fylgjast sífellt með ráðleysi og aumingjaskap R-listans dauðyflislega, sem ræður förinni í borgarstjórn Reykjavíkur, varðandi málefni gatnamótanna við Miklubraut og Kringlumýrarbraut. Í síðustu viku felldu borgarfulltrúar R-listans tillögu Sjálfstæðisflokksins og Frjálslyndra um að hraða framkvæmdum við mislæg gatnamót þar. Enn einu sinni gerist það að R-listinn bregður fæti fyrir þessar mikilvægu samgönguúrbætur sem um er rætt. Sannast enn einu sinni að R-listinn er algjörlega úr tengslum við hinn almenna borgara og gerir ekkert með tillögur þeirra sem vilja sannarlegar úrbætur í þessum efnum. Það sjá allir sem fara um gatnamótin að fyrir löngu er tímabært að taka málefni þeirra til endurskoðunar og gera þar mislæg gatnamót og ná tökum á umferðarhnútunum þar og minnka slysahættuna sem er nokkur eins og allir vita. Það er með þetta mál eins og svo mörg fleiri að R-listinn hefur ekki pólitíska forystu eða kraft til að leiða það til lykta, það er farið að tala um Sundabrautina sem framtíð, sem kemur varla fyrr en eftir tvo áratugi, sem reyndar er deilt líka um af krafti hjá R-listanum. Frá því fyrrum borgarstjóra R-listans var hent á dyr eftir að hafa svikið samstarfsfólk sitt, eins og frægt varð, hefur R-listinn verið í dauðateygjunum, minnir einna helst á rekald á úthafinu sem enginn stýrir eða allt er upp í loft og engin samstaða um að nokkur stýri með krafti. Á meðan gjalda borgarbúar fyrir þessa veikluðu og aumu stjórnun. Kominn er tími til að skipta um framtíðarsýn og áherslur í borgarmálum. En það er ljóst að mislæg gatnamót verða að verða að veruleika við þessi gatnamót sem fyrst!

Dagurinn í dag
1968 Söngleikurinn Hárið frumsýndur í London - varð einn af vinsælustu söngleikjum aldarinnar
1981 Sr. Pétur Sigurgeirsson, 62 ára sóknarprestur á Akureyri og vígslubiskup á Hólum, kjörinn biskup Íslands. Pétur hlaut aðeins einu atkvæði fleira í biskupskjöri en sr. Ólafur Skúlason. Pétur gegndi embætti biskups allt til ársins 1989, en þá var Ólafur Skúlason kjörinn eftirmaður hans sem biskup
1996 Talibanar ná yfirráðum í Kabúl, höfuðborg Afganistans, og hengdu Mohammad Najibullah fyrrum forseta landsins og samverkamenn hans - stjórn Talibana var felld af Bandaríkjamönnum 2001
1998 16 ára viðburðaríkum valdaferli Helmut Kohl sem kanslara Þýskalands lýkur formlega, er Gerhard Schröder tekur við embætti kanslara í Þýskalandi. Kristilegi demókrataflokkur Kohls tapaði í þingkosningum fyrir Sósíaldemókrataflokki Schröders. Kohl hætti með þessu þátttöku í stjórnmálum
1999 Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, datt af hestbaki og axlarbrotnaði þegar hann var í útreiðartúr með vinkonu sinni, Dorrit Moussaieff - þau giftust á sextugsafmæli hans, 14. maí 2003

Snjallyrði dagsins
True friendship is seen through the heart not through the eyes.
Eleanor Roosevelt forsetafrú Bandaríkjanna (1884-1962)

26 september 2004

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um umræðuna um Hæstarétt í tilefni þess að framundan er að skipa nýjan dómara í Hæstarétt. Deilt er um álit dómara á umsækjendum en það að skipa þeim í hæfnisröð hefur leitt til átaka um hæfni umsækjenda og hvort dómarar líti á þá pólitískt frekar en faglega. Tel ég mikilvægt að minna á afstöðu mína til að breyta lögum um réttinn, að dómarar velji ekki eftirmenn sína eða vinnufélaga. Finnst mér vera algjörlega óviðunandi að sitjandi dómarar við réttinn setjist niður og plotti um hverjir eigi að starfa með þeim í réttinum og hvort jafnvel einhverjir sæki um því sumum þar lítist ekki vel á einhvern fyrri umsækjenda. Að mínu mati eiga dómarar aðeins að leggja það mat hverjir séu hæfir til að gegna störfum í Hæstarétti, eins og fram kemur í 4. grein dómstólalaga frá árinu 1998. Reyndar má spyrja sig þeirrar spurningar hvort fyrirkomulag við skipan dómara sé ekki orðið úrelt og hvort rétt sé að dómarar við réttinn felli mat með þessum hætti hverjir séu hæfir og hverjir ekki. Er ekki eðlilegra að breyta lögunum með þeim hætti að nefnd lagaspekinga leggi mat á hæfni umsækjenda og skili úrskurði þar um, en ekki sitjandi dómarar að fella mat yfir því hverjir séu hæfari en aðrir til að vinna með þeim í réttinum á komandi árum. Nýleg hæfnisröð dómara við skipan í þessa lausu stöðu við réttinn vekur upp margar spurningar óneitanlega. Að mínu mati er nauðsynlegt að breyta lögum um réttinn og sérstaklega binda enda á að sitjandi dómarar hafi eitthvað um það að segja hverjir taka sæti í réttinum. Það er nauðsynlegt að stokka þessa 4. grein upp, láta óháða aðila sem ekki eiga sæti í réttinum meta umsækjendur með þessum hætti. Verkfall grunnskólakennara hefur staðið í viku, fjalla ég um það og afleiðingar þess. Fimm vikur eru til forsetakosninga í Bandaríkjunum, fjalla ég um slaginn nú þegar kappræðurnar eru að hefjast. Ég var kjörinn formaður Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, í vikunni. Ég fjalla um markmið mín í starfinu í lok pistilsins.

Þorvaldur Davíð Kristjánsson og Guðjón Davíð Karlsson í HárinuEinstök upplifun í Höllinni
Andi friðar og ástar sveif yfir Akureyri á föstudagskvöld. Söngleikurinn Hárið var þá sýndur tvisvar sama kvöldið fyrir fullu húsi í Íþróttahöllinni hér í bænum. Samtals sáu rúmlega 3000 manns sýningarnar tvær, þá fyrri kl. 20:00 og hina seinni kl. 23:00. Mikill kraftur fer í eina sýningu af hálfu leikaranna og hvað þá tvær sama kvöldið. Það voru líka þreyttir en einstaklega hamingjusamir aðstandendur sýningarinnar sem voru hylltir á báðum sýningunum. Hárið er einstaklega góður söngleikur, með frábærum lögum og er vel skrifaður. Boðskapur Hársins á alltaf vel við. Í okkur öllum blundar hippinn, frelsi einstaklingsins til eigin lífsbaráttu og tjáningar á lífi sínu blundar í okkur öllum. Hver vill lifa án frelsis og þeirra tækifæra sem fylgja því? Friðarboðskapurinn er einnig sterkur í grunninn og öll viljum við friðvænlegan og góðan heim, öll viljum við lifa lífinu í sönnum friði og í sátt og samlyndi við alla. Söngleikurinn er því jafnsígildur nú og þegar hann var fyrst sýndur í Bandaríkjunum í lok sjöunda áratugarins. Þetta er klassískt efni, klassískur boðskapur og klassísk túlkun á veruleikanum. Ég fór á fyrri sýninguna, það var hreint einstök stemmning ríkjandi. Þvílík stemmning, segi ég bara. Krafturinn og orkan var slík að þetta var einstök upplifun. Þakið ætlaði að rifna af höllinni við fagnaðarlætin í lokin, sándið var magnað í lögunum. Ég fór á sýninguna í Austurbæ í sumar og fannst það alveg einstaklega gaman. En það var enn skemmtilegra á sýningunni hér en þar. Meiri kraftur, meira líf og meiri power bara. Frábær sýning og allt tókst vel upp. Var virkilega gaman að fá hið kraftmikla og lífsglaða Hárfólk hingað norður! Takk kærlega fyrir mig. Svo má ekki gleyma að ég fór á Egó í Sjallanum í gær, magnaðir tónleikar. Frábært, í einu orði sagt!

Dagurinn í dag
1915 Styttan af Kristjáni 9. Danakonungi, eftir Einar Jónsson, var afhjúpuð við Stjórnarráðið
1960 Rúmlega 60 milljón Bandaríkjamanna fylgjast með fyrstu sjónvarpskappræðum bandarískra forsetaefna. John F. Kennedy öldungadeildarþingmaður og Richard M. Nixon varaforseti, tókust á í einvíginu. Almennt var talið að Kennedy hefði haft betur í þessu fyrsta einvígi og framkoma hans þar haft mikið að segja um að hann sigraði í kosningunum. Kennedy var myrtur í Dallas 22. nóvember 1963 og Nixon var kjörinn forseti árið 1968 en sagði af sér embætti fyrstur forseta, árið 1974
1961 Söngvarinn Bob Dylan hélt sína fyrstu tónleika - hann varð einn vinsælasti söngvari aldarinnar
1984 Bretland og Kína semja um að Kína taki við fullum yfirráðum á Hong Kong 1. júlí 1997
1988 Kanadíski spretthlauparinn Ben Johnson sviptur gullverðlaunum í 100 m. hlaupi á Ólympíuleikunum í Seoul í S-Kóreu eftir að kom í ljós í lyfjaprófi að hann hafði notað ólögleg efni.

Snjallyrði dagsins
A true friend is the greatest of all blessings, and that which we take the least care of all to acquire.
Francois de La Rochefoucauld rithöfundur (1613-1680)

24 september 2004

AkureyriHeitast í umræðunni
Tilkynnt var seinnipartinn í gær um sameiningu Burðaráss og Kaldbaks. Sameinast þau undir merkjum Burðaráss, en Burðarás greiðir fyrir bréfin í Kaldbaki með því að auka hlutafé um u.þ.b. 20%. Samherji og Baugur eiga eftir viðskiptin bæði um 5% hlut hvort í Burðarási. Þorsteinn Már Baldvinsson, Björgólfur Thor Björgólfsson og Jón Ásgeir Jóhannesson sameinast með þessu í fjárfestingarfélagi sem hyggst að mestu leyti fjárfesta erlendis. Sviptingarnar urðu miklar á rúmum hálftíma eftir að tilkynnt var um sameiningu þessara tveggja fjárfestingarfélaga. Kaupfélag Eyfirðinga, seldi öll sín hlutabréf í Kaldbaki, en eignarhlutur þess í því var 27%. Kaupandi bréfanna var Kaldbakur. KEA fær í sinn hlut 3,7 milljarða króna og er bókfærður hagnaður alls um 2,5 milljarðar króna. KEA keypti strax 10% hlut í Samherja sem kostaði um 2 milljarða króna. KEA fær í staðinn 1,7 milljarða króna. Þessar sviptingar marka mikil þáttaskil á Akureyri. Kaldbakur, sem var stofnað sem fjárfestingarfélag KEA, er ekki lengur til. Með því má segja að stór hluti umsvifa KEA í gegnum Kaldbak sem staðið hafa með stórveldi KEA í fjölda áratuga, hafi liðið undir lok. Nýtt stórveldi á því margar eignir hér í bænum, t.d. stóran hluta í Samherja. Með því að Burðarás verði stærsti hluthafinn í Samherja má búast við að Eimskip taki við flutningum á vegum Samherja, en áður hafði Samherji leigt flutningaskip til að koma afurðum sínum til Evrópu og með því sniðgengið Eimskip. Ekki má gleyma að Burðarás (Eimskip) átti þar til fyrr á þessu ári Útgerðarfélag Akureyringa, sem nú heitir Brim. Það er því ljóst að miklar sviptingar hafa átt sér stað í viðskiptalífinu hér á Akureyri með viðskiptum gærdagsins.

KennslaVerkfall kennara hefur nú staðið í rúma fjóra sólarhringa. Enginn sáttatónn er í samninganefndum kennara og sveitarfélaga. Fundi var slitið í gærmorgun eftir stuttar viðræður. Of mikið ber á milli samninganefndanna að mati Ásmundar Stefánssonar ríkissáttasemjara, til að rætt verði saman á næstu dögum og hefur næsti samningafundur ekki verið boðaður fyrr en fimmtudaginn 30. september nk. Það er því ljóst að verkfall kennara mun verða langt og líklegast mun líða á löngu áður en nemendur geta haldið á ný í skólann og notið þeirrar menntunar sem þeir eiga rétt á. Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna kom saman í gærkvöld og samþykkti ályktun um verkfall grunnskólakennara. Í henni segir svo: "Stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna harmar að grunnskólakennarar hafi farið í verkfall. Eðlilegra væri ef kennarar myndu taka skref í faglega átt í kjaradeilu sinni og hefja umræðu um mat á hæfni og dugnaði hvers og eins kennara. Slíkt er mun vænlegra til árangurs en karp um kennsluskyldu og frítíma. SUS hvetur sveitafélög og kennara að íhuga breytt fyrirkomulag samninga og einkaframkvæmd í rekstri skólastofnana sem stuðlar að fjölbreyttara og litríkara skólastarfi. Samband ungra sjálfstæðismanna telur verkfallsvopnið vera úrelt tæki í kjarabaráttu. Verkfall kennara bitnar fyrst og fremst á þeim er síst skyldi, skólabörnum. Verkföll eru leifar gamalla tíma úr úreltri kjarabaráttu og notkun þess setur í þessu tilfelli heila stétt á lægri stall. Verkfallið dregur um leið úr áhuga ungs fólks á kennarastarfinu. Sérstaklega harmar SUS hörð viðbrögð forystu kennarasambandsins við jákæðu frumkvæði fyrirtækja að bjóða börnum gæslu á vinnutíma foreldra sem er fráleitt að kalla verkfallsbrot." Gat ég ekki setið fundinn vegna aðalfundar Varðar, sem haldinn var á sama tíma. Þessi ályktun er hinsvegar mjög góð og kraftmikil. Líst mér vel á hana.

Stefán Friðrik Stefánsson formaður VarðarAðalfundur Varðar
Aðalfundur Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, var haldinn á Hótel KEA í gærkvöldi. Fundurinn fór mjög vel fram og var fjörugur á köflum. Í upphafi fundar flutti Guðmundur Egill Erlendsson fráfarandi formaður, skýrslu stjórnar og Birgir Örn Tómasson fráfarandi gjaldkeri félagsins, gerði grein fyrir fjármálum þess. Varð nokkur umræða á fundinum um stjórnmálaástandið og helstu málefnin sem varða kjördæmið og Akureyrarbæ og stjórnmálaályktun samþykkt. Ennfremur voru á fundinum samþykkt ný lög félagsins. Að því loknu var komið að stjórnarkjöri. Var ég kjörinn formaður Varðar, næsta starfsárið. Með mér í stjórn munu sitja á næsta starfsári, þeir Bergur Þorri Benjamínsson og Sindri Alexandersson. Varamenn í stjórn voru kjörnir Sigurgeir Valsson og Atli Hafþórsson. Ég hef á seinustu árum reynt af fremsta megni að tjá mig um hitamál samtímans og taka þátt af krafti í stjórnmálum. Ég mun sem formaður Varðar, leitast við að stýra félaginu af krafti og mun kappkosta að vera traustur talsmaður ungra sjálfstæðismanna bæði hér og fyrir allt kjördæmið, sem stjórnarmaður í SUS. Þrjú atriði verða höfuðmarkmið mín: leggja mikla áherslu á að virkja ungt fólk til virkrar þátttöku í stjórnmálum, kynna hugsjónir sjálfstæðismanna bæði sem lúta að auknu frelsi einstaklingsins og minni ríkisafskipta, og síðast en ekki síst að rödd ungliðanna verði virk. Ég er nú sem ávallt fyrr tilbúinn til að leggja mig allan fram í þessu starfi, áhuginn á að láta gott af mér leiða knýr mig áfram.

Don't be economic girlie-men - nýr bolur frá SUS!

Dagurinn í dag
1957 Dwight D. Eisenhower forseti Bandaríkjanna, sendir þjóðvarðlið Bandaríkjanna til Little Rock í Arkansas, til að tryggja að blökkubörn komist til skóla. Fólk mótmælti því að börn, svört á hörund, gengi í sama skóla og hvít börn. Deilunni lauk með því að börnin komust í skólann, daginn eftir
1966 Menntaskólinn við Hamrahlíð settur fyrsta sinni. Guðmundur Arnlaugsson var fyrsti rektor MH
1988 Kanadíski spretthlauparinn Ben Johnson vann gullverðlaun í 100 m. hlaupi á Ólympíuleikunum í Seoul í S-Kóreu - hann missti verðlaunin eftir að kom í ljós í lyfjaprófi að hann hafði notað ólögleg efni. Hann var sendur heim í refsingarskyni og var dæmdur í tveggja ára keppnisbann og sviptur keppnisréttindum ævilangt eftir að hann féll á lyfjaprófi 1993 - Carl Lewis hlaut gullið 1988
1991 Hljómsveitin Nirvana gefur út plötu sína, Nevermind - markaði þáttaskil í tónlistarsögunni
1993 Samtök iðnaðarins voru stofnuð í Reykjavík - samtökin tóku við hlutverki alls sex iðnfélaga

Snjallyrði dagsins
If you think you can win, you can win. Faith is necessary to victory.
William Hazlitt (1778-1830)

23 september 2004

StjórnarráðiðHeitast í umræðunni
Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, skipaði í gær Jón Sveinsson lögmann, sem formann einkavæðingarnefndar í stað Ólafs Davíðssonar fráfarandi ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins, sem gegnt hefur formennsku í nefndinni frá árinu 2002. Er það í samræmi við það að Framsóknarflokkurinn tekur við forystu nefndarinnar af Sjálfstæðisflokknum samhliða forsætisráðherraskiptum í síðustu viku. Í kjölfar þess tilkynnti hinn nýi formaður að framkvæmdanefnd um einkavæðingu hefði ákveðið að auglýsa eftir ráðgjafa vegna fyrirhugaðrar sölu á hlutabréfum ríkisins í Símanum. Mun jafnt innlendum sem erlendum aðilum bjóðast að senda tilboð í ráðgjöfina. Samkvæmt verkefnislýsingu felst verkefni ráðgjafa m.a. í að greina og meta mögulega kosti sem til álita koma við söluna og gera tillögur um hvaða leiðir skuli valdar. Frestur til að skila tilboðum er til 28. október n.k. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem setið hefur frá maí 2003 kemur fram að fylgja skuli eftir heimild þingsins um sölu á hlut ríkisins í Símanum og þess jafnframt gætt að sala fyrirtækisins fari fram þegar markaðsaðstæður eru hagstæðar og þannig tryggt að ríkissjóður fái sanngjarnt verð fyrir eign sína. Eins og fram kom þegar forsætisráðherra tók við embætti í síðustu viku er stefnt að sölu Símans í vetur. Að mínu mati er forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar í vetur að selja Símann og fagna ég því að þetta sé ferli sé komið af stað. Standa verður við það að selja Símann í vetur, eigi samstarf flokkanna að haldast jafntraust og verið hefur. Flest bendir til að ferlið verði klárað á næsta þingvetri, sem er ánægjulegt. Það er nauðsynlegt að binda enda á að ríkið sé í samkeppnisrekstri við einkaaðila.

Halldór Blöndal forseti AlþingisÁ næstu vikum verður formlega stofnað einkahlutafélag um gerð hálendisvegar um Stórasand. Kostnaður við framkvæmdina er áætlaður 4,5 til 5,5 milljarðar króna. Ef af vegagerðinni verður mun leiðin milli Akureyrar og Reykjavíkur styttast um rúmlega 80 kílómetra. Halldór Blöndal forseti Alþingis og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, flutti á seinasta þingvetri tillögu til þingályktunar um að samgönguráðherra yrði falið að undirbúa og hrinda í framkvæmd nauðsynlegum rannsóknum og mælingum vegna vegagerðar frá Norðurárdal í Skagafirði um Stórasand til Borgarfjarðar. Hefur vegurinn jafnan gengið undir nafninu Norðurvegur og hefur Halldór talað af krafti fyrir framgangi hans seinustu ár, fyrst í ítarlegri ræðu í febrúar 2002 og fjallaði nánar um tillöguna í ítarlegum pistli á Íslendingi, 10. febrúar 2002. Gert er ráð fyrir vegagerð um Norðurárdal, síðan þvert yfir Skagafjörð sunnan við Mælifell að Kjalvegi sunnan Blönduóss. Á þessari leið fer vegurinn yfir 700 metra hæð á stuttum kafla. Frá Blöndulóni liggur vegurinn svo um Stórasand að Réttarvatni og síðan um Hallmundarhraun , Kaldadal norðan við Þingvallavatn og síðan um Mosfellsheiði. Í fyrsta áfanga er gert ráð fyrir að vegurinn liggi niður í Borgarfjörð. Kostnaðurinn við þessa vegagerð er um 5,5 milljarðar króna. Leiðin milli Akureyrar og Reykjavíkur er núna 389 kílómetrar en með tilkomu fullbúins Norðurvegar verður vegalengdin 307 kílómetrar; munurinn er 82 kílómetrar. Nú er í bígerð að stofna sérstakt félag um byggingu Norðurvegar og er verið að safna hlutafjárloforðum. Sjálfstæðisflokkurinn í Norðausturkjördæmi lagði mikla áherslu á þessa vegagerð í seinustu alþingiskosningum og hefur oft síðan ítrekað þessa tillögu sem nauðsynlega til að stytta leiðina milli Akureyrar og Reykjavíkur, sem er mikið þarfaverkefni. Nauðsynlegt er að tillagan um Norðurveg komi til framkvæmda á næstu árum og verði að veruleika.

Tinna Gunnlaugsdóttir verðandi þjóðleikhússtjóriTinna Gunnlaugsdóttir skipuð þjóðleikhússtjóri
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra, hefur skipað Tinnu Gunnlaugsdóttur í embætti þjóðleikhússtjóra til fimm ára, frá 1. janúar 2005. Tekur hún við embætti af Stefáni Baldurssyni. Átján umsóknir bárust um embættið en þjóðleikhúsráð mælti með sex umsækjendum, þar á meðal Tinnu. Um Tinnu segir svo á vef menntamálaráðuneytisins: "Tinna starfaði hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1978-1979. Hún hóf störf hjá Þjóðleikhúsinu 1979 og var á verkefnasamningi til ársins 1982 er hún hlaut fastráðningu. Hún sat í Þjóðleikhúsráði frá 1988 til 1996 og í verkefnavalsnefnd Þjóðleikhússins frá 1988-2002. Samhliða störfum við Þjóðleikhúsið hefur hún unnið fyrir Alþýðuleikhúsið, Loftkastalann og Leikfélag Íslands. Tinna hefur unnið sem aðstoðarleikstjóri og leikstjóri á sviði, í sjónvarpi og kvikmyndum. Hún hefur setið í stjórn FÍL og var formaður Leikarafélags Íslands um tíma. Þá hefur hún verið forseti Bandalags íslenskra listamanna frá árinu 1998. Tinna hefur verið í forsvari fyrir norrænu listabandalögin frá árinu 2001 og varaforseti Evrópuráðs listamanna frá 2003. Hún situr í kvikmyndaráði og sem varamaður í barnamenningarsjóði og útflutningsráði. Tinna Gunnlaugsdóttir hlaut Fálkaorðuna fyrir störf að menningarmálum árið 2001." Ég vil óska Tinnu til hamingju með starfið og óska henni allra heilla á nýjum vettvangi.

AkureyriAkureyri í öndvegi
Niðurstöður frá íbúaþinginu Akureyri í öndvegi, sem haldið var í Íþróttahöllinni, sl. laugardag, voru kynntar í gær í Hólum, sal Menntaskólans á Akureyri. Ákveðið var fyrr í vikunni að flytja kynninguna frá Hótel KEA þar sem upphaflega átti að kynna tillögurnar, í stærra rými, þar sem mjög mikill áhugi var fyrir kynningunni, mun meiri en skipuleggjendum íbúaþingsins hafði órað fyrir að yrði raunin. Fundurinn á Hólum var velsetinn og salurinn sneisafullur þegar Sigurborg Kr. Hannesdóttir kynnti niðurstöður þingsins. Það var ráðgjafafyrirtækið Alta sem annaðist samráð við hagsmunaaðila og íbúa en fyrirtækið hefur mikla reynslu á þessu sviði. Sigurborg stjórnaði samráðsfundum og undirbúningi þeirra, Halldóra Hreggviðsdóttir annaðist verkstjórn í öðrum verkþáttum og Pétur H. Ármannsson arkitekt, veitti ráðgjöf um þá hlið sem sneri að arkitektúr, skipulagi og samkeppni. Áhugaverðar og skemmtilegar hugmyndir komu fram á íbúaþinginu og var fróðlegt að heyra helstu grunnniðurstöður þingsins. Á næstu dögum munu aðstandendur íbúaþingsins vinna betur úr þeim gögnum sem söfnuðust og er þeirra að vænta um miðjan október. Þá verður farið í að auglýsa alþjóðlega hugmyndasamkeppni um miðbæinn og verða upplýsingarnar sem fram komu á þinginu forsendur keppninnar. Niðurstöður keppninnar verða formlega kynntar á sumardaginn fyrsta 2005. Eftir fundinn í gærkvöldi var gott að ræða saman um tillögurnar yfir kaffibolla og meðlæti frá Kexsmiðjunni sem boðið var upp á. Er greinilegt að bæjarbúum er ekki sama um þetta mál og vilja allt gera til að taka þátt í að móta kraftmikið og öflugt mannlíf hér, okkur öllum til heilla.

Dagurinn í dag
1241 Snorri Sturluson var veginn í Reykholti í Borgarfirði, 63 ára gamall. Snorri var goðorðs- og lögsögumaður og var valdamikill á Sturlungaöld. Hann varð einn af virtustu rithöfundum þjóðarinnar
1943 Alþingi var afhent áskorun frá 270 kjósendum um að slíta ekki konungssambandi við Danmörku að óbreyttum aðstæðum (stríðinu). Ekki var orðið við áskorununum og lýðveldi var stofnað ári síðar
1952 Leikarinn Charles Chaplin snýr aftur til Bretlands, eftir tveggja áratuga dvöl í Bandaríkjunum
1973 Juan Peron snýr aftur til Argentínu eftir 20 ára útlegð, varð á ný forseti landsins. Peron lést tæpu ári síðar og tók ekkja hans, Isabel Perón, við embætti hans, henni var steypt af stóli 1976
1994 Minnismerki var afhjúpað á Öxnadalsheiði í tilefni þess að Halldór Blöndal þáverandi samgönguráðherra, vígði síðasta malbikaða hluta leiðarinnar milli Akureyrar og Reykjavíkur

Snjallyrði dagsins
Horfið er nú sumarið og sólin
í sálu minni hefur gríma völd.
Í æsku, léttu ís og myrkur jólin,
nú einn ég sit um vetrarkvöld.

Því eitt sinn verða allir menn að deyja.
Eftir bjartan daginn kemur nótt.
Ég harma það, en samt ég verð að segja,
að sumarið líður allt of fljótt.
Vilhjálmur Vilhjálmsson (1945-1978) Söknuður

22 september 2004

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Eins og flestum ætti að vera kunnugt skrifaði ég ítarlegan pistil um utanríkismál á frelsi.is í síðustu viku og fór þar yfir stöðu mála við ráðherraskipti í utanríkisráðuneytinu. Meðal annars var þar vikið að 9 ára utanríkisráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra. Minntist ég á að í ráðherratíð Halldórs hefði utanríkisþjónustan bólgnað verulega út. Ráðuneytið hefði fengið 2 og hálfan milljarð á fjárlögum við upphaf ráðherraferils hans en endað með seinustu fjárlögum í 5 og hálfum milljarði, semsagt rúmlega helmingsútþensla í eyðslu á tæpum áratug. Í fréttaskýringu í Fréttablaðinu í dag fjallar Árni Snævarr um sama mál og ég tók fyrir í pistlinum og kemur með fróðlegar tölur að auki þar. Víkur hann þar að væntanlegu fjárlagafrumvarpi og upplýsir þar um þá mikilvægu staðreynd að framlög ríkisins til utanríkisráðuneytisins munu nema 6 og hálfum milljarði á fjárlögum 2005, þeim síðustu sem unnin eru í ráðherratíð Halldórs. Útgjöld ráðuneytisins munu þar með aukast um einn milljarð miðað við fjárlög þessa árs. Samkvæmt umfjöllun Árna munar mestu um 700 milljóna króna aukningu framlaga til þróunarmála. Hækkun útgjalda til friðargæslu og þróunaraðstoðar skýra einnig töluverðan hluta útgjaldahækkunarinnar. Útgjöld til friðargæslu meira en þrefölduðust, fóru úr 83 milljónum í 311, miðað við bara árið 2003. Þróunaraðstoðin hefur nærri því fjórfaldast frá 2003. Þessar tölur eru sláandi, eftir er þá að minnast á sendiráðin og sendiskrifstofurnar. Rekstrarútgjöld þeirra hafa tvöfaldast í ráðherratíð Halldórs. Er sláandi að fara yfir þetta og ljóst að ég hefði getað farið mun víðar í að telja upp bruðl og vitleysu þá sem viðgengst hefur í utanríkisráðuneytinu, en ég hélt mig eingöngu við sendiráðin. Nóg er nú bruðlið þar, þó hitt bætist ekki við. En tölurnar tala sínu máli. Ég vil hinsvegar þakka öllum þeim sem hafa haft samband vegna pistilsins margumrædda fyrir gott spjall um málið og þakka Árna fyrir að hafa tekið þetta mál föstum tökum í umfjöllun sinni, eftir pistlaskrif mín.

HæstirétturGeir H. Haarde fjármálaráðherra, mun á næstu dögum skipa dómara við hæstarétt Íslands, en eins og öllum er kunnugt hefur Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, vikið sæti vegna máls Hjördísar Hákonardóttur, sem sótti um stöðu hæstaréttardómara í fyrra og aftur nú. Dómarar í réttinum skiluðu áliti sínu um mat á umsækjendur og töldu allir nema einn að lagaprófessorarnir Eiríkur Tómasson og Stefán Már Stefánsson væru hæfastir umsækjenda. Næst þeim tveim í matinu kemur Hjördís Björk Hákonardóttir en rétturinn gerir ekki greinarmun á Allan Vagni Magnússyni, Eggerti Óskarssyni og Jóni Steinari Gunnlaugssyni. Ólafur Börkur Þorvaldsson, skilaði séráliti þar sem hann lagði áherslu á afburðaþekkingu Jóns Steinars Gunnlaugssonar á sviði lögfræði. Honum sé ómögulegt að raða Jóni svo aftarlega sem raun ber vitni. Tek ég undir mat Ólafs Barkar. Tel ég að Jón Steinar njóti ekki sannmælis í mati dómaranna. Líst mér vel á að lögmenn hafi nú hafið undirskriftasöfnun til stuðnings Jóni Steinari. Með ólíkindum er að reynsla hans og störf á sviði lögfræði sé svo lítið metin sem raun ber vitni í mati réttarins. Óneitanlega bendir flest til þess að stjórnmálaskoðanir Jóns og tjáning hans á málefnum réttarins hafi frekar áhrif á dómarana en menntun hans og starfsreynsla. Er það óneitanlega miður og því ærin ástæða til að mótmæla álitinu að mínu mati. Það á að meta menn eftir réttum stöðlum, en ekki hentiástæðum þegar umsækjendur eru metnir í tengslum við svo virðulegt embætti. Nauðsynlegt er að breyta lögum um réttinn og sérstaklega binda enda á að sitjandi dómarar hafi eitthvað um það að segja hverjir taka sæti í réttinum.

AkureyrarbærAkureyri í öndvegi
Rúmlega 1500 manns komu saman á íbúaþinginu Akureyri í öndvegi sem haldið var í Íþróttahöllinni, sl. laugardag, þann 18. september. Hefur aldrei verið haldið fjölmennara íbúaþing á Íslandi, og þótt víðar væri leitað. Segja má að tíundi hver Akureyringur hafi mætt á staðinn og voru gestir á öllum aldri. Miklar upplýsingar söfnuðust um fjölmörg atriði sem varða miðbæinn og Akureyri almennt. Seinustu daga hefur verið unnið úr upplýsingunum. Niðurstöður þingsins verða kynntar í kvöld kl. 20.00 í Hólum, sal Menntaskólans á Akureyri. Verða þær nýttar til að skilgreina forsendur í alþjóðlegri hugmyndasamkeppni sem haldin verður svo í kjölfarið. Með þessu þingi var þekking bæjarbúa og áhugamanna um bættan miðbæ virkjuð til að skapa heillandi og kraftmikla framtíðarsýn, okkur öllum hér til heilla. Er þessi vinna og undirbúningur hennar mjög nauðsynleg að öllu leyti til að efla miðbæinn okkar og er lofsvert framtak. Að mínu mati á Ragnar Sverrisson hrós skilið fyrir að hafa ýtt þessu mikla verkefni úr vör og hafa fengið aðra í lið með sér og unnið vel að því að efla hjarta bæjarins okkar, miðbæinn. Án blómlegs og kraftmikils mannlífs er miðbærinn að öllu leyti líf- og þróttlausari. Hef ég sjaldan munað eftir öðrum eins áhuga hins almenna borgara að taka beinan þátt í að móta bæinn sinn og hafi fyrr fengið jafn greiðan aðgang að því að ákveða sjálfur hvað verði gert og fái til þess jafngott tækifæri og hér um ræðir. Er þetta til marks um hið beina íbúalýðræði sem hér er varðandi skipulag bæjarins.

Dagurinn í dag
1957 Árbæjarsafnið í Reykjavík opnað fyrir almenningi - þar er margt sögulegra minja og eldri húsa
1965 Stríðinu milli Indlands og Pakistans um yfirráð yfir Kasmír lýkur eftir að SÞ krefst vopnahlés
1975 Sara Jane Moore reynir að myrða Gerald Ford forseta Bandaríkjanna - tilræðið mistókst
1980 Írak ræðst inn í Íran - leiddi til 8 ára stríðs þessara stórríkja sem lauk með vopnahléi árið 1988
1999 Óskarsverðlaunaleikarinn George C. Scott lést, 72 ára að aldri. Scott var einn af helstu leikurum Bandaríkjanna á 20. öld og hlaut óskarinn 1971 fyrir stórfenglega túlkun á George Patton

Snjallyrði dagsins
Er ekki frá því að ég sé með harðsperrur í kjálkavöðvunum eftir mikið bros undanfarna daga. Guðni sagðist vera uppfullur af hugmyndum um bætta stöðu bænda. Vill sjá miklar innflutningshömlur á erlendar vörur. “Við Íslendingar, sem eigum bestu sauðkind í heimi, erum sjálfum okkur nóg um allt sem við þurfum að eta og drekka”, sagði Guðni. Mikið er nú gott að varaformaður flokksins sé svona sniðugur í landbúnaðarmálum, undirstöðu atvinnuvegi þjóðarinnar. Svona mann hafði Dabbi aldrei enda mun það koma á daginn að Dóri stóri er miklu betri forsætisráðherra en Dabbi var nokkurn tímann. Ligga, ligga lái! Dagný hringdi aftur, nennti ekki að tala við hana núna, hún vildi örugglega bara tala meira um Símann og ég sem er ekki enn búinn að læra á símkerfið. Muna: hringja aftur í Denna og fá upplýsingar um símkerfið og spyrja um hvað starfið snýst í meginatriðum.
Dagbókarbrot forsætisráðherra (birt á Deiglunni)

21 september 2004

George W. Bush forsetiHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, ávarpaði í dag allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York. Í ræðu sinni varði forsetinn stefnu stjórnar sinnar í málefnum Íraks. Kom fram það mat hans að heimurinn yrði að bregðast við ofbeldi og kúgun, ekkert öryggi fælist í því að líta undan. Forsetinn tjáði þá skoðun sína að Bandaríkin og Sameinuðu þjóðirnar hefðu að markmiði sömu hugsjónir um gildi mannslífa. Bandalagsherinn í Írak hefði verið að uppfylla kröfur heimsins með því að hrekja Saddam Hussein frá völdum. Forsetinn hvatti alþjóðasamfélagið til að berjast gegn hryðjuverkum og öfgum með réttlæti og virðingu að leiðarljósi. Kom fram í ræðunni það mat forsetans að hryðjuverkamenn tryðu því að sjálfsmorð og morð væru bæði réttlætanleg og nauðsynleg til að ná fram markmiðum sínum og hegðun þeirra væri í takt við það. Vísaði Bush þar m.a. til gíslatökunnar í grunnskólanum í Beslan í S-Rússlandi fyrr í þessum mánuði. Í ræðunni hvatti forsetinn aðra þjóðarleiðtoga til að hætta stuðningi við þá palestínsku leiðtoga sem hafi brugðist þjóð sinni og svikið málstað hennar. Enginn vafi er á að þar er átt við Arafat forseta Palestínu. Þessi ræða er haldin í skugga þess að í dag eru 6 vikur, 42 dagar, til forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Eins og ég hef vikið að á þessum vettvangi er harkan í slagnum mjög mikil og fá dæmi um harðvítugri kosningabaráttu í sögu Bandaríkjanna. Ljóst er að afglöp í fréttamennsku CBS sem birtust í rangri frétt Dan Rather hefur skaðað mjög keppinaut forsetans og ef marka má fréttir í dag eru komin skýr tengsl á milli fréttarinnar og lykilmanna í kosningabaráttu Kerrys. Rather sem löngum hefur þótt vera hallur til vinstri hefur skaddast mjög sem fréttastjórnandi vegna þessa máls og þykir vera mikið áfall fyrir stöðu hans í fréttamannastéttinni. En eins og fram hefur komið er augljóst að slóð þessarar lygafréttar Rathers verði rakin að fullu.

Davíð Oddsson utanríkisráðherraÍ dag birtist könnun í Fréttablaðinu um persónufylgi stjórnmálamanna. Sem fyrr er Davíð Oddsson utanríkisráðherra, sá stjórnmálamaður sem nýtur mestra vinsælda almennings og er jafnframt sá sem er óvinsælastur. Hefur þetta jafnan verið með þessum hætti í könnunum af þessu tagi síðasta áratuginn. Traust fólks á Davíð eykst nokkuð frá seinustu könnun og óvinsældir hans minnka mjög. 27,6% treysta Davíð mest og bætir hann við sig nærri 7 prósentum frá seinustu könnun. Steingrímur J. Sigfússon formaður VG, kemur næstur en 22% treysta honum best. Þriðji er Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, með 16% á bakvið sig. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi og varaformaður Samfylkingarinnar, kemur í fjórða sæti með 9%. Er fylgi hennar ekkert í líkingu við aðdraganda síðustu kosninga þegar hún trónaði á toppi traustslistans og 37,8% treystu henni mest. Er fall hennar mjög athyglisvert í þessum könnunum, en skiljanlegt í ljósi þess að hún er lítt sýnileg orðið í forystusveit stjórnmála, enda óbreyttur borgarfulltrúi og varaþingmaður með næsta lítil sýnileg pólitísk áhrif, sem er viðbrigði eflaust fyrir hana eftir að hafa setið sem borgarstjóri í tæp 9 ár. Útreið Össurar Skarphéðinssonar er því verri, 5% treysta honum best, meðan 13% vantreysta honum mest. Athyglisverðar tölur. En það vekur óneitanlega athygli að ekki er sagt frá niðurstöðum á forsíðu, heldur á innsíðum blaðsins. Sennilega er það ekki fréttaefni að mati Fréttablaðsins að persónufylgi leiðtoga stjórnarflokkanna sé svo traust sem raun ber vitni, eftir gerningaveður sumarsins í stjórnmálum.

Ástþór Magnússon myndar DV-liðið
Dagbók forsætisráðherra - gargandi snilld!

KB bankiGott framtak hjá KB banka
Tilkynnt var á blaðamannafundi hér á Akureyri í gær að KB banki hefði í hyggju að auka umsvif bakvinnslusviðs bankans með því að stofna nýja deild hér í bænum. Um verður því að ræða talsverða stækkun á rekstri bankans hér. Um er að ræða 12-15 ný störf við KB banka á Akureyri en starfsmennirnir munu annast ýmis bakvinnslustörf fyrir höfuðstöðvar bankans og útibú hans. Fram kemur í tilkynningu frá bankanum að þessi störf hafi áður verið unnin í höfuðstöðvum bankans í Reykjavík en að hluta til í hverju útibúi fyrir sig. Hér sé um aukningu að ræða á þessu sviði innan KB banka, í réttu hlutfalli við aukin umsvif bankans. Nú er unnið að breytingum á húsnæði á 2. hæð KB banka við Geislagötu á Akureyri en þar verður hin nýja starfsemi til húsa. Á næstu vikum verður ráðið í 5-8 störf en næsta vor er gert ráð fyrir að búið verði að ráða fólk í 12-15 störf. KB banki er eins og flestir vita stærsti banki landsins og hefur umfang starfsemi hans aukist með miklum hraða á því tæpa ári sem hann hefur starfað. Bankinn rekur nú 36 útibú og afgreiðslustöðvar hér á landi en er auk þess með öfluga og sívaxandi starfsemi erlendis. Er hér um að ræða einn lið í þeirri stefnu bankans að efla Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið. Er þetta mikið ánægjuefni og gleðilegt að bankinn vinni með slíkum krafti að því að styrkja bæinn. Er hér um mun mannlegri vinnubrögð að ræða en þau sem Landsbankinn sýndi nýlega með því að fækka starfsmönnum sínum í útibúi sínu hér í bænum.

Dagurinn í dag
1918 Fyrsta konan fékk ökuskírteini, Áslaug Þorláksdóttir - þá höfðu 80 karlar fengið skírteini
1937 Bókin Hobbitinn eftir J.R.R. Tolkien kemur út, í kjölfar þess kom Hringadróttinssaga út
1974 Leikarinn Walter Brennan lést, 80 ára að aldri. Hann hlaut þrenn óskarsverðlaun á ferli sínum
1998 Myndbandsupptaka af vitnisburði Bill Clinton um samband sitt við Monicu Lewinsky, sýnd
2000 Örn Arnarson varð í fjórða sæti í 200 metra baksundi á Ólympíuleikunum í Sydney í Ástralíu

Snjallyrði dagsins
Er enn þá forsætisráðherra, trúi því varla enn. Minn langar að lækka skatta eins og Dabbi vildi gera. Minn langar líka að ganga í Evrópusambandið þó það sé erfitt núna miðað við núverandi fiskveiðistefnu þess enda mun þá verðmæti kvóta Skinneyjar lækka. Best að tala við Guðna um hvað við getum gert meira fyrir bændur landsins. Dagný vill að öll heimili landsins verði ADSL vædd áður en við seljum símann. Snjöll stúlka, þetta mun örugglega færa Framsókn aukin atkvæði. Get alveg hugsað mér að styðja þetta þó svo það kosti jafnmikið að ADSL væða þau 8% heimila landsins sem eru eftir eins og hin 92%. Spurning um að fresta sölu Símans.
Dagbókarbrot forsætisráðherra (birt á Deiglunni)

20 september 2004

John Kerry og George W. BushHeitast í umræðunni
Samkomulag hefur náðst milli forystu forsetaframboða George W. Bush og John Kerry, um fyrirkomulag kappræðna milli frambjóðendanna, eftir margra mánaða samningaviðræður. Mun verða um að ræða þrjár kappræður líkt og árið 2000 þegar Bush mætti Al Gore. Fyrstu kappræðurnar verða eftir 10 daga, þann 30. september í Háskólanum í Coral Gables í Miami, Flórída. Þær næstu verða í Washington háskólanum í St. Louis þann 8. október og í háskólanum í Tempe í Arizona, 13. október. Varaforsetaefnin Dick Cheney og John Edwards munu eigast við í einni kappræðu, í Case Western háskólanum í Cleveland, 5. október nk. Tók langan tíma að ræða fyrirkomulag kappræðnanna og hefur aldrei legið fyrir svo seint hvernig þær muni fara fram. Nú þegar 43 dagar eru til kosninganna, ganga skotin á milli frambjóðendanna og í dag réðist Kerry að Bush vegna Íraksmálsins. Kallaði hann innrásina söguleg mistök og sagði hana útúrsnúning í stríðinu gegn hryðjuverkum. Bush svaraði á móti með að Kerry hefði engar nýjar hugmyndir um hvernig vinna mætti stríðið í Írak. Hann sakaði keppinaut sinn um að velja fremur að standa með Saddam Hussein en lýðræði þar. Í dag viðurkenndi svo CBS að hún gæti ekki ábyrgst að minnisblöðin sem áttu að sýna fram á óhlýðni forsetans í þjóðvarðliði Texas á áttunda áratugnum væru ófölsuð. Yfirlýsing stöðvarinnar er reiðarslag fyrir aðalþul stöðvarinnar og fréttastjórnanda, Dan Rather, sem hafði sagst geta staðið við frétt sína, en bað forsetann í dag afsökunar fyrir fréttina. Hvíta húsið brást við með því að alvarlegum spurningum um minnisblöðin væri ósvarað og kafa þyrfti til botns í því hvaðan þessi fölsuðu gögn hefðu komið. Gaf blaðafulltrúi Hvíta hússins í skyn í fyrirspurnartíma fréttamanna í dag að þau mætti rekja til demókrata, slóðin væri augljós í þá átt. Harkan í slagnum heldur því greinilega áfram af fullum krafti, og eykst stöðugt. Slagurinn verður sífellt beittari og óvægnari.

kennslaVerkfall grunnskólakennara hófst á miðnætti, eftir að slitnaði formlega uppúr viðræðum kennara og sveitarfélaga. Er ástand viðræðnanna með þeim hætti að ekki þótti tilefni til frekari viðræðna og er næst stefnt að samningafundi á fimmtudag, sem er til marks um hversu mikið er á milli samninganefndanna, hvað varðar kaup og kjör kennaranna. Má segja að himinn og haf sé á milli. Svo rúmt er bilið að samninganefndirnar eru ekki sammála um hvað tilboð kennaranna sem lagt var fram í gær hefði kostað sveitarfélögin. Er þetta fyrsta stóra verkfallið sem skellur á í grunnskólunum frá 1995, en þá var verkfall í tæpar sex vikur í grunn- og framhaldsskólum, en samið var 1997 eftir tæplega sólarhringsverkfall. Samið var árið 2001 án þess til að verkfalls kæmi. Eins og ég sagði á föstudag er óbilgirni og yfirgangur kennara með hreinum ólíkindum. Fram hefur komið að kennarar telji leikjanámskeið fyrirtækja fyrir börn starfsmanna verkfallsbrot. Harkan í þessu verkfalli er mikil og á ekki eftir að minnka verði ekki samið bráðlega. Fyrir liggur að ekki er svigrúm hjá sveitarfélögunum til að mæta ítrustu kröfum kennara, og því spurning hvað tekur við. Á meðan sitja krakkarnir heima og eru enn einu sinni í gíslingu kennara sem beita börnunum óspart fyrir sig sem vopni, enn einu sinni. Er ekki sérlega skemmtilegt að fylgjast með þessu gerast, nú enn eina ferðina. Það er skylda fólks að semja og vonandi gerist það sem fyrst, áður en menntun grunnskólabarna er stefnt verulega í hættu.

Ástþór tekur til sinna ráða - nettur húmor þarna á ferðinni

Al PacinoEmmy-verðlaunin 2004
Emmy sjónvarpsverðlaunin voru afhend í Los Angeles í nótt. Með þeim er verðlaunað helsta sjónvarpsefni í Bandaríkjunum sl. ár. Sjónvarpsþættirnir um Soprano fjölskylduna hlutu nú loks verðlaunin sem besta dramaþáttaröðin. Er þetta í fyrsta skipti sem þættirnir hljóta verðlaunin, en þeir höfðu verið tilnefndir fjórum sinnum áður en aldrei hlotið hið eftirsótta hnoss. Lengi vel þótti það skaða möguleika þáttanna að vera sýndir á kapalstöð, en þáttur sem eingöngu er sýndur þar hafði aldrei fyrr hlotið verðlaunin. En nú var loks komið að sigurstund Sopranos. Þættirnir Angels in America, sem sama kapalstöð, HBO, framleiðir og sýnir, hlaut 11 verðlaun, sem er nýtt met í langri sögu verðlaunanna. Þátturinn er byggður á verðlaunaleikriti Tony Kushner um alnæmisfaraldurinn á níunda áratugnum. Fékk þátturinn sjö verðlaun í gærkvöldi, en hafði áður hlotið fern fyrir tæknivinnu. Eldra met í fjölda verðlauna áttu þættirnir Roots, sem vann 9 verðlaun árið 1977. Al Pacino, Meryl Streep, Mary-Louise Parker og Jeffrey Wright fengu öll verðlaun fyrir leik sinn í Englunum, Kushner vann fyrir besta handritið og Mike Nichols var verðlaunaður fyrir leikstjórn. Michael Imperioli og Drea de Matteo fengu verðlaun fyrir bestan leik í aukahlutverkum í dramaþáttum fyrir leik sinn í Sopranos. Allison Janney hlaut í fjórða skiptið verðlaun fyrir besta leik í kvenhlutverki í dramaþáttaröðinni The West Wing og James Spader fyrir karlhlutverk í dramaþáttaröðinni The Practice. Besta gamanþáttaröðin var valin Arrested Development. Kelsey Grammer var valinn í fjórða sinnið sem besti karlleikari fyrir leik sinn í Frasier og Sarah Jessica Parker var valin besta gamanleikkonan fyrir Sex and the City. Fyrir besta gamanleik í aukahlutverki fengu verðlaunin þau David Hyde Pierce fyrir Frasier, og Cynthia Nixon fyrir Sex and City. Báðir þættir luku göngu sinni á árinu. The Amazing Race var svo valinn besti raunveruleikasjónvarpsþátturinn, annað árið í röð. Talandi um Sopranos, í kvöld byrjar ný sería af þáttunum í sjónvarpinu. Mikið verður nú indælt að fá þættina aftur. Skotheldir þættir!

Dagurinn í dag
1519 Landkönnuðurinn Ferdinand Magellan leggur af stað í langa sjóferð sína um heiminn
1900 Ofsaveður gekk yfir landið - meira en 30 manns fórust í veðrinu, þar af drukknuðu 18 manns á Arnarfirði. Kirkjurnar á Urðum og Upsum í Svarfaðardal fuku af grunnum sínum og brotnuðu í spón
1946 Fyrsta kvikmyndahátíðin í Cannes er haldin - kvikmyndahátíðir eru haldnar þar á hverju ári
1979 Flóttamenn frá Víetnam, alls 34, komu til landsins - stærsti hópur útlendinga sem hingað kom
1995 Ný brú, yfir Jökulsá á Dal, var formlega tekin í notkun. Hún er 125 metra löng og 40 metra há

Snjallyrði dagsins
Stjórnmálin eru enginn hægindastóll.
Lárus Jónsson fyrrum alþingismaður og bankastjóri (í viðtali við MBL - 19. september 2004)

19 september 2004

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um forsætisráðherraskipti í ríkisstjórninni, en Halldór Ásgrímsson tók við forystu í ríkisstjórninni af Davíð Oddssyni sl. miðvikudag. Hafði Davíð þá setið á forsætisráðherrastóli lengur en nokkur annar Íslendingur, rúm 13 ár. Fjalla ég samhliða því um hvað áunnist hefur í forsætisráðherratíð Davíðs, um undarleg viðbrögð formanns stjórnarandstöðuflokks við forsætisráðherraskiptum og um nýjan umhverfisráðherra, en sjálfstæðismaður tekur nú í fyrsta skipti við forystu málaflokksins. Pistill minn um utanríkismál í vikunni vakti talsverða athygli, fjalla ég um pistilinn og tengda þætti. Þótti mér ánægjulegt að yfirlitspistill minn um utanríkismál, stöðu mála eftir ráðherratíð Halldórs Ásgrímssonar og hvað við blasi í ráðuneytinu er nýr ráðherra tekur til starfa, vakti slíka athygli. Tilgangur minn með þessum pistli var að vekja máls á þeim þáttum sem mikilvægast er að ræða varðandi utanríkisráðuneytið á þessum tímamótum sem nú verða er Davíð tekur til starfa. Ég hef alltaf haft gríðarlega mikinn áhuga á utanríkismálum, hef fylgst langmest með þeim málaflokki síðan ég fór að fylgjast með stjórnmálum og skrifað talsvert um þessi mál. Að mínu mati jafnast enginn málaflokkur á við utanríkismálin. Það er alveg sama hversu djúpt er kafað í utanríkismál, aldrei er komist endanlega til botns. Þetta er að mínu mati langmest heillandi málaflokkurinn og ávallt um að ræða mikla áskorun fyrir hvern þann sem fylgist með stjórnmálum að kynnast vel stöðu mála á erlendri grundu og fjalla um það sem gerist þar. Ísland og umheimurinn eiga góða samleið, þegar kemur að umfjöllun um stjórnmál dag hvern. Að lokum vík ég að íbúaþingi sem haldið var á Akureyri um helgina, þar sem mikill fjöldi íbúa bæjarins mætti í Íþróttahöllina og tjáði skoðanir sínar á framtíðarskipulagi miðbæjarins okkar. Var ánægjulegt að sjá hversu vel fólk var virkjað til að taka virkan þátt í mótun miðbæjarins.

AkureyriÍbúaþing á Akureyri
Kraftmikil umræða hefur átt sér stað hér á Akureyri seinustu vikur og mánuði um skipulagsmál, ekki síst sem miðar að því markmiði að efla miðbæinn okkar, sem er óneitanlega hjarta okkar góða samfélags hér. Var mjög ánægjulegt að sjá hvernig nokkrir athafnamenn í bænum tóku höndum saman í því markmiði að efla bæinn og stigu það skref að stofna með sér hóp og ákváðu að efna til íbúaþings um málið. Þingið fór fram í gærmorgun í Íþróttahöllinni, og var það opið fyrir alla sem áhuga höfðu á málinu. Komu þar saman vel yfir þúsund manns, til að ræða málin, skiptast á hugmyndum og eiga góða stund saman og vinna af krafti að þessu mikla framfaramáli. Var spennandi starf unnið og gagnlegt, gaman var að móta miðbæinn okkar og framtíð okkar sem höfum fylgt Akureyri frá upphafi og viljum eyða ævinni hér og gera bæinn sem bestan fyrir samferðarmenn okkar og þau sem bæinn munu erfa í fyllingu tímans. Hef ég sjaldan munað eftir öðrum eins áhuga hins almenna borgara að taka beinan þátt í að móta bæinn sinn og hafi fyrr fengið jafn greiðan aðgang að því að ákveða sjálfur hvað verði gert og fái til þess jafngott tækifæri og hér um ræðir. Er þetta til marks um hið beina íbúalýðræði sem hér er varðandi skipulag bæjarins. Ekki er lagt upp fyrirfram með ákveðnar tillögur, heldur leitað álits hins almenna borgara og skoðana hans á málinu. Fólk er virkjað til að taka virkan þátt í mótun miðbæjarins. Eru spennandi tímar framundan hvað varðar þetta verkefni og áhugaverð vinna í sjónmáli til eflingar miðbænum.

Dagurinn í dag
1667 Gullskipið Het Wapen van Amsterdam, strandaði á Skeiðarársandi - 140 manns fórust í slysinu
1874 Blaðið Ísafold kom út í fyrsta skipti - blaðið var sameinað Verði árið 1929 og kom út allt til 1968
1955 Juan Peron forseti Argentínu, felldur af valdastóli. Komst aftur til valda árið 1973, lést ári síðar
1973 Karl Gústaf Svíaprins, tekur formlega við konungsembætti í Svíþjóð - hefur ríkt þar síðan
1981 Ellefu manna áhöfn Tungufoss bjargað við erfið skilyrði á Ermarsundi eftir að skipið sökk þar

Snjallyrði dagsins
You must not lose faith in humanity. Humanity is an ocean; if a few drops of the ocean are dirty, the ocean does not become dirty.
Mahatma Gandhi (1869-1948)

17 september 2004

John Kerry og George W. BushHeitast í umræðunni
Í dag eru 46 dagar þar til Bandaríkjamenn ganga að kjörborðinu, þann 2. nóvember, og kjósa forseta Bandaríkjanna til næstu fjögurra ára. Athyglisvert er venju samkvæmt að rýna í skoðanakannanir vestanhafs. Birst hafa fjórar kannanir seinustu daga og sýna þær misvísandi niðurstöður. Annaðhvort það að forsetinn sé enn með nokkuð forskot eða þá það að slagurinn hafi jafnast nokkuð eftir velheppnað flokksþing repúblikana í New York. Ef marka má yfirlit yfir stöðuna í kjörmannamálunum, sem mestu skiptir þegar kemur að forsetakjöri í Bandaríkjunum stefnir allt í nokkuð öruggan sigur George W. Bush. Staða hans í suðrinu er nú sem fyrr gríðarsterk og hann stendur betur, a.m.k. á þessari stundu í mörgum af helstu baráttufylkjunum. Undanfarnar vikur hefur verið mikið tekist á um fréttamennsku CBS sjónvarpsstöðvarinnar um veru forsetans í þjóðvarðliðinu í Texas á sínum tíma, en Dan Rather fréttastjórnandi og aðalþulur stöðvarinnar, birti í fréttaskýringarþættinum 60 minutes, skjöl sem áttu að sanna að Bush hefði staðið sig illa þar. Hefur Hvíta húsið dregið gögnin í efa og grunur beinist nú að því að þau séu fölsuð og sett fram til að skaða forsetann, nú þegar John Kerry er augljóslega undir í slagnum. Hefur Rather tekið gagnrýni á fréttamennsku sína illa og telur vegið að fréttamannsheiðri sínum. Málið hefur tekið athyglisverða stefnu í umfjöllun CBS seinustu daga og beinskeyttum svörum Hvíta húsinu við frétt Rather. Á sömu stundu eykst harkan í slagnum, sem var nokkuð mikil fyrir. Kosningastjórn Kerrys birtir harðar auglýsingar og sakar í þeim Cheney varaforseta, um að hafa hagnast á stríðsrekstrinum í Írak með tengslum við bandaríska fyrirtækið Halliburton. Hvernig svo sem baráttan þróast hvað varðar fylgið er ljóst að beittasta kosningabarátta sögunnar í Bandaríkjunum hefur náð algjöru hámarki. Einskis er svifist í baráttunni um atkvæðin og lyklavöldin í Hvíta húsinu.

KennslaFlest stefnir nú í að verkfall grunnskólakennara muni skella á, á miðnætti sunnudagskvöldið 19. september nk. Ekkert hefur miðað í samkomulagsátt og er stál í stál milli deiluaðila, Kennarasambandsins og sveitarfélaganna. Fram hefur komið í fréttum að kraftaverk þurfi til að deiluaðilar nái saman um samningsflöt fyrir boðaða verkfallsbyrjun. Athygli hefur vakið seinustu daga hversu kennarar ganga langt í yfirgangi og frekjuköstum til að vekja athygli á stöðu sinni. Barátta þeirra gegn því að fyrirtæki eða stofnanir hafi barnagæslu fyrir börn starfsfólks síns, hefur vakið athygli og reyndar almenn umræða um það í samfélaginu að sú framkoma kennarafélaganna hafi gert út af við alla mögulega umræðu um samúð með málstað kennara. Kennarar verða að gera sér grein fyrir því að þolmörk er á öllu. Yfirgangur þeirra seinustu daga er svo yfirgengilegur að engin orð fá því lýst. Fram hefur komið að launagreiðslur sveitarfélaganna til kennara nemi 16,2 milljörðum króna á ári. Samningamenn sveitarfélaganna telji að ef fallist verði á kröfur kennara muni árlegur launakostnaður hækka um tæpa 6 milljarða í lok gildistíma nýs kjarasamnings. Er rétt að spyrja sig þeirrar spurningar hvort sveitarfélögin muni standa undir því. Bæjarstjórinn á Akureyri hefur tjáð sig um þessi mál og komið fram með raunhæft mat á stöðunni ef samið verði um ítrustu launakröfur kennara. Ég tel ómögulegt að semja um slíkt.

AkureyriAkureyri í öndvegi - íbúaþing á Akureyri
Kl. 10:00 í fyrramálið hefst í Íþróttahöllinni, hér á Akureyri, opið þing, fyrir alla landsmenn, og mun það standa til kl. 18:00. Á þinginu gefst hið gullna tækifæri fyrir okkur öll hér í bænum að koma á framfæri hugmyndum okkar um þróun miðbæjarins. Gildir einu hvort þú ert Akureyringur eða býrð annarsstaðar á landinu, eða fulltrúi hagsmunaaðila og annarra en bæjarbúa, þingið er einfaldlega öllum opið. Niðurstöður þingsins verða nýttar til að skilgreina forsendur í alþjóðlegri hugmyndasamkeppni sem haldin verður svo í kjölfarið. Um þingið segir svo á ítarlegum vef um málið: "Verður þingið ólíkt hefðbundnum borgarafundum að því leyti að notaðar eru skilvirkar, skapandi og skemmtilegar aðferðir til að fá fram sjónarmið þátttakenda og skapa lifandi og frjóar umræður. Íbúar og allir þeir sem bjóða eða sækja þjónustu sem er staðsett í miðbæ Akureyrar hafa dýrmæta þekkingu og skoðanir varðandi miðbæinn, þróun hans og samhengi við aðra uppbyggingu í bænum. Með þinginu er ætlunin að virkja þessa þekkingu til að skapa metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir miðbæinn. Framtíðarsýn sem setur Akureyri í öndvegi." Er þessi vinna og undirbúningur hennar mjög nauðsynleg að öllu leyti til að efla miðbæinn okkar og er lofsvert framtak. Að mínu mati á Ragnar Sverrisson kaupmaður í JMJ, hrós skilið fyrir að hafa ýtt þessu mikla verkefni úr vör og hafa fengið aðra í lið með sér og unnið vel að því að efla hjarta bæjarins okkar, miðbæinn. Án blómlegs og kraftmikils mannlífs er miðbærinn að öllu leyti líf- og þróttlausari. Ég vil taka þátt í að efla hann og styrkja og mæti því á morgun í Íþróttahöllina. Hvet ég alla til að gera slíkt hið sama. Setjum Akureyri í öndvegi!

Dagurinn í dag
1717 Gos hófst í Kverkfjöllum við norðanverðan Vatnajökul - mikið hlaup varð í Jökulsá á Fjöllum
1980 Anastasio Somoza Debayle fyrrum forseti Nicaragua, myrtur í Asunción í Paraguay. Debayle var seinasti þjóðarleiðtogi landsins úr hinni alræmdu Somoza-fjölskyldu sem ríkti í landinu 1936-1979. Í kjölfar þess að Debayle missti völdin flúði hann í útlegð til Bandaríkjanna. Hann var myrtur af útsendurum Sandinista-stjórnarinnar í Nicaragua, sem tók við völdum eftir fall Somoza-veldisins
1984 Brian Mulroney tók við embætti forsætisráðherra í Kanada - hann sat á valdastóli allt til 1993
1992 Landsbanki Íslands tók yfir allar eignir Sambands íslenskra samvinnufélaga, upp í miklar skuldir Sambandsins til bankans. Í kjölfarið mátti heita að starfsemi SÍS, sem verið hafði stórveldi í íslensku þjóðlífi megnið af 20. öldinni, væri lokið. SÍS er þó enn til og starfar enn að litlu leyti hér á Akureyri
2001 Jose Carreras hélt tónleika í Laugardalshöll - söng ásamt Diddú fyrir fullu húsi og var vel fagnað

Morgundagurinn
1851 Dagblaðið New York Times kom út í fyrsta skipti - umdeilt blað vegna fréttamennsku sinnar
1961 Dag Hammarskjold framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, ferst í flugslysi í Rhodesíu, 56 ára að aldri. Hann hlaut friðarverðlaun Nóbels eftir andlát sitt, í virðingarskyni við umfangsmikið framlag hans til friðar í heiminum, en hann var á leið til Kenýa til að taka þátt í friðarviðræðum þegar hann lést. Aldrei hefur komið fyllilega í ljós hvort flugvél Hammarskjolds fórst vegna slyss eða var grandað
1968 Portúgalska knattspyrnuliðið Benfica keppti við Val á Laugardalsvellinum í Reykjavík. Áhorfendur voru 18.243, en það var vallarmet á vellinum allt til 18. ágúst 2004 þegar Ísland sigraði Ítali. Leiknum lauk með markalausu jafntefli en meðal leikmanna Benfica var hinn heimsfrægi Eusebio
1970 Tónlistarmaðurinn Jimi Hendrix, lést í London, 27 ára gamall. Hann var einn fremsti gítarleikari 20. aldarinnar - rokkgoðsögn í lifanda lífi, sem ávann sér sess í sögu tónlistarinnar á stuttum ferli
1997 Viðskiptajöfurinn Ted Turner sem átti til dæmis CNN, gaf Sameinuðu þjóðunum 1 billjón dala

Snjallyrði dagsins
The best and most beautiful things in the world cannot be seen or even touched. They must be felt within the heart.
Helen Keller (1880-1968)